Fara beint í efnið

Prentað þann 24. des. 2024

Stofnreglugerð

323/2010

Reglugerð um efni og gerð viðbragðsáætlana.

1. gr.

Einstök ráðuneyti, undirstofnanir þeirra, sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum skulu gera viðbragðsáætlun þar sem gerð er grein fyrir viðbrögðum og aðgerðum í almannavarnaástandi. Almannavarnanefndir sveitarfélaganna skulu gera viðbragðsáætlanir sem ná til umdæma þeirra og varða viðbrögð og aðgerðir í samræmi við hættumat umdæmisins.

Viðbragðsáætlanir skulu unnar í samvinnu við ríkislögreglustjóra sem gefur út fyrirmynd að viðbragsáætlunum og leiðbeiningar um gerð þeirra.

2. gr.

Sá sem gera skal viðbragðsáætlun, sbr. 1. gr., skal boða þá viðbragðsaðila sem hlutverki hafa að gegna í áætluninni til fundar. Úr þeim hópi skal valinn verkefnastjóri og tveir menn með honum í stýrihóp sem útbýr viðbragðsáætlun. Stýrihópurinn skal við þá vinnu hafa samráð við vinnuhóp sem í sitja fulltrúar þeirra viðbragðsaðila sem hlutverki hafa að gegna í áætluninni.

Viðbragðsáætlun skal staðfest af viðkomandi ráðuneyti, stofnun eða almannavarnanefnd og send ríkislögreglustjóra.

3. gr.

Auk þeirra atriða er greinir í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir skulu a.m.k. eftirfarandi atriði koma fram í viðbragðsáætlun:

  1. Inngangur þar sem m.a. er gerð grein fyrir viðeigandi lögum og þeim forsendum sem viðbragðsáætlun byggir á.
  2. Skilgreiningar á hugtökum.
  3. Upplýsingar um staðhætti.
  4. Stigskipting viðbragðsáætlunar í óvissu-, hættu- og neyðarstig.
  5. Hverjir teljist til viðbragðsaðila, hlutverk þeirra, viðbrögð og starfssvæði.
  6. Hvernig staðið skuli að boðun viðbragðsaðila.
  7. Hver taki ákvörðun um virkjun viðbragðsáætlunar.
  8. Breytingasaga viðbragðsáætlunar.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir, öðlast þegar gildi.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 15. apríl 2010.

Ragna Árnadóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.