Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

439/2006

Reglugerð um leirhluti sem er ætlað að snerta matvæli.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um flæði blýs og kadmíums úr leirhlutum í matvæli þegar um er að ræða leirhluti sem er ætlað að snerta matvæli.

2. gr. Skilgreiningar.

Leirhlutur: Hlutur sem fæst þegar blanda af kísil og leir er hert í eldi. Í blöndunni geta einnig verið lífræn efni í litlu magni. Leirhluti má glerhúða, smelta og skreyta.

Hermir: Efni eða efnablanda notað til að líkja eftir áhrifum matvæla á leir.

3. gr. Flæðimörk.

Flæði blýs og kadmíums, sem mælist þegar aðferðinni sem lýst er í viðauka I og II er beitt, skal ekki fara yfir neðangreind flæðimörk:

Flokkur Blý (Pb) Kadmíum (Cd)
1. Ílát sem ekki er hægt að fylla og ílát
sem hægt er að fylla og sem eru allt
að 25 mm djúp
0,8 mg/dm2 0,07 mg/dm2
2. Ílát, dýpri en 25 mm 4,0 mg/1 0,3 mg/1
3. Eldunaráhöld, ílát til pökkunar eða
geymslu sem rúma meira en 3 lítra
1,5 mg/1 0,1 mg/1

Fari flæðið ekki meira en 50% yfir ofangreind mörk telst leirhluturinn uppfylla kröfur þessarar reglugerðar ef að minnsta kosti þrír sams konar hlutir eru prófaðir eins og meðaltalsmagnið af útdregnu blýi og/eða kadmíum reynist ekki yfir settum mörkum og enginn þeirra fer meira en 50% yfir mörkin.

Ef leirílátum fylgir leirlok skulu ílátið og lok þess mæld í sitt hvoru lagi. Summa þeirra mæligilda sem þannig fást skal miðuð við rúmmál eða yfirborðsflatarmál ílátsins eftir því sem við á og má ekki fara yfir ofangreind flæðimörk.

4. gr. Skrifleg yfirlýsing.

Leirhlutum sem er ætlað að snerta matvæli skal frá markaðssetningu til og með smásölu fylgja skrifleg yfirlýsing í samræmi við reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1935/2004 frá 27. október 2004 um efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli.

Skriflega yfirlýsingin skal gerð af framleiðanda vörunnar eða seljanda á Evrópska efnahagssvæðinu og í henni skulu koma fram þær upplýsingar sem fjallað er um í viðauka III við þessa reglugerð.

Framleiðendur og/eða innflytjendur skulu geta framvísað til eftirlitsaðila viðeigandi gögnum sem sýna að flæði blýs og kadmíums sé innan þeirra marka sem sett eru í 3. gr. Í gögnunum skulu koma fram niðurstöður greininga, upplýsingar um hvernig greiningar voru framkvæmdar ásamt nafni og heimilisfangi rannsóknarstofunnar sem framkvæmdi þær.

5. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum um matvæli, nr. 93/1995, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum og til innleiðingar á tilskipun framkvæmdarstjórnarinnar nr. 2005/31/EB frá 29. apríl um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 84/500/EEB að því er varðar "skriflega yfirlýsingu" og framkvæmd rannsókna aðferða á leirhlutum sem ætlað er að snerta matvæli sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141 frá 2. desember 2005.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um leirhluti sem ætlað er að snerta matvæli, nr. 527/1993.

Ákvæði til bráðabirgða.

Vegna innflutnings og framleiðslu á leirhlutum sem er ætlað að snerta matvæli og ekki eru í samræmi við 4. gr. við gildistöku þessarar reglugerðar er veittur frestur til 20. maí 2007 til að uppfylla ákvæði hennar.

Umhverfisráðuneytinu, 16. maí 2006.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.