Fara beint í efnið

Prentað þann 21. jan. 2022

Stofnreglugerð

313/2005

Reglugerð um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda.

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr. Skilgreining gildissviðs.

Reglugerð þessi gildir um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda.

2. gr. Orðskýringar.

Alþjónusta:

Póstþjónusta sem landsmenn skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli.

Einkaréttarþjónusta: Póstþjónusta sem enginn má veita nema ríkið eða póstrekandi í umboði þess.

Póstrekandi: Aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu.

Póstþjónusta: Þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og skila á póstsendingum gegn greiðslu.

Rekstrarleyfishafi: Aðili sem hefur leyfi til að veita alþjónustu.

3. gr. Aðilar sem aðgreina skulu tekjur og kostnað í bókhaldi sínu.

 1. Póstrekandi sem fengið hefur rekstrarleyfi og á hafa verið lagðar kvaðir um að veita alþjónustu.
 2. Póstrekandi sem falinn hefur verið einkaréttur ríkisins, sbr. 11. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.
 3. Póstrekandi sem stundar einnig leyfisskylda starfsemi á öðru sviði en póstþjónustu.

II. KAFLI Bókhaldsleg aðgreining.

4. gr. Tilgangur.

Tilgangur með aðgreiningu á kostnaði í bókhaldi fyrirtækis er:

 1. að hægt verði að sjá tekjur og kostnað fyrir mismunandi rekstrareiningar,
 2. að geta sýnt fram á að sömu skilmálar gildi um þjónustu sem veitt er öðrum fyrirtækjum og þjónustu sem innt er af hendi við aðrar deildir póstrekandans sem hlut eiga að máli,
 3. að auka traust á aðferðum við ákvörðun gjalds fyrir mismunandi tegundir þjónustu.

5. gr. Framkvæmd aðgreiningar.

Póstrekandi sem fellur undir ákvæði 3. gr. skal færa bókhald á þann hátt að hægt verði að skipta öllum tekjum og kostnaði niður á rekstrareiningar sem tengja má mismunandi þjónustu.

Póstrekandi skal gera grein fyrir þeim aðferðum sem viðhafðar eru samkvæmt 1. mgr. við skiptingu tekna og kostnaðar og fá samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir þeim.

6. gr. Millifærslur.

Þegar hluti af rekstri póstrekanda fer fram í dótturfyrirtæki eða þjónusta skiptist milli deilda eða rekstrareininga skal skrá allar færslur milli fyrirtækjanna, deildanna eða rekstrareininga með skýrum aðskilnaði í bókhaldi.

7. gr. Eignamat.

Með hliðsjón af mati á afskriftum og ávöxtunarkröfu þeirra fjármuna sem þarf til að veita póstþjónustu er heimilt að leggja mat á virði þeirra fjárfestinga sem krafist er til að inna af hendi viðkomandi þjónustu. Að jafnaði skal ekki reikna viðskiptavild til eigna sem þarf til að veita póstþjónustu.

8. gr. Afskriftir.

Beita skal aðferðum beinlínu afskriftar við mat á árlegum afskriftum eigna sem tengjast framboði þjónustunnar. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt þegar sérstakar aðstæður krefjast þess, að samþykkja notkun annarra afskriftaraðferða og að taka tillit til hugsanlegs hrakvirðis eignar.

9. gr. Ávöxtunarkrafa.

Reikna skal kostnað af fjármagni sem bundið er í eignum sem notaðar eru í sambandi við framboð þjónustu. Ávöxtun fjármagnsins skal taka mið af hlutfallinu á milli eigin fjár lögbundins ársreiknings og vaxtaberandi skulda og byggjast á vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar (WACC). Taka ber tillit til frádráttarbærni vaxta gagnvart útreikningi tekjuskatts þegar vegið meðaltal fjármagnskostnaðar er reiknað. Niðurfærsla viðskiptavildar sem til er orðin sem viðbót á kaupverði eigna félags og falin er í framtíðarsjóðstreymi þess skal ekki skerða eigið fé félagsins við útreikning á vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar eins og hér hefur verið lýst.

10. gr. Greining tekna og kostnaðar eftir þjónustu.

Færa skal tekjur á sérhverja tegund þjónustu skv. 12. gr.

Greining kostnaðar byggist á fyrirfram ákveðinni skilgreiningu á tilkostnaði fyrir sérhverja tegund þjónustu skv. 12. gr.

Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað aðrar aðferðir í undantekningartilfellum.

Póst- og fjarskiptastofnun getur metið hagkvæmni rekstrar og hafnað kostnaði ef sýnt er fram á að um kostnað er að ræða sem ekki er nauðsynlegur við að veita viðkomandi þjónustu.

11. gr. Verðgrundvöllur.

Verð á þjónustu skal byggjast á raunkostnaði að viðbættri hæfilegri álagningu samkvæmt 9. gr.

12. gr. Skipting eftir tegundum þjónustu.

Póstrekandi sem fellur undir 3. gr. skal gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir því hvernig aðgreiningu í bókhaldi er háttað með tilliti til tekna og kostnaðar fyrir þær þjónustugreinar sem falla undir:

 1. Póstþjónustu í alþjónustu innan einkaréttar.
 2. Póstþjónustu í alþjónustu utan einkaréttar.
 3. Aðra póstþjónustu.
 4. Aðra þjónustu.

13. gr. Ársreikningar og reikningsyfirlit.

Póstrekandi sem fer með einkarétt ríkisins samkvæmt 11. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og þeir póstrekendur sem á hafa verið lagðar kvaðir um að veita alþjónustu skulu semja reikningsskil fyrir alla sérgreinda starfsemi sem lýst er í töluliðum 12. gr. reglugerðarinnar. Eftirtalin reikningsyfirlit og upplýsingar skulu fylgja ársreikningi sem senda skal Póst- og fjarskiptastofnun:

 1. Sérgreindur rekstrarreikningur fyrir hinar ýmsu deildir eða þjónustu.
 2. Forsendur að kostnaðarskiptingu: þ.m.t. einingarverð og magntölur.

Póstrekandi skal upplýsa um þær reikningsskilaaðferðir sem beitt er við ársreikningsgerð hinnar ýmsu þjónustu.

Við gerð reikningsskila þjónustu og deilda og hins lögbundna ársreiknings skal þess gætt að kleift sé að rekja þann mismun sem upp kemur vegna mismunandi reikningsskilaaðferða.

Á öllum reikningsskilum skal vera áritun endurskoðanda.

14. gr. Upplýsingaskylda.

Póstrekandi sem á hefur verið lögð kvöð um að veita alþjónustu skal að beiðni Póst- og fjarskiptastofnunar afhenda stofnuninni, innan hæfilegs frests sem Póst- og fjarskiptastofnun setur, sundurliðaðar bókhalds- og fjármálaupplýsingar svo að stofnunin geti tryggt að tilgangi 4. gr. megi ná. Stofnuninni er heimilt að birta slíkar upplýsingar í heild eða að hluta til, ef það er talið leiða til meiri samkeppni og opnari markaðar og eins til að tryggja að jafnræðis sé gætt nema að eðlilegt og sanngjarnt teljist að leynt sé farið með viðkomandi upplýsingar vegna viðskiptahagsmuna.

Þegar nota á kostnaðargreiningu póstrekanda til þess að ákvarða verð á þjónustu sbr. 11. gr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast skriflegra upplýsinga sem gera stofnuninni kleift að leggja mat á eftirfarandi þætti:

 1. Eignamat.
 2. Afskriftir.
 3. Arðsemi.
 4. Framkvæmd kostnaðargreiningar.

III. KAFLI Fjárhagsleg aðgreining.

15. gr.

Fjárhagslegur aðskilnaður skal vera á milli póstþjónustu og annars reksturs póstrekanda. Ef fjárhagsleg aðgreining deilda póstrekanda hefur verið fyrirskipuð skal póstrekandi auk þess að fara að ákvæðum II. kafla um bókhaldslegan aðskilnað.

IV. KAFLI Eftirlit.

16. gr. Eftirlitsskylda.

Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt, sbr. 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003.

V. KAFLI Heimildarákvæði.

17. gr. Heimildarákvæði.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, með síðari breytingum.

18. gr. Gildistaka.

Póstrekendur skulu hefja færslu bókhaldsgagna í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar eigi síðar en hinn 1. janúar 2006.

Samgönguráðuneytinu, 11. mars 2005.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.