Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 7. des. 2021

Reglugerð með breytingum síðast breytt 7. maí 2020

341/2020

Reglugerð um rafræna söfnun meðmæla með forsetaefni, meðferð þeirra, varðveislu og eyðingu.

I. KAFLI Almennt ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að setja reglur um rafræna söfnun meðmæla með forsetaefni, meðferð, varðveislu og eyðingu þessara gagna, hvernig öryggi þeirra verði tryggt og hvaða tegund rafrænna auðkenna skal notuð. Jafnframt að setja reglur um form og viðmót sem Þjóðskrá Íslands lætur í té við rafræna söfnun meðmæla.

II. KAFLI Söfnun meðmæla.

2. gr. Meðmæli með framboði forsetaefnis.

Framboði til forseta Íslands skulu fylgja skrifleg meðmæli með framboði forsetaefnis í samræmi við 4. gr., sbr. 3. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945.

Meðmælin geta verið gefin með eiginhandarundirritun á pappír eða með rafrænum hætti.

3. gr. Meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands.

Við rafræna söfnun meðmælenda skal nota meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands.

4. gr. Tilkynning til Þjóðskrár Íslands.

Óski frambjóðandi þess að safna meðmælendum rafrænt skal hann eða umboðsmaður hans tilkynna það til Þjóðskrár Íslands. Skal stofnunin eins skjótt og auðið er frá því að beiðni berst, tryggja að skráning meðmælenda með tilteknum frambjóðanda geti farið fram í meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands.

5. gr. Upplýsingar um frambjóðanda og umboðsmann.

Í tilkynningu til Þjóðskrár Íslands, skal tilgreina skýrlega fullt nafn forsetaefnis og umboðsmanns hans eins og það er skráð í þjóðskrá, kennitölur þeirra og heimilisföng. Forsetaefni skal veita umboðsmanni sínum umboð gegnum umboðskerfi á Ísland.is til þess að koma fram fyrir sína hönd, s.s. að stofna framboð í meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands.

6. gr. Tegund rafrænnar auðkenningar.

Sá sem vill mæla með tilteknum frambjóðanda skal skrá sig inn í meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands með rafrænum skilríkjum. Slík innskráning er fullgild rafræn undirskrift.

7. gr. Skráning meðmæla.

Einungis þeir sem eru kosningarbærir geta skráð meðmæli sín. Skal Þjóðskrá Íslands leita upplýsinga, með samkeyrslu við þjóðskrá, hvort meðmælandi sé kosningarbær. Tilgangur samkeyrslunnar er að tryggja að viðkomandi einstaklingur sé til sem og að hann sé kosningarbær með tilliti til aldurs, ríkisfangs og landsfjórðungs.

Þegar meðmælandi hefur skráð sig inn með rafrænum skilríkjum birtist honum listi með nöfnum forsetaefna. Röð forsetaefna skal birtast í tilviljanakenndri röð eftir innskráningu. Meðmælandi getur einungis mælt með einu forsetaefni. Hann getur ávallt afturkallað samþykki sitt meðan á söfnun stendur og mælt með öðru forsetaefni. Vegna forsetakosninga 27. júní 2020 stendur rafræn söfnun meðmæla til kl. 23.59 hinn 19. maí 2020.

8. gr. Aðgangur yfirkjörstjórnar.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að veita yfirkjörstjórnum aðgang að meðmælendakerfi sínu í þeim tilgangi að fara yfir meðmæli með forsetaefni með tilliti til kosningarbærni og hvort tilteknum fjölda meðmælenda er náð í hverjum landsfjórðungi fyrir sig.

III. KAFLI Meðferð persónuupplýsinga, varðveisla og eyðing upplýsinga.

9. gr. Varðveisla og meðferð persónuupplýsinga.

Við vinnslu upplýsinga úr meðmælendakerfinu skal Þjóðskrá Íslands gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga með hliðsjón af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

10. gr. Eyðing gagna.

Þjóðskrá Íslands skal að afloknum forsetakosningum og eigi síðar en ári eftir að söfnun meðmælenda lauk, eyða þeim gögnum úr meðmælendakerfi sínu sem bera með sér hvernig skráningu meðmælenda var háttað.

IV. KAFLI Annað.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þess er sett með stoð í ákvæði til bráðabirgða við lög um framboð og kjör forseta Íslands nr. 36/1945, sbr. lög nr. 30/2020 og tekur þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.