Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

530/2016

Reglugerð um stofnun og starf fagráða Menntamálastofnunar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til stofnunar fagráða Menntamálastofnunar, hlutverks þeirra og starfshátta.

2. gr. Hlutverk og skipan fagráða.

Fagráð skulu vera stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar svo hún geti sem best sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Forstjóri setur á fót fagráð til þriggja ára í senn og setur þeim erindisbréf. Hvert þeirra skal skipað sérfróðum fulltrúum. Fagráðin skulu starfa á eftirtöldum þremur starfssviðum stofnunarinnar:

  1. náms- og gæðamat,
  2. gerð og miðlun námsgagna,
  3. upplýsingagjöf og þjónusta.

Menntamálastofnun auglýsir opinberlega eftir aðilum í fagráð á grundvelli viðmiða sem fjallað er um í 3. gr. þessarar reglugerðar.

3. gr. Viðmið um skipan í fagráð.

Við skipan í fagráð skal hafa til viðmiðunar að viðkomandi aðili hafi faglega þekkingu og reynslu á starfssviði fagráðsins. Leitast skal við að fagráð endurspegli sem best það starf sem tengist viðkomandi sviði og að þar sitji aðilar sem búa yfir mikilli hæfni, þekkingu og reynslu af starfi á vettvangi skóla, viðurkenndra fræðsluaðila, fræða- og rannsóknasamfélags eða atvinnulífs. Einnig skal taka mið af því að hvert fagráð sé skipað einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn.

Menntamálastofnun skal fela einum starfsmanni, á því sviði sem fagráðið starfar, að vinna með viðkomandi fagráði.

Við skipan í fagráð skal gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

4. gr. Starfshættir fagráða.

Fagráð skiptir sjálft með sér verkum og setur sér verklagsreglur. Fagráð skulu starfa samkvæmt árlegri starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og skulu leggja mat á viðfangsefni sín á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga og gagna. Fulltrúar fagráða skulu gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun sinni, gera grein fyrir mögulegum hagsmunatengslum, starfa af vandvirkni og heiðarleika, tileinka sér vinnubrögð sem skapa traust á starfi þeirra og stofnuninni og gæta þagmælsku um það sem þeir fá vitneskju um vegna setu sinnar í fagráði. Fagráðin skulu sín á milli halda að lágmarki einn samráðsfund árlega.

Upplýsingar um verklagsreglur, starfsemi fagráða og fundargerðir skal birta á vef stofnunarinnar.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 91/2015 um Menntamálastofnun og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 13. maí 2016.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.