Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

446/2015

Reglugerð um Kvikmyndasafn Íslands.

1. gr. Hlutverk safnsins.

Kvikmyndasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og hefur það meginhlutverk að safna, varðveita, skrásetja, sýna og rannsaka íslenskar kvikmyndir, safna samvinnuverkefnum íslenskra og erlendra aðila og erlendum kvikmyndum sem teknar hafa verið á Íslandi.

Safnið starfar á grundvelli ákvæða kvikmyndalaga, safnalaga, laga um skylduskil til safna og reglugerðar um skylduskil til safna, sem og í samræmi við önnur ákvæði laga er varða starfsemi þess.

Kvikmyndasafn Íslands fer í starfi sínu að siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Alþjóðasamtaka kvikmyndasafna (FIAF).

Ráðherra fer með yfirstjórn safnsins samkvæmt kvikmyndalögum.

2. gr. Forstöðumaður.

Ráðherra skipar forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningarsögu. Starfið skal auglýsa samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Forstöðumaður stjórnar starfsemi safnsins og rekstri þess. Hann ræður aðra starfsmenn safnsins, er í fyrirsvari fyrir safnið og setur reglur um umgengni í safninu og notkun safnkostsins. Hann er ábyrgur fyrir að starfsemi safnsins og rekstur sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Forstöðumaður ber ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma safnsins séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir safnsins séu nýttir á árangursríkan hátt. Hann gerir árlegar fjárhagsáætlanir vegna undirbúnings fjárlaga, sem ráðuneytið fer fram á.

3. gr. Helstu verkefni.

Helstu verkefni Kvikmyndasafns Íslands eru m.a. að:

safna, varðveita, skrásetja, sýna og rannsaka íslenskar kvikmyndir, sem og að safna samvinnuverkefnum íslenskra og erlendra aðila og erlendum kvikmyndum sem teknar hafa verið á Íslandi,
annast og hafa eftirlit með skylduskilum útvarps- og kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna,
standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist,
sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins,
safna, skrá og annast viðhald tækja til kvikmyndagerðar og kvikmyndasýninga,
safna, varðveita og skrá efni sem tengist viðkomandi kvikmyndum,
skapa fræðimönnum og öðrum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir, og efla kvikmyndamenningu á Íslandi.

4. gr. Öflun heimilda.

Safnið skal afla heimilda og stuðla að öflun og miðlun þekkingar á íslenskri kvikmyndalist til almennings og sérfræðinga til fræði- og rannsóknastarfa. Það skal vera meginheimildasafn á sviði íslenskrar kvikmyndalistar sem hefur að geyma heimildir og gögn sem fjalla um íslenska kvikmyndalist: Útgefin rit, sýningaskrár, úrklippur, tímarit, bókverk, handrit, umsóknargögn og smáefni, veggspjöld sem og myndheimildir, s.s. ljósmyndir, litskyggnur o.fl. sem snerta sviðið.

5. gr. Gjaldtökuheimild.

Hljóti Kvikmyndasafn Íslands viðurkenningu ráðherra samkvæmt 9. gr. safnalaga nr. 141/2011, er því heimilt að taka aðgangseyri og önnur gjöld í samræmi við 19. gr. safnalaga nr. 141/2011.

Kvikmyndasafnið getur tekið gjald fyrir þjónustu sína, svo sem fyrir kvikmyndasýningar hvers konar afritun og fjölföldun, til að standa straum af kostnaði, auk sérstaks gjalds vegna höfunda- og birtingaréttar þegar hann er í höndum safnsins, og fyrir hvers konar sérvinnslu skráa, úttak tölvugagna og sérfræðilega heimildaþjónustu þegar við á.

Opinber birting á verkum safnsins er óheimil nema með sérstöku leyfi safnsins, enda sé gætt réttar höfunda samkvæmt ákvæðum höfundalaga.

Forstöðumaður setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku, er taki mið af kostnaði, og skal sú gjaldskrá háð samþykki ráðherra.

6. gr. Fjárhagur.

Kostnaður af rekstri Kvikmyndasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

Kvikmyndasafnið getur einnig haft tekjur af eigin starfsemi, styrkjum og öðrum framlögum.

Tekjum safnsins skal varið í þess þágu.

7. gr. Lok starfsemi og ráðstöfun safnkosts.

Kvikmyndasafn Íslands og safnkostur þess er í eigu ríkisins. Komi til þess að safnið verði lagt niður kemur það í hlut ráðherra að tryggja að þau menningarverðmæti sem það varðveitir glatist ekki, heldur verði varðveitt áfram í samræmi við ákvæði safnalaga.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 13. gr. kvikmyndalaga nr. 137/2001 og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 13. apríl 2015.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.