Prentað þann 26. des. 2024
440/2009
Reglugerð um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga.
Gildissvið.
1. gr.
Eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari skal á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2015 endurgreiða:
- virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað,
- virðisaukaskatt sem eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess,
- virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess,
- virðisaukaskatt sem eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess.
Frístundahúsnæði.
2. gr.
Með frístundahúsnæði samkvæmt 1. gr. er átt við frístundahúsnæði eins og það er skilgreint í 2. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, enda sé það skráð sem frístundahúsnæði hjá Fasteignaskrá Íslands.
Eigendur frístundahúsnæðis fá því aðeins virðisaukaskatt endurgreiddan á grundvelli þessarar reglugerðar að hann hafi ekki fengist endurgreiddur í formi innskatts, sbr. VII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Húsnæði í eigu sveitarfélaga.
3. gr.
Ákvæði 1. gr. á einnig við um annað húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, enda sé húsnæðið skráð hjá Fasteignaskrá Íslands. Með húsnæði í þessu sambandi er átt við hús eða hluta húss, sem ætlað er til nota í atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota og eru varanlega skeytt við land, t.d. skrifstofuhúsnæði, íþróttahús, áhaldahús og vörugeymslur.
Sveitarfélög, stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu þeirra fá því aðeins endurgreiddan virðisaukaskatt á grundvelli ákvæða þessarar reglugerðar ef innskattur hefur ekki fengist endurgreiddur samkvæmt reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign eða reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, sbr. VII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Þá skal einnig tekið tillit til þess virðisaukaskatts sem sveitarfélög og stofnanir þeirra hafa fengið endurgreiddan á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
Endurgreiðslutímabil.
4. gr.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts skal taka til reikninga sem gefnir eru út á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2015 enda sé gætt að ákvæðum um tímamörk útgáfu reiknings samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
5. gr.
Að öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari gilda ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.
Gildistaka.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, XV, við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.