Prentað þann 10. nóv. 2024
540/2016
Reglugerð um búfjársæðingar og flutning fósturvísa.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið o.fl.
Reglugerð þessi tekur til sæðinga og fósturvísaflutninga búfjár, þ.e. nautgripa, sauðfjár, geita, svína, hrossa, kanína, loðdýra og alifugla. Matvælastofnun hefur yfirumsjón með starfrækslu sæðingarstöðva í samráði við Bændasamtök Íslands.
2. gr. Orðskýringar.
- Fósturvísastöð: Er aðstaða þar sem söfnun og/eða meðhöndlun fósturvísa fer fram.
- Fósturvísir: Er frjóvgað egg eða fóstur á frumstigi.
- Smitsjúkdómur: Er sjúkdómur eða smit sem beint eða óbeint getur borist frá einu dýri til annars eða milli manna og dýra.
- Sæðingarstöð: Er aðstaða sem Matvælastofnun hefur viðurkennt, þar sem söfnun og meðhöndlun sæðis og/eða fósturvísa fer fram.
- Ábyrgðardýralæknir: Er starfsmaður sæðingarstöðvar sem ber faglega ábyrgð á starfseminni.
3. gr. Leyfi.
Hver sá sem hefur í hyggju að setja á stofn sæðingarstöð og/eða fósturvísastöð skal sækja um leyfi til þess til Matvælastofnunar. Með umsókninni skulu fylgja upplýsingar um fyrirhugaða tilhögun starfseminnar, ábyrgðardýralækni, aðstöðu og útbúnað.
Matvælastofnun veitir leyfi til starfrækslu stöðvanna að fengnum meðmælum Bændasamtaka Íslands.
Óheimilt er að dreifa sæði og fósturvísum nema frá viðurkenndri sæðingar- eða fósturvísastöð. Heimilt er að kveða á um í starfsleyfi að sæðingar- eða fósturvísastöð sé heimilt að flytja sæði og fósturvísa yfir varnarlínur.
Sæðistaka og notkun þess innan bús er heimil án leyfis í svínarækt.
Sæðingar- og fósturvísastöðvar skulu senda Matvælastofnun og Bændasamtökum Íslands árlega skýrslu um starfsemina.
Matvælastofnun hefur reglubundið eftirlit með sæðingar- og fósturvísastöðvum.
4. gr. Hreinlæti og smitvarnir.
Hver sæðingar- og fósturvísastöð skal setja sér reglur um smitvarnir, byggðar á áhættumati fyrir hverja dýrategund og samþykktar af Matvælastofnun.
Almennt gildir að umferð óviðkomandi aðila skal haldið í lágmarki. Menn sem koma erlendis frá skulu hafa fylgt ýtrustu reglum um smitvarnir við komuna til landsins og auk þess verið hér á landi í að minnsta kosti 48 klukkustundir áður en þeim er heimilt að koma í stöðina.
Öll húsakynni á sæðingarstöð skulu vera björt og rúmgóð og allar innréttingar, veggir, gólf, dyra- og gluggabúnaður þannig að auðvelt sé að þrífa það og sótthreinsa. Þar þarf einnig að vera nægilegt heitt og kalt vatn og nauðsynleg hreinlætisaðstaða.
Sérstakan skó- og hlífðarfatnað skal nota við hirðingu gripa og sæðistöku og skal samgangur rofinn annars vegar á milli gripahúsa, fóðurgeymslna og sæðistökuherbergis, þar sem það á við, og hins vegar vinnuherbergis fyrir sæðismeðferð. Ávallt skal þvo og sótthreinsa hendur áður en unnið er með sæði í vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð. Þeir sem sæða búfé skulu klæðast hentugum, hreinum hlífðarfatnaði og skófatnaði sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Þeir skulu vinna störf sín eins hreinlega og frekast er kostur og halda áhöldum og útbúnaði ávallt hreinum.
Hlífðarfatnað sem notaður er á sæðingarstöð má ekki nota utan hennar. Gólf, þar sem sæðistaka fer fram, skulu vera hæfilega stöm svo dýr geti vel fótað sig.
Vinnuherbergi þar sem fram fer rannsókn á sæði og pökkun skal vera hæfilega upphitað. Á stöðinni skal vera kæligeymsla, tæki til sótthreinsunar og dauðhreinsunar, smásjá, handlaug og annar búnaður sem nauðsynlegur er. Öll áhöld sem notuð eru til sæðistöku, blöndunar, pökkunar og sæðinga skulu vera af vandaðri gerð, þannig að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa.
Umhverfi bygginga skal vera þurrt og þrifalegt. Girðingar og réttir skulu vera gripheldar og þannig úr garði gerðar að gripir stöðvarinnar fari ekki um þann hluta svæðisins sem almenn umferð til stöðvarinnar fer um.
5. gr. Starfsfólk sæðingarstöðva.
Á sæðingarstöð skal starfa ábyrgðardýralæknir eða stöðin hafi gildan samning við sjálfstætt starfandi dýralækni, sem ber ábyrgð á smitvörnum, heilbrigði og velferð allra gripa sem notaðir eru eða koma á stöðina.
6. gr. Kynbótagripir.
Allir kynbótagripir, sem notaðir eru á sæðingarstöðvum, skulu vera viðurkenndir af fagráði eða ráðunaut viðkomandi búgreinar.
Matvælastofnun getur sett ítarlegri reglur um heilbrigðiskröfur fyrir kynbótagripi hverrar búfjártegundar.
Heimilt er að taka inn á sæðingarstöð gripi til einblendingsræktar vegna sérstakra eiginleika.
Óheimilt er að nota til sæðistöku og kynbóta gripi með þekkta erfðagalla.
7. gr. Heilbrigðiseftirlit og innra eftirlit.
Færa skal dagbók um öll dagleg störf á sæðingarstöð. Allar upplýsingar um gripi á sæðingarstöð skal skrá á tölvutækt form. Skrá skal upplýsingar um ætt og uppruna gripa, auk upplýsinga um heilbrigðisskoðun, sýnatökur, bólusetningar og meðhöndlun.
Matvælastofnun getur bannað, vegna sjúkdómavarna, annað búfé á sæðingarstöð en það sem notað er við sæðistöku. Ítarleg heilbrigðisskoðun á gripunum, einkum er tekur til getnaðarfæra, skal fara fram áður en þeir eru teknir inn á sæðingarstöð. Jafnframt skal kanna heilbrigði búfjár á þeim stöðum þar sem gripurinn hefur verið.
Ætíð skal láta einangra aðflutta gripi áður en þeir eru teknir inn á sæðingarstöðvar þar til heilbrigði þeirra hefur verið kannað. Undanþegin eru hross.
Gelti frá einangrunarstöð þarf ekki að einangra nema yfirdýralæknir krefjist þess.
Veikist gripur á sæðingarstöð skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að greina sjúkdóminn og meðhöndla.
Komi upp smitsjúkdómur eða rökstuddur grunur um smitsjúkdóm skal fara eftir ákvæðum laga um dýrasjúkdóma nr. 25/1993, ásamt síðari breytingum og reglugerð um viðbrögð við smitsjúkdómum nr. 665/2001.
8. gr. Sæðistaka.
Halda skal skýrslu um sæðistöku, gæði og magn sæðis og afdrif allra sæðisskammta, hvort sem þeir eru notaðir til sæðinga eða er eytt. Þess skal gætt að sæði sé pakkað og merkt einkvæmu númeri sæðisgjafa og fram komi hvar og hvenær sæðið var tekið. Halda skal nákvæma skrá yfir pökkun, merkingar og birgðir djúpfrysts sæðis.
Um flutning sæðis milli landa gilda ákvæði laga um innflutning dýra nr. 54/1990, með síðari breytingum.
9. gr. Geymsla sæðis og fósturvísa.
Ferskt sæði og fósturvísar sem sent er frá sæðingar- eða fósturvísastöð skal flutt í sótthreinsuðum eða einnota flutningsílátum.
Fryst sæði, eða fósturvísar, skal geymt og flutt í þar til gerðum ílátum. Efni sem notað er til kælingar og frystingar skal ekki hafa komið í snertingu við efni úr öðrum dýrum. Kútar til geymslu og flutnings á frystu sæði og fósturvísum skulu vera nýir eða vera sótthreinsaðir fyrir notkun. Innihald hvers íláts skal vera skráð í fylgiskjali.
Fryst sæði skal vera geymt í sérstöku læsanlegu rými sem skal uppfylla skilyrði 4. gr. um hreinlæti og smitvarnir og skal allur óviðkomandi aðgangur bannaður. Rými þetta þarf ekki að vera á viðkomandi sæðingar- eða fósturvísastöð. Þar má einnig geyma sæði og fósturvísa frá öðrum stöðvum sem hafa leyfi Matvælastofnunar og sama gildir um sæði og fósturvísa sem hefur verið flutt inn samkvæmt gildandi lögum um innflutning dýra og erfðaefnis þeirra.
10. gr. Sæðingar.
Matvælastofnun veitir heilbrigðisstarfsmönnum dýra leyfi til sæðinga sauðfjár, geitfjár, nautgripa, svína, refa, kalkúna, hæna og kanína að undangengnu námskeiði sem stofnunin samþykkir.
Þeir sem sæða búfé skulu halda dagbók um störf sín samkvæmt nánari fyrirmælum ráðunauta viðkomandi búfjártegundar, þannig að fram komi upplýsingar um afdrif sæðisins og hvernig heldur við hverju karldýri.
Þeim er skipuleggja sæðingar ber að tilkynna Matvælastofnun hverjir hafa verið ráðnir til sæðinga og á hvaða svæði þeir sæða. Matvælastofnun ber að tilkynna heilbrigðisstarfsmönnum skv. 1. mgr. ef sérstakir sjúkdómar, sem ber að varast, eru á sæðingarsvæðinu.
II. KAFLI Sérákvæði um búfjártegundir.
11. gr. Nautgripir.
Nautkálfar sem ráðgert er að flytja inn á sæðingarstöð skulu vera a.m.k. 30 daga gamlir þegar þeir eru fluttir í sérstaka ungkálfaeinangrun að fengnu samþykki Matvælastofnunar á flutningunum.
Nautkálfar skulu hafðir í sérstakri lokaðri einangrun í fjórar vikur. Óheimilt er að færa fleiri kálfa í einangrunina á því tímabili.
Nautkálfar skulu eigi fluttir úr einangrun og til sæðingarstöðvar fyrr en farið hefur fram heilbrigðisskoðun ábyrgðardýralæknis stöðvarinnar. Áður en naut eru flutt inn á sæðingarstöð skulu liggja fyrir niðurstöður úr þeim rannsóknum sem fyrirskipaðar eru á hverjum tíma.
Sæði nautgripa sem merkt er skv. 8. gr. skal einnig merkt með upplýsingum um búfjárkyn.
12. gr. Sauðfé og geitfé.
Hrúta og hafra sem flytja á inn á sæðingarstöð skal velja eigi síðar en 15. júní ár hvert. Leitað skal samþykkis Matvælastofnunar fyrir flutningi þeirra. Þá skal liggja fyrir að fullorðnir hrútar og hafrar hafi eðlilega frjósemi. Hrúta og hafra sem ákveðið hefur verið að taka inn á sæðingarstöð skal hafa í sérstöku beitarhólfi frá og með 1. ágúst þangað til þeir eru teknir á hús að hausti og þeir skoðaðir af ábyrgðardýralækni stöðvarinnar. Ekki er heimilt að halda undir hrúta og hafra á sæðingarstöð eftir 1. ágúst og ekki fyrr en eftir að sæðistöku lýkur ár hvert.
Umbúnaður beitarhólfa fyrir hrúta og hafra og ær og huðnur á sæðingarstöð skal vera þannig að annað búfé komist ekki inn í þau og þess gætt að fé stöðvarinnar komist ekki í snertingu við annað búfé. Heimilt er að flytja hrúta og hafra á milli sæðingarstöðva með samþykki Matvælastofnunar.
Heimilt er að hafa ær og huðnur á hrútastöð til að standa undir við sæðistöku. Skulu sömu reglur gilda um ærnar og huðnurnar og hrútana og hafrana þegar þau eru tekin inn á stöð. Forstöðumaður sæðingarstöðvar skal sjá til þess að ætíð sé eðlilegur fjöldi áa og huðna á stöðinni og að ekki þurfi að taka inn ær og huðnur fyrirvaralaust um fengitíð.
Um sæðingar á bæjum, þar sem komið hafa upp alvarlegir smitsjúkdómar svo sem riða, skal farið eftir þeim reglum sem Matvælastofnun setur hverju sinni.
Matvælastofnun setur nánari reglur um heilbrigðiseftirlit, flutning hrúta og huðna á sæðingarstöð, sýnatöku og bólusetningar svo sem við á hverju sinni. Samþykki Matvælastofnunar þarf til flutnings hrútasæðis á milli varnarhólfa.
Ær og huðnur sem á að sæða skulu vera auðkenndar tryggilega með viðurkenndum plötumerkjum og skulu heilbrigðisstarfsmenn skv. 1. mgr. 10. gr. færa dagbók í samræmi við 9. gr. þessarar reglugerðar.
13. gr. Svín.
Geltir skulu fluttir inn á sæðingarstöð að undangenginni heilbrigðisskoðun ábyrgðardýralæknis stöðvarinnar. Tekið skal tillit til heilsufars annarra svína í upprunahjörð við val á göltum. Geltir sem teknir eru inn á sæðingarstöð skulu ekki vera yngri en fjögurra vikna né eldri en níu mánaða og má ekki hafa verið haldið undir þá.
Á sæðingarstöðinni skulu geltirnir hafðir í sérstakri einangrun, ef Matvælastofnun metur það nauðsynlegt, í a.m.k. 2 - 8 vikur áður en þeir eru teknir í notkun á stöðinni.
Aðskilnaður skal vera á milli einangrunaraðstöðu og annarrar aðstöðu. Sérstakur skó- og hlífðarfatnaður skal notaður í einangrunaraðstöðu.
Gyltur og grísir á sæðingarstöð skulu hafa sömu heilbrigðisstöðu og geltirnir, að því er sæðingar varðar. Önnur dýr er ekki heimilt að hafa á sæðingarstöð.
14. gr. Hross.
Aðeins dýralæknum er heimilt að sæða hryssur.
Allir stóðhestar sem teknir eru inn á sæðingarstöð skulu vera skráðir í gagnagrunninn WorldFeng og uppfylla öll sömu skilyrði og gerð eru til hesta sem koma til kynbótadóms samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár. Þeir skulu heilbrigðisskoðaðir við komuna á sæðingarstöð af ábyrgðardýralækni stöðvarinnar m.t.t. mögulegra smitsjúkdóma, bæði kynsjúkdóma og annarra, sem og þekktra arfgengra sjúkdóma. Fagráð í hrossarækt setur viðmið um þá sjúkdóma sem arfgerðargreint er fyrir. Aðeins má nota til sæðinga hesta sem eru með eistu án frávika í stærð, lögun, þéttni og legu og með eðlileg sæðisgæði samkvæmt reglum fagráðs í hrossarækt. Sömuleiðis skulu þeir vera án frávika við röntgenskoðun á hæklum og standast aðrar þær heilbrigðskröfur sem Matvælastofnun setur skv. 6. gr.
Aðeins má sæða hryssur sem eru skráðar í gagnagrunninn WorldFeng og örmerktar og skal skráning sannreynd fyrir sæðingu. Ábyrgðardýralæknir skal heilbrigðisskoða allar hryssur sem sæddar eru á stöðinni. Þær skulu uppfylla skilyrði um almennt heilbrigði og hafa líkamlega burði til að ganga með folald. Sæðingar skulu skráðar í samræmi við ákvæði 8. gr. þessarar reglugerðar. Einnig skal halda skrá yfir allar skoðanir á sæðingarhryssum og þær ekki sónarskoðaðar oftar en þörf krefur til að tryggja rétta tímasetningu sæðingar og fangskoðun.
Hryssur sem notaðar eru við sæðistöku skulu heilbrigðisskoðaðar áður en sæðistaka hefst.
Skylt er að DNA-greina hryssur sem eru fósturvísagjafar sem og sannreyna með DNA-greiningu ætterni þeirra afkvæma sem verða til við fósturvísaflutninga.
15. gr. Loðdýr og kanínur.
Áður en fengitíð hefst skal ábyrgðardýralæknir stöðvarinnar rannsaka heilbrigði dýra á búinu og taka þau sýni sem krafist er hverju sinni. Þá skal liggja fyrir skrá yfir þau dýr sem notuð verða við sæðistöku og skal dýralæknir skoða þau sérstaklega.
Á búum sem karldýr koma frá má ekki hafa orðið vart smitnæmra sjúkdóma síðustu 6 mánuðina. Þá er óheimilt að nota karldýr sem sæðisgjafa á sæðingarstöð ef leitt hefur verið undir þau sama ár.
Óheimilt er að hleypa hundum og köttum inn á loðdýrabú og kanínubú þar sem sæðingarstöð er til húsa.
Ábyrgðardýralæknir sæðingarstöðvar ber ábyrgð á því að eingöngu séu notuð viðurkennd dýr til sæðistöku og skal afla tilskilinna leyfa áður en sæðing hefst. Hann ber ábyrgð á að halda til haga upplýsingum um afdrif sæðisins.
Á sæðingarstöð skal vera aðskilin aðstaða þar sem sæðing aðkomudýra fer fram. Aðeins er heimilt að færa til sæðingar læður frá búum þar sem ekki hefur orðið vart smitnæmra sjúkdóma síðustu 6 mánuði. Bú þar sem slíkra sjúkdóma hefur orðið vart síðustu 6 mánuði geta sótt um leyfi til sæðinga skv. sérstökum reglum sem Matvælastofnun setur.
Sæða má læður frá sama búi án þess að sótthreinsun á sæðingarbekk fari fram á milli einstakra dýra. Áður en læður frá öðru búi eru sæddar skal þrífa sæðingarbekkinn vandlega og sótthreinsa. Í lok hvers vinnudags skal þrífa rækilega og sótthreinsa áhöld, biðstofu, sæðistöku- og sæðingarherbergi, sæðingarbekki og vinnuborð.
16. gr. Alifuglar.
Heimilt er að sæða hænur með sæði úr hönum á sama alifuglabúi.
Matvælastofnun er heimilt að veita leyfi til flutnings á sæði úr alifuglum á milli búa ef skilyrði um starfsleyfi í reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla eru uppfyllt.
Sérstakur aðili skal vera á búinu sem ber ábyrgð á sæðistöku, meðferð sæðis og sæðingum og heldur skrá yfir sæðingar og árangur þeirra.
III. KAFLI Ýmis ákvæði.
17. gr. Flutningur fósturvísa.
Flutningur fósturvísa á milli búa skal lúta sömu reglum og flutningur lifandi dýra samkvæmt gildandi reglum um varnir gegn dýrasjúkdómum. Aðeins er heimilt að flytja fósturvísa úr heilbrigðum dýrum á milli búa. Yfirdýralækni er heimilt að víkja frá þessum reglum séu aðstæður þannig að fósturvísaflutningur sé talinn hættuminni en flutningur lifandi dýra.
Fósturmæður skulu vera heilbrigðar og hraustar og svo stórar að tryggt sé að þær geti borið fósturafkvæmum sínum eðlilega.
Taka, meðhöndlun og innlögn fósturvísa skal vera undir umsjón ábyrgðardýralæknis stöðvarinnar. Hann skal einnig hafa umsjón með fósturvísum sem geymdir eru í frysti og halda skýrslur um þá á hverjum tíma.
Efni og tæki til fósturvísaflutnings skulu vera af viðurkenndum gæðum og skulu ekki geta borið með sér smitefni. Blóðvatn sem notað er við fósturvísaflutning skal vera úr heilbrigðum dýrum frá búum þar sem ekki hafa komið upp tilkynningaskyldir sjúkdómar, sbr. lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 með síðari breytingum.
Óheimilt er að leggja inn í leg kvendýra fósturvísa sem hafa verið frjóvgaðir í tilraunaglasi ("in vitro"), kyngreindir, skipt eða einræktaðir. Þó er Matvælastofnun heimilt að leyfa slíkar aðgerðir í afmörkuðum tilraunum sem sótt er um leyfi fyrir í hverju tilviki.
18. gr. Undanþágur.
Matvælastofnun getur í ákveðnum tilvikum, við sérstakar aðstæður, veitt tímabundna undanþágu frá 3. mgr. 3. gr. og þeim kröfum sem eru gerðar til aðstöðu við sæðistöku og dreifingu skv. þessari reglugerð. Sækja skal skriflega og fyrirfram um undanþáguna til Matvælastofnunar, þar sem fram komi rökstuðningur fyrir beiðninni.
19. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála.
20. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búnaðarlögum nr. 70/1998, 15. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, lögum um innflutning dýra nr. 54/1990, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998 og lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um búfjársæðingar nr. 787/2003.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 31. maí 2016.
Gunnar Bragi Sveinsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Rebekka Hilmarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.