Fara beint í efnið

Prentað þann 27. nóv. 2021

Stofnreglugerð

530/2006

Reglugerð um leyfisskyld happdrætti.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til happdrætta sem leyfisskyld eru samkvæmt lögum um happdrætti, nr. 38 13. maí 2005.

Reglugerðin gildir ekki um happdrætti þar sem spilað er um peninga eða ígildi peninga, til dæmis spilamerki, spilapeninga eða aðra álíka hluti sem þjóna hlutverki gjaldmiðils í happdrættum.

2. gr. Skilgreining, gerðir og flokkar happdrætta.

Skilgreining happdrætta í reglugerð þessari er sem hér segir:

 1. Miðahappdrætti: Þátttakandi fær, gegn greiðslu eða annars konar framlagi, þátttökustaðfestingu með auðkenni sem svarar einu þeirra auðkenna sem notuð eru við útdrátt vinninga. Fjöldi vinninga og tegund, vara eða þjónusta, er fyrirfram ákveðinn og er óháður fjölda þátttakenda eða framlagi þeirra. Þátttökustaðfestingar geta verið látnar í té handvirkt eða rafrænt.
 2. Skafmiðahappdrætti: Vinningum er úthlutað með tilviljunarkenndum hætti á fyrirfram ákveðið miðaupplag. Hluti miðans er hulinn ógegnsærri himnu. Þegar himnan er skafin burtu kemur strax í ljós hvort um vinningsmiða sé að ræða.
 3. Hlutaveltuhappdrætti (tombóla): Fyrirfram ákveðið miðaupplag þar sem ákveðinn fjöldi miða, sem ber vinningsauðkenni, er settur í tromlu eða annað ílát. Þátttakandi velur sér miða úr miðaupplaginu í tromlunni. Vinningshafar fá vinning afhentan á staðnum.
 4. Önnur happdrætti: Sambærileg happdrætti og um ræðir í 1. og 2. tölulið, en frábrugðin að því leyti að önnur tækni er notuð, að nokkru eða öllu leyti, hvort heldur sem notuð er tölvutækni, símatækni eða annars konar rafræn tækni eða blönduð tækni.
 5. Ágiskunarhappdrætti: Þátttakandi greiðir ákveðið verð fyrir þátttöku og skilar ágiskun á úrslit í keppni, þó ekki íþróttakeppni sbr. 2. gr. laga nr. 59/1972 um getraunir, eða hvers kyns atvik eða atburð. Úthlutun vinninga byggist á úrslitum þess sem giskað var á.
 6. Bingóhappdrætti (töluspjaldahappdrætti): Þátttakandi kaupir eitt eða fleiri bingóspjöld sem eru merkt með bókstöfum og tölustöfum eftir ákveðnu kerfi. Val vinninga fer fram með útdrætti talna.
 7. Skemmtanahappdrætti: Happdrætti sem starfrækt er á sérstöku skemmtanasvæði (tívolí, útimarkaði og þess háttar) þar sem þátttakandi kaupir rétt til að reyna leikni eða heppni sína.
 8. Þekkingarhappdrætti: Þátttakandi svarar spurningum og getur þurft að greiða gjald sem er nokkuð umfram raunkostnað við að koma svarinu á framfæri. Úthlutun vinninga til þeirra sem hafa rétta lausn fer fram með slembikenndum hætti, hafi fleiri en einn þátttakandi komið með rétta lausn.
 9. Kaupaukahappdrætti: Gefinn er kostur á þátttöku í happdrætti við kaup á vöru eða þjónustu án sérstaks gjalds. Þátttaka getur verið fólgin í að leggja inn nafn sitt við mótttöku vöru eða þjónustu, leggja inn svar við spurningu, senda nafn sitt eða annað persónuauðkenni, senda inn miða sem fylgir vöru eða þjónustu með nafni sínu eða kaupa vöru þar sem tiltekinn fjöldi eintaka hefur dulið einkenni sem veitir vinning.
 10. Auglýsingahappdrætti: Gefinn er kostur á þátttöku í happdrætti sem tengt er kynningu á vöru eða vörumerki án endurgjalds. Þátttaka getur verið fólgin í að leggja inn nafn sitt eða persónuauðkenni eða leggja inn eða senda t.d. símleiðis svar við einfaldri spurningu. Vinningshafar eru dregnir út með tilviljunarkenndum hætti.

3. gr. Leyfi fyrir happdrætti.

Dóms- og kirkjumálaráðherra veitir leyfi fyrir happdrætti í samræmi við lög um happdrætti. Í leyfisbréfi skulu koma fram eftirtalin atriði:

 1. Fjöldi miða.
 2. Verð hvers miða.
 3. Fjöldi vinninga, hverjir þeir eru og heildarverðmæti þeirra.
 4. Hvenær útdráttur vinninga fer fram.
 5. Upplýsingar sem ber að tilgreina á happdrættismiðum, svo sem um vinninga, miðafjölda, miðaverð, útdráttardag, hvenær miðasölutímabili ljúki, svo og símanúmer og vefsíður sem veita upplýsingar um vinningsnúmer.
 6. Að vinningsnúmer skuli auglýsa að loknum útdrætti.
 7. Önnur skilyrði leyfisveitingar, svo sem lágmarksaldur og framlag til að sporna við spilafíkn.

Ráðherra er heimilt að setja frekari skilyrði þegar um er að ræða önnur happdrætti en hefðbundin miðahappdrætti.

Sýslumenn veita leyfi fyrir minni háttar staðbundnum happdrættum, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um happdrætti, enda fari heildarverðmæti útgefinna miða ekki fram úr 2 milljónum króna. Um leyfisbréf fer skv. 1. mgr. Vinningsnúmer skal auglýsa í svæðisbundnu fréttablaði eftir ákvörðun sýslumanns.

4. gr. Undanþága frá leyfisskyldu.

Undanþegin leyfisskyldu eru happdrætti sem félag eða hópur efnir til á árshátíðum og öðrum slíkum samkomum í skemmtana- eða fjáröflunarskyni, sem ekki eru opnar almenningi, enda séu vinningar lágir að verðgildi. Tilgangurinn með samkomunni má ekki vera sá einn að afla fjár til tiltekins málefnis.

Vinningar skulu einungis vera vörur eða þjónusta, en ekki peningar. Hámarksfjárhæð samanlagðra verðmæta vinninga má eigi vera meiri en 1 milljón króna, ef fjöldi á samkomu er undir 500 manns, en ella 2 milljónir króna. Draga skal út vinninga á samkomunni.

Ennfremur eru undanþegin leyfisskyldu kaupaukahappdrætti, auglýsingahappdrætti, þekkingarhappdrætti og ágiskunarhappdrætti ef kostnaður vegna þátttöku eða við að koma svari á framfæri nemur ekki hærri fjárhæð en þreföldum raunverulegum kostnaði, ef kostnað leiðir af þátttöku.

5. gr. Tímalengd happdrættisleyfis.

Almennt skal binda leyfi, sem veitt er til sölu happdrættismiða, við afmarkaðan tíma og að hámarki þrjá mánuði. Vinningar skulu dregnir út á fyrirfram ákveðnum tíma eftir því sem við á. Hafi happdrættissala ekki gengið sem skyldi, eða aðrar aðstæður valdið því að ekki er unnt að ljúka happdrætti innan tilskilins tíma er heimilt að fresta útdrætti í allt að tvo mánuði frá áður ákveðnum dráttardegi.

6. gr. Vinningshlutfall.

Vinningshlutfall skal vera að lágmarki 16,67% í almennum miðahappdrættum af samanlögðu verðmæti útgefinna miða.

7. gr. Skyldur leyfishafa.

Leyfishafi happdrættis skal skila til leyfisveitanda skýrslum eða reikningum um rekstur sinn innan sex mánaða frá því að happdrætti lauk.

8. gr. Gildistökuákvæði.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í ákvæðum 3. mgr. 3. gr., 4. gr., 5. gr., 7. gr. og 12. gr. laga um happdrætti nr. 38 13. maí 2005, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 12. júní 2006.

Björn Bjarnason.

Fanney Óskarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.