Fara beint í efnið

Prentað þann 21. jan. 2022

Stofnreglugerð

431/2017

Reglugerð um veiðieftirlit á samningssvæði Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um veiðar íslenskra skipa á svæði sem nefnt er "samningssvæðið" í samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar í Norðvestur-Atlantshafi, sbr. auglýsingu nr. 17 í C-deild Stjórnartíðinda 29. desember 1978 (NAFO-svæðinu). Vísað er til viðauka III við þann samning um skiptingu þess svæðis í vísindaleg og tölfræðileg undirsvæði (tilgreind með tölustöfum), deilisvæði (hlutar undirsvæðis tilgreindir með tölustaf og stórum bókstaf) og undirdeilisvæði (hlutar deilisvæðis tilgreindir með litlum bókstaf).

2. gr. Leyfi til veiða.

Fiskiskipum er óheimilt að stunda veiðar á samningssvæði NAFO, sbr. 1. gr., án sérstaks leyfis Fiskistofu.

Leyfi Fiskistofu gilda fyrir einstaka stofna og eru til eins árs í senn. Um aflamark við veiðar fer samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, eftir því sem við á. Leyfin skulu bundin þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að fullnægja skuldbindingum Íslands um veiðimagn, veiðisvæði, gerð og búnað veiðarfæra, veiðitíma, eftirlit, sýnatöku, tilkynningar o.fl. Þá skal áskilið að fylgt sé ákvæðum þessarar reglugerðar.

3. gr. Fjarskiptabúnaður.

Fiskiskip sem stunda veiðar á samningssvæðinu skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips á klukkustundar fresti, með sjálfvirkum hætti, til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd eftirlitsstöðin, sem miðlar gögnum til hlutaðeigandi stofnana.

Óheimilt er að halda til veiða fyrr en starfsmenn eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að fjarskiptabúnaður starfi eðlilega. Skulu sendingar samkvæmt framangreindu hefjast þegar viðkomandi skip lætur úr höfn og skal þeim ekki ljúka fyrr en skipið kemur til hafnar að nýju til löndunar afla.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga bilar skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða skipsins á a.m.k. 4 klukkustunda fresti til eftirlitsstöðvarinnar og tilkynna áður en skip fer af einu deilisvæði á annað.

4. gr. Afladagbók o.fl.

Halda skal rafræna afladagbók vegna veiða á NAFO-samningssvæðinu, sem uppfyllir skilyrði sem greinir í reglum NAFO um stjórn og eftirlit (e. Conservation and Enforcement Measures). Halda skal sérstaka vinnslu- og lestarskrá fyrir skipið auk þess að upplýsingar skulu vera um borð um lestarrými, eftir því sem nánar greinir í reglum NAFO.

Allar tilkynningar sem skylt er að senda samkvæmt reglugerð þessari skal senda á tölvutæku formi úr rafrænni afladagbók skipsins til eftirlitsstöðvarinnar. Tilkynningar skulu sendar með þeim hætti sem lýst er í reglum NAFO um stjórn og eftirlit.

5. gr. Tilkynningar.

Fiskiskip, sem stunda veiðar á samningssvæðinu, skulu senda eftirgreindar tilkynningar til eftirlitsstöðvarinnar:

  1. Komutilkynning - COE: Tilkynna skal með a.m.k. 6 klukkustunda fyrirvara að skip fari inn á samningssvæðið og skal tilkynning vera í samræmi við reglur NAFO um stjórn og eftirlit.
  2. Aflatilkynning - CAT: Tilkynna skal daglega til eftirlitsstöðvarinnar um m.a. heildarafla síðasta sólarhrings miðað við afla upp úr sjó, sundurgreindan eftir tegundum, eftir því sem nánar greinir í reglum NAFO um stjórn og eftirlit.
  3. Lokatilkynning - COX: Tilkynna skal með a.m.k. 6 klukkustunda fyrirvara þegar skip yfirgefur samningssvæðið og skal tilkynning vera í samræmi við reglur NAFO um stjórn og eftirlit.

Um afturköllun tilkynninga fer eftir því sem segir í reglum NAFO um stjórn og eftirlit.

Þá skal tilkynna til Fiskistofu, á tölvupóstfangið uthafsv@fiskistofa.is, þegar fiskiskip hefur veiðar á samningssvæðinu og þegar þeim lýkur.

6. gr. Eftirlit um borð í skipi.

Fiskiskipum sem veiða á samningssvæðinu eða hafa stundað veiðar á því, er skylt að veita aðstoð sína til þess að eftirlitsmenn samningsríkja NAFO, sem sýnt geta fram á með skilríkjum að þeir séu til þess bærir, geti komist um borð eftir að skip eða þyrla sem þeir eru um borð í hefur gefið viðeigandi merki á alþjóðlegu merkjamáli um að þeir æski þess að koma um borð.

Um borð í hverju skipi skal vera stigi og önnur áhöld sem gera eftirlitsmönnum kleift að komast um borð með skjótum og öruggum hætti. Um búnað og notkun stiga og annarra áhalda fer samkvæmt reglum NAFO um stjórn og eftirlit.

Skipstjórum er skylt að veita eftirlitsmönnum endurgjaldslaust alla þá starfsaðstöðu og aðstoð sem þeim er nauðsynleg í starfi sínu, m.a. greiðan aðgang að fjarskiptatækjum, staðsetningartækjum og kortum.

Eftirlitsmönnum skal leyft að skoða og mæla veiðarfæri skipsins, afla þess o.fl. til að ganga úr skugga um að farið sé að reglum NAFO. Þá skal eftirlitsmönnum gert kleift að skoða skjöl skipsins, skrifa í þau athugasemdir sínar um meint brot og gera skýrslu um skoðunina eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglum NAFO um stjórn og eftirlit.

7. gr. Eftirlitskostnaður o.fl.

Hverju skipi er óheimilt að stunda veiðar á samningssvæðinu, nema eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu sé um borð. Þó er Fiskistofu heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 1. ml. enda séu eftirlitsmenn um borð í a.m.k. 25% íslenskra skipa sem stunda veiðar á samningssvæðinu. Skipstjóra er óheimilt að halda skipinu til veiða á samningssvæðinu án þess að hafa eftirlitsmann um borð nema fyrir liggi skrifleg heimild Fiskistofu þar að lútandi.

Kostnaður af veru eftirlitsmanns er samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu. Útgerð skips með eftirlitsmann á vegum Fiskistofu um borð skal sjá honum fyrir fæði og aðstöðu án endurgjalds.

Fyrir hverja veiðiferð skal útgerð skips tilkynna Fiskistofu ósk sína um að veiðieftirlitsmaður verði um borð í skipinu a.m.k. 7 dögum fyrir brottför þess frá Íslandi en a.m.k. 10 dögum fyrir brottför sé um að ræða brottför frá höfn utan Íslands.

8. gr. Ráðstafanir til verndar viðkvæmum vistkerfum o.fl.

Skipstjóri sem stundar veiðar með botnlægum veiðarfærum skal meta magn tegunda sem mögulega falla undir viðkvæm vistkerfi (kóralar, sæfjaðrir, svampar o.fl.) í togi og færa í afladagbók (og senda einnig upplýsingar á netfangið uthafsv@fiskistofa.is). Ef magn þessara tegunda yfirstígur viðmiðanir NAFO um stjórn og eftirlit, á svæði þar sem veiðar hafa áður verið stundaðar með botnlægum veiðarfærum fer samkvæmt reglum NAFO um tilkynningar, sýnatöku, takmarkanir við frekari veiði og breytta veiðitilhögun.

Um botnveiðar á svæðum þar sem botnveiðar hafa ekki verið stundaðar áður og lokuð svæði til verndar viðkvæmum vistkerfum, fer samkvæmt reglum NAFO um stjórn og eftirlit.

Skipstjóri skal ekki beina sókn í tegundir sem meðaflareglur gilda um. Um takmarkanir á meðafla við veiðar og meðferð hans um borð í skipi fer samkvæmt reglum NAFO um stjórn og eftirlit.

9. gr. Afla- og afurðaskráning.

Við vinnslu skal allur afli veiddur á NAFO svæðinu auðkenndur með tegund, afurðaflokki, veiðisvæði og veiðidagsetningu. Um nánari tilhögun og framkvæmd merkinga á umbúðum um afla sem veiddur er á NAFO svæðinu vísast til reglna NAFO.

10. gr. Hafnkoma erlendis.

Fiskiskipum sem hafa heimild Fiskistofu til löndunar erlendis og ætla að landa afla eða afurðum í erlendri höfn, er skylt að tilkynna þar til bæru yfirvaldi hafnarríkis, innan frests sem ákveðinn er af hafnarríkinu um komu sína til hafnar. Tilkynningar skulu sendar á eyðublöðum NAFO fyrir hafnarríkiseftirlit, sem eru aðgengilegar á vefsíðu NAFO: www.nafo.int.

11. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út á grundvelli hennar, varða viðurlögum samkvæmt III. kafla laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og IV. kafla laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Við mat á brotum skal litið til reglna NAFO um stjórn og eftirlit, eftir því sem við á.

12. gr. Heimild o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða til þess að öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 40/2014 um veiðar á samningssvæði Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO, 2014.

Reglugerð þessi er sett til að fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt ráðstöfunum í reglum NAFO um stjórn og eftirlit (NAFO Conservation and Enforcement Measures) (www.nafo.int). Íslenskum skipum er skylt að hafa aðgang að nýjasta eintaki reglnanna við veiðar hverju sinni, sem nálgast má rafrænt á vef nefndarinnar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. maí 2017.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.