Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. maí 2016

426/1999

Reglugerð um vinnu barna og unglinga.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Hugtök og gildissvið.

1. gr. Hugtök.

Reglugerð þessi tekur til vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri.

Ungmenni merkir í reglugerð þessari einstakling undir 18 ára aldri.

Barn merkir í reglugerð þessari einstakling undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi.

Unglingur merkir í reglugerð þessari einstakling sem hefur náð 15 ára aldri en er undir 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin tekur ekki til heimilisaðstoðar á einkaheimili atvinnurekanda eða vinnu í fjölskyldufyrirtækjum, enda sé vinnan tilfallandi eða vari í skamman tíma og ekki skaðleg eða hættuleg ungmenninu.

Fjölskyldufyrirtæki telst í þessu tilviki vera fyrirtæki sem er í eigu einstaklinga eða einstaklings sem er skyldur eða mægður ungmenni í beinan legg eða annan legg til hliðar eða tengdur því með sama hætti vegna ættleiðingar.

3. gr. Lágmarksákvæði.

Strangari ákvæði í öðrum lögum, reglum eða reglugerðum um vinnu ungmenna ganga framar ákvæðum þessarar reglugerðar svo sem hærri aldursmörk vegna ákveðinnar tegundar vinnu.

II. KAFLI Almenn ákvæði um vinnu allra ungmenna undir 18 ára aldri.

4. gr. Almennt ákvæði.

Við öll störf ungmenna undir 18 ára aldri skal við val og skipulagningu á vinnu leggja áherslu á að öryggi og andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin og að vinna hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska.

5. gr. Áhættumat.

Atvinnurekandi skal sjá um að gripið sé til viðeigandi ráðstafana í samræmi við ákvæði 4. gr. á grundvelli mats á þeirri áhættu sem starf getur skapað ungmennum.

Þetta mat skal fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum en við það skulu eftirtalin atriði einkum skoðuð:

a) innréttingar og búnaður vinnustaðar og verkstöðvar;

b) eðli og umfang eðlis-, efna- og líffræðilegra skaðvalda og hve langvarandi þeir eru;

c) lögun, stærð og notkun búnaðar sem tengist starfinu, má þar nefna skaðvalda ýmiss konar, vélar, tæki og áhöld og hvernig þau eru meðhöndluð;

d) skipulag vinnuferla, vinnutilhögunar og vinnuskipulags og samspilið milli þeirra;

e) hvernig ungmenni eru þjálfuð og búin undir starfið.

Sýni matið að öryggi, líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska ungmennis geti verið stofnað í hættu skal atvinnurekandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmenna þeim að kostnaðarlausu. Við mat á áhættu skal sérstaklega taka tillit til hættunnar sem stafar af ungum aldri, skorts á reynslu og meðvitund um hættur starfsins ásamt því að ungmennin eru ekki fullþroska. Við mat á varúðarráðstöfunum skal jafnframt taka tillit til líkamlegra, lífrænna, efnafræðilegra og sálrænna áhrifa sem ungmenni geta orðið fyrir til lengri eða skemmri tíma vegna vinnunnar.

Atvinnurekanda er heimilt að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins um öryggi vinnustaðarins.

6. gr. Leiðbeiningar og kennsla.

Atvinnurekandi skal tryggja að ungmenni fá fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar þannig að tryggt sé að vinnan sé ekki hættuleg öryggi eða heilsu þeirra. Atvinnurekandi skal kynna ungmennum þær ráðstafanir sem gerðar eru til að tryggja öryggi þeirra og heilbrigði.

Vinnan skal fara fram undir viðeigandi eftirliti af einstaklingi sem orðinn er 18 ára og hefur nægilega innsýn í eðli vinnunnar.

Atvinnurekanda ber að kynna foreldrum barna eða forráðamönnum hugsanlega áhættu og allar ráðstafanir sem eru gerðar til að tryggja öryggi þeirra og heilbrigði.

Um leiðbeinendur á vegum vinnuskóla sveitarfélaga gildir einnig ákvæði 5. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar.

7. gr. Skipulag öryggismála.

Atvinnurekandi skal kynna starfsmönnum sínum, sem starfa með ungmennum, og þeim, sem annast öryggismál fyrirtækisins, þær kröfur sem gerðar eru til vinnu ungmenna og tryggja að þeim sé fylgt og að tekið sé tillit til þeirra við framkvæmd, skipulagningu og eftirlit með vinnu ungmenna.

III. KAFLI Vinna sem óheimil er ungmennum undir 18 ára aldri.

8. gr. Almennt ákvæði.

Ungmenni undir 18 ára aldri má ekki ráða til þeirra starfa sem nefnd eru í 10.-14. gr. nema annað sé sérstaklega tekið fram.

9. gr. Starfsnám.

Störf ungmenna 15 ára og eldri sem eru nauðsynlegur hluti af iðn- eða starfsnámi á grundvelli laga eru undanþegin banni 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr. og 14. gr. enda sé slíkt nauðsynlegt til að ljúka námi.

Í starfsnámi skal vinnan fara fram undir eftirliti hæfs einstaklings og skal kosta kapps um að vernda nemendur gegn slysahættu og gæta ýtrasta öryggis við framkvæmd vinnu og kennslutilhögunar.

Sama gildir um vinnu að loknu slíku námi sem tilheyrir viðkomandi starfi.

Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um framkvæmdir, þar sem hætta er á sprengingum, eða vinnu sem hefur í för með sér meðhöndlun, framleiðslu, geymslu eða notkun á gasi þar sem lofttegundir eru samanþjappaðar, fljótandi undir þrýstingi eða undir þrýstingi uppleystar í vökva. Sama gildir um vinnu við háan loftþrýsting og vinnu sem getur haft í för með sér hættu á köfnun í súrefnislitlu rými.

10. gr. Hættuleg tæki og verkefni.

Ungmenni má ekki ráða til starfa, þar sem unnið er með tæki, eða að verkefnum, sem talin eru upp í viðauka 1 A, eða stunda vinnu sem hefur samsvarandi hættu í för með sér.

Hafi ungmenni náð 16 ára aldri mega þau þó starfa með tæknilegan hjálparbúnað sem talinn er upp í viðauka 1 B.

Í fjölskyldufyrirtækjum, þ.m.t. við landbúnað, mega ungmenni sem náð hafa 15 ára aldri vinna við þau störf sem talin eru upp í viðauka 1C, enda sé þeim veitt ítarleg fræðsla og leiðbeiningar og þau höfð undir eftirliti. Ungmenni, sem vinna við sveitastörf í fjölskyldufyrirtækjum, skulu hafa fengið fræðslu og leiðbeiningar um dráttarvélar áður en vinna er hafin með slík tæki utan vega.

11. gr. Hættuleg efni.

Ungmenni mega ekki vinna með eða vera í hættu af þeim efnum sem talin eru upp í viðauka 2.

12. gr. Líkamsáreynsla.

Ungmenni mega ekki handleika þungar byrðar sem til lengri eða skemmri tíma litið geta skaðað heilbrigði þeirra og þroska. Forðast skal ónauðsynlega líkamsáreynslu ungmenna við störf, svo og rangar vinnustellingar eða hreyfingar, sbr. viðauka 3, liði 1 a og b.

13. gr. Önnur sérstök hætta.

Ekki má ráða ungmenni til vinnu þar sem líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin nema þau starfi með fullorðnum eða þeim sem náð hefur 18 ára aldri. Þetta á sérstaklega við um störf í söluturnum, myndbandaleigum, skyndibitastöðum, bensínstöðvum og á sambærilegum stöðum. Við áhættumat skv. 5. gr. reglugerðar þessarar á vinnuaðstæðum skv. þessari málsgrein skal einkum leggja mat á hvort vinnustaðurinn er öruggur með vísan til legu hans, innréttinga og öryggisráðstafana sem gerðar eru.

Um vinnu unglinga á slíkum stöðum við kvöld- og næturvinnu gildir 4. mgr. 19. gr.

14. gr. Almennt ákvæði.

Ungmenni mega ekki starfa við vinnuaðstæður, sem tilgreindar eru í viðauka 3, eða við samsvarandi aðstæður sem fela í sér hættu fyrir heilbrigði þeirra og öryggi.

IV. KAFLI Vinnutími unglinga.

15. gr. Hugtakið vinnutími.

Með vinnutíma í reglugerð þessari er átt við virkan vinnutíma, þ.e. þann tíma er ungmenni er við störf, eða er atvinnurekanda innan handar og innir af hendi störf sín eða skyldur í samræmi við lög og/eða kjarasamninga.

Neysluhlé og sérstakir frídagar teljast ekki til vinnutíma. Sama gildir um ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð og launaða biðtíma eða vinnuhlé þar sem ekki er krafist vinnuframlags.

Árlegt launað lágmarksorlof skv. lögum og veikindaforföll skulu teljast til vinnutíma og vera hlutlaus við meðaltalsútreikninga.

Tími í starfsnámi telst til vinnutíma.

16. gr. Daglegur vinnutími.

Vinnutími unglinga má ekki fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku. Þegar daglegur vinnutími er að jafnaði 8 klst. skal hann vera samfelldur ef kostur er.

Í sérstökum tilvikum má vinnutími unglinga fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku, enda sé gætt ákvæða 19., 21. og 22. gr. um vinnutíma, hvíldartíma og frítíma. Þetta gildir aðeins þegar brýna nauðsyn ber til vegna eðlis starfseminnar, svo sem ef bjarga þarf verðmætum í landbúnaði og fiskvinnslu.

Unglingar mega þó aldrei vinna lengur en 60 stundir á viku og 48 stundir á viku að meðaltali yfir 4 mánuði.

17. gr. Samlagning vinnutíma.

Þegar vinna unglinga er liður í verklegu eða fræðilegu námi telst sá tími, sem fer í kennslu, til daglegs og vikulegs vinnutíma, sbr. 16. gr.

Ef unglingur vinnur fyrir fleiri en einn atvinnurekanda skal leggja vinnutímann saman.

18. gr. Hlé.

Ef daglegur vinnutími er lengri en 4 klukkustundir á unglingur rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.

19. gr. Kvöld- og næturvinna.

Unglingar mega ekki vinna frá kl. 22 til kl. 6 nema annað sé sérstaklega tekið fram, þó aldrei milli kl. 24 og kl. 4.

Á sjúkrastofnunum eða á sambærilegum stofnunum mega unglingar vinna án takmörkunar á tímabilinu 24 til 4 enda sé gætt ákvæða 21. og 22. gr.

Í bakaríi má vinna frá kl. 4.

Í söluturnum og söluskálum, á skyndibitastöðum, myndbandaleigum, bensínstöðvum og sambærilegum stöðum mega unglingar vinna til kl. 24 að kvöldi. Við vinnu á grundvelli undanþágu þessarar skal sérstaklega gæta að ákvæði 13. gr.

Í kvikmyndahúsum, leikhúsum og við sambærilega starfsemi mega unglingar aðstoða við sýningar til kl. 24.

Á veitingastöðum, hótelum og við svipaða starfsemi mega unglingar vinna til kl. 24.

20. gr. Heilbrigðisskoðun.

Unglingar eiga rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu áður en þeir hefja næturvinnu og síðan með reglulegu millibili eftir það, nema þeir vinni næturvinnu einungis í undantekningartilvikum. Framkvæmd slíkrar skoðunar er á ábyrgð viðkomandi atvinnurekanda.

Næturvinnutími telst vera frá kl. 22 til kl. 6.

21. gr. Hvíldartími á sólarhring.

Unglingar skulu fá minnst 12 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring.

Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. um samfellda hvíld þegar um er að ræða vinnu unglinga sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni.

Þegar um er að ræða vinnu unglinga á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum, störf við landbúnað, ferðamál eða við hótel- og veitingarekstur og vinnu, sem er skipt upp yfir daginn, er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíld.

Séu heimildir skv. 2. og 3. mgr. nýttar skal unglingur fá samsvarandi uppbótarhvíld. Samfelld hvíld skal þó aldrei fara niður fyrir 10 klst. á sólarhring.

22. gr. Vikulegur hvíldartími.

Á hverju sjö daga tímabili skulu unglingar fá minnst tveggja daga hvíld sem skal vera samfelld ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.

Heimilt er að stytta lágmarkshvíldartímann á grundvelli réttlætanlegra tæknilegra eða skipulagslegra ástæðna en hann má aldrei í slíkum tilvikum vera styttri en 36 samfelldar stundir.

Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar um er að ræða vinnu unglinga sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni.

Þegar um er að ræða vinnu unglinga á sjúkrastofnunum eða á sambærilegum stofnunum, störf við landbúnað, ferðamál eða við hótel- og veitingarekstur og vinnu sem er skipt upp yfir daginn, er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíld.

Ef fráviksheimildir þessar eru nýttar skal unglingur fá frídag síðar og í síðasta lagi þannig að hann fái tvo samfellda frídaga á hverjum 14 dögum.

Unglingar skulu þó ávallt fá einn vikulegan frídag.

23. gr. Óviðráðanleg ytri atvik.

Í óviðráðanlegum tilvikum (force majeure) við óhöpp eða bilanir í vélum eða aðrar aðstæður, sem atvinnurekandi fær ekki ráðið við, er heimilt að víkja frá ákvæðum reglugerðar þessarar um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga enda sé um að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið og ekki sé unnt að fá fullorðna til starfans. Í tilvikum sem þessum skulu unglingarnir fá samsvarandi uppbótarhvíldartíma á næstu þremur vikum.

Skrá skal frávik í eftirlitsbók eða á annan fullnægjandi hátt. Við skráningu skal tiltaka tilefni og tímalengd fráviks.

V. KAFLI Ráðning barna á aldrinum 13-15 ára eða þeirra sem eru í skyldunámi.

24. gr. Almennt.

Börn má ekki ráða í vinnu nema annað sé sérstaklega tekið fram, sbr. 25. og 26. gr.

25. gr. Hættulaus störf af léttara tagi.

Börn sem eru á aldrinum 13-14 ára eða sem eru í skyldunámi mega aðeins vinna við þá vinnu sem fellur undir skilgreininguna _starf af léttara tagi" og talin eru upp í viðauka 4.

Forsenda fyrir því er að slík vinna ógni ekki öryggi barna og heilbrigði. Börn mega hvorki vinna við eða í nálægð við vélar eða hættuleg efni né lyfta þungum byrðum.

Vinnueftirlit ríkisins getur veitt leyfi fyrir vinnu barna við störf af léttara tagi, sem ekki eru tilgreind í viðauka 4 og 5A, enda sé um að ræða sambærileg störf.

VI. KAFLI Störf ungmenna 13 ára og eldri í vinnuskólum sveitarfélaga.

26. gr.

Heimilt er að ráða ungmenni 13 ára eða eldri til léttra starfa á sumarleyfistíma skóla þegar vinnan er hluti af fræðilegu og verklegu námi. Slík vinna takmarkast við störf sem fram koma í viðauka 4.

Hafi ungmenni náð 15 ára aldri má hann starfa að þeim verkefnum sem talin eru upp í viðauka 5 A eða við sambærileg störf.

Hafi ungmenni náð 16 ára aldri má það starfa að þeim verkefnum sem nefnd eru í viðauka 5 B eða við sambærileg störf. Áður en starf hefst skal gæta ákvæða 4. og 5. gr.

Atvinnurekandi skal við ráðningu barna, sem eru undir 15 ára aldri eða þeirra sem eru í skyldunámi, kynna foreldrum eða lögráðamanni ráðningarkjör þar með talið lengd vinnutíma sem og tíðni óhappa og slysa, sem hugsanlega tengjast starfinu, og þær ráðstafanir, sem gerðar eru til að auka öryggi og heilbrigði barna við störf, svo og áhættumat skv. 5. og 6. gr.

Leiðbeinendur í vinnuskólum sveitarfélaga skulu hafa fengið sérstakan undirbúning og fræðslu um hlutverk sitt varðandi atriði eins og öryggismál, skyndihjálp og líkamsbeitingu.

Þess skal vandlega gætt að nákvæmlega sé farið eftir fyrirmælum um notkun hlífa til öryggis og verndar.

VII. KAFLI Vinnutími 13-15 ára barna eða þeirra sem eru í skyldunámi.

27. gr. Vinnutími barna.

Vinnutími barna á aldrinum 13-15 ára eða þeirra, sem eru í skyldunámi, má vera tvær klst. á skóladegi og 12 klst. á viku þegar um er ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma.

Vinnutími barna á aldrinum 13-14 ára má vera 7 klst. á dag og 35 klst. á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma þegar skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími 15 ára barna má þó vera 8 klst. og 40 tímar á viku.

Vinnutími barna á aldrinum 13-14 ára, sem lokið hafa skyldunámi, við störf af léttara tagi má vera 7 klst. á dag og 35 klst. á viku.

28. gr. Vinnutími barna í verknámi.

Börn, 14 ára og eldri, sem uppfylla hluta af skólaskyldu með fræðilegu eða verklegu námi með því að taka þátt í starfsnámi, mega vinna allt að 8 klst. á dag og 40 klst. á viku.

29. gr.

Ákvæði 17. og 18. gr. gilda samsvarandi fyrir börn á aldrinum 13-15 ára.

30. gr. Bannákvæði.

Börn mega ekki vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6.

31. gr. Hvíldar- og frítími.

Börn skulu fá minnst 14 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring.

Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar um er að ræða vinnu barna sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni, enda komi til samsvarandi uppbótarhvíld. Samfelld hvíld skal þó aldrei fara niður fyrir 11 klst. á sólarhring.

32. gr. Vikuleg hvíld.

Á hverju sjö daga tímabili skulu börn fá minnst tveggja daga hvíld sem skal vera samfelld ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.

Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. um hvíld þegar um er að ræða vinnu barna sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni. Börn skulu þó ávallt fá einn vikulegan frídag.

VIII. KAFLI Vinna barna og unglinga við menningar-, íþrótta- og auglýsingastarfsemi.

33. gr. Vinna unglinga.

Um vinnu unglinga á sviði menningarmála, lista, íþrótta eða auglýsinga gilda almennar reglur IX. kafla laga nr. 46/1980 um vinnutíma, hvíldartíma og frítíma. Unglingum við slík störf er heimilt að vinna kvöld- og næturvinnu án takmarkana við ákveðna tíma sólarhringsins.

Að jafnaði skal haga vinnutíma og vinnuálagi þannig að skólaganga unglinga raskist ekki og slíkt ógni ekki heilbrigði eða öryggi þeirra. Jafnframt skal taka sérstakt tillit til aldurs og þroska þeirra.

34. gr. Vinna barna.

Börn, þ. á m. börn undir 13 ára aldri, er heimilt að ráða til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Afla skal leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur vegna vinnu barna yngri en 13 ára.

Börn eldri en 13 ára er heimilt að ráða til að taka þátt í starfsemi skv. 1. mgr. án sérstaks leyfis.

Afla skal leyfis Vinnueftirlits ríkisins þegar vikið er frá ákvæðum reglugerðar þessarar um vinnutíma, hvíldartíma og frítíma við vinnu barna skv. 2. mgr. Í umsókn um leyfi skal geta um daglegan vinnutíma, næturvinnu, hvíldartíma og heildarvinnutíma á viku. Leyfi má gefa tímabundið til tilgreindra verkefna.

Að jafnaði skal haga vinnutíma og vinnuálagi þannig að skólaganga barna yngri en 13 ára raskist ekki og slíkt ógni ekki heilbrigði eða öryggi þeirra. Jafnframt skal taka sérstakt tillit til aldurs og þroska þeirra.

IX. KAFLI Kærur, refsingar og gildistaka.

35. gr. Áfrýjun ákvarðana.

Ákvörðunum Vinnueftirlits ríkisins á grundvelli þessarar reglugerðar má skjóta til stjórnar þess skv. 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

36. gr. Refsingar.

Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum, sbr. 99. gr. laga nr. 46/1980, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.

37. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett af félagsmálaráðherra að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt heimild í 63. gr. f. laga nr. 46/1980 eins og þeim var breytt með 12. gr. laga nr. 52/1997, um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og með hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sbr. tilskipun nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna í XVIII. viðauka. Reglugerð þessi öðlast gildi 1. september 1999.

Bráðabirgðaákvæði.

Ákvæði 4. viðauka reglugerðar þessarar skulu endurskoðuð innan þriggja ára frá birtingu hennar, að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.