Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 8. nóv. 2018

547/2012

Reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skyldur sveitarfélaga og samskipti þeirra á milli í tengslum við skólagöngu barna á skólaskyldualdri sem barnaverndarnefnd ráðstafar í tímabundið fóstur utan lögheimilissveitarfélaga.

2. gr. Markmið.

Reglugerð þessi er sett í þeim tilgangi að tryggja skólagöngu fósturbarna í því sveitarfélagi sem þau dveljast og jafnframt að skilvirkt verklag, greið samskipti og góð samvinna sé milli sveitarfélaga um fagleg og fjárhagsleg málefni vegna skólagöngu barna sem reglugerðin tekur til.

3. gr. Skyldur sveitarfélaga.

Sveitarstjórn er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem ráðstafað hefur verið í fóstur til fósturforeldra sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar í grunnskóla til jafns við önnur börn í sveitarfélaginu.

Fræðsluyfirvöld í sveitarfélögum í samstarfi við barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur skulu eiga með sér náið samstarf í tengslum við flutning barns á milli skóla vegna fósturráðstöfunar.

4. gr. Meginreglur.

Samskipti milli sveitarfélaga og ákvarðanir samkvæmt reglugerð þessari skulu grundvallast á meginreglum grunnskólalaga nr. 91/2008 og barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Þess skal sérstaklega gætt að ágreiningsmál sem upp kunna að koma um málsmeðferð eða kostnað vegna skólagöngu fósturbarna skerði ekki rétt þeirra til menntunar.

5. gr. Sjónarmið við val á fósturheimili.

Þegar tillaga barnaverndarnefndar um val á fósturheimili liggur fyrir, en áður en barni er ráðstafað í fóstur, skal nefndin láta kanna aðstæður til menntunar í samráði við skólayfirvöld í fyrirhuguðu viðtökusveitarfélagi og leggja mat á möguleika viðkomandi grunnskóla og skólaþjónustu viðtökusveitarfélags til að koma til móts við þarfir barnsins.

6. gr. Framkvæmd könnunar.

Við könnun á aðstæðum skv. 5. gr. kallar barnaverndarnefnd, eða sá aðili sem annast verkefnið í hennar umboði, eftir munnlegum eða skriflegum upplýsingum frá skólastjóra, skólanefnd, skólaþjónustu eða öðrum til þess bærum aðila hjá viðkomandi sveitarfélagi eftir því sem þörf krefur.

Við könnunina skal tekið mið af þörfum barns fyrir sérstakan stuðning í námi og kennslu og möguleika sveitarfélags og skóla til þess að veita slíkan stuðning. Einnig skal afla upplýsinga um fjarlægð frá heimili til skóla og skipulag skólaaksturs í sveitarfélaginu, auk annarra upplýsinga sem barnaverndarnefnd telur mikilvægar með hliðsjón af velferð og aðstæðum barnsins.

Ef ætla má eftir könnun á aðstæðum að ekki sé að óbreyttu unnt að koma til móts við þarfir barns ber barnaverndarnefnd og skólayfirvöldum í viðtökusveitarfélagi að skoða í sameiningu hvernig unnt sé að ráða bót á þeim í tengslum við fyrirhugað fóstur. Reynist það ekki mögulegt innan ásættanlegs frests skal barnaverndarnefnd meta aðra kosti sem betur geti mætt þörfum barnsins, þ.m.t. um skólagöngu, nema sýnt þyki að aðrir þættir, svo sem skyldleiki eða tengsl fósturforeldris við barn, vegi afgerandi þyngra á metum.

Að lokinni könnun og mati skv. þessari grein tekur barnaverndarnefnd eða starfsmenn hennar, endanlega ákvörðun um ráðstöfun barns á fósturheimili.

7. gr. Innritun fósturbarns í grunnskóla og upplýsingagjöf.

Í tengslum við innritun fósturbarns í grunnskóla skal barnaverndarnefnd sem að ráðstöfun stendur sjá til þess að allar nauðsynlegar persónuupplýsingar um barn séu sendar með tryggilegum hætti til viðtökuskóla eins fljótt og unnt er. Jafnframt skulu fræðsluyfirvöld í lögheimilissveitarfélagi veita upplýsingar um fyrri skólagöngu barnsins og stuðningsþarfir.

Í tengslum við innritun fósturbarns í grunnskóla skulu fulltrúar barnaverndaryfirvalda og fræðsluyfirvalda lögheimilissveitarfélags og fulltrúar sömu aðila í viðtökusveitarfélagi fara sameiginlega yfir hagi og þarfir barnsins á meðan fóstur varir.

Óheimilt er að fresta innritun og skólagöngu barns í grunnskóla þótt ágreiningur kunni að vera milli sveitarfélaga um stuðningsþörf eða ábyrgð á kostnaði við skólagöngu þess.

8. gr. Móttökuáætlun.

Miða skal við að barn sem ráðstafað er í fóstur eftir upphaf skólaárs hefji skólagöngu strax eftir innritun og skal skólastjóri gera viðeigandi ráðstafanir til að það gangi eftir. Ef talin er nauðsyn á aðlögun fósturbarns í skóla skal miða við að aðlögun hefjist strax við innritun þannig að full skólaganga hefjist innan tveggja vikna frá innritun.

Hver grunnskóli sem tekur á móti fósturbörnum skal í samræmi við almenna móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags móta áætlun um innritun og móttöku fósturbarna og kennslu þeirra og skal hún liggja fyrir eins fljótt og frekast er unnt, með hliðsjón af 16. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Séu fósturbörnin með sérþarfir skal einnig hafa 9. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 til hliðsjónar vegna einstaklingsáætlunar og aðlögunar.

Í móttökuáætlun vegna fósturbarna skal sérstaklega fjallað um samvinnu innan skólans um nám þeirra og aðra þjónustu við þau og samstarf skóla við fósturforeldra og upplýsingagjöf til þeirra með það að markmiði að skólagangan verði sem farsælust. Einnig verði kveðið á um samstarf og upplýsingagjöf til þeirrar barnaverndarnefndar sem vistar barnið. Í móttökuáætlun má kveða á um kennslufyrirkomulag utan skóla á aðlögunartíma þar til full skólaganga kemst á. Um getur m.a. verið að ræða kennslu á heimili fósturbarns eða fjarkennslu og stuðning fósturforeldra við heimanám.

9. gr. Ábyrgð á kostnaði.

Almennur kostnaður vegna skólagöngu barna sem reglugerð þessi tekur til skal greiddur af því sveitarfélagi sem ráðstafar barni í fóstur, á meðan fósturráðstöfunin varir, á grundvelli viðmiðunarfjárhæða sem Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út, nema um annað hafi verið samið. Viðbótarkostnaður vegna skólaaksturs og sérstaks stuðnings sem fósturbarni er nauðsynlegur, greiðist einnig af sveitarfélagi sem ráðstafar barni í fóstur, að því leyti sem hann fæst ekki greiddur af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Skulu sveitarfélög ganga frá skriflegu samkomulagi um þær greiðslur. Ef tilefni er til getur hvort sveitarfélag óskað eftir endurskoðun samkomulags.

Sveitarfélög geta vísað ágreiningsmálum um kostnað skv. reglugerð þessari til úrskurðarnefndar sem ráðherra skipar skv. 6. mgr. 5. gr. grunnskólalaga.

10. gr. Meðferð ágreiningsmála. Úrskurðarnefnd.

Ráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd sem heimilt er að vísa til ágreiningsmálum milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað samkvæmt reglugerð þessari. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en Samband íslenskra sveitarfélaga og Barnaverndarstofa tilnefna hvort einn fulltrúa. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.

Einstök sveitarfélög geta vísað málum til nefndarinnar. Erindi til úrskurðarnefndar skal vera skriflegt og í því skal skilmerkilega greina hvert sé ágreiningsefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni. Nefndinni er heimilt að kalla sérfróða aðila til ráðgjafar og aðstoðar ef hún telur þörf á. Um meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni fer að öðru leyti eftir VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefndin skal leitast við að ljúka afgreiðslu mála á grundvelli reglugerðar þessarar eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum frá því að erindi berst henni. Áður en til úrskurðar kemur skal nefndin reyna að leita sátta hjá málsaðilum. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Nefndin setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 6. mgr. 5. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 með síðari breytingum öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.