Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

395/2005

Reglugerð um endurgreiðslu 80% olíugjalds af olíu vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum.

Gildissvið.

1. gr.

Eftir ákvæðum reglugerðar þessarar skal endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, 80% olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum.

Blandaður akstur.

2. gr.

Aðilar sem stunda blandaðan akstur, þ. e. falla undir 1. gr. en nota ökutæki sín jafnframt í öðrum akstri, þurfa að halda greinargerð yfir akstur ökutækja sem eru í blönduðum akstri. Í greinargerð þessari skal m.a. koma fram lengd áætlunarleiða, fjöldi ferða ökutækis á hverri áætlunarleið og heildarakstur utan áætlunarferða. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um form greinargerðar um blandaðan akstur.

Endurgreiðslutímabil.

3. gr.

Hvert endurgreiðslutímabil samkvæmt reglugerð þessari er einn mánuður.

Endurgreiðslubeiðni.

4. gr.

Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu skv. 1. gr. skulu eigi síðar en 15. dag næsta mánaðar eftir lok endurgreiðslutímabils senda ríkisskattstjóra greinargerð um kaup á olíu á því endurgreiðslutímabili.

Sé aðili í blönduðum akstri, sbr. 2. gr., skal hann skila greinargerð um blandaðan akstur með endurgreiðslubeiðni sinni.

Greinargerð samkvæmt 1. mgr. skal vera á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Slíkt eyðublað getur verið á rafrænu formi. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um fyrirkomulag og meðferð greinargerða og rafræn skil.

Afgreiðsla á umsóknum um endurgreiðslubeiðni.

5. gr.

Ríkisskattstjóri afgreiðir beiðnir um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari.

Ríkisskattstjóri skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og leiðrétta hana ef hún er í ósamræmi við reglugerð þessa eða önnur fyrirmæli skattyfirvalda. Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu. Innheimtumaður annast endurgreiðslu.

Hafi beiðni um endurgreiðslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram fimmtánda dag annars mánaðar eftir lok endurgreiðslutímabils. Frestur þessi framlengist þó ef ríkisskattstjóri getur, vegna atvika sem rekja má til umsækjanda, ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim sem beiðnin byggist á.

Komi í ljós að endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari hafi verið of há skal ríkisskattstjóri þegar í stað tilkynna aðila og innheimtumanni ríkissjóðs þar um. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta vegna of hárrar endurgreiðslu fer samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.

Færslur í bókhald og ársreikning.

6. gr.

Aðilar sem falla undir 1. gr. skulu halda í bókhaldi sínu skrá yfir akstur ökutækja. Jafnframt skulu þeir halda í bókhaldi sínu reikninga og skrár yfir olíukaup og olíunotkun og annað sem máli skiptir fyrir sönnun á réttmæti endurgreiðslunnar.

Vanræki aðili að skrá akstur eða færa fullnægjandi bókhald skv. 1. mgr. fellur niður réttur til endurgreiðslu fyrir tímabilið þegar bókhald eða skráning var ekki fullnægjandi.

Aðili sem fær endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar skal færa hana á sérstakan tekjureikning í bókhaldi sínu. Þá skal endurgreiðslan tilgreind annaðhvort sérstaklega í ársreikningi sem fylgir skattframtali eða í skýringum með honum.

Viðurlagaákvæði.

7. gr.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf í því skyni að fá endurgreiðslu á olíugjaldi samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Gildistaka.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og öðlast gildi 1. júlí 2005.

Fjármálaráðuneytinu, 22. apríl 2005.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Vala R. Þorsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.