Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 6. júlí 2024

477/2020

Reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Markmið.

Einstaklingi, sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis til starfs í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss, er heimilt að stunda það starf hér á landi með sömu réttindum og skyldum og íslenskir þegnar. Sækja þarf um viðurkenningu til að gegna starfi til hlutaðeigandi stjórnvalds hér á landi. Við afgreiðslu umsóknar skal gengið úr skugga um að fagleg menntun og hæfi umsækjanda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir þegar lagt er mat á hvort ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss uppfyllir skilyrði um menntun og starfsreynslu til þess að gegna lögvernduðu starfi hér á landi sem sæta meðalhófsprófun í viðkomandi fagráðuneyti í samræmi við leiðbeiningar sem ráðherra setur.

Reglugerðin á einnig við þegar aðili óskar eftir að veita þjónustu á sviði sem fellur innan lögverndaðs starfs.

Heimilt er að beita málsmeðferðarreglum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr. Skilgreiningar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

  1. Lögverndað starf: Atvinnustarfsemi eða flokkur atvinnustarfsemi þar sem aðgengi að starfi, iðkun starfs eða einn þáttur í iðkun starfs er háð fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmælum um sérstaka menntun og hæfi.
  2. Fagleg menntun og hæfi: Menntun og hæfi sem hefur verið staðfest með sérstökum vitnisburði, hæfnisvottorði, sbr. 16. gr., og/eða starfsreynslu.
  3. Vitnisburður um formlega menntun og hæfi: Prófskírteini, vottorð og annar opinber vitnisburður sem staðfestir að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt.
  4. Lögbært stjórnvald: Hvert það yfirvald eða stofnun sem hefur með höndum útgáfu eða móttöku á prófskírteinum og öðrum skjölum eða upplýsingum sem varða umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
  5. Lögvernduð menntun: Hver sú menntun sem er sérstaklega sniðin að því að leggja stund á tiltekið starf og tekur til náms eða námskeiða sem fela jafnframt í sér, eftir því sem við á, faglegt nám, starf á reynslutíma eða starfsreynslu.
  6. Starfsreynsla: Raunveruleg og lögmæt stundun viðkomandi starfs í aðildarríki í fullu starfi eða í samsvarandi tíma í hlutastarfi.
  7. Aðlögunartími: Að leggja stund á lögverndað starf hér á landi á ábyrgð aðila sem viðurkenndur er hæfur í því starfi, auk hugsanlega frekari þjálfunar.
  8. Hæfnispróf: Prófun á þekkingu, leikni og hæfni umsækjanda, lagt fyrir af til þess bærum aðila hér á landi með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að leggja stund á lögverndað starf.
  9. Stjórnandi fyrirtækis: Einstaklingur í fyrirtæki sem hefur starfað sem stjórnandi fyrirtækisins eða útibús þess eða verið staðgengill eiganda eða stjórnanda fyrirtækisins þegar stöðunni fylgir ábyrgð sem samsvarar ábyrgð eigandans eða stjórnandans. Hann gæti enn fremur hafa gegnt stjórnunarstöðu sem felur í sér skyldustörf á sviði viðskipta og/eða tækni og ábyrgð á einni eða fleiri deildum fyrirtækisins.
  10. Fagleg starfsþjálfun: Faglegt starf á vinnustað sem fer fram undir leiðsögn sem er skilyrði fyrir aðgengi að lögvernduðu starfi og getur verið meðan á námi stendur eða að því loknu.
  11. Evrópskt fagskírteini: Rafrænt vottorð sem sannar annaðhvort að viðkomandi hefur uppfyllt nauðsynleg skilyrði til þess að veita þjónustu í gistiaðildarríki tímabundið og óreglulega eða viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis til þess að geta öðlast staðfesturétt í gistiaðildarríki.
  12. Ævinám: Öll almenn menntun, starfsmenntun og þjálfun, óformlegt og formlaust nám sem fer fram alla ævi og leiðir til aukinnar þekkingar, leikni og hæfni og getur tekið til siðareglna starfsgreinar.
  13. Brýnir almannahagsmunir: Hagsmunir sem eru viðurkenndir sem slíkir í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.
  14. Evrópskt viðurkenningarkerfi fyrir námseiningar eða ECTS-einingar: Einingakerfi fyrir æðri menntun sem notað er á evrópskum vettvangi æðri menntunar.
  15. Lögmæt staðfesta: Föst og varanleg starfsstöð aðila frá aðildarríki EES-samningsins sem skráð er samkvæmt reglum viðkomandi ríkis.

Vitnisburður um formlega menntun og hæfi sem gefinn er út af þriðja ríki skal skoðast sem staðfesting á formlegri menntun og hæfi ef handhafinn hefur þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi starfi á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem viðurkenndi vitnisburðinn í samræmi við 2. gr. og staðfest er af aðildarríkinu.

4. gr. Áhrif viðurkenningar.

Viðurkenning sem veitt er hér á landi gerir rétthafa kleift að fá aðgang að sama starfi og hann hefur gegnt í heimalandi sínu og að leggja stund á það með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Íslands.

Starf, sem umsækjandi óskar eftir að leggja stund á hér á landi, er hið sama og hann hefur gegnt í heimalandi sínu, ef starfsemin sem um ræðir er sambærileg.

Þrátt fyrir 1. mgr. skal veita takmarkaðan aðgang að starfsgrein hér á landi með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 10. gr.

5. gr. Útgáfa evrópsks fagskírteinis.

Evrópsk fagskírteini eru gefin út til handa fagmenntuðum einstaklingum er þess óska að því gefnu að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi samþykkt innleiðingargerðir fyrir viðkomandi starf. Evrópsk fagskírteini eru gefin út af heimaaðildarríki til handa einstaklingum er óska eftir að veita þjónustu í starfsgreinum þar sem ekki er gerð krafa um forathugun skv. 13. gr. Evrópsk fagskírteini eru gefin út af gistiaðildarríki til handa einstaklingum er vilja öðlast lögmæta staðfestu í því ríki eða bjóða fram þjónustu í störfum þar sem gerð er krafa um forathugun skv. 13. gr.

Evrópskt fagskírteini veitir ekki sjálfkrafa rétt til tiltekinna starfa ef gerðar voru sérstakar kröfur um skráningu eða annars konar takmarkanir voru til staðar áður en evrópskt fagskírteini var tekið upp fyrir viðkomandi starf.

6. gr. Rafræn umsókn um evrópskt fagskírteini.

Umsækjendur skulu geta sótt rafrænt um evrópskt fagskírteini í gegnum evrópskt upplýsingakerfi innri markaðarins (IMI). Við það er stofnuð sérstök skrá fyrir umsækjanda og skal hann leggja með öll tilskilin gögn vegna viðurkenningar. Innan viku frá því að umsókn er lögð fram skal lögbært stjórnvald staðfesta móttöku umsóknar og upplýsa um gögn sem kann að vanta með umsókn. Þar sem við á skulu lögbær stjórnvöld gefa út þau viðbótarskírteini sem krafist er samkvæmt tilskipuninni. Lögbært stjórnvald skal staðfesta hvort umsækjandi hafi lögmæta staðfestu í EES-ríki og hvort öll nauðsynleg gögn sem gefin hafa verið út séu gild og áreiðanleg. Ef til staðar er réttmætur vafi getur lögbært stjórnvald haft samráð við til þess bæra aðila og óskað eftir að umsækjandi leggi fram staðfest afrit gagna. Ef sami umsækjandi leggur fram fleiri umsóknir er lögbærum stjórnvöldum ekki heimilt að fara fram á endurframlagningu gagna sem liggja þegar fyrir í IMI-skránni og eru enn í gildi.

7. gr. Umsókn vegna tímabundinnar og óreglulegrar veitingar þjónustu.

Lögbært stjórnvald skal innan þriggja vikna sannprófa umsókn og meðfylgjandi gögn í IMI-skránni og gefa út evrópskt fagskírteini vegna tímabundinnar og óreglulegrar veitingar þjónustu í störfum þar sem ekki er gerð krafa um forathugun skv. 13. gr. Tímabilið hefst þegar einhver þau gögn hafa borist sem vantaði með umsókn eða ef engra viðbótargagna var krafist eftir að einnar viku fresturinn, sbr. 6. gr., er liðinn. Evrópska fagskírteinið er að því búnu fært til sérhvers lögbærs stjórnvalds sem málið varðar og jafngildir yfirlýsingu skv. 13. gr. Umsækjandi skal upplýstur um útgáfu evrópska fagskírteinisins. Lögbær stjórnvöld geta ekki farið fram á frekari yfirlýsingar næstu 18 mánuði.

Ákvörðun lögbærs stjórnvalds, eða hafi ákvörðun ekki verið tekin innan þriggja vikna, er kæranleg samkvæmt landslögum.

Ef handhafi evrópsks fagskírteinis óskar eftir að veita þjónustu í öðru aðildarríki en því sem fram kemur í upprunalegri umsókn getur hann farið fram á slíka útvíkkun. Ef handhafinn óskar eftir að veita þjónustu umfram 18 mánuðina sem um er getið hér að framan skal hann upplýsa hið lögbæra stjórnvald um það. Hann skal einnig leggja fram gögn um verulegar breytingar á þeirri stöðu sem IMI-skráin sýnir sem lögbær stjórnvöld kunna að krefjast. Lögbært stjórnvald skal færa uppfært evrópskt fagskírteini til viðkomandi gistiaðildarríkis.

Evrópska fagskírteinið skal gilda í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins svo lengi sem handhafi þess heldur rétti sínum til starfa á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem geymdar eru í IMI-skránni.

8. gr. Umsókn um evrópskt fagskírteini vegna staðfestu og tímabundinnar og óreglulegrar þjónustu er varðar öryggisstörf eða störf í heilbrigðisþjónustu.

Þegar sótt er um rétt til staðfestu eða til að veita þjónustu tímabundið og óreglulega í störfum þar sem krafa er gerð um forathugun skal lögbært stjórnvald innan mánaðar sannreyna að gögn í IMI-skránni séu gild og ósvikin til útgáfu evrópsks fagskírteinis. Það tímabil hefst þegar einhver þau gögn sem vantaði, sbr. 6. gr., hafa borist eða ef engra viðbótargagna var krafist eftir að einnar viku fresturinn er liðinn. Umsóknin um evrópska fagskírteinið er að því búnu færð til sérhvers lögbærs stjórnvalds sem málið varðar og skal umsækjandi upplýstur um það.

Fyrir störf sem njóta sjálfkrafa viðurkenningar skulu lögbær stjórnvöld ákveða hvort gefa á út evrópskt fagskírteini innan eins mánaðar frá viðtöku umsóknarinnar sem heimaaðildarríkið sendi. Ef fyrir liggur réttmætur vafi er lögbærum stjórnvöldum heimilt að fara fram á viðbótarupplýsingar, eða staðfest endurrit gagna, frá heimaaðildarríkinu sem ber að senda gögnin eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðnin barst.

Fyrir störf þar sem krafa er um forathugun eða krafist er uppbótarráðstafana ákveða stjórnvöld hvort gefa á út evrópskt fagskírteini eða umsækjanda er gert að sæta uppbótarráðstöfunum innan tveggja mánaða frá viðtöku umsóknarinnar sem heimaaðildarríkið sendi. Ef fyrir liggur réttmætur vafi er stjórnvöldum heimilt að fara fram á viðbótargögn eða staðfest endurrit gagna frá heimaaðildarríki sem skal senda gögnin eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðnin er lögð fram.

Ef lögbær stjórnvöld fá ekki nauðsynlegar upplýsingar geta þau synjað um útgáfu evrópsks fagskírteinis. Synjunin skal studd gildum rökum.

Ef lögbær stjórnvöld taka ekki ákvörðun innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í reglugerð þessari eða skipuleggja ekki hæfnispróf skal litið svo á að evrópskt fagskírteini hafi verið gefið út og skal senda það sjálfkrafa um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn til umsækjanda.

Lögbær stjórnvöld geta framlengt frestinn um tvær vikur vegna sjálfkrafa útgáfu evrópsks fagskírteinis. Þau skulu útskýra ástæðu framlengingarinnar og upplýsa umsækjandann um hana. Heimilt er að endurtaka slíka framlengingu í eitt skipti og aðeins þegar slíkt er mjög áríðandi, einkum af ástæðum sem varða lýðheilsu eða öryggi þeirra sem nýta þjónustuna. Útgáfa evrópsks fagskírteinis kemur í stað umsóknar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og eru ákvarðanir lögbærs stjórnvalds tengdar þeim kæranlegar til æðra stjórnvalds eða málið borið undir dómstóla.

9. gr. Vinnsla og aðgangur að gögnum er varða evrópska fagskírteinið.

Með fyrirvara um regluna um sakleysi uns sekt er sönnuð skulu lögbær stjórnvöld uppfæra tímanlega samsvarandi IMI-skrá með upplýsingum varðandi agaviðurlög eða refsiréttarleg viðurlög sem varða leyfissviptingu eða takmörkun á starfsréttindum og hafa afleiðingar fyrir handhafa evrópsks fagskírteinis. Gætt skal ákvæða laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Við uppfærslur skal jafnframt eyða upplýsingum sem engin þörf er fyrir lengur og skal upplýsa þegar í stað handhafa evrópsks fagskírteinis og viðkomandi lögbær stjórnvöld sem hafa aðgang að IMI-skrá um hvers kyns uppfærslur. Skyldan skal vera með fyrirvara um viðvörunarskyldu aðildarríkjanna skv. V. kafla.

Upplýsingar samkvæmt ofansögðu skulu eingöngu taka til:

  1. nafns viðkomandi fagmanns,
  2. starfsgreinar er um ræðir,
  3. upplýsinga um það stjórnvald eða dómstól sem tekið hefur ákvörðun um takmörkun eða sviptingu starfsleyfis,
  4. umfangs takmörkunar eða sviptingar starfsleyfis, og
  5. tímabils sem takmörkun eða svipting starfsleyfis gildir.

Aðeins lögbær stjórnvöld í heima- og gistiaðildarríki skulu hafa aðgang að upplýsingunum í IMI-skránni og skulu þau veita viðkomandi handhafa evrópsks fagskírteinis upplýsingar um innihald skrárinnar óski hann eftir því.

Upplýsingarnar á evrópska fagskírteininu skulu eingöngu ná til atriða sem nauðsynleg eru til þess að ganga úr skugga um rétt viðkomandi til þess að stunda það starf sem skírteinið gildir fyrir, svo sem nafns og föðurnafns handhafa, fæðingarstaðar og -dags, starfsgreinar, formlegrar prófgráðu, viðurkenningarkerfis, heitis lögbærs stjórnvalds, númers skírteinis, öryggisráðstafana og tilvísunar í gild persónuskilríki. Einnig skulu koma fram upplýsingar um starfsreynslu sem aflað hefur verið eða uppbótarráðstafanir sem handhafinn hefur staðist.

Varðveita má persónuupplýsingar í IMI-skránni eins lengi og þess er þörf vegna viðurkenningarferlisins. Handhafi evrópsks fagskírteinis skal eiga þess kost að fá leiðréttar rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um sig í skránni eða að skránni sé eytt. Handhafinn skal upplýstur um þennan rétt sinn þegar evrópska fagskírteinið er gefið út. Komi til þess að upplýsingum um umsækjendur um evrópskt fagskírteini sem gefið er út vegna staðfestu eða starfa þar sem krafist er forathugunar sé eytt skulu lögbær stjórnvöld gefa viðkomandi staðfestingu á að hann hafi hlotið viðurkenningu á faglegri menntun sinni og hæfi.

Komi fram beiðni um eyðingu IMI-skrár, er tengist evrópsku fagskírteini sem gefið er út í þeim tilgangi að koma á tímabundinni og óreglulegri þjónustu sem hefur áhrif á lýðheilsu og almannaöryggi skulu lögbær stjórnvöld í viðkomandi gistiríki gefa handhafa evrópsks fagskírteinis staðfestingu á að hann hafi hlotið viðurkenningu á faglegri menntun sinni og hæfi.

Lögbær stjórnvöld hér á landi skulu veita vinnuveitendum, viðskiptavinum, sjúklingum og öðrum sem málið varðar staðfestingu á réttmæti og gildi evrópskra fagskírteina sem umsækjendur leggja fram.

10. gr. Takmarkaður aðgangur.

Lögbært stjórnvald skal veita takmarkaðan aðgang, sem metið er í hverju tilviki fyrir sig, að starfsgrein, ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:

  1. að umsækjandi hafi full réttindi í heimaaðildarríkinu til að starfa við þá grein sem sótt er um takmarkaðan aðgang að,
  2. að svo mikill munur sé á þeirri starfsgrein í heimaaðildarríkinu og hér á landi að beiting uppbótarráðstafana jafngilti því að umsækjandinn þyrfti að ljúka fullu námi og þjálfun hér á landi til þess að fá óheftan aðgang að viðkomandi starfi,
  3. að hægt sé að aðskilja viðkomandi starfsemi frá annarri starfsemi sem fellur undir hið lögverndaða starf hér á landi.

Þegar reynir á ákvæði c-liðar hér að framan skal lögbært stjórnvald hér á landi meta hvort unnt er að stunda starfsemina sjálfstætt.

Heimilt er að synja um takmarkaðan aðgang ef unnt er að réttlæta það með tilvísun til almannahagsmuna. Um afgreiðslu umsókna um takmarkaðan aðgang fer samkvæmt viðeigandi ákvæðum reglugerðar þessarar.

Umsækjanda er heimilt að starfa undir því starfsheiti er hann bar í heimaaðildarríki sínu þegar takmarkaður aðgangur hefur verið veittur.

Þessi grein á ekki við um umsækjendur sem njóta góðs af sjálfkrafa viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis.

II. KAFLI Frelsi til að veita þjónustu.

11. gr. Þjónustuveitendur.

Ekki er heimilt að takmarka frjálsa þjónustustarfsemi hér á landi og bera við skorti á faglegri menntun og hæfi umsækjanda, nema slíkt leiði af ákvæðum 4. og 5. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, fyrirmælum reglugerðar þessarar og tilskipuninni.

Þegar þjónustuveitandi flytur til Íslands skal hann fylgja þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfið er varða faglega menntun og hæfi með beinum hætti. Hér er átt við skilgreiningu á starfinu, notkun á starfsheitum og ákvæðum um alvarlega vanrækslu í starfi, sem beinlínis hafa verið sett til verndar neytendum. Hann er einnig bundinn af ákvæðum um viðurlög sem gilda gagnvart fagstéttum hér á landi.

12. gr. Undanþágur.

Þjónustuveitendur frá öðrum EES-ríkjum eru undanþegnir kröfum sem gerðar eru til innlendra sérfræðinga og varða:

  1. starfsleyfi frá, skráningu hjá eða aðild að fagsamtökum eða sérfræðistofnun,
  2. skráningu hjá Sjúkratryggingum Íslands í þeim tilgangi að gera upp reikninga hjá vátryggjanda vegna starfsemi tryggðra aðila.

Þjónustuveitandi skal þó gera stofnuninni fyrir fram grein fyrir þeirri þjónustu sem hann veitir, eða eftir á, sé um neyðartilfelli að ræða.

13. gr. Yfirlýsing gefin fyrirfram ef þjónustuveitandi flytur.

Þjónustuveitandi, sem starfar skv. 4. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, skal nota starfsheiti heimalands síns ef unnt er þegar þjónusta er veitt. Starfsheitið skal tilgreint á opinberu tungumáli eða einu af opinberu tungumálum heimalandsins þannig að komist verði hjá ruglingshættu við starfsheitið hérlendis. Ef slíkt starfsheiti er ekki til skal þjónustuveitandinn tilgreina formlega menntun sína og hæfi. Í undantekningartilvikum skal þjónustan veitt undir því starfsheiti sem notað er hér á landi.

Í fyrsta sinn sem þjónusta er veitt á sviði sem fellur innan lögverndaðs starfs, sem snertir lýðheilsu og almannaöryggi og nýtur ekki sjálfkrafa viðurkenningar getur lögbært stjórnvald hér á landi kannað faglega menntun og hæfi þjónustuveitandans áður en þjónusta er veitt. Slík forathugun er aðeins leyfileg þegar tilgangur athugunarinnar er að koma í veg fyrir að heilsa eða öryggi þjónustuþega bíði alvarlegan hnekki vegna ófullnægjandi starfsmenntunar og hæfis þjónustuveitandans og hún gengur ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni.

Lögbært stjórnvald skal leitast við að láta þjónustuveitanda vita hvort til standi að kanna menntun hans og hæfi eða um niðurstöðu úr slíkri athugun, þar með talið hvort honum verði gert að gangast undir hæfnispróf eða hvort veiting þjónustu verði heimiluð. Skal hann upplýstur um þetta eigi síðar en mánuði eftir viðtöku yfirlýsingarinnar og meðfylgjandi skjala. Komi upp vandkvæði sem gætu leitt til tafar skal lögbæra stjórnvaldið tilkynna þjónustuveitanda um ástæður tafarinnar innan fyrsta mánaðar og jafnframt hvenær ákvörðunar er að vænta. Ákvörðun skal þó lögð fram fyrir lok annars mánaðar eftir viðtöku allra skjala.

Þegar mikill munur er á faglegri menntun og hæfi þjónustuveitandans og þeirri menntun sem krafist er hér á landi, að því marki að hann geti verið skaðlegur lýðheilsu og almannaöryggi, og umsækjandi geti ekki talist hafa bætt sér upp mismuninn með faglegri starfsreynslu eða með þekkingu, leikni og hæfni sem aflað er í ævinámi sem formlega hefur verið staðfest af til þess hæfum aðila, skal þjónustuveitandanum gefið tækifæri til að sýna, einkum með hæfnisprófi, að hann hafi aflað sér þeirrar þekkingar eða hæfni sem á skortir. Undir öllum kringumstæðum verður að vera mögulegt að veita þjónustuna innan mánaðar frá því að ákvörðun er tekin í samræmi við fyrri undirgrein.

Komi engin viðbrögð frá lögbæra stjórnvaldinu innan þess frests sem vísað er til í fyrri undirgreinum er heimilt að veita þjónustuna. Í þeim tilvikum þegar búið er að staðfesta menntun og hæfi samkvæmt þessari málsgrein skal þjónustan veitt undir því starfsheiti sem er notað hér á landi.

14. gr. Samvinna stjórnvalda.

Lögbær stjórnvöld hér á landi geta, í hvert sinn sem þjónusta er boðin, beðið lögbær stjórnvöld heimalands umsækjanda um að láta í té hvers kyns upplýsingar um lögmæti staðfestu þjónustuveitandans og góða starfshætti hans, sem og upplýsingar um að hann hafi ekki sætt agaviðurlögum eða refsiréttarlegum viðurlögum.

Lögbærum stjórnvöldum ber að tryggja að skipst sé á öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að fylgja kvörtunum þjónustuþega vegna þjónustuveitanda eftir með réttum hætti. Greina skal þjónustuþega frá niðurstöðum kvörtunarinnar.

15. gr. Upplýsingar sem ber að veita þjónustuþegum.

Ef þjónusta er veitt undir því starfsheiti sem notað er í öðru EES-ríki eða á grundvelli formlegrar menntunar og hæfis þjónustuveitandans geta lögbær stjórnvöld hér á landi krafist þess að þjónustuveitandinn láti þjónustuþega í té upplýsingar um eftirfarandi:

  1. ef þjónustuveitandi er skráður í viðskiptaskrá eða aðra opinbera skrá, hvaða skrá hann er skráður í, skráningarnúmer hans eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá,
  2. ef starfsemin er háð starfsleyfi í öðru EES-ríki, nafn og heimilisfang lögbærs eftirlitsstjórnvalds,
  3. þau fagfélög eða sambærilega aðila sem þjónustuveitandinn er skráður hjá,
  4. starfsheiti eða, ef starfsheiti er ekki fyrir hendi, vitnisburð um formlega menntun og hæfi þjónustuveitanda og aðildarríkið sem gaf hann út,
  5. upplýsingar um vátryggingavernd eða aðra persónulega eða sameiginlega vernd fyrir starfsmenn með tilliti til starfsábyrgðar.

III. KAFLI Almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám.

16. gr. Þrepaskipting menntunar og hæfis.

Við meðferð umsókna um viðurkenningu á menntun og hæfi, sbr. 18. gr. og 9. mgr. 19. gr., skal stuðst við eftirfarandi flokkun:

  1. hæfnisvottorð gefið út á grundvelli:

    1. annaðhvort náms sem fellur ekki undir vottorð eða prófskírteini í skilningi b-, c-, d- eða e-liðar eða sérstaks prófs án undangengins náms eða að umsækjandi hafi verið í fullu starfi í þrjú ár eða í samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum eða
    2. almenns grunnskóla- eða framhaldsskólanáms, sem staðfestir að handhafi hafi öðlast almenna þekkingu,
  2. vottorð sem staðfestir að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt námi á framhaldsskólastigi:

    1. annaðhvort almennu námi, þar sem við bætist nám eða faglegt nám annað en það sem um getur í c-lið, og/eða starfi á reynslutíma eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar því námi eða
    2. tæknilegu eða faglegu námi, þar sem bætist við, ef við á, nám eða faglegt nám sem um getur í næsta tölulið á undan og/eða starfi á reynslutíma eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar því námi,
  3. prófskírteini sem vottar að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt:

    1. 1. annaðhvort eins árs námi eftir framhaldsskólastigið, öðru en því sem um getur í d- og e-lið, eða samsvarandi tíma í hlutanámi, þar sem eitt inntökuskilyrðið er að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun eða að lokið hafi verið samsvarandi námi á öðru stigi í framhaldsskóla, auk faglega námsins sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið eða
    2. 2. lögverndaðri menntun og þjálfun eða, þegar um lögverndað starf er að ræða, námi sem er byggt upp á sérstakan hátt þar sem stefnt er á hæfni sem gengur lengra en á stigi b, á samsvarandi námsstigi og kveðið er á um í næsta tölulið á undan sem tryggir sambærileg fagleg gæði og undirbýr nemann undir sambærilega ábyrgð og verkefni,
  4. prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. þriggja en mest fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi tíma í hlutanámi, sem að auki má gefa upp í samsvarandi fjölda ECTS-eininga, við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama skólastigi og hafi, eftir atvikum, lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið,
  5. prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi hlutanámi, sem að auki má gefa upp í samsvarandi fjölda ECTS-eininga, við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama stigi og hafi, eftir atvikum, lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið.

17. gr. Jöfn staða prófskírteina.

Litið skal á faglega menntun og hæfi sem veitir handhafa áunnin réttindi þó svo hann uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru í gildandi lögum, eða stjórnsýslufyrirmælum, aðildarríkis fyrir því að fá aðild að, eða stunda starfsgrein, sem vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt sömu skilyrðum og segir í 1. mgr. þessarar greinar.

Litið skal á faglega menntun og hæfi sem veitir handhafa áunnin réttindi þó svo hann uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru í gildandi lögum, eða stjórnsýslufyrirmælum, aðildarríkis fyrir því að fá aðild að, eða stunda starfsgrein, sem vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt sömu skilyrðum og segir í 1. mgr. Þetta á einkum við ef viðkomandi ríki eykur kröfur um menntun vegna aðgangs að og iðkunar starfs og ef einstaklingur, sem hefur áður lokið námi sem uppfyllir ekki nýju skilyrðin um menntun og hæfi, getur nýtt sér áunnin réttindi á grundvelli laga eða stjórnsýslufyrirmæla í aðildarríkinu. Í því tilviki er fyrra nám metið sambærilegt nýja námsþrepinu við mat á því hvort skilyrði 18. gr. séu uppfyllt.

18. gr. Skilyrði fyrir viðurkenningu.

Ef réttur til að starfa á sviði lögverndaðs starfs hér á landi er háður skilyrðum um sérstaka faglega menntun og hæfi skal lögbært stjórnvald veita þeim heimild til að starfa á þeim vettvangi, sem hefur undir höndum hæfnisvottorð eða vitnisburð um þá formlegu menntun og hæfi sem krafist er og vísað er til í 16. gr.

Hæfnisvottorð eða vitnisburður um formlega menntun og hæfi skulu gefin út af lögbæru stjórnvaldi í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss, sem starfa á grundvelli laga, reglugerða og annarra stjórnsýslufyrirmæla viðkomandi ríkis.

Einnig skal veita umsækjendum, sem hafa stundað þá starfsemi sem um getur í 1. mgr. í eitt ár í fullu starfi eða samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum 10 árum í öðru aðildarríki sem lögverndar ekki þá starfsgrein, heimild til að stunda þá starfsemi sem lýst er í þeirri málsgrein. Áskilið er að þeir hafi undir höndum eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburði um formlega menntun og hæfi.

Hæfnisvottorð eða vitnisburður um formlega menntun og hæfi skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. þau eru gefin út af lögbæru stjórnvaldi í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss, sem starfa á grundvelli laga, reglugerða og annarra stjórnsýslufyrirmæla viðkomandi ríkis,
  2. þau staðfesta að handhafi hafi hlotið undirbúning til þess að gegna viðkomandi starfi.

Ekki er heimilt að krefjast eins árs starfsreynslu þegar vitnisburður umsækjanda um formlega menntun og hæfi vottar lögverndaða menntun.

Stjórnvöld hér á landi skulu taka gilt það menntunarþrep sem vísað er til í 16. gr. af heimaaðildarríki sem og að það prófskírteini sem heimaaðildarríki vottar sem lögverndaða menntun með sérstakri uppbyggingu og vísað er til í lið c. 2 í 16. gr. sé jafngilt menntunarþrepi sem vísað er til í lið c. 1 í sömu grein.

Þrátt fyrir framangreint geta lögbær stjórnvöld hafnað beiðni um aðgang að og iðkun starfs handhöfum hæfnisvottorða sem falla undir lið a í 16. gr. þegar kröfur um menntun sem krafist er til iðkunar viðkomandi starfs falla undir lið e í 16. gr.

19. gr. Uppbótarráðstafanir.

Ákvæði 18. gr. koma ekki í veg fyrir að lögbærum stjórnvöldum sé heimilt að krefjast þess að umsækjandi ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma eða taki hæfnispróf ef:

  1. námið sem hann hefur stundað er að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess sem sá vitnisburður um formlega menntun og hæfi, sem krafist er hér á landi, tekur til,
  2. starfið sem er lögverndað á Íslandi nær til einnar eða fleiri tegunda lögverndaðrar atvinnustarfsemi sem er ekki að finna í samsvarandi starfi í heimalandi umsækjanda og sá munur birtist í sérstöku námi sem krafist er hér og er að inntaki verulega frábrugðið námi umsækjanda.

Umsækjanda skal veittur réttur til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

Þrátt fyrir meginregluna um rétt umsækjanda til að velja, eins og mælt er fyrir um í 2. mgr., getur lögbært stjórnvald kveðið á um annaðhvort aðlögunartíma eða hæfnispróf ef um er að ræða störf þar sem nákvæm þekking á landslögum er nauðsynleg og þar sem ráðgjöf eða aðstoð í tengslum við landslög er mikilvægur og stöðugur þáttur atvinnustarfseminnar.

Þegar sótt er um viðurkenningu til starfa í löggiltum iðngreinum má krefjast þess að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða gangist undir hæfnispróf ef hann hyggst stunda slíka atvinnustarfsemi á eigin vegum eða sem stjórnandi fyrirtækis þar sem krafist er þekkingar og beitingar á sértækum landsbundnum, gildandi reglum. Þetta gildir því aðeins að þegar lögbær stjórnvöld hér á landi veita eigin ríkisborgurum aðgang að slíkri starfsemi sé krafist þekkingar á og beitingar þessara reglna.

Þrátt fyrir meginregluna um val umsækjanda milli aðlögunartíma eða hæfnisprófs getur lögbært stjórnvald tekið ákvörðun um slíkar uppbótarráðstafanir ef:

  1. handhafi prófskírteinis sem vísað er til í a-lið 16. gr. sækir um að gegna starfi þar sem krafist er prófskírteinis samkvæmt c-lið 16. gr. hér á landi, eða
  2. handhafi prófskírteinis sem vísað er til í b-lið 16. gr. sækir um að gegna starfi þar sem krafist er prófskírteinis samkvæmt d- eða e-lið 16. gr.

Í þeim tilvikum að umsækjandi sem er handhafi prófskírteinis sem vísað er til í a-lið 16. gr. sækir um að gegna starfi þar sem krafist er prófskírteinis samkvæmt d-lið sömu greinar geta lögbær stjórnvöld sett skilyrði um bæði aðlögunartíma og hæfnispróf.

Að því er varðar beitingu a- og b-liðar 1. mgr. er með "verulega frábrugðnu inntaki" vísað til þekkingar, leikni og hæfni sem hefur grundvallarþýðingu í starfi og að verulegur munur er á inntaki náms umsækjanda og því námi sem krafist er hér á landi með tilliti til þessa.

Gætt skal meðalhófs við beitingu 1. mgr. þessarar greinar. Áður en þess er krafist að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða taki hæfnispróf verður hlutaðeigandi stjórnvald að staðfesta hvort sú þekking, leikni og hæfni sem umsækjandi hefur aflað sér með starfsreynslu sinni í aðildarríki eða í þriðja landi eða með ævinámi sé þess eðlis að það nái fyllilega eða að hluta til yfir þann verulega mismun sem um getur í 1. mgr.

Ákvörðun um að setja skilyrði um aðlögunartíma eða hæfnispróf skal rökstudd. Einkum skal upplýsa umsækjanda um:

  1. menntunarþrep prófskírteinis sem krafist er til viðkomandi starfs hér á landi og menntunarþrep þess prófskírteinis sem umsækjandi leggur fram með umsókn,
  2. þann umtalsverða mun sem vísað er til í 1. mgr. og ástæður þess að muninn er ekki hægt að bæta upp með þekkingu, leikni og hæfni sem aflað hefur verið með starfsreynslu eða í ævinámi sem staðfest hefur verið af til þess hæfum aðila.

Tryggt skal að umsækjandinn hafi möguleika á að þreyta hæfnispróf það sem vísað er til í 1. mgr. innan sex mánaða frá því að ákvörðun um hæfnispróf lá fyrir.

IV. KAFLI Málsmeðferð o.fl.

20. gr. Frestir til afgreiðslu umsóknar og málsmeðferð.

Lögbært stjórnvald skal staðfesta viðtöku umsóknar innan eins mánaðar frá því að hún berst og láta umsækjanda vita ef skjöl vantar. Ef vafi leikur á öryggi eða trúverðugleika gagna er lögbæru stjórnvaldi heimilt að kalla eftir staðfestingu lögbærs stjórnvalds í heimalandi umsækjanda á áreiðanleika gagnanna. Ef fyrir liggur réttmætur vafi getur lögbært stjórnvald óskað eftir staðfestingu á því frá lögbæru stjórnvaldi í upprunaríki að umsækjandi hafi ekki misst starfsleyfi sitt eða verið bannað að iðka starf sitt vegna ávirðinga í starfi eða vegna dóms fyrir glæpsamlegt athæfi er tengist starfinu. Lögbært stjórnvald getur óskað eftir áliti til þess bærs fagaðila á þeim gögnum sem fylgja með umsókn sem lögð eru fram með umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

Afgreiða skal umsókn svo skjótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir þann dag sem fullgerð umsókn umsækjanda var lögð fram. Heimilt er að framlengja frest til afgreiðslu umsóknar um einn mánuð þegar fjallað er um viðurkenningu á vitnisburði um nám og starfsreynslu.

Um málsmeðferð að öðru leyti, þ. á m. um heimild til þess að kæra ákvörðun eða drátt á ákvörðun, fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

21. gr. Notkun starfsheita.

Ef notkun starfsheitis sem tengist starfi er lögverndað hér á landi skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja, sem hafa heimild til að leggja stund á lögverndað starf hér á landi, nota starfsheiti þess starfs og mögulega skammstöfun.

22. gr. Tungumálakunnátta.

Einstaklingar, sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, skulu búa yfir þeirri tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfið á Íslandi. Athugun á tungumálakunnáttu er heimil ef starfsgreinin sem um ræðir varðar lýðheilsu, öryggi sjúklinga og uppeldi og menntun ólögráða einstaklinga og ef verulegur og hlutlægur vafi leikur á hvort kunnátta starfsmanns í tungumálinu sé nægjanleg til þeirra starfa sem hann hyggst sinna. Athugun getur aðeins farið fram eftir útgáfu evrópsks fagskírteinis skv. 8. gr. eða eftir að viðurkenning hefur verið veitt. Könnun á tungumálakunnáttu skal miðast við það starf sem sótt er um að iðka og er ákvörðun um slíka könnun kæranleg til dómstóla.

23. gr. Notkun námstitla.

Fagmenntuðum einstaklingum erlendis frá er heimilt að nota námstitla sem þeir hafa hlotið í heimalandinu og skammstafanir þeirra á tungumáli heimalandsins. Heimilt er að krefjast þess að námstitli frá heimalandinu fylgi upplýsingar um heiti og heimilisfang stofnunarinnar eða prófanefndarinnar sem veitti hann. Ef líklegt má telja að námstitli verði ruglað saman við námstitil hér á landi, sem krefst viðbótarnáms hér sem viðkomandi einstaklingur hefur ekki lokið, er heimilt að krefjast þess að hann noti námstitil heimalandsins á viðeigandi formi.

24. gr. Viðurkenning starfsþjálfunartíma.

Ef aðgengi að lögverndaðri starfsgrein hér á landi er háð því að viðkomandi hafi lokið tilskildu vinnustaðanámi eða starfsþjálfun skulu lögbær stjórnvöld hér á landi viðurkenna starfsþjálfun sem farið hefur fram í öðru EES-ríki eða Sviss að því gefnu að starfsþjálfunin sé í samræmi við landsreglur eða námskrár í viðkomandi ríki. Einnig skal tekið tillit til starfsþjálfunar sem farið hefur fram í þriðja landi. Lögbært stjórnvald getur sett reglur um hámarkslengd starfsþjálfunar sem afla má erlendis.

Viðurkenning starfsþjálfunartíma kemur ekki í veg fyrir að fylgt sé kröfum um að menn standist lokapróf til þess að fá aðgang að viðkomandi starfi hér á landi.

Lögbær stjórnvöld skulu birta leiðbeiningar um skipulag og viðurkenningu starfsþjálfunar sem farið hefur fram í öðru ríki og geta sett hámark á þann tíma sem unnt er að viðurkenna.

V. KAFLI Samvinna stjórnvalda og fyrirkomulag viðvarana.

25. gr. Samvinna stjórnvalda.

Lögbær stjórnvöld í gisti- og heimaaðildarríki skulu hafa náið samráð og veita gagnkvæma aðstoð til að auðvelda beitingu tilskipunarinnar. Þau skulu tryggja að farið sé með upplýsingar sem þau skiptast á sem trúnaðarmál.

Lögbær stjórnvöld skulu skiptast á upplýsingum að því er varðar viðurlög og refsiaðgerðir eða aðrar alvarlegar, sérstakar aðstæður sem eru líklegar til að hafa áhrif á iðkun starfa. Stjórnvöld skulu virða ákvæði laga um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.

Lögbær stjórnvöld skulu nota upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI) hvað varðar 1. og 2. mgr.

26. gr. Fyrirkomulag varðandi viðvaranir.

Lögbær stjórnvöld hér á landi skulu tilkynna lögbærum stjórnvöldum allra EES-ríkja þegar stjórnvald eða dómstólar hafa takmarkað eða svipt fagmenntaðan starfsmann starfsleyfi, í heild eða að hluta, svo og tímabundið, í störfum í öryggisþjónustu, heilbrigðisgreinum og störfum sem tengjast uppeldi og menntun ólögráða einstaklinga, þar með talið í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Lögbær stjórnvöld skulu senda upplýsingar skv. 1. mgr. um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI) eigi síðar en þremur dögum eftir þann dag þegar ákvörðun var tekin um að takmarka eða svipta viðkomandi starfsmann starfsleyfi í heild eða að hluta. Takmarka skal þessar upplýsingar við eftirfarandi:

  1. nafn starfsmanns,
  2. starfsgrein,
  3. upplýsingar um innlent stjórnvald eða dómstól sem tók ákvörðun um takmörkun eða sviptingu,
  4. umfang takmörkunar eða sviptingar,
  5. gildistíma takmörkunar eða sviptingar.

Lögbær stjórnvöld skulu upplýsa lögbær stjórnvöld í öllum EES-ríkjum og með viðvörun um upplýsingakerfið fyrir innri markaðinn (IMI), eigi síðar en þremur dögum eftir ákvörðun dómstólsins, um þá starfsmenn sem hafa sótt um viðurkenningu á menntun og hæfi og sem síðar hafa orðið uppvísir að því fyrir dómstólum að hafa notað falsaðan vitnisburð um faglega menntun og hæfi í því samhengi.

Lögbær stjórnvöld skulu þegar í stað upplýsa lögbær stjórnvöld í EES-ríkjunum um það þegar takmörkun eða svipting starfsréttinda er felld úr gildi, og frá og með hvaða dagsetningu.

Vinna má gögn vegna viðvarana innan upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn (IMI) á gildistíma þeirra. Viðvörun skal eytt úr upplýsingakerfinu fyrir innri markaðinn innan þriggja daga frá því að ákvörðun um afturköllun var samþykkt eða frá því að svipting eða takmörkun starfsleyfis rann úr gildi.

Lögbær stjórnvöld skulu upplýsa þann er sætt hefur leyfissviptingu skriflega þegar ákvörðun um viðvörun um hann er send, ásamt viðvöruninni sjálfri. Ákvörðun stjórnvalds er kæranleg til ráðherra. Um málsmeðferð slíkra mála hér á landi fer skv. stjórnsýslulögum.

Um vinnslu persónuupplýsinga vegna upplýsinga skv. 1. og 3. mgr. skal fara samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

27. gr. Rafrænar upplýsingar.

Einstaklingum skal tryggt aðgengi að rafrænum upplýsingum á íslensku og ensku um lögvernduð störf hér á landi og um menntunarkröfur til þeirra í samræmi við II. kafla laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins eftir því sem við getur átt. Við ákvörðun um umfang þeirra upplýsinga skal höfð hliðsjón af ákvæðum 57. gr. tilskipunarinnar.

Umsækjendum um viðurkenningu faglegrar menntunar skal gert kleift að senda umsókn sína ásamt fylgigögnum rafrænt og að unnt sé að ljúka allri formlegri vinnu við umsókn rafrænt.

28. gr. Upplýsingamiðstöð.

ENIC-NARIC skrifstofunni er falið að veita þegnum er til hennar leita upplýsingar og leiðbeiningar er varða viðurkenningu á faglegri menntun. Hún hefur einnig með höndum upplýsingagjöf til hliðstæðra miðstöðva í öðrum EES-ríkjum eða Sviss þegar eftir slíku er leitað.

28. gr. a Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/983 frá 24. júní 2015, eins og henni var breytt með framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2020/1190 frá 11. ágúst 2020, um málsmeðferð við útgáfu evrópska fagskírteinisins og beitingu viðvörunarkerfisins samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB.

Jafnframt er innleidd með reglugerð þessari framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/907 frá 14. mars 2019, eins og henni var breytt með framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/865 frá 23. febrúar 2023, um að koma á fót sameiginlegu námsprófi fyrir skíðakennara skv. 49. gr. b í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

Einnig er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/958 frá 28. júní 2018 um meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina sem tekin var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 243/2021 hinn 24. september 2021.

29. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 9. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010 og öðlast þegar gildi.

Jafnframt falla brott reglugerð nr. 879/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi og reglugerð nr. 461/2011 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.