Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 24. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 24. apríl 2018

320/2008

Reglugerð um söfnunarkassa.

1. gr. Heimild til að reka söfnunarkassa.

Íslenskum söfnunarkössum, sem er félag í eigu Rauða kross Íslands, Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er heimilt að reka allt að 650 söfnunarkassa með peningavinningum, sbr. lög nr. 73 19. maí 1994. Félaginu er heimilt að reka starfsemi sína undir heitinu Íslandsspil.

Íslenskum söfnunarkössum er skylt að tilkynna dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um nýja söfnunarkassa og nýja leiki hverju sinni.

2. gr. Um söfnunarkassa.

Söfnunarkassi skal vera sjálfstæð eining, hvorki sambyggð við aðrar spilavélar né samtengd öðrum spilavélum, og má ekki mynda sameiginlegan vinningspott með öðrum vélum eða spilakerfum.

Söfnunarkassi skal vera merktur Íslenskum söfnunarkössum og bera raðnúmer. Kassinn skal bera með sér til hvaða starfsemi söfnunarfé rennur.

Á söfnunarkassa skal koma fram aldurslágmark til þátttöku í spili og áminning um að yngri þátttakendur en 18 ára eigi ekki tilkall til vinnings.

3. gr. Öryggiskröfur.

Söfnunarkassi skal vera búinn rafrænum teljarabúnaði og skrá allar færslur. Með teljarabúnaðinum skal skrá heildarframlög í söfnunarkassa og útborgaða vinninga.

Ef söfnunarkassi er núllstilltur skal halda skrá yfir loka- og upphafstölur.

4. gr. Staðsetning.

Heimilt er að reka söfnunarkassa á eftirtöldum stöðum:

  1. Í söluturnum, myndbandaleigum, verslunum, áningarstöðum, umferðarmiðstöðvum og veitingastöðum.
  2. Á vínveitingastöðum og spilasölum.

Aðeins má staðsetja söfnunarkassa þar sem unnt er að koma við virku eftirliti með kössunum. Þar skal vera búnaður sem tryggir að unnt sé að slökkva á söfnunarkassa ef þörf er talin á.

Tilkynna skal lögreglustjóra um staðsetningu söfnunarkassa viku áður en kassi er settur upp og viku eftir að hann er fjarlægður.

5. gr. Aðgangur að söfnunarkössum.

Aðgangur að söfnunarkössum skal takmarkaður við einstaklinga sem náð hafa 18 ára aldri. Yngri þátttakendur eiga ekki tilkall til vinnings úr kössunum.

Á hverjum stað þar sem söfnunarkassi er í notkun skal vera umsjónarmaður sem þátttakendur geta snúið sér til. Umsjónarmaður kassanna á hverjum stað skal halda uppi fullnægjandi eftirliti með aldri þátttakenda.

6. gr. Framlag.

Þátttaka í leik, sem forritaður er í söfnunarkassa, felst í því að notandi söfnunarkassans greiðir að lágmarki eina einingu fyrir hvern leik. Einingin getur verið 1 kr., 2 kr., 5 kr., 10 kr., 25 kr. eða 50 kr. Greinilega skal koma fram á söfnunarkössunum hver sé grunneining leiks.

Hámarksfjárhæð sem hægt er að nota í hverjum einstökum leik á stöðum skv. a-lið 1. mgr. 4. gr. er 250 kr. og 300 kr. á stöðum skv. b-lið 1. mgr. 4. gr.

Í söfnunarkassana er heimilt að nota íslenska mynt og seðla sem í gildi eru á hverjum tíma.

Lengd hvers leiks má þó aldrei vera skemmri en 2 sekúndur.

7. gr. Vinningar.

Vinningshlutfall söfnunarkassanna skal vera að lágmarki 89% af verðmæti innborgaðra leikja.

Vinningur skal á stöðum skv. a-lið 1. mgr. 4. gr. vera að hámarki 20.000 kr., en á stöðum skv. b-lið 1. mgr. 4. gr. að hámarki 300.000 kr.

Á hverjum söfnunarkassa skal koma fram vinningaskrá sem sýnir með greinilegum hætti hverjir vinningar eru.

Vinningar skulu vera skilgreindir með samstæðum merkja, tölustafa og spila.

8. gr. Útborgun vinnings.

Vinningshafi skal að jafnaði fá vinning sinn greiddan úr söfnunarkassa á sjálfvirkan hátt, með mynt eða útprentuðum miða. Nú eru ekki nægilega margir peningar í söfnunarkassa til að greiða út vinning, eða aðrir tálmar eru á því að vinningur verði greiddur, og skal þá umsjónarmaður greiða út vinning eða láta vinningshafa í té skilríki sem hann getur framvísað hjá Íslenskum söfnunarkössum til greiðslu.

Vinningur verður hvorki greiddur út til þátttakanda, sem ekki hefur leyfi til að leggja fram fé í söfnunarkassa, né forráðamanns hans í hans stað.

Vinningsmiðar eru eingöngu greiddir á útgáfustað eða á skrifstofu Íslenskra söfnunarkassa. Vinningur er gildur í eitt ár frá útgáfu hans, en fæst aðeins greiddur á útgáfustað í 30 daga frá útgáfu hans.

9. gr. Tölvukerfi.

Íslenskir söfnunarkassar skulu reka tölvukerfi sem heldur utan um allar mælastöður og fjárhagsupplýsingar hvers kassa. Jafnframt skal halda utan um staðsetningar og ferilskrá allra kassa ásamt raðnúmeri (framleiðslunúmeri) þeirra.

Tölvukerfi skal tryggja að hægt sé að:

  1. fylgjast með að skilyrðum 1. mgr. 7. gr. um vinningshlutfall sé fullnægt,
  2. fylgjast með fjölda kassa í notkun á hverjum tíma,
  3. skoða staðsetningar og ferilskrá einstakra kassa,
  4. fá hvenær sem er útprentun á þeim upplýsingum sem geymdar eru í tölvukerfinu.

10. gr. Eftirlit.

Íslenskir söfnunarkassar skulu bera kostnað af eftirliti með því að starfræksla söfnunarkassa sé í samræmi við lög og reglugerð þessa.

Dóms- og kirkjumálaráðherra skipar eftirlitsaðila til að yfirfara söfnunarkassa og leiki og sinna eftirliti með þeim. Jafnframt skipar ráðherra eftirlitsaðila til að gera úttekt á og fylgjast með miðlægu tölvukerfi skv. 9. gr.

Eftirlitsaðili skal skila vottorðum sínum og skýrslum til dóms- og kirkjumálaráðuneytis svo oft sem þurfa þykir, samkvæmt nánari ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra. Ráðherra setur eftirlitsaðila nánari fyrirmæli um störf hans og framkvæmd eftirlitsins.

Íslenskir söfnunarkassar skulu veita dóms- og kirkjumálaráðuneyti, eftirlitsaðilum og lögreglu aðgang að nauðsynlegum gögnum svo unnt sé að hafa eftirlit með söfnunarkössum, spilum og miðlægu tölvukerfi.

Íslenskir söfnunarkassar skulu skila dóms- og kirkjumálaráðuneytinu ársreikningi. Með ársreikningi ber meðal annars að skila upplýsingum um heildarfjárhæð framlaga í söfnunarkassa, upphæð vinninga sem spilað er fyrir, útgreidda vinninga, heildarveltu og tekjur af söfnunarkössum.

11. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 4. gr. laga um söfnunarkassa nr. 73/1994, með síðari breytingu, öðlast þegar gildi. Jafnramt fellur úr gildi reglugerð nr. 277/2005 um söfnunarkassa.

Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.