Fara beint í efnið

Prentað þann 1. des. 2021

Stofnreglugerð

466/2021

Reglugerð um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum.

1. gr. Almenn ákvæði.

Með reglugerð þessari er komið á ramma fyrir markvissar þvingunaraðgerðir til þess að bregðast við alvarlegum mannréttindabrotum á heimsvísu.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja ákvörðunum sem íslensk stjórnvöld hafa tekið um þvingunaraðgerðir, á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, eftir því sem við á.

Í þeim gerðum sem vitnað er til í 10. gr., og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar, kemur fram um hvaða ákvarðanir og reglugerðir Evrópusambandsins er að ræða, hverjar þær þvingunaraðgerðir eru sem koma eiga til framkvæmda og gegn hverjum þær beinast, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.

2. gr. Orðskýringar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. "krafa": hvers kyns krafa, hvort sem henni er haldið fram í dómsmáli eða ekki, sem er gerð fyrir eða eftir þann dag þegar reglugerð þessi öðlast gildi og er samkvæmt eða tengist samningi eða viðskiptum og einkum:

  1. krafa um efndir skuldbindinga sem leiðir af eða tengjast samningi eða viðskiptum,
  2. krafa um framlengingu eða greiðslu skuldabréfs, fjárhagslegrar tryggingar eða skaðleysisbóta í hvaða mynd sem er,
  3. bótakrafa í tengslum við samning eða viðskipti,
  4. gagnkrafa,
  5. krafa um viðurkenningu eða fullnustu, m.a. með exequatur, dóms, úrskurðar gerðardóms eða jafngildrar ákvörðunar, óháð því hvar hann eða hún er kveðin upp eða tekin,
 2. "samningur eða viðskipti": hvers kyns viðskipti, óháð því hvaða lög gilda um þau, hvort sem um er að ræða einn samning eða fleiri eða ámóta skuldbindingar sem sömu eða mismunandi aðilar ganga frá sín á milli; í þessu sambandi felst í hugtakinu "samningur" skuldabréf, ábyrgð eða skaðleysistrygging, einkum fjárhagsleg trygging eða fjárhagsleg skaðleysistrygging, og lán, hvort sem þau eru lagalega óháð eður ei, einnig tengd ákvæði sem verða til vegna viðskiptanna eða í tengslum við þau,
 3. "efnahagslegur auður": eignir af hvers kyns toga, hvort heldur efnislegar eða óefnislegar, lausafé eða fasteignir, sem eru ekki fjármunir, en unnt er að nota til að afla sér fjármuna, vöru eða þjónustu,
 4. "frysting efnahagslegs auðs": að koma í veg fyrir hvers konar nýtingu efnahagslegs auðs í því skyni að afla fjármuna, vöru eða þjónustu, þ.m.t., en þó ekki eingöngu, með sölu, leigu eða veðsetningu hans,
 5. "frysting fjármuna": að koma í veg fyrir hvers konar flutning, yfirfærslu, breytingu, notkun á, aðgang að eða viðskipti með fjármuni á einhvern hátt sem myndi leiða til breytinga á umfangi þeirra, fjárhæð, staðsetningu, eignarrétti, eignarhaldi, eðli, áfangastað eða annarra breytinga sem gera notkun fjármuna mögulega, þ.m.t. stýring eignasafns,
 6. "fjármunir": hvers konar fjáreignir og ágóði, þ.m.t. en þó ekki eingöngu:

  1. reiðufé, ávísanir, peningakröfur, víxlar, póstávísanir og aðrir greiðslugerningar,
  2. inneignir hjá fjármálastofnunum eða öðrum rekstrareiningum, inneignir á reikningum, skuldir og fjárskuldbindingar,
  3. verðbréf eða skuldaskjöl, sem viðskipti eru með á almennum markaði og utan hans, þ.m.t. hlutabréf og eignarhlutir, skírteini fyrir verðbréfum, skuldabréf, skuldaviðurkenningar, ábyrgðir, óveðtryggð skuldabréf og afleiðusamningar,
  4. vextir, arðgreiðslur eða aðrar tekjur eða verðmæti sem safnast upp vegna eigna eða myndast af eignum,
  5. lánsviðskipti, réttur til skuldajöfnunar, tryggingar, fullnustuábyrgðir eða aðrar fjárskuldbindingar,
  6. bankaábyrgðir, farmbréf, sölureikningar,
  7. skjöl sem færa sönnur á hlutdeild í fjármunum eða fjármagni.

3. gr. Alvarleg mannréttindabrot.

Þvingunaraðgerðir á grundvelli þessarar reglugerðar eru lagðar á vegna eftirfarandi alvarlegra mannréttindabrota:

 1. þjóðarmorð,
 2. glæpi gegn mannúð,
 3. eftirtalin alvarleg brot á mannréttindum:

  1. pyndingar og önnur grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi meðferð eða refsing,
  2. þrælahald,
  3. aftökur og manndráp, án dóms og laga, skyndilegar eða tilviljanakenndar,
  4. þvinguð mannshvörf,
  5. tilviljanakenndar handtökur eða varðhald,
 4. önnur mannréttindabrot, þar með talið en ekki einvörðungu eftirfarandi, að svo miklu leyti sem þessi brot eru útbreidd, kerfisbundin eða veki á annan hátt alvarlegar áhyggjur:

  1. mansal, ásamt mannréttindabrotum smyglara með farandfólk eins og um getur í þessari grein,
  2. kynferðislegt og kynbundið ofbeldi,
  3. brot gegn frelsi til að koma saman með friðsömum hætti og félagafrelsi,
  4. brot gegn skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi,
  5. brot gegn trúfrelsi eða trúarsannfæringu.

Að því er varðar beitingu 1. mgr. verður tekið tillit til hefðbundinna meginreglna þjóðaréttar og alþjóðlegra mannréttindasamninga, svo sem, alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sáttmálans um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð, samningsins gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, alþjóðasamningsins um vernd allra manna gegn mannshvörfum af mannavöldum, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, bókunarinnar um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna, sem er viðbót við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi, Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn og Evrópusáttmálans um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

Við beitingu þessarar reglugerðar geta einstaklingar, lögaðilar, rekstrareiningar og stofnanir verið:

 1. aðilar sem sækja vald sitt til ríkis,
 2. aðrir aðilar sem beita skilvirku eftirliti eða valdi yfir yfirráðasvæði,
 3. aðrir aðilar óháðir ríki, að teknu tilliti til alvarleika og áhrifa þeirra mannréttindabrota sem um ræðir.

4. gr. Frysting fjármuna.

Í viðauka við gerðir sbr. 10. gr. eru innleiddir listar yfir:

 1. einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem bera ábyrgð á athæfi sem sett er fram í 1. mgr. 3. gr.,
 2. einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem veita fjárhagslegan, tæknilegan eða efnislegan stuðning til eða koma á annan hátt að athæfi sem sett er fram í 1. mgr. 3. gr., þ.m.t. með því að skipuleggja, stjórna, fyrirskipa, aðstoða, undirbúa, greiða fyrir eða hvetja til slíks athæfis,
 3. einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnanir sem tengjast einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem falla undir a- og b-lið.

Frysta skal alla fjármuni og efnahagslegan auð sem tilheyra, eru í eigu, í vörslu eða undir stjórn einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar er um getur á lista í viðauka við gerðir sbr. 10. gr.

Engir fjármunir eða efnahagslegur auður skal gerður aðgengilegur einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum, sem tilgreind eru á lista í viðaukum við gerðir sbr. 10. gr., með beinum eða óbeinum hætti.

5. gr. Undanþágur vegna frystingar fjármuna.

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. getur ráðherra heimilað að frystingu sé aflétt er varðar tiltekna frysta fjármuni eða efnahagslegan auð eða að tilteknir fjármunir eða efnahagslegur auður verði gerður aðgengilegur, samkvæmt þeim skilyrðum sem talin eru viðeigandi, eftir að hafa gengið úr skugga um að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður sé:

 1. nauðsynlegur til að uppfylla grunnþarfir þeirra einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana, sem eru á lista í viðaukum við gerðir sbr. 10. gr., og aðstandenda á framfæri einstaklinganna, þ.m.t. greiðslur vegna matarkaupa, leigu eða veðlána, lyfja og læknismeðferðar, skattheimtu, iðgjalda og opinberra þjónustugjalda,
 2. eingöngu ætlaður til að greiða hæfilega þóknun fyrir sérfræðistörf og til að standa straum af útgjöldum vegna veittrar lögfræðiþjónustu,
 3. eingöngu ætlaður til að greiða þóknanir eða þjónustugjöld fyrir venjubundna vörslu eða umsýslu frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs,
 4. nauðsynlegur vegna óreglulegra útgjalda, eða
 5. til þess að greiða inn á eða út af reikningi sendi- eða ræðisskrifstofu eða alþjóðastofnunar, sem nýtur friðhelgi að þjóðarétti, að því leyti sem slíkar greiðslur eru ætlaðar til nota í opinberum tilgangi af hálfu viðkomandi sendi- eða ræðisskrifstofu eða alþjóðastofnunar.

Þrátt fyrir 4. gr. getur ráðherra heimilað að frystingu sé aflétt er varðar tiltekna frysta fjármuni eða efnahagslegan auð eða að tilteknir frystir fjármunir eða efnahagslegur auður verði gerður aðgengilegur samkvæmt þeim skilyrðum sem talin eru viðeigandi, eftir að hafa gengið úr skugga um að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður sé nauðsynlegur í mannúðarskyni, s.s. til að veita, eða greiða fyrir því að veitt sé, aðstoð, þ.m.t. sjúkragögn, matvæli, eða flutningur starfsmanna hjálparstofnana og tengd aðstoð eða brottflutningi.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. getur ráðherra heimilað að frystingu sé aflétt er varðar tiltekna frysta fjármuni eða efnahagslegan auð, að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:

 1. að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður sé andlag ákvörðunar gerðardóms, sem fyrir liggur þann dag þegar viðkomandi einstaklingur, lögaðili, rekstrareining eða stofnun, er um getur í 4. gr., var færð á lista, sbr. viðauka við gerðir sbr. 10. gr., eða andlag ákvörðunar íslensks dómstóls eða stjórnvalds eða ákvörðunar dómstóls sem er aðfararhæf á Íslandi fyrir eða eftir þann dag,
 2. að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður verði einungis notaður til að uppfylla kröfur, sem fyrrnefnd ákvörðun tryggir eða sem viðurkennt er að séu gildar samkvæmt henni, innan þeirra marka sem gildandi lög og reglur um réttindi þeirra aðila, sem eiga slíkar kröfur, kveða á um,
 3. ákvörðunin sé ekki í þágu einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er skráð á lista, sbr. viðauka við gerðir sbr. 10. gr. og
 4. að viðurkenning ákvörðunarinnar stríði ekki gegn allsherjarreglu.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. og að því tilskildu að greiðsla einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar, sem er á lista, sbr. viðauka við gerðir sbr. 10. gr., eigi að fara fram samkvæmt samningi eða samkomulagi, sem viðkomandi einstaklingur, lögaðili, rekstrareining eða stofnun gerði, eða samkvæmt skuldbindingu, sem viðkomandi bar að sinna fyrir þann dag er einstaklingurinn, lögaðilinn, rekstrareiningin eða stofnunin hafði verið skráð á lista, sbr. viðauka við gerðir sbr. 10. gr., getur ráðherra heimilað, samkvæmt þeim skilyrðum sem talin eru viðeigandi, að frystingu tiltekinna frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs verði aflétt, að því tilskildu að ráðherra hafi komist að raun um:

 1. að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður verði notaður sem greiðsla af hálfu einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er á lista, sbr. viðauka við gerðir sbr. 10. gr. og
 2. að greiðslan sé ekki brot á 2. mgr. 4. gr.

Ákvæði 2. mgr. 4. gr. koma ekki í veg fyrir að fjármála- eða lánastofnanir, sem taka við fjármunum sem þriðju aðilar yfirfæra inn á reikninga einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er á lista, færi þá til tekna á frystum reikningum, að því tilskildu að það viðbótarfé sem þannig er fært á slíka reikninga sé einnig fryst. Hlutaðeigandi fjármála- eða lánastofnun skal tilkynna ráðherra um slík viðskipti án tafar.

Ákvæði 2. mgr. 4. gr. gildir ekki um eftirtaldar viðbætur við frysta reikninga:

 1. vexti eða aðrar tekjur af fyrrnefndum reikningum,
 2. greiðslur, sem inna ber af hendi samkvæmt samningum, samkomulagi eða skuldbindingum sem gengið var frá eða urðu til fyrir þann dag sem viðkomandi einstaklingur, lögaðili, rekstrareining eða stofnun, sem um getur í 4. gr., var færður á lista í viðaukum við gerðir sbr. 10. gr. eða
 3. greiðslur, sem inna ber af hendi samkvæmt ákvörðunum dóms, stjórnsýslustofnunar eða gerðardóms sem teknar eru hér á landi eða eru aðfararhæfar hér á landi, að því tilskildu að slíkir vextir, aðrar tekjur og greiðslur falli áfram undir aðgerðirnar sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr.

6. gr. Upplýsingaskylda.

Einstaklingar, lögaðilar, rekstrareiningar og stofnanir skulu, með fyrirvara um gildandi reglur um skýrslugjöf, trúnað og þagnarskyldu beina, án tafar, öllum upplýsingum, sem myndu greiða fyrir því að unnt sé að fara að ákvæðum reglugerðar þessarar, t.d. upplýsingum um reikninga og fjárhæðir sem eru fryst skv. 1. mgr. 4. gr., til ráðherra, og veita aðstoð við að sannreyna upplýsingarnar.

Allar upplýsingar, sem eru látnar í té eða veitt viðtaka samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, eru eingöngu ætlaðar til notkunar í sama tilgangi og leiddi til þess að þær voru veittar eða þeim veitt viðtaka.

7. gr. Ábyrgð.

Ef fjármunir eða efnahagslegur auður er frystur, eða ef synjað er um aðgang að fjármunum eða efnahagslegum auði, í góðri trú, á þeirri forsendu að slík aðgerð sé í samræmi við reglugerð þessa, bera þeir einstaklingar, lögaðilar, rekstrareiningar eða stofnanir, sem annast framkvæmd slíkrar aðgerðar eða hlutaðeigandi stjórnendur eða starfsmenn, ekki ábyrgð af neinu tagi nema sannað þyki að fjármunirnir og hinn efnahagslegi auður hafi verið frystir eða synjað hafi verið um aðgang að þeim af gáleysi.

Aðgerðir einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana skapar þeim ekki ábyrgð af neinu tagi ef þeir eða þær vissu ekki, og höfðu enga réttmæta ástæðu til að ætla, að aðgerðir þeirra myndu fara í bága við þær aðgerðir sem settar eru fram í þessari reglugerð.

8. gr. Efndir krafna.

Óheimilt er að efna kröfur sem tengjast samningi eða viðskiptum þegar aðgerðir, sem gripið er til samkvæmt þessari reglugerð, hafa áhrif á framkvæmd þeirra, með beinum eða óbeinum hætti, í heild eða að hluta, þ.m.t. kröfur um skaðleysisbætur eða aðrar ámóta kröfur, t.d. bótakröfur eða kröfur samkvæmt ábyrgðarloforði, einkum framlengingar- eða greiðslukröfur vegna skuldabréfa eða ábyrgðar eða skaðleysisbóta og þá sérstaklega fjárhagslegrar ábyrgðar eða fjárhagslegra skaðleysisbóta, í hvaða mynd sem er, ef slíkar kröfur eru settar fram af:

 1. einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem eru á lista í viðaukum við gerðir sbr. 10. gr.,
 2. einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun sem starfar gegnum eða fyrir hönd einhvers þeirra einstaklinga, aðila, rekstrareininga eða stofnana er um getur í a-lið.

Þegar mál er til meðferðar vegna fullnustu kröfu skal sönnunarbyrði vegna þeirrar fullyrðingar að eigi sé bannað skv. 1. mgr. að efna kröfuna hvíla á þeim einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun sem leitar eftir fullnustu kröfunnar.

Þessi grein er með fyrirvara um rétt þeirra einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga og stofnana, er um getur í 1. mgr., til að skjóta málum til dómstóla sem skeri úr um lögmæti þess að samningsbundnar skyldur séu ekki uppfylltar í samræmi við reglugerð þessa.

9. gr. Landgöngubann.

Í viðauka við gerðir sbr. 10. gr. eru innleiddir listar yfir einstaklinga sem:

 1. bera ábyrgð á athæfi sem er sett fram í 1. mgr. 3. gr.,
 2. sem veita fjárhagslegan, tæknilegan eða efnislegan stuðning til eða koma á annan hátt að athæfi sem er sett fram í 1. mgr. 3. gr., þ.m.t. með því að skipuleggja, stjórna, fyrirskipa, aðstoða, undirbúa, greiða fyrir eða hvetja til slíks athæfis,
 3. sem tengjast einstaklingum sem falla undir a- og b-lið,

Meina ber einstaklingi landgöngu eða gegnumferð sé hann á lista í viðauka við gerðir sbr. 10. gr. nema viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur ráðherra heimilað undanþágu frá landgöngubanni þegar Ísland er skuldbundið að þjóðarétti sem gistiland alþjóðlegrar ráðstefnu sem Sameinuðu þjóðirnar boða til eða fram fer á þeirra vegum eða samkvæmt marghliða samningi þar sem kveðið er á um forréttindi og friðhelgi. Þá getur ráðherra heimilað undanþágu frá landgöngubanni ef ferð er réttlætt af knýjandi mannúðarástæðum eða með þátttöku í fundum alþjóðlegrar milliríkjastofnunar þar sem fram fara pólitísk skoðanaskipti sem efla með beinum hætti stefnumarkmið þvingunaraðgerða, þ.m.t. að binda enda á alvarleg mannréttindabrot og efla mannréttindi. Þá má veita undanþágu ef koma eða gegnumferð er nauðsynleg til þess að meðferð dómstóla geti farið fram. Undanþágan skal einskorðast við þann tilgang sem hún er veitt í og við þá aðila sem málið varðar beint.

10. gr. Innleiðing.

Eftirfarandi gerðir Evrópusambandsins um þvingunaraðgerðir skulu öðlast gildi hér á landi með þeirri aðlögun sem getið er um í 11. gr.:

 1. Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2020/1999 frá 7. desember 2020 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, sbr. fylgiskjal 1.

  1.1 Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2021/372 frá 2. mars 2021 um breytingu á ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2020/1999 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, sbr. fylgiskjal 1.1.
  1.2 Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2021/481 frá 22. mars 2021 um breytingu á ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2020/1999 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, sbr. fylgiskjal 1.2.
 2. Reglugerð ráðsins (ESB) 2020/1998 frá 7. desember 2020 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, sbr. fylgiskjal 2.

  2.1 Framkvæmdarreglugerð ráðsins (ESB) 2020/317 frá 2. mars 2021 um framkvæmd reglugerðar (ESB) 2020/1998 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, sbr. fylgiskjal 2.1.
  2.2 Framkvæmdarreglugerð ráðsins (ESB) 2021/478 frá 22. mars 2021 um framkvæmd reglugerðar (ESB) 2020/1998 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, sbr. fylgiskjal 2.2.Listar yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða, sem vísað er til í framangreindum gerðum, eru birtir á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins, eftir því sem við á.

Listar yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða, sem vísað er til í framangreindum gerðum, eru birtir á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins, eftir því sem við á. Síðari breytingar og uppfærslur listanna öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á þeim vef, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.

Framangreindar gerðir binda einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir án frekari lögfestingar, eftir því sem við getur átt, þ.m.t. ákvæði um landgöngubann og frystingu fjármuna.

11. gr. Aðlögun.

Gerðir skv. 10. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:

 1. ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", "ESB", "Bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á,
 2. ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana þess gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda,
 3. tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á,
 4. tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005,
 5. tilvísanir í eldri ákvæði um þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins eiga við um eldri íslensk ákvæði, eftir því sem við á,
 6. vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld á Íslandi er:
  https://www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/lagamal/thvingunaradgerdir/.

12. gr. Tilkynning.

Birting lista yfir aðila, sem nefndir eru í gerðum skv. 10. gr., skal skoðast sem tilkynning til þeirra um að þær þvingunaraðgerðir sem kveðið er á um í gerðunum beinist gegn þeim og er þeim bent á að þeir geti sótt um undanþágur skv. þessari reglugerð eða óskað eftir afskráningu af listum, telji þeir sig ranglega skráða.

13. gr. Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.

14. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 4. og 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008, öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 23. apríl 2021.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Martin Eyjólfsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.