Fara beint í efnið

Prentað þann 20. jan. 2022

Stofnreglugerð

349/2004

Reglugerð um sprengifimt andrúmsloft á vinnustöðum.

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um hvers konar starfsemi þar sem starfsmenn eiga á hættu að verða fyrir sprengingu af völdum sprengifims andrúmslofts og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum og sérreglum.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

 1. rými þar sem fram fer læknismeðferð sjúklinga,
 2. notkun tækja sem brenna gasi, sbr. reglur nr. 108/1996, um tæki sem brenna gasi,
 3. framleiðslu, meðferð, notkun, geymslu og flutninga á sprengiefnum eða efnafræðilega óstöðugum efnum,
 4. jarðefnanám, sbr. reglur nr. 552/1996, um öryggisráðstafanir við jarðefnanám, og reglur nr. 553/1996, um öryggisráðstafanir við jarðefnanám með borunum,
 5. flutninga sem viðeigandi alþjóðasamningar gilda um. Reglugerðin gildir þó um flutninga á vinnustöðum þar sem hætta getur verið á sprengifimu andrúmslofti.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að bæta öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum þar sem hætta er á sprengifimu andrúmslofti.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orðanna sprengifimt andrúmsloft: blanda eldfimra efna, í formi gass, gufu, úða eða ryks og andrúmslofts þar sem bruni breiðist út um alla blönduna eftir íkviknun.

II. KAFLI Skyldur atvinnurekenda.

4. gr. Áhættumat.

Þegar líkur eru á að starfsemi geti haft í för með sér myndun sprengifims andrúmslofts skal atvinnurekandi meta eða láta meta eðli ástandsins, þar á meðal heildarmat á sprengihættunni, til að unnt sé að meta hvers konar hættu heilsu og öryggi starfsmanna sé búin. Í samræmi við matið skal atvinnurekandi ákvarða til hvaða ráðstafana skuli grípa.

Áhættumat skv. 1. mgr. skal byggjast á öllum tiltækum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um:

 1. líkur á því að sprengifimt andrúmsloft myndist og því hversu lengi slíkt ástand vari,
 2. líkur á því að íkveikjuvaldur, þar með talin úrhleðsla stöðurafmagns, sé til staðar og verði virkur,
 3. búnað, efni sem notuð eru, ferla og hugsanlega víxlverkun þeirra,
 4. umfang áhrifanna sem vænta má.

Áhættumatið skal hafa sérstaka hliðsjón af vinnusvæðum sem tengjast eða geta tengst um opnanlega hlera eða dyr á þeim rýmum þar sem hætta getur verið á sprengifimu andrúmslofti.

5. gr. Skrifleg greinargerð um sprengivarnir.

Þegar áhættumat liggur fyrir skv. 4. gr. skal atvinnurekandi sjá til þess að samin verði skrifleg greinargerð um sprengivarnir áður en vinna hefst þar sem eftirfarandi skal koma fram:

 1. að sprengihætta hafi verið greind og metin,
 2. að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar svo markmiðum reglugerðar þessarar verði náð,
 3. hvaða tiltekin vinnusvæði hafa verið flokkuð skv. 7. gr. í svæði, sbr. I. viðauka,
 4. á hvaða tilteknum vinnusvæðum lágmarkskröfur skv. II. viðauka gilda,
 5. að vinnustaður og tæki, þar á meðal viðvörunarbúnaður, séu hönnuð, starfrækt og viðhaldið á þann hátt að öryggi sé tryggt,
 6. að ráðstafanir hafi verið gerðar í samræmi við reglugerð nr. 431/1997, um notkun tækja, með síðari breytingum,
 7. samhæfing ráðstafana ásamt markmiðum hennar þar sem fleiri en einn atvinnurekandi eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, sbr. 5. mgr. 6. gr.

Atvinnurekandi skal enn fremur sjá til þess að greinargerðin um sprengivarnir verði endurskoðuð ef meiriháttar breyting eða stækkun á sér stað á vinnustað, tækjum eða vinnuskipulagi.

Atvinnurekanda er heimilt að sameina greinargerðina um sprengivarnir við áhættumatið eða aðrar jafngildar skýrslur á grundvelli annarra reglna á sviði vinnuverndar.

6. gr. Forvarnir.

Atvinnurekandi skal grípa til nauðsynlegra forvarna sem hæfa eðli starfseminnar til að sjá til þess að komið sé í veg fyrir að sprengihætta skapist.

Þegar ekki er tæknilega unnt að koma í veg fyrir sprengihættu, að teknu tilliti til eðlis starfseminnar, skal atvinnurekandi sjá fyrir sprengivörnum, þar á meðal skal hann koma í veg fyrir íkviknun sprengifims andrúmslofts og draga úr skaðlegum áhrifum sprengingar í því skyni að tryggja heilbrigði og öryggi starfsmanna.

Til viðbótar ráðstöfunum skv. 1. og 2. mgr. skal atvinnurekandi, þegar nauðsyn ber til, grípa til ráðstafana sem koma í veg fyrir að sprengingar breiðist út. Atvinnurekandi skal reglulega endurskoða þær ráðstafanir sem hann grípur til, einkum þegar verulegar breytingar eiga sér stað í starfsemi fyrirtækis.

Á vinnusvæðum þar sem hætta getur skapast á það öflugri sprengingu af völdum sprengifims andrúmslofts að heilbrigði og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi ganga úr skugga um að starfsmenn geti stundað vinnu sína á öruggan hátt og tryggja fullnægjandi eftirlit meðan starfsmenn eru við vinnu í samræmi við áhættumat skv. 4. gr.

Þar sem fleiri en einn atvinnurekandi eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað skal hver atvinnurekandi sjá til þess að starfsskilyrði séu örugg og heilsusamleg í þeim störfum er falla undir stjórnunarsvið hans. Enn fremur skulu atvinnurekendur samhæfa framkvæmd allra ráðstafana er snerta öryggi og heilbrigði starfsmanna.

7. gr. Vinnusvæði þar sem hætta er á sprengifimu andrúmslofti.

Atvinnurekandi skal skipta vinnusvæðum innan vinnustaðar þar sem hætta getur verið á sprengingu af völdum sprengifims andrúmslofts í svæði, sbr. I. viðauka.

Atvinnurekandi skal tryggja að lágmarkskröfur skv. II. viðauka gildi um vinnusvæði skv. 1. mgr.

Þar sem umfangsmikil hætta er á það öflugri sprengingu af völdum sprengifims andrúmslofts að heilbrigði og öryggi starfsmanna eða annarra er stofnað í hættu skal setja upp merki við inngang að vinnusvæðunum, sbr. III. viðauka.

8. gr. Lágmarkskröfur um tæki.

Tæki til nota á vinnusvæðum þar sem hætta getur verið á sprengifimu andrúmslofti skal uppfylla skilyrði skv. A- og B-hluta II. viðauka.

Tæki skv. 1. mgr. sem tekið var í notkun fyrir 30. júní 2003 skal uppfylla skilyrði skv. A-hluta II. viðauka nema aðrar sérreglur gildi um það.

9. gr. Lágmarkskröfur um vinnustaði.

Vinnustaður með vinnusvæði þar sem hætta getur verið á sprengifimu andrúmslofti skal uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar.

Þegar breytingar eru gerðar á vinnustað með vinnusvæði þar sem hætta getur verið á sprengifimu andrúmslofti, hann stækkaður eða endurskipulagður skal atvinnurekandi tryggja að vinnustaðurinn uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar.

III. KAFLI Gildistaka.

10. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 17., 38., 43., 47., 50., 65. gr. a og 66. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, til innleiðingar á tilskipun nr. 1999/92/EB, um lágmarkskröfur hvað varðar bætt öryggi og heilsuvernd starfsmanna sem eru hugsanlega í sprengihættu, sem vísað er til í 16. lið i XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 96/2000.

11. gr.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Vinnustaðir með vinnusvæði þar sem hætta getur verið á sprengingu af völdum sprengifims andrúmslofts og voru starfandi fyrir 30. júní 2003 skulu uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar eigi síðar en 30. júní 2006.

Félagsmálaráðuneytinu, 13. apríl 2004.

Árni Magnússon.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.