Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

384/2005

Reglugerð um vinnu í kældu rými við matvælaframleiðslu.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vinnu í kældu rými þar sem unnið er við framleiðslu matvæla og starfa þarf við lægra hitastig en 16°C vegna heilbrigðissjónarmiða við framleiðslu vörunnar.

Reglugerð þessi gildir ekki um vinnu í frystiklefum eða kæliklefum þar sem engin vinnsla matvæla fer fram.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna sem starfa í kældu rými við matvælaframleiðslu.

II. KAFLI Skyldur atvinnurekenda.

3. gr. Áhættumat.

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé áhættumat á vinnustaðnum, sbr. 65. gr. a. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Áhættumatið skal hafa sérstaka hliðsjón af störfum innan fyrirtækis þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin vegna kulda eða af öðrum ástæðum.

4. gr. Forvarnir.

Þegar áhættumat skv. 3. gr. gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir hættu vegna kulda eða, þar sem þess er ekki kostur, að draga úr henni eins og frekast er unnt. Í áætlun um forvarnir, sbr. 66. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem skipulagi vinnunnar, vali á tækjum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum.

5. gr. Almennt um aðgerðir gegn kælingu.

Atvinnurekandi skal gæta þess að þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn verði ekki fyrir heilsutjóni vegna kulda við vinnu sína. Í því skyni skal atvinnurekandi nota þær tæknilegu lausnir sem fyrir hendi eru á hverjum tíma til að koma í veg fyrir áhrif frá kulda. Við skipulag vinnu skal atvinnurekandi leitast við að draga úr áhrifum einhæfra starfa og óheppilegs vöðvaálags. Skal gæta þess að unnt sé að aðlaga vinnuaðstæður að hverjum starfsmanni, meðal annars með tilliti til vinnuhæðar, sjónsviðs og seilingarfjarlægðar. Að öðru leyti gilda viðeigandi reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

6. gr. Hitastig.

Ávallt skal leitast við að hitastig í vinnurými þar sem unnið er að staðaldri sé eins nálægt 16°C og unnt er. Enn fremur skal þess gætt að hitastigið fari ekki niður fyrir 10°C í vinnurýminu. Með hugtakinu að staðaldri er átt við að unnið sé lengur en 1 klst. samfleytt eða um 2 klst. samanlagt yfir vinnudaginn.

Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að veita undanþágur frá 1. mgr. í sérstökum tilvikum enda sýni atvinnurekandi fram á nauðsyn þess að lækka hitastig enn frekar eða heilbrigðisyfirvöld krefjist þess vegna framleiðslunnar. Heimilt er að binda undanþáguna skilyrðum um sérstakar ráðstafanir vegna kulda sé það mat Vinnueftirlits ríkisins.

7. gr. Kæli- og loftræstikerfi.

Kæli- og loftræstikerfi skulu þannig hönnuð og uppsett að ekki verði dragsúgur í þeim hluta húsnæðisins þar sem fólk er við vinnu. Þetta á sérstaklega við þar sem unnið er við kyrrsetustörf og áreynslulítil störf.

Þar sem unnið er að staðaldri má rakastig að jafnaði ekki fara yfir 60% nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til.

Atvinnurekandi skal koma í veg fyrir að kalt loft berist úr köldu rými yfir í heitara rými. Þá skulu dyr og hlið að kældu rými vera þannig frágengin að ekki valdi dragsúg.

8. gr. Búnaður.

Atvinnurekandi skal tryggja að starfsfólk sem sinnir kyrrsetustörfum og áreynslulitlum störfum verði ekki fyrir köldum blæstri frá blásurum eða vegna varmaútgeislunar í nálægð kaldra flata.

Kaldir fletir sem starfsmenn þurfa að koma í snertingu við í starfi, svo sem handföng á verkfærum og vögnum, skulu vera einangraðir, enda sé það framkvæmanlegt með tilliti til hollustuhátta við framleiðsluna. Stólsetur skulu vera úr efni sem ekki veldur óþægindum vegna mikillar varmaleiðni. Við kyrrstöðustörf skal starfsmönnum gefinn kostur á að standa á gúmmímottum eða viðlíka undirlagi.

9. gr. Lýsing.

Við hönnun á húsnæði sem nýta skal fyrir starfsemi sem reglugerð þessi gildir um skal gæta þess að lýsing í vinnurými sé nægjanleg og miðuð að þörfum starfsmanna og mismunandi aðstæðum á vinnustaðnum.

10. gr. Hávaði.

Hávaða ber að hafa í lágmarki og hávaðasamar vélar skal einangra eða skerma af í samræmi við gildandi reglur um hávaðavarnir á vinnustöðum og heyrnareftirlit starfsmanna.

11. gr. Hvíldaraðstaða.

Þar sem unnið er við lægra hitastig en 16°C skal vera herbergi til afnota fyrir starfsmenn til skemmri dvalar. Herbergið skal vera nægjanlega stórt og það skal búið stólum og borðum fyrir alla sem ætlað er að dvelja þar samtímis.

Hitastig í þessu herbergi skal ekki vera lægra en 20°C.

12. gr. Hlé frá vinnu.

Gera skal reglulega hlé á vinnu samkvæmt nánara samkomulagi á vinnustað þegar slíkt er nauðsynlegt til að draga úr áhrifum kælingar á starfsmenn. Í hléum skulu þeir hafa aðgang að hvíldaraðstöðu skv. 11. gr.

13. gr. Persónuhlífar og hlífðarfatnaður.

Atvinnurekandi skal sjá til þess að starfsmenn fái viðeigandi hlífðarfatnað og persónuhlífar við vinnu sína þar sem ekki er unnt að forðast áhættu við vinnu á annan hátt. Starfsmenn skulu nota viðeigandi persónuhlífar við vinnu sína í samræmi við gildandi reglur um notkun persónuhlífa.

14. gr. Upplýsingar til starfsmanna.

Atvinnurekandi skal veita starfsmönnum upplýsingar um alla þætti aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggismála er tengjast vinnu þeirra. Þar á meðal skal hann upplýsa starfsmenn eða fulltrúa þeirra um allar þær ráðstafanir sem gripið er til í samræmi við reglugerð þessa.

15. gr. Samráð við starfsmenn.

Atvinnurekandi skal hafa samráð við starfsmenn eða fulltrúa þeirra og tryggja að samstarf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggismál á því sviði sem reglugerð þessi tekur til verði sem best.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

16. gr. Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum.

Atvinnurekandi skal tilkynna um sérhverja þá starfsemi, sem reglugerð þessi gildir um, til Vinnueftirlits ríkisins áður en hún hefst, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Enn fremur skal atvinnurekandi leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins skv. 93. gr. sömu laga þegar hefja skal rekstur fyrirtækis eða breyta eldra fyrirtæki sem reglugerð þessi gildir um.

17. gr. Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

18. gr. Kæruheimild.

Um kæruheimild á grundvelli reglugerðar þessarar fer skv. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

IV. KAFLI Gildistaka.

19. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 38., 43. og 44. gr., 65. gr. a. og 66. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, skal þegar öðlast gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Atvinnurekendur er þegar stunda starfsemi sem fellur undir reglugerð þessa skulu hafa komið skipulagi húsnæðis og starfsemi til samræmis við reglugerð þessa fyrir 1. janúar 2006.

Félagsmálaráðuneytinu, 5. apríl 2005.

Árni Magnússon.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.