Fara beint í efnið

Prentað þann 2. jan. 2025

Stofnreglugerð

424/2012

Reglugerð um verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að leiðsögumaður og veiðimaður hreindýra hafi færni til að fella hreindýr á mannúðlegan hátt.

2. gr. Verklegt skotpróf.

Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.

Veiðimaður þarf að skila inn til Umhverfisstofnunar staðfestingu á að hann hafi lokið verklegu skotprófi fyrir 1. júlí ár hvert. Prófdómari skal senda niðurstöðu verklegs skotprófs til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun er heimilt að veita veiðimanni sem fær úthlutað leyfi til hreindýraveiða eftir 1. júlí frest til að skila inn staðfestingu á verklegu skotprófi.

Við útgáfu eða endurnýjun leyfis til leiðsagnar við hreindýraveiðar þarf umsækjandi að skila inn til Umhverfisstofnunar staðfestingu á að hann hafi á síðustu 12 mánuðum lokið verklegu skotprófi sem ætlað er leiðsögumönnum við hreindýraveiðar.

3. gr. Framkvæmd við verklegt skotpróf.

Verklegt skotpróf felst í að skjóta 5 skotum á skotmark með þeim riffli sem nota á við veiðar. Ákoma allra skotanna þarf að snerta eða vera innan hrings á skotmarki sem Umhverfisstofnun útbýr, sbr. 4. gr.

Prófið tekur einnig til öryggisatriða í meðferð skotvopna.

Umhverfisstofnun skal gera almennar verklagsreglur um nánari framkvæmd við verklegt skotpróf, þar sem fram kemur m.a. leyfilegar skotstellingar, hjálpartæki, tímamörk, öryggisatriði sem eru prófuð. Verklagsreglur Umhverfisstofnunar skal birta á vefsetri stofnunarinnar.

Veiðimaður skal framkvæma verklegt skotpróf með þeim riffli sem ætlunin er að nota til hreindýraveiða og með skotfærum sem ætluð eru til veiða. Leiðsögumaður skal framkvæma verklegt skotpróf með þeim riffli sem ætlunin er að nota við leiðsögn með hreindýraveiðum.

Nota skal riffla með hlaupvídd 6 mm eða meira. Kúluþyngd skal ekki vera minni en 6,5 g (100 grains) og slagkraftur ekki minni en 180 kgm (1300 pundfet) á 200 metra færi.

Verklegt skotpróf skal tekið á skotsvæði sem samþykkt hefur verið af lögreglustjóra.

Verklegt skotpróf skal framkvæmt undir handleiðslu og eftirliti prófdómara. Umhverfisstofnun gerir samninga við félagasamtök, lögaðila eða einstaklinga um framkvæmd skotprófa. Framkvæmdaraðili skotprófs skal tilnefna prófdómara sem Umhverfisstofnun samþykkir. Umhverfisstofnun skal á vefsetri sínu hafa upplýsingar um framkvæmdaraðila skotprófa sem og prófstaði.

Próftaki skal framvísa persónuskilríkjum og skotvopnaskírteini. Öllum skal vera frjálst að þreyta verklegt skotpróf.

4. gr. Skotmörk.

Umhverfisstofnun útbýr og gefur út skotmörk sem nota skal við verklegt skotpróf fyrir leiðsögumenn annars vegar og veiðimenn hins vegar.

5. gr. Vottorð um verklegt skotpróf.

Umhverfisstofnun skal gefa út vottorð um að leiðsögumaður og veiðimaður hafi staðist verklegt skotpróf. Umhverfisstofnun er heimilt í stað útgáfu vottorðs að tilgreina í leyfi leiðsögumanns, á veiðikorti eða hreindýraveiðileyfi veiðimanns að hann hafi staðist verklegt skotpróf.

Á vottorði um verklegt skotpróf skal tilgreina auðkenni þess riffils sem notaður var við framkvæmd þess. Veiðimanni er ekki heimilt að nota aðra riffla við veiðarnar.

Vottorð um verklegt skotpróf skal hafa meðferðis á hreindýraveiðum og framvísa sé þess óskað af leiðsögumanni, Umhverfisstofnun eða lögreglu.

6. gr. Prófgjald.

Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald fyrir verklegt skotpróf. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Gjald fyrir verklegt skotpróf er tilgreint í sérstakri gjaldskrá Umhverfisstofnunar. Gjald fyrir verklegt skotpróf fæst ekki endurgreitt.

7. gr. Lágmarkskröfur.

Standist leiðsögumaður eða veiðimaður ekki lágmarkskröfur, sbr. 1. mgr. 3. gr. getur hann endurtekið prófið tvisvar sinnum sama ár. Veiðimaður greiðir prófgjald fyrir hvert verklegt próf sem hann þreytir.

8. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis.

Tilraun til brota gegn reglugerð þessari varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum.

9. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett skv. 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með síðari breytingum.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 7. maí 2012.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.