Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 19. sept. 2012

570/2012

Reglugerð um kröfur um heilbrigði dýra og manna vegna viðskipta með afurðir innan Evrópska efnahagssvæðisins og innflutning afurða frá ríkjum utan svæðisins.

I. KAFLI

1. gr.

Reglugerð þessi fjallar um kröfur um heilbrigði eldisdýra og manna vegna viðskipta innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og innflutning til þess á afurðum úr dýraríkinu (að vörusýnum úr slíkum afurðum meðtöldum), sem heyra ekki undir umræddar kröfur í sérreglum bandalagsins sem um getur í I. hluta viðauka A við tilskipun 89/662/EBE og að því er varðar sjúkdómsvalda, í tilskipun 90/425/EBE, sem innleiddar voru með reglugerð nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurða í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla, I. viðauka skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 frá 1. maí 2010 öðlast eftirfarandi EB-gerð gildi hér á landi:

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 445/2004 um breytingu á I. viðauka við tilskipun ráðsins 92/118/EBE að því er varðar dýragarnir, svínafeiti, brædda fitu, kanínukjöt og alivillibráð.

2. gr.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. Viðskipti: Viðskipti með vörur milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.
 2. Vörusýni: Sýni sem hefur ekkert virði í viðskiptum, sem eigandi eða sá einstaklingur sem ber ábyrgð á starfsstöðinni tekur og er dæmigert fyrir ákveðna afurð úr dýraríkinu sem starfsstöðin framleiðir, eða er sýnishorn af afurð úr dýraríkinu er til greina kemur að framleiða og sem, að því er síðari rannsókn varðar, verður að vera með upplýsingar um gerð afurðarinnar, samsetningu hennar og þær dýrategundir sem afurðin er úr.
 3. Alvarlegur smitsjúkdómur: Allir sjúkdómar sem falla undir tilskipun 82/894/EBE, sem innleidd er með reglugerð nr. 254/2012, um tilkynningu dýrasjúkdóma innan Evrópska efnahagssvæðisins.
 4. Sjúkdómsvaldur: Hvert það samsafn eða ræktun lífvera eða afleiður, sem koma ýmist fyrir einar eða ummyndaðar úr slíku samsafni eða ræktun lífvera og geta valdið sjúkdómum í öllum lifandi verum (öðrum en mönnum) ásamt umbreyttum afleiðum þessara lífvera, sem geta borið eða flutt lifandi dýrasmitefni, eða vefir, frumuræktir, seyti eða saur sem geta borið eða flutt lifandi dýrasmitefni. Þessi skilgreining tekur ekki til dýraónæmislyfja sem eru leyfð samkvæmt tilskipun 90/667/EBE, sem innleidd var með reglugerð nr. 1043/2011.

Að auki gilda skilgreiningar á hugtökum í reglugerð nr. 1043/2011 að breyttu breytanda.

3. gr.

Bannað er að eiga viðskipti með og flytja inn til landsins afurðir úr dýraríkinu sem kveðið er á um í b-lið 2. gr. tilskipunar 77/99/EBE frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema þær uppfylli kröfur þeirrar tilskipunar og viðeigandi kröfur þessarar tilskipunar.

II. KAFLI Ákvæði um viðskipti.

4. gr.

Viðskipti með afurðir skv. reglugerð þessari skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Uppfylla kröfur sem gerðar eru skv. reglugerð þessari og viðauka I.
 2. Afurðirnar skulu koma frá starfsstöðvum sem:

  1. Gangast undir, í ljósi sérstakra krafna sem mælt er fyrir um í viðauka I fyrir þær afurðir sem starfsstöðin framleiðir, að:

   1. vera í samræmi við sérstakar kröfur um framleiðslu sem settar eru fram í reglugerð þessari,
   2. koma á fót og grípa til ráðstafana til að hafa eftirlit og fylgjast með áhættuatriðum miðað við það framleiðsluferli sem notað er,
   3. eftir því hver afurðin er, taka sýni til greiningar í rannsóknarstofu, viðurkenndri af opinberum eftirlitsaðila, til að tryggja að unnið sé í samræmi við þá staðla sem settir eru með þessari reglugerð,
   4. geyma skriflegar upplýsingar eða gögn sem skráð eru með öðrum hætti sem krafist er varðandi framangreind atriði með það fyrir augum að leggja þau fyrir opinbera eftirlitsaðila til skoðunar. Einkum skal geyma niðurstöður hinna ýmsu prófana og eftirlits í a.m.k. tvö ár,
   5. tryggja stjórnun merkinga og vörumerkinga,
   6. tilkynna opinberum eftirlitsaðilum um fengnar niðurstöður rannsókna á rannsóknastofu svo og að veita aðrar upplýsingar, sem þær hafa yfir að ráða, til að fyrirbyggja að heilsu dýra eða manna sé stofnað í alvarlega hættu,
   7. senda, sem verslunarvöru, einungis afurðir sem með fylgir viðskiptaskjal með upplýsingum um eðli afurðarinnar, nafn og, eftir því sem við á, númer framleiðslustöðvarinnar.
  2. Eru undir eftirliti opinbers eftirlitsaðila.
  3. Hafa hlotið skráningu og samþykki hjá opinberum eftirlitsaðila.

5. gr.

Óheimilt er að dreifa eða markaðssetja afurðir, sem getið er um í I. viðauka, frá bújörðum sem eru á svæðum þar sem höft eru í gildi vegna sjúkdóma, sem dýrategundin sem afurðin er af er næm fyrir. Sama gildir um flutning á afurðum eða viðskipti með afurðir frá starfsstöð sem geta stofnað dýraheilbrigði ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu í hættu, nema afurðirnar hafi verið hitameðhöndlaðar í samræmi við löggjöf þar að lútandi.

6. gr.

Reglur um eftirlit sem voru settar með tilskipun 89/662/EBE og, að því er varðar sjúkdómsvalda, með tilskipun 90/425/EBE, gilda einkum hvað varðar skipulag eftirlits sem framkvæma ber og hvernig því er fylgt eftir, um þær afurðir sem reglugerð þessi nær til.

Ákvæði 10. gr. tilskipunar 90/425/EBE gilda um afurðir sem reglugerð þessi nær til.

Þegar um viðskipti er að ræða skal víkka út gildissvið ákvæða 12. gr. tilskipunar 90/425/EBE þannig að þau nái yfir starfsstöðvar sem framleiða afurðir úr dýraríkinu sem reglugerð þessi nær til.

Þrátt fyrir sérákvæði þessarar reglugerðar skal opinber eftirlitsaðili viðhafa það eftirlit sem hann telur við hæfi þegar grunur leikur á að ekki sé farið að þessari reglugerð.

III. KAFLI Ákvæði um innflutning.

7. gr.

Kröfur sem gilda um innflutning á afurðum sem fjallað er um í þessari reglugerð skulu að lágmarki uppfylla þær kröfur sem getið er um í II. kafla.

8. gr.

Til að tryggja samræmda beitingu 7. gr. skulu eftirfarandi ákvæða gilda.

Einungis er heimilt að flytja afurðirnar sem um getur í I. viðauka og 3. gr. inn á Evrópska efnahagssvæðið ef þær fullnægja eftirfarandi kröfum:

 1. Þær skulu koma frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða landshluta sem er að finna í skrá yfir slík lönd, nema annað sé tekið fram í I. viðauka.
 2. Þær skulu koma frá starfsstöðvum sem lögbært yfirvald ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur ábyrgst að fullnægi kröfum sem til þeirra eru gerðar.
 3. Þeim skulu fylgja heilbrigðisvottorð fyrir menn eða dýr, til staðfestingar á að afurðirnar fullnægi viðbótarskilyrðum í þeim tilvikum sem sérstaklega er kveðið á um í I. viðauka og 3. gr.

9. gr.

Um skipulag og eftirlit með skoðunum sem ríkjum á Evrópska efnhagssvæðinu ber að framkvæma svo og öryggisráðstafanir sem grípa ber til, gilda jafnframt reglur sem mælt er fyrir í lögum og reglugerðum um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

11. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer skv. XI. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra, með síðari breytingum og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, lögum nr. 55/1998 um sjávarafurðir, með síðari breytingum, lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra, með síðari breytingum og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og til innleiðingar á tilskipunum ráðsins nr. 92/118/EBE, 96/90/EB, 97/79/EB, tilskipana þingsins og ráðsins nr. 2002/33/EB og 2004/41/EB, ákvarðana framkvæmdastjórnarinnar nr. 94/466/EB, 94/723/EB, 95/338/EB, 95/339/EB, 96/103/EB, 96/340/EB, 96/405/EB, 1999/724/EB, 2001/7/EB, 2003/503/EB og 2003/721/EB. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 26. júní 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

Athugasemdir ritstjóra

Metið sem svo að ákvæði 1. gr. breytingar reglugerðar 760/2012, falli undir 1. gr. stofnreglugerðar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.