Prentað þann 1. apríl 2025
506/2010
Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli.
1. gr.
Á eftir 2. gr. reglugerðarinnar koma þrjár nýjar greinar sem verða 2. gr. a, 2. gr. b og 2. gr. c svohljóðandi:
2. gr. a
Meðferð matvæla.
Matvæli sem geyma á í kæli eða framreiða köld, skal kæla svo fljótt sem auðið er og geyma við 0-4°C, þannig að hitastig kælivara haldist við 0-4°C. Hitastig frystra matvæla skal vera stöðugt -18°C eða lægra. Heitum réttum skal haldið við a.m.k. 60°C.
2. gr. b
Athafnasvæði matvælafyrirtækja.
Húsakynni matvælafyrirtækja skulu vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar um atvinnuhúsnæði og hafa hlotið samþykki byggingarnefndar fyrir starfseminni.
Matvælafyrirtæki mega ekki vera í beinu sambandi við óskyldan atvinnurekstur eða íbúð og skulu eigi staðsett nálægt atvinnurekstri sem getur haft mengandi áhrif á starfsemina.
2. gr. c
Fyrirmæli eftirlitsaðila.
Eftirlitsaðili getur, ef ástæða er til, gefið út fyrirmæli um innréttingu og starfsemi fyrirtækja sem annast framleiðslu og/eða dreifingu matvæla.
Eftirlitsaðila er heimilt að setja upp á áberandi stað í matvælafyrirtækjum fyrirmæli, sem hann lætur í té og fela í sér einstök atriði sem honum þykir ástæða til að leggja áherslu á í sambandi við framleiðslu og dreifingu matvæla.
2. gr. Lagastoð.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. maí 2010.
Jón Bjarnason.
Baldur P. Erlingsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.