Fara beint í efnið

Prentað þann 20. jan. 2022

Stofnreglugerð

331/2005

Reglugerð um kjöt og kjötvörur.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um flokkun og samsetningu kjöts og kjötvara hér á landi. Ákvæði hennar ná einnig til nafngifta og annarra merkinga sem notaðar eru við dreifingu kjöts og kjötvara.

2. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja að neytendur fái réttar og greinargóðar upplýsingar um kjöt og kjötvörur sem boðnar eru til sölu, auglýstar eða kynntar með öðrum hætti.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin hugtök svofellda merkingu:

 1. Kjöt er beinagrindarvöðvar spendýra og fugla sem hæfir eru til manneldis ásamt meðfylgjandi eða tengdum vefjum. Þind og kjálkavöðvar eru hluti af beinagrindarvöðvum en hjarta, tunga, vöðvar í höfði (nema kjálkavöðvar), löppum og rófu (dindli, hala) eru undanskildir.
 2. Innmatur eru hjörtu, lifur, nýru og aðrir hlutar sláturdýra sem ekki falla undir skilgreiningu á kjöti en eru nýttir til manneldis.
 3. Ferskt kjöt er kjöt, þar með talið kjöt í lofttæmdum og loftskiptum umbúðum sem að frátalinni kælingu hefur ekki verið meðhöndlað til að lengja geymsluþolið.
 4. Kjötvara er hver sú vara sem unnin er úr kjöti og/eða innmat. Í henni geta einnig verið önnur hráefni svo og aukefni, en hámark þeirra fer eftir því um hvaða vöru er að ræða. Samanlagt magn annarra hráefna og aukefna má þó aldrei fara yfir 65%.
 5. Önnur hráefni eru innihaldsefni eins og sojamjöl, mjólkurprótein, undanrennuduft, kartöflumjöl, sterkja, sykur og aðrir prótein- og kolvetnagjafar. Einnig er átt við vatn sem bætt er í vöruna, svo og salt, krydd og bragðefni.

4. gr. Flokkun kjötvara.

Kjöti og kjötvörum skal skipt í eftirfarandi flokka:

 1. Hreinar kjötvörur eru kjötskrokkar, kjötstykki, kjötsneiðar, kjötbitar, hakk og hamborgarar, sem engu hefur verið aukið í.
 2. Kjöt og kjötvörur með viðbættu vatni er kjöt og kjötvörur þar sem viðbætt vatn fer yfir 10% í hrárri lokaafurð eða 5% í soðinni lokaafurð. Í vörur í þessum flokki má einungis bæta aukefnum og vatni.
 3. Blandaðar kjötvörur eru vörur unnar úr kjöti með því að hluta það, brytja í bita eða hakka og blanda það eða hjúpa með öðrum hráefnum og/eða aukefnum skv. reglugerð um aukefni í matvælum með síðari breytingum, nr. 285/2002.
 4. Þurrkryddað og kryddlegið kjöt eru heil stykki, sneiðar eða bitar sem legið hafa í kryddi eða kryddlegi.
 5. Sláturmatur er vara úr innmat og/eða vara sem byggir á innlendri matarhefð eins og svið, blóðmör, lifrarpylsa, lundabaggar, hrútspungar og bringukollar.
 6. Saltaðar vörur eru kjötvörur úr heilum stykkjum, sneiðum, bitum eða hakki, sem verkaðar eru með þurr-, pækil-, sprautu- eða veltisöltun og ef til vill reykingu og suðu. Vörum í þessum flokki er skipt í eftirfarandi undirflokka:

  1. Hráar saltaðar vörur þurfa hitameðferð fyrir neyslu nema um sé að ræða þurrkaða og/eða gerjaða hrávöru. Undir þennan flokk falla m.a. saltkjöt, hangikjöt, beikon og hamborgarhryggur.
  2. Soðnar saltaðar vörur eru vörur sem eru tilbúnar til neyslu, svo sem skinka, hangiálegg og soðin rúllupylsa.
 7. Farsvörur eru vörur úr försuðu kjöti sem blandað er öðrum hráefnum og aukefnum. Þær eru flokkaðar eftir vinnslu og meðferð í eftirfarandi undirflokka:

  1. Hráar farsvörur eru vörur sem þurfa hitameðferð fyrir neyslu, svo sem kjötfars og hrá medisterpylsa.
  2. Matar- og áleggspylsur eru soðnar farsvörur mótaðar í görn eða á annan hátt.
  3. Kæfur og pate eru vörur úr hökkuðu eða försuðu kjöti og/eða innmat, blönduðu öðrum hráefnum og/eða aukefnum. Varan er hituð, mótuð og er skurðföst eða smyrjanleg.
 8. Hrápylsur eru framleiddar úr smækkuðu kjöti með söltun, þurrkun, gerjun og ef til vill reykingu og eru borðaðar hráar, svo sem spægipylsa og pepperóní. Vatn í fitufríu efni (mælikvarði á þurrkun) á ekki að vera meira en 70%.
 9. Kjötsultur eru soðnar vörur úr kjöti og öðrum hráefnum og/eða aukefnum og mynda hlaup eftir hitun.

5. gr. Markaðssetning.

Við sölu á hreinum kjötvörum skal tilgreint úr hvaða flokkum hráefni er, sbr. viðauka III við reglugerð þessa, og skal það koma fram í innihaldslýsingu.

Heitið nautakjöt skal ekki notað sem samheiti fyrir kjöt af nautgripum heldur skal það einungis notað um ungneytakjöt, sbr. viðauka III.

6. gr. Almenn merkingarákvæði.

Við merkingu, auglýsingu og kynningu skulu kjöt og kjötvörur vera í samræmi við skilgreiningar í 3. og 4. gr. og reglur um gæðaflokkun, sem fram koma í viðauka I við reglugerð þessa. Jafnframt skal uppfylla ákvæði viðauka II og 7., 8. og 9. gr. þessarar reglugerðar. Þegar notuð eru alþjóðleg heiti kjötvara önnur en fram koma í reglugerð þessari skal fylgja hefðbundnum aðferðum, uppskriftum og útliti þeirra enda sé það í samræmi við aðrar reglur um matvæli.

7. gr. Innihaldslýsing.

Innihaldslýsing skal veita nákvæmar upplýsingar um samsetningu vörunnar og skal magn hráefna tilgreint þegar um það er gerð krafa. Umbúðamerkingar skulu að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði reglugerðar um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, nr. 588/1993, með síðari breytingum.

Umhverfisstofnun gefur út leiðbeiningar um útreikninga og merkingar sem byggja á upplýsingum um efnasamsetningu kjöthráefna úr íslenska gagnagrunninum um efnasamsetningu matvæla (ÍSGEM). Útreikningar á kjötmagni, viðbótarfitu og viðbótar bandvef, skulu byggjast á uppskriftum af viðkomandi vörum og samsetningu þeirra. Fyrirtækjum er einnig heimilt að styðjast við mælingar sem þau láta framkvæma fyrir sig.

Næringargildi er skylt að merkja á umbúðum kjötvara. Merkingin skal a.m.k. tilgreina orku, magn orkuefna og natríum. Ákvæði þetta skal þó ekki gilda um hreinar kjötvörur og kjöt með beini. Þó er skylt að tilgreina magn fitu í hakki og hamborgurum sbr. viðauka II.

8. gr. Fullyrðingar.

Fullyrðingar um næringargildi, svo sem merkingin ,,lítið salt" eða ,,fituskert", eru aðeins heimilar fyrir vörur sem uppfylla skilyrði um slíkar merkingar í samræmi við ákvæði reglugerðar um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, nr. 588/1993, með síðari breytingum. Skal í þeim tilvikum miðað við dæmigerða efnasamsetningu fyrir samskonar eða sambærilega vöru.

9. gr. Viðbætt vatn.

Vatn, sem aukið er í kjöt í heilum stykkjum (eða í endurmótaðar vörur sem líta út eins og heilir vöðvar), skal tilgreina í tengslum við vöruheiti ef magn þess fer yfir 5% í soðnum vörum eða 10% í hráum vörum. Jafnframt skal tilgreina magn kjöts í innihaldslýsingu skv. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, nr. 588/1993, með síðari breytingum.

10. gr. Innra eftirlit.

Matvælafyrirtæki skulu, við reglubundið eftirlit, geta framvísað fullnægjandi gögnum um að vörur þeirra séu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og skulu gögnin vera hluti af innra eftirliti fyrirtækisins. Eftirlitsaðilar skulu hafa fullan aðgang að slíkum gögnum um innra eftirlit fyrirtækisins, sbr. einnig ákvæði reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, nr. 522/1994.

Matvælafyrirtækjum er heimilt að reikna út samsetningu kjötvara að fengnu samþykki eftirlitsaðila að því tilskyldu að stuðst sé við gagnagrunn sem Umhverfisstofnun telur fullnægjandi.

11. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar, nema annað sé ákvarðað skv. lögum eða sérreglum.

Við rannsóknir skulu einungis notaðar faggiltar rannsóknaraðferðir. Ef aðrar rannsóknaraðferðir eru notaðar skal leita eftir samþykki Umhverfisstofnunar. Eftirlitsaðila er heimilt að taka sýni til rannsókna á kostnað framleiðanda eða dreifanda sé rökstuddur grunur um að vara uppfylli ekki ákvæði 7., 8. og 9. gr. þessarar reglugerðar.

12. gr. Málsmeðferð og viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt 30. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Um viðurlög fer samkvæmt 31. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995 sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, sbr. og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um kjöt og kjötvörur, nr. 302/1998.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrir vörur, sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar, er frestur til 18. mars 2006 að gera nauðsynlegar breytingar í samræmi við þessa reglugerð.

Umhverfisráðuneytinu, 18. mars 2005.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.