Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. apríl 2014

350/2009

Reglugerð um kennslanefnd.

1. gr. Skipun og skipulag nefndarinnar.

Stjórnarfarslega heyrir kennslanefnd undir ríkislögreglustjóra og getur hann gefið út nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.

Nefndina skipa tveir rannsóknarlögreglumenn, réttarlæknir og tannlæknir. Skal annar rannsóknarlögreglumannanna vera formaður nefndarinnar. Fyrir hvern nefndarmann skulu vera a.m.k. tveir varamenn.

Að fenginni tillögu frá ríkislögreglustjóra, landlækni og tannlæknadeild Háskóla Íslands, skipar innanríkisráðherra nefndarmenn og varamenn til þriggja ára. Nefndarmenn skulu við störf sín bera sérstök skilríki útgefin af ríkislögreglustjóra.

2. gr. Verkefni nefndarinnar.

Nefndin skal leitast við að bera kennsl á menn, er margir hafa týnt lífi í flugslysi, skriðuföllum, snjóflóðum, flóði eða skipstapa eða öðrum náttúruhamförum, eða þegar óþekkt lík eða líkamsleifar finnast.

Við störf sín skal nefndin tryggja að gögn, sem finnast og geta haft þýðingu við að varpa ljósi á orsakir óhapps eða ábyrgð á óhappi, verði varðveitt.

Nefndin skal halda gerðarbók um rannsóknir sínar. Í hana skal færa nákvæmlega allar niðurstöður.

Nefndinni ber að semja skýrslu um niðurstöður sínar. Þegar þær lúta að því að kennsl séu borin á einhvern, skal tilgreint á hvaða atriðum niðurstöðurnar séu byggðar.

3. gr. Skipan nefndarinnar í einstöku máli.

Ríkislögreglustjóri ákveður í samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra og formann nefndarinnar, hvort nefndin skuli starfa fullskipuð eða einstakir nefndarmenn taki þátt í rannsókn tiltekins máls.

Á sama hátt skal ákveða hvort kveðja skuli aðra sérfræðinga til.

4. gr. Vettvangur rannsóknar.

Störf nefndarinnar fara að jafnaði fram í Reykjavík. Þó getur ríkislögreglustjóri ákveðið að höfðu samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra og formann nefndarinnar hvort störf nefndarinnar skuli fara fram að nokkru eða öllu leyti á vettvangi eða annars staðar, og lýtur kennslanefnd þá stjórn viðkomandi lögreglustjóra.

5. gr. Tilkynning um slysfarir og fund óþekktra líka. - Beiðni um aðstoð.

Lögreglustjórar skulu þegar í stað tilkynna ríkislögreglustjóranum og leita aðstoðar hans í eftirfarandi tilvikum:

  1. Þegar fundist hefur lík eða líkamsleifar af óþekktum manni.
  2. Við meiri háttar slysfarir, þ.e. þegar skyndilegir atburðir gerast á Íslandi, sem stafa af náttúruhamförum, slysum eða ásetnings- eða gáleysisverknaði, t.d. skriðufalli, flugslysi, sjótjóni, sprengingu eða bruna, þar sem margir menn láta lífið og sum líkanna eru þannig á sig komin, að eigi reynist unnt að bera kennsl á þau án sérfræðilegrar aðstoðar.

Lögreglustjórar geta leitað eftir aðstoð frá kennslanefndinni í öðrum tilvikum. Ríkislögreglustjórinn ákveður hvort orðið skuli við slíkri beiðni.

6. gr. Ábyrgð á stjórn rannsóknar o.fl.

Lögreglustjóri á slysstað stjórnar rannsókn og meðferð máls nema tekin hafi verið ákvörðun um að fela öðrum lögreglustjóra eða rannsóknarnefnd það hlutverk. Skýrslu um rannsókn máls og endurkennsl skal kennslanefnd skila til lögreglustjóra.

Mikilvægt er að lögregla fari á vettvang, varðveiti gögn og tryggi að þau spillist ekki. Lík, ummerki o.þ.h. skal varðveita óhreyfð, sé þess nokkur kostur og ber að vernda þau eftir föngum.

Að öðru leyti er skírskotað til almennra starfsreglna um rannsókn alvarlegra brota, vettvangsrannsókn og sérfræðilega aðstoð.

Ef rannsókn þarf að fara fram erlendis, að nokkru eða öllu leyti, skal leita ferðaheimildar hjá ríkislögreglustjóra með venjulegum hætti.

7. gr. Tilkynning til ríkislögreglustjóra um horfna menn.

Til þess að kennsl verði borin á lík eða líkamsleifar sem finnast er afar mikilvægt að haldin sé fullkomin skrá um horfna menn og upplýsingar um þá varðveittar á einum stað. Þess vegna er lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

  1. Að ríkislögreglustjóra sé tilkynnt eins fljótt og unnt er um einn eða fleiri, sem saknað er, ef telja má, að hann eða þeir séu látnir.
  2. Lögregla skal þegar afla upplýsinga um þann eða þá sem saknað er og fylla út eyðublöð sem ríkislögreglustjóri lætur í té í því skyni.
  3. Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að maður hefur horfið og ekki komið fram, skal senda ríkislögreglustjóra upplýsingar sem aflað var um hinn horfna.
  4. Hafi maður horfið við þær aðstæður, að vitað er eða talið mjög líklegt að hann hafi farist skal senda upplýsingarnar, sem getið er í b-lið, eins fljótt og mögulegt er.

8. gr. Fundir nefndarinnar.

Nefndarmenn og staðgenglar þeirra skulu hið minnsta koma saman til fundar einu sinni á ári, þar sem þeir beri saman bækur sínar um helstu nýjungar í tækjabúnaði og starfsaðferðum á þessu sviði. Á fundunum skal einnig ræða annað, er máli skiptir varðandi störf nefndarinnar.

Formaður skal sjá til þess að fundargerð verði rituð og ríkislögreglustjóra sent eintak hennar.

Við lok hvers árs skal formaður taka saman greinargerð um störf nefndarinnar.

9. gr. Kostnaður af störfum nefndarinnar.

Starf lögreglumanna, sem skipaðir eru í nefndina, telst hluti lögreglustarfs þeirra og er launað sem slíkt.

Fyrir starf annarra nefndarmanna skal greiða þóknun samkvæmt gildandi töxtum fyrir sérfræðistörf. Þóknun greiðist af málskostnaðarreikningi samkvæmt venjulegum greiðsluskilmálum.

Ferðakostnaður vegna funda samkvæmt 1. mgr. 8. gr. og funda sem haldnir eru erlendis og nauðsynlegt þykir að sækja skal greiðast af rekstrarfé ríkislögreglustjóra.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 40. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um skipun og verkefni rannsóknarnefndar, er hefur það hlutverk að bera kennsl á látna menn, nr. 401 27. júní 1997.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.