Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Stofnreglugerð

555/2008

Reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á björgunarskipum.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að mæla fyrir um skilyrði þess að fá útgefið skipstjórnar- og vélstjórnarskírteini til starfa á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar til samræmis við ákvæði laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007.

Menntun áhafna björgunarskipa skal vera í samræmi við samræmd viðmið um menntun og þjálfun áhafna björgunarskipa útgefnar af Alþjóðasjóbjörgunarsamtökunum (The International Maritime Rescue Federation).

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um áhafnir björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem eru 18 metrar og styttri að skráningarlengd og með vélarafl allt að 750 kW, og eru að staðaldri í íslenskri efnahagslögsögu.

3. gr. Skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á björgunarskipum.

Rétt til að starfa á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa þeir sem fullnægja ákvæðum reglugerðar um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 175/2007 með síðari breytingum.

Þeir sem ekki uppfylla ákvæði reglugerðar um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna öðlast þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. rétt til að starfa á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar enda uppfylli þeir ákvæði reglugerðar þessarar.

Þeir sem gegna stöðu skipstjórnar- og vélstjórnarmanna skulu geta framvísað gildum réttindaskírteinum útgefnum af Siglingastofnun Íslands til staðfestingar á hæfni þeirra til að gegna þeim stöðum.

4. gr. Skipstjóri björgunarskipa.

Hver sá sem stjórnar björgunarskipi skal:

  1. Hafa lokið smáskipanámi samkvæmt reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, eða sambærilegu,
  2. hafa lokið viðurkenndu skipstjórnarnámskeiði fyrir stjórnendur björgunarskipa, skipulögðu af skóla sem uppfyllir kröfur laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa,
  3. hafa lokið viðurkenndu áhafnanámskeiði björgunarskipa skipulögðu af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu,
  4. hafa lokið viðurkenndu stjórnendanámskeiði björgunarskipa skipulögðu af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu,
  5. hafa verið í áhöfn björgunarskips í a.m.k. 24 mánuði, eða hafa a.m.k. 12 mánaða siglingatíma.
  6. hafa farið a.m.k. 36 ferðir á björgunarskipum 6 metrum að lengd eða lengri, þar af 10 ferðir í sértækri þjálfun sem skipstjórnarmaður í umsjón starfandi skipstjóra í viðkomandi ferð, eða hafa starfað sem skipstjórnarmaður í atvinnuskyni.

5. gr. Vélstjóri björgunarskipa.

Hver sá sem annast vélstjórn björgunarskips skal:

  1. Hafa lokið vélgæslunámi samkvæmt reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, eða sambærilegu,
  2. hafa lokið viðurkenndu námi í vélstjórn björgunarskipa, skipulögðu af skóla sem uppfyllir kröfur laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa,
  3. hafa lokið viðurkenndu áhafnanámskeiði björgunarskipa skipulögðu af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu,
  4. hafa farið a.m.k. 24 ferðir á björgunarskipum 6 metrum að lengd eða lengri, þar af 10 ferðir í sértækri þjálfun sem vélstjórnarmaður í umsjón starfandi vélstjóra í viðkomandi ferð.

Hjá björgunarbátasjóði skal a.m.k. vera einn vélstjórnarmenntaður einstaklingur sem hefur a.m.k. VSIII réttindi sem annast reglubundið eftirlit með vélbúnaði björgunarskips ef réttindaminni vélstjórnarmenn skipa áhöfn þess.

6. gr. Skírteini og þjálfunarbók.

Um útgáfu skírteina, gildistíma og endurnýjun skírteina fer eftir ákvæðum 5., 6. og 8. gr. laga nr. 30/2007 og ákvæðum reglugerðar um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum nr. 175/2008.

Slysavarnafélagið Landsbjörg gefur út þjálfunarbók fyrir sérhvern áhafnarmeðlim björgunarskips. Í sjóferðabók skal færa inn sjóferðir viðkomandi áhafnarmeðlims á björgunarskipi, störf viðkomandi í hverri ferð og eðli ferðar. Áhafnarmeðlimur færir sönnur um starfstíma sinn í áhöfn björgunarskips með rétt útfylltri þjálfunarbók.

7. gr. Refsiákvæði.

Um brot á reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 20. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa nr. 30/2007, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem við gildistöku reglugerðar þessarar eru lögmætir handhafar 30 brúttórúmlesta atvinnuskírteinis til skipstjórnar hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt reglugerð þessari til að vera skipstjórar á björgunarskipum sem eru 18 metrar og styttri, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum 4. gr. reglugerðarinnar.

Þeir sem við gildistöku reglugerðar þessarar hafa lokið vélgæslunámskeiði (VM ≤220 kW) og hafa lokið 20 tíma námskeiði í bilanaleit hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt reglugerð þessari til að vera vélstjóri á björgunarskipum sem eru 18 metrar og styttri, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar.

Þeir sem við gildistöku reglugerðar þessarar hafa lokið 1. stigi vélstjórnar (VV 221 kW, Vvy - 375 kW) hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt reglugerð þessari til að vera vélstjóri á björgunarskipum sem eru 18 metrar og styttri, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar.

Þeir sem nú þegar hafa undanþágu til starfa sinna á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar skulu fyrir apríllok 2009 hafa lokið tilskildu viðbótarnámi og námskeiðum.

Samgönguráðuneytinu, 20. maí 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.