Prentað þann 21. des. 2024
451/2009
Reglugerð um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.
1. gr. Starfsreglur.
Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skal setja starfsreglur fyrir sjóðinn sem ráðherra staðfestir og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Í starfsreglunum skal m.a. fjallað um eftirfarandi:
- hlutverk og starfsemi,
- stjórnun og rekstur, m.a. ábyrgð og hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra, heimildir framkvæmdastjóra, fjárfestingarráð og starfsmannahald,
-
fjárfestingarstefnu og þar komi að lágmarki fram:
- umfjöllun um það í hvernig verkefnum er fjárfest og með hvaða hætti,
- stærðarmörk fjármögnunar, bæði sem hlutfall af eignum sjóðsins og hlutfall af viðkomandi fyrirtæki,
- almenn skilyrði og skilmálar, málsmeðferð og skilyrði um form þátttöku,
- eftirfylgni með fjárfestingum og sölu hlutabréfa,
- eigið fé, m.a. varðveislu og ávöxtun, afskriftir og ávöxtunarstefnu.
2. gr. Sjóður græna hagkerfisins.
Fjárveitingu ríkisins til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til eflingar græna hagkerfisins verður ráðstafað í gegnum sérstakan sjóð, Sjóð græna hagkerfisins. Honum skal varið til að fjárfesta í fyrirtækjum sem þróa og framleiða vörur eða þjónustu sem tengist umhverfistækni og umhverfisvænni starfsemi.
Handbæru fé sjóðsins og eignum sem stafa af fjárfestingu hans skal halda reikningslega aðgreindu frá öðru fé Nýsköpunarsjóðs og skal gera sérstaklega grein fyrir umræddum fjárfestingum og starfsemi Nýsköpunarsjóðs í þeirra þágu í ársskýrslu á ársfundi.
Í starfsreglum sjóðsins skal mælt fyrir um skilyrði þess að fyrirtæki teljist þróa og framleiða vörur og þjónustu sem um getur í 1. mgr. og með hvaða hætti metið skuli hvort þau skilyrði séu uppfyllt.
Sérstakt fimm manna fagráð skal meta öll fjárfestingarverkefni fyrir Sjóð græna hagkerfisins. Um starfsemi fagráðsins skal fjallað í starfsreglum Nýsköpunarsjóðs, m.a. faglegar kröfur til ráðsmanna og verklag við mat og eftirfylgni.
3. gr. Ávöxtun eigin fjár.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leitar allra leiða til að ávaxta eigið fé sitt á sem árangursríkastan hátt og hámarka þannig árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins.
Við ávöxtun eiginfjár skal gætt að eðlilegri áhættudreifingu í eignasamsetningu.
Einungis skal fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Sjóðnum er þó einnig heimilt að nota óskráða og óframseljanlega afleiðusamninga í gjaldeyrisviðskiptum í því skyni að draga úr gengisáhættu af erlendum fjárfestingum sínum. Mótaðili slíkra samninga skal vera fjármálafyrirtæki með viðurkennt lánshæfismat.
Sjóðurinn fjárfestir ekki fyrir meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Þrátt fyrir þetta má fjárfesta fyrir allt að 35% af eignum í verðbréfum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.
Sjóðurinn fjárfestir ekki fyrir meira en 10% hlutafjár í einstökum hlutafélögum á almennum hlutabréfamarkaði og ekki fyrir meira en 25% hlutafjár í einstökum hlutabréfasjóðum.
4. gr. Ársfundur.
Halda skal ársfund Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrir 31. maí ár hvert. Á fundinum skal leggja fram ársskýrslu sjóðsins fyrir liðið starfsár ásamt endurskoðuðum ársreikningi. Einnig skal gera grein fyrir helstu þáttum í starfsemi liðins árs og áætlunum komandi starfsárs.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 61/1997 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins með síðari breytingum og öðlast hún þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1060/2004 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, með síðari breytingum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.