Prentað þann 22. des. 2024
511/2018
Reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla.
- I. KAFLI Yfirstjórn og orðskýringar.
- II. KAFLI Umsóknir og skráningar.
- III. KAFLI Skyldur framleiðanda við framleiðslu.
- IV. KAFLI Landnýting framleiðanda og landbótaáætlun.
- V. KAFLI Eftirlit og ákvarðanir.
- VI. KAFLI Álagsgreiðslur o.fl.
- VII. KAFLI Viðurlög og gildistaka.
- Viðaukar
1. gr. Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla.
Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu sauðfjárafurða samkvæmt kröfum sem settar eru fram í þessari reglugerð um aðbúnað og umhverfi, sauðfjárskýrsluhald, jarðrækt, fóðrun, heilsufar, lyfjanotkun, afurðir, landnýtingu og skyld atriði.
Sauðfjárframleiðendur sem uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði til samræmis við samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016.
I. KAFLI Yfirstjórn og orðskýringar.
2. gr. Stjórnsýsla.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn mála samkvæmt þessari reglugerð. Matvælastofnun fer með framkvæmd gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samninga við eftirlitsaðila (ríkisstofnanir og/eða einkaaðila) um eftirlit og úttekt á landi sem nýtt er við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Matvælastofnun er heimilt að annast öll þau verkefni sem lögð eru til þessa eftirlitsaðila.
3. gr. Orðskýringar.
Merking hugtaka er sem hér segir:
- Afréttur: Land utan heimalanda og upprekstrarheimalanda sem framleiðendur hafa rétt til að nýta sameiginlega til beitar undir stjórn einnar eða fleiri sveitarstjórna.
- Auðnir: Ógrónar eða lítt grónar landgerðir utan byggðar, með gróðurþekju minni en 20%, sem mynda samfelldar heildir í landslagi og eru mótaðar af mörgum ferlum jarðvegsrofs, t.d. urðir, melar, sandar, sendnir melar, hraun o.fl.
- Álagsgreiðsla: Tiltekin fjárhæð sem greiðist á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
- Árangursmat: Mat eftirlitsaðila skv. 2. gr. á árangri landbóta samkvæmt landbótaáætlun.
- Ástand beitilands: Eiginleikar og samsetning gróðurs og jarðvegs í vistkerfi viðkomandi landsvæðis, í samanburði við það sem telja má eðlilegt miðað við gott ástand lands og hóflega landnýtingu að mati eftirlitsaðila skv. 2. gr.
- Beitarfriðað svæði: Tiltekið landsvæði sem ekki er ætlað til beitar og tilgreint sem slíkt í landbótaáætlun.
- Búsnúmer: Landnúmer samkvæmt fasteignamati auk númers rekstrareiningar innan býlis.
- Framleiðandi: Hver sá sem framleiðir sauðfjárafurðir, hvort sem er einstaklingur, lögaðili, aðili að félagsbúi eða ríkisbú.
- Framleiðsluár: Almanaksár.
- Gæðahandbók: Rafræn handbók sem er ætlað að skjalfesta framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður á sauðfjárbúum til hagnýtingar við ákvarðanatöku í rekstri og markaðssetningu afurða. Matvælastofnun skal annast útgáfu, endurskoðun og dreifingu hennar með rafrænum hætti.
- Heimaland: Land sem framleiðandi, eigandi eða ábúandi, hefur einn rétt til að nýta til beitar.
- Jarðvegsrof: Losun og flutningur jarðvegsefna eða yfirborðsefna sem rýrir landgæði, s.s. jarðveg og gróður.
- Landbótaáætlun: Tímasett aðgerðaáætlun um úrbætur á ástandi lands skv. 15.-17. gr.
- Landbætur: Hvers kyns aðgerðir sem hafa það að markmiði að bæta ástand lands.
- Landnýting: Nýting lands til beitar.
- Rofsvæði: Svæði þar sem rofferlar, s.s. vind- og vatnsrof, eru virkir.
- Sjálfbær landnýting: Nýting sem ekki gengur á auðlindir lands, s.s. jarðveg, gróður og vatn og tryggir um leið viðgang og virkni vistkerfis til framtíðar.
- Stýriþættir: Þættir sem gefa viðbótarupplýsingar um land og nýtingu þess og geta haft áhrif á niðurstöðu vottunar, svo sem vísitegundir, landgerð, hæð yfir sjávarmáli, halli lands, önnur landnýting o.fl.
- Umhverfi: Nánasta nágrenni býlis þ.e. svæði í 50 metra radíus í kringum veg, heimkeyrslu og mannvirki.
- Umsjónarmaður gæðastýringar: Aðili sem framleiðandi tilnefnir skv. 5. gr.
- Upprekstrarheimaland: Eignarland tveggja eða fleiri jarða þar sem tveir eða fleiri framleiðendur geta farið sameiginlega með heimild til beitarnýtingar.
II. KAFLI Umsóknir og skráningar.
4. gr. Umsókn.
Framleiðandi sá sem óskar eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á búi sínu skal senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar á eyðublöðum sem stofnunin skal láta í té. Umsóknum skal skila eigi síðar en 20. nóvember ef framleiðandi óskar eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í umsókn:
- Nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda, auk virðisaukaskattsnúmers.
- Nafn umsjónarmanns gæðastýringar ef við á.
- Jarðir, upprekstrarheimalönd og afréttir sem framleiðandi nýtir til beitar, tilgreint með nafni og landsnúmeri jarðar og eigenda þeirra. Skrifleg heimild til nýtingar lands þar sem framleiðandi fer ekki með heimild til nýtingar sem landeigandi eða ábúandi. Greina skal frá fjölda vetrarfóðraðs sauðfjár.
- Búsnúmer á því búi sem sótt er um gæðastýringu á.
- Greiðsluupplýsingar vegna álagsgreiðslna.
Matvælastofnun og eftirlitsaðilar í hennar umboði meta umsóknir og sannreyna hvort umsækjandi uppfylli skilyrði reglugerðarinnar.
5. gr. Skráningar.
Matvælastofnun heldur skrá yfir umsækjendur og þá sem uppfyllt hafa skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Matvælastofnun skal sjá um að koma gæðahandbók til framleiðenda eða sjá til þess að handbókin sé aðgengileg á rafrænu formi fyrir árslok.
Tilkynna skal Matvælastofnun um breytingar á því hvaða framleiðandi stendur fyrir búi sem er í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Við slík framleiðandaskipti að búi heldur nýr framleiðandi rétti fráfarandi framleiðanda til álagsgreiðslna að uppfylltum öðrum skilyrðum. Honum er skylt að sækja námskeið skv. 12. gr. í næsta skipti sem það er haldið.
Framleiðandi skal tilkynna Matvælastofnun fyrir 31. desember ef hann ætlar að hætta í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu vegna næsta almanaksárs.
III. KAFLI Skyldur framleiðanda við framleiðslu.
6. gr. Gæðahandbók.
Í gæðahandbók skal skrá eftirgreindar upplýsingar um framleiðsluaðferðir og aðstæður á sauðfjárbúi:
- Áburðarnotkun. Um áburðarnotkun fer eftir almennum reglum um mengunarvarnir og umhverfisvernd, sbr. ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
- Gróffóðuröflun og fóðrun á búinu. Um mat á fóðurmagni, fóðurgæðum og fóðurþörfum fer eftir ákvæðum laga nr. 38/2013 um búfjárhald og laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
- Landnýtingu. Um landnýtingu fer skv. IV. kafla reglugerðarinnar.
- Lyfjakaup og lyfjanot. Í hversu miklu magni, hversu oft og lengi. Vanhöld sauðfjár, þ.m.t. veikindi og slysfarir. Greina skal sjúkdóma eftir því sem kostur er. Sjúkdóma- og lyfjaskráningar skulu vera rekjanlegar til einstakra gripa í hjörðinni. Skrá skal garnaveikibólusetningu, þar sem það á við.
- Umhverfi skv. 19. tl. 3. gr. reglugerðarinnar. Ástand og ásýnd umhverfis skv. 10. gr.
- Önnur fóðuröflun. Upplýsingar um aðkeypt fóður sem ekki fellur undir b. lið. Skrá skal seljendur fóðurs, tegund og magn. Notkun erfðabreytts fóðurs er bönnuð skv. reglugerð nr. 878/2016 um bann við notkun erfðabreytts fóðurs í sauðfjárrækt.
Loks skal skrá í gæðahandbók aðrar upplýsingar sem tilgreindar eru í leiðbeiningum um skráningu. Skráning skal hefjast eigi síðar en í upphafi þess árs sem framleiðandi tekur upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Heimilt er að hagnýta skráningu í rafrænum gagnagrunni á vegum Bændasamtaka Íslands eða Matvælastofnunar við skráningu í rafræna gæðahandbók skv. 10. tl. 3. gr. reglugerðarinnar.
7. gr. Aðbúnaður og meðferð.
Sauðfé skal njóta fullnægjandi aðbúnaðar, meðferðar og fóðrunar. Uppfylla skal kröfur um húsaskjól, aðbúnað og umhirðu sauðfjár til samræmis við ákvæði laga nr. 38/2013 um búfjárhald og laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
8. gr. Merkingar búfjár.
Fjárstofn skal merktur samkvæmt reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár. Einnig skal fé eyrnamarkað skv. 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
9. gr. Afurðaskýrsluhald.
Allur fjárstofn bús framleiðanda skal skráður í Fjárvís. Afurðaskýrsluhald framleiðanda skal uppfylla þær kröfur sem kveðið er á um í 4. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt til að það teljist fullnægjandi. Matvælastofnun er skylt að tilkynna framleiðanda fyrir 31. desember vegna haustbókar og 1. september vegna vorbókar standist hann ekki kröfur um fullnægjandi skýrsluhald. Framleiðanda skal veittur að hámarki fjögurra vikna frestur til að ganga frá fullnægjandi skýrsluhaldsskilum eða koma á framfæri andmælum. Framleiðandi sem ekki skilar fullnægjandi skýrsluhaldi innan frests telst ekki uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Framleiðendur sem eru að hefja þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu, en hafa til þess tíma ekki verið í skýrsluhaldi, skulu ganga frá skilum á vorbók eigi síðar en 20. ágúst.
Matvælastofnun skal tryggður fullnægjandi aðgangur að Fjárvís og undirliggjandi gagnagrunni m.a. til að tryggja að Fjárvís uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fullnægjandi afurðaskýrsluhalds.
10. gr. Umhverfi.
Umhverfi býlis skal standast kröfur samkvæmt viðauka III.
Við mat á kröfum til umhverfis er byggt á eftirfarandi þáttum:
- Ástandi girðinga.
- Ástandi umhverfis við mannvirki.
- Umhirðu og uppröðun lausra hluta.
- Lausum hlutum.
11. gr. Bólusetning gegn garnaveiki.
Uppfylla skal skyldur til bólusetningar samkvæmt reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni, ásamt síðari breytingum.
12. gr. Undirbúningsnámskeið.
Framleiðendur sem sótt hafa um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu sækja sérstakt undirbúningsnámskeið þar sem fjalla skal um þau atriði sem reglugerðin tilgreinir.
IV. KAFLI Landnýting framleiðanda og landbótaáætlun.
13. gr. Meginreglur um landnýtingu.
Landnýting framleiðanda skal vera sjálfbær á öllu því landi sem hann tilgreinir í umsókn sinni og skal það land jafnframt standast viðmið um ástand samkvæmt þeim kröfum sem settar eru í viðauka I. Framleiðandi skal eingöngu nýta land sem tilgreint er í umsókn. Landbótaáætlun skv. 15. gr. skal gera fyrir beitiland sem uppfyllir ekki kröfur samkvæmt viðauka I.
14. gr. Mat á landnýtingu.
Eftirlitsaðili skv. 2. gr. skal leggja mat á land framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og tilkynna Matvælastofnun um niðurstöður sínar.
Matvælastofnun skal tilkynna framleiðendum ef þeir uppfylla ekki skilyrði 13. gr. og gefa þeim allt að þriggja mánaða frest til að setja sér landbótaáætlun skv. 15. gr.
15. gr. Landbótaáætlun fyrir heimalönd, upprekstrarheimalönd og afrétti.
Framleiðandi gerir landbótaáætlun fyrir heimalönd sín, upprekstrarheimalönd og afrétti til allt að 10 ára. Landbótaáætlanir skulu gerðar í samræmi við viðauka II.
Við gerð landbótaáætlunar fyrir upprekstrarheimalönd og afrétti skulu framleiðendur, eftir því sem við á, hafa samráð við landeigendur og sveitarfélög. Framleiðendur skulu við gerð landbótaáætlunar fyrir afrétti einnig leita umsagna Landgræðslu ríkisins skv. 16. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Einnig skal líta til 12. gr. sömu laga sé talin þörf sambærilegra ráðstafana fyrir upprekstrarheimalönd.
Framleiðanda er heimilt að leita leiðbeininga Landgræðslu ríkisins við gerð landbótaáætlunar. Landgræðsla ríkisins áritar á landbótaáætlun að hún hafi verið unnin í samráði við stofnunina og sé henni samþykk.
Matvælastofnun skal leita umsagnar Landgræðslu ríkisins um landbótaáætlanir sem ekki eru áritaðar af Landgræðslu ríkisins. Í umsögn Landgræðslu ríkisins skal koma fram hvort áætlunin sé í samræmi við meginreglur skv. 13. gr., viðauka I og II og tilgreina tillögur að úrbótum á áætlun sem séu í samræmi við skilyrði reglugerðarinnar.
Matvælastofnun skal staðfesta að landbótaáætlun sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
Telji Matvælastofnun að landbótaáætlun standist ekki ofangreindar kröfur skal stofnunin greina framleiðanda frá ástæðum þess og veita honum tveggja vikna frest til úrbóta.
Matvælastofnun er heimilt að staðfesta landbótaáætlun til allt að 10 ára, þótt ljóst sé að í lok gildistíma áætlunarinnar náist ekki að uppfylla viðmið um ástand lands í viðauka I. Í slíkri landbótaáætlun skulu settar fram ítarlegar tillögur um hvernig verði dregið úr beitarálagi, svo sem, með fækkun fjár, aðgangi að öðru beitarlandi og styttri beitartíma og hvernig komið er í veg fyrir beit á landi í ástandsflokki 5.
16. gr. Landbótaáætlun.
Landbótaáætlun skal fela í sér ákvæði um fyrirhugaðan fjölda búfjár og eftir atvikum áætlun um landbætur s.s. uppgræðslu. Í landbótaáætlun skal skilgreina og afmarka á loftmynd beitarsvæði og beitarfriðuð svæði sem framleiðendur hætta að nýta til beitar í samræmi við viðauka I. Aukist beitarálag á gildistíma landbótaáætlunar skal áætlunin endurskoðuð í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og hljóta staðfestingu Matvælastofnunar skv. 15. gr.
Í landbótaáætlun skal tilgreina hvernig fara skuli með sauðfé sem finnst á beitarfriðuðum svæðum. Framleiðanda er óheimilt að beita fé vísvitandi á beitarfriðuð svæði.
Í landbótaáætlun þar sem fjallað er um uppgræðslu eða aðrar landbætur skal kveða á um markmið, umfang, staðsetningu og hver er ábyrgur fyrir framkvæmd. Við mat á nauðsynlegu umfangi landbóta skal mið tekið af því hversu langt frá viðmiðunarmörkum í viðauka I landið er.
Í landbótaáætlun þar sem fjallað er um landbætur skv. 15. gr. skal tilgreina með hvaða hætti árangursmat á landbótum skuli fara fram. Við árangursmat skal metin gróðurhæð, gróðurþekja, hlutdeild einstakra tegundahópa í gróðurþekju eða aðrir þeir þættir sem geta talist mælikvarðar á árangur landbóta á hverjum tíma. Árangur landbóta skal metinn eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Eftirlitsaðili skv. 3. mgr. 2. gr. skal upplýsa Matvælastofnun um þau tilvik þar sem árangur er ekki metinn fullnægjandi.
Uppfylli framleiðandi ekki meginreglur 13. gr. skal Matvælastofnun tilkynna framleiðanda um ástæður þess og veita honum að hámarki þrjá mánuði til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar.
Framleiðandi sem ekki uppfyllir skilyrði í landbótaáætlun uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
V. KAFLI Eftirlit og ákvarðanir.
17. gr. Eftirlit með landnýtingu og landbótum.
Matvælastofnun eða eftirlitsaðili skv. 3. mgr. 2. gr. hefur eftirlit með landnýtingu framleiðenda í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu og landbótaáætlun ef um hana er að ræða. Eftirlit skal byggt á tilviljunarkenndu úrtaki úr hópi framleiðenda, ásetningstölum úr eftirliti og ábendingum úr gróðureftirliti skv. III. kafla laga nr. 17/1965 og III. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
Matvælastofnun og eftirlitsaðili skal við eftirlit kanna hvort framleiðandi hefur heimild til nýtingar á því landi sem hann tilgreinir í umsókn sinni og getur krafið framleiðanda um gögn því til sönnunar. Framleiðandi sem vísvitandi nýtir land án heimildar uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Matvælastofnun skal upplýsa landeiganda um beitarafnot annarra á jörð sinni ef landeigandi óskar þess.
18. gr. Eftirlit Matvælastofnunar.
Matvælastofnun annast eftirlit með þeim skyldum framleiðanda sem tilgreindar eru í 6.-8. gr. og 10.-12. gr. reglugerðarinnar. Uppfylli framleiðandi ekki skilyrði gæðastýringar skal Matvælastofnun veita hæfilegan frest til úrbóta þó að hámarki fjögurra vikna frest.
Þegar grípa þarf til ráðstafana vegna vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar hjá framleiðanda skv. 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra eru skilyrði gæðastýringar ekki uppfyllt. Í slíkum tilfellum skal ekki veita frest til úrbóta.
19. gr. Réttur til aðildar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.
Framleiðandi er aðili að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu á milli ára, án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði hennar og óskar ekki eftir að hún verði felld niður.
Matvælastofnun skal tilkynna framleiðanda eigi síðar en 31. ágúst ár hvert ef hann uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og gefa honum kost á andmælum. Stofnunin skal því næst tilkynna honum um hvort hann uppfylli skilyrði aðildar, þ.e. eigi rétt á álagsgreiðslum.
Ákvörðun Matvælastofnunar skv. 2. mgr. um hvort framleiðandi uppfylli skilyrði gæðastýringar skal byggð á upplýsingum um landnýtingu og eftirlit. Einnig skal stofnunin byggja ákvörðun sína á öðrum gögnum sem hún aflar sér og varða skilyrði gæðastýringar samkvæmt III. og IV. kafla reglugerðarinnar. Hér má t.d. nefna upplýsingar sem aflað er samkvæmt reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár, reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni og reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Einnig má nefna upplýsingar sem stofnunin aflar sér um illa meðferð búfjár við eftirlit með búfjárhaldi samkvæmt lögum nr. 38/2013 um búfjárhald og lögum nr. 55/2013 um velferð dýra.
Framleiðandi sem uppfyllir ekki skilyrði aðildar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu missir rétt til álagsgreiðslna í eitt ár en getur sótt um aðild að nýju næsta framleiðsluár, eftir endurnýjun umsóknar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast þess að framleiðandi sem missir rétt til álagsgreiðslna í eitt ár skuli sækja undirbúningsnámskeið skv. 12. gr. að nýju.
Ákvörðun Matvælastofnunar samkvæmt þessari grein má kæra til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra innan þriggja mánaða, samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
VI. KAFLI Álagsgreiðslur o.fl.
20. gr. Greiðsluálagning.
Fjárhæð álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu er háð samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016 og fjárlögum hvers árs.
Greitt er álag á allt framleitt kindakjöt frá framleiðendum sem uppfylla kröfur samkvæmt reglugerð þessari.
Heimilt er að beita stuðlum til að greiða mishátt álag á einstaka flokka lambakjöts eða annars kindakjöts eða vegna mismunandi sláturtíma. Þá er einnig heimilt að setja þyngdartakmörk fyrir álagsgreiðslum þannig að greitt sé að hámarki út á ákveðinn kílóafjölda hvers skrokks eða að skrokkur þurfi að ná ákveðinni lágmarksþyngd til að álagsgreiðsla fáist greidd. Ennfremur er heimilt að greiða álagsgreiðslur með þeim hætti að þær skiptist jafnt á skrokka sem fullnægja skilgreindum gæðakröfum.
Markaðsráð kindakjöts gerir árlega tillögu til framkvæmdanefndar búvörusamninga um hvort nýta beri heimildir skv. 3. mgr. og með hvaða hætti. Verði heimildir nýttar skulu ákvarðanir um það liggja fyrir eigi síðar en 1. nóvember árið á undan.
Um fyrirkomulag greiðslna fer eftir ákvæðum 5. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
VII. KAFLI Viðurlög og gildistaka.
21. gr. Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
22. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum, 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og 46. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð nr. 1166/2017 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. maí 2018.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Rebekka Hilmarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.