Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

424/2014

Reglugerð um lit og einkenni farartækja Landhelgisgæslu Íslands.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skip og loftför Landhelgisgæslunnar, í eigu eða umsjón ríkissjóðs eða Landhelgissjóðs.

Skip og loftför Landhelgisgæslu Íslands skulu auðkennd með skjaldarmerki Íslands á áberandi stað. Skip skulu einkennd nafni en loftför með nafni og skrásetningareinkennum. Litur þeirra og einkenni skulu vera eins og segir í reglugerð þessari.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar ákveður hvort önnur farartæki Landhelgisgæslunnar skuli bera sama auðkenni og lit til samræmis við skip og loftför Landhelgisgæslunnar. Sama á við um leiguloftför og -skip.

2. gr. Varðskip, sjómælingabátur og léttbátar.

Litur og einkenni skipa Landhelgisgæslunnar skulu vera sem hér segir:

  1. Varðskip skulu vera grá (litanúmer NCS. S.4005-B20G). Sjólínufleygur svartur (litanúmer NCS. S.9000-N), hæð á stefni 60 sm frá stefni undir fánalitum og endar við afturhluta fánalita. Botn rauður (litanúmer NCS. S.6020-Y80R) og hæð upp fyrir sjólínu 15 sm. Á yfirbyggingu fyrir neðan brú, frá afturhluta brúar og fram er merkingin "Coast Guard" svartlituð, hæð stafa 50 sm (með leturgerðinni helvetica). Skipsnafnið á hlið yfirbyggingar svartlitað (litanúmer NCS. S.9000-N) eða krómað, hæð stafa 25 sm. Handrið utan skips, landfestapollar og reykháfshattar máluð með svörtum lit (litanúmer NCS. S.9000-N). Þilförin grá (litanúmer NCS. S.6502-B). Lendingarhringur á þyrluþilfari hvítur (litanúmer NCS. S.0500-N) og öryggislína á þyrluþilfari appelsínugul (litanúmer NCS. S.0585-Y50R) og sjálflýsandi. Kranar, akkeri og bolur máluð með gráum lit (litanúmer NCS. S.4005-B20G). Fánalitir á síðum eru hvítur (litanúmer NCS. S.0500-N), breidd randar 47 sm, blár (litanúmer NCS. S.3560-R80B), breidd randar 215 sm og rauður (litanúmer NCS. S.1085-Y90R), breidd randar 93 sm. Halli á fánaröndum 120° miðað við efribrún á sjólínu. Orðið "Landhelgisgæslan" með hástöfum (stafagerð helvetica) málað á síður skipsins í svörtum lit, hæð stafa 99 sm. Stafir skyggðir með hvítum lit, skygging stafa 3 sm. Akkerið málað grátt (litanúmer NCS. S.4005-B20G). Merki Landhelgisgæslunnar á stefni. Skjaldarmerki lýðveldisins miðskips á brú. Björgunarbátahylki grá (litanúmer NCS. S.4005-B20G).
  2. Sjómælingabátur skal vera grár (litanúmer NCS. S.4005-B20G). Neðan við brúarglugga merkingin "Landhelgisgæslan" með hástöfum í svörtum lit, hæð stafa 16 sm (leturgerð helvetica). Fánalitir á síðum (neðan bryggjulista) skulu vera hvítur (litanúmer NCS. S.0500-N), breidd randar 12 sm, blár (litanúmer NCS. S.3560-R80B) breidd randar 75 sm og rauður (litanúmer NCS. S.1085-Y90R), breidd randar 20 sm. Halli á fánarönd skal vera 120° miðað við neðri brún bryggjulista. Skjaldarmerki lýðveldisins miðskips framan á brú, 25 sm neðan við glugga.
  3. Léttbátar varðskipa skulu vera gráir eða appelsínugulir. Þeir skulu merktir Landhelgisgæslunni og viðkomandi varðskipi á áberandi hátt.

3. gr. Þyrlur og flugvél Landhelgisgæslu Íslands.

Litur og einkenni loftfara skulu vera sem hér segir:

  1. Þyrlur skulu hafa hvítan (litanúmer NCS. S.0500-N) eða appelsínugulan (litanúmer FED-STD-595C, FSC 12250) grunnlit og svartan nefhluta/stjórnklefa. Framhluti á hvítum þyrlum skal vera rauður (litanúmer NCS. S.1085-Y90R) eða blár (litanúmer NCS. S.3560-R80B) og sami litur á aftari hluta stéls. Íslenski fáninn fyrir aftan inntök á hreyflum, fánalitir á síðum eru rauður (litanúmer NCS. S.1085-Y90R), hvítur (litanúmer NCS. S.0500-N) og blár (litanúmer NCS. S.3560-R80B). Skjaldarmerkið á aðalhurðum farþegarýmis. Heitið "Landhelgisgæslan" og á ensku orðin "Coast Guard" með svörtum hástöfum fyrir ofan aðalhjól eða eins og best verður fyrir komið. Þjóðernis- og skrásetningarmerki skulu vera samkvæmt reglum Samgöngustofu.
  2. Flugvél skal hafa hvítan (litanúmer NCS. S.0500-N) eða gráan (litanúmer NCS. S.4005-B20G) grunnlit á skrokki. Íslenski fáninn á miðju stéli og fánalitir á aftari hluta skrokks, hvítur (litanúmer NCS. S.0500-N), rauður (litanúmer NCS. S.1085-Y90R) og blár (litanúmer NCS. S.3560-R80B). Skjaldarmerkið á miðjum skrokki. Heitið "Landhelgisgæslan" með svörtum hástöfum eftir endilöngum skrokki undir gluggaröð, og á ensku orðin "Coast Guard" með svörtum hástöfum á stéli (með leturgerðinni helvetica). Þjóðernis- og skrásetningarmerki skulu vera skv. reglum Samgöngustofu.

4. gr. Leiguverkefni.

Séu skip, loftför eða önnur farartæki í eigu Landhelgisgæslunnar leigð til verkefnis utan verksviðs eða lögsögu stofnunarinnar er heimilt að víkja tímabundið frá ákvæðum reglugerðar þessarar varðandi lit og einkenni farartækjanna á meðan á verkefninu stendur.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 25. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52 14. júní 2006, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 1172/2008 um lit og einkenni farartækja Landhelgisgæslu Íslands.

6. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Farartæki Landhelgisgæslunnar, sem ekki eru í samræmi við reglugerðina við setningu hennar, skulu máluð í réttum litum og með rétt merki þegar kemur að nauðsynlegu viðhaldi þeirra.

Innanríkisráðuneytinu, 9. apríl 2014.

Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.