Prentað þann 28. des. 2024
292/2014
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 866/2011, um öryggisstjórnun vegamannvirkja.
Efnisyfirlit
1. gr.
5. gr. breytist þannig:
- Í stað orðsins "eða" í fyrirsögn kemur: og.
- Greinin verði svohljóðandi:
Vegagerðin skal, á a.m.k. þriggja ára fresti, raða köflum vega sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu eftir fjölda slysa og slysatíðni í þeim tilgangi að finna þá kafla þar sem umferðaröryggisaðgerðir skila mestum árangri.
Vegagerðin skal sjá til þess að vegarkaflar, þar sem slys eru mörg og slysatíðni er há, séu metnir af sérfræðingum, sem fara á vettvang ef þörf er á, og greina þau atriði sem geta átt þátt í slysum, eins og nánar er kveðið á um í verklagsreglum Vegagerðarinnar um umferðaröryggisstjórnun sem birtar eru sem fylgiskjal 1 með reglugerð þessari. A.m.k. einn sérfræðinganna skal uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. Varðandi forgangsröðun aðgerða er vísað til áðurnefndra verklagsreglna.
2. gr.
7. gr. verði svohljóðandi:
Til að öðlast starfsleyfi sem umferðaröryggisrýnir skal viðkomandi hafa viðeigandi reynslu eða þjálfun í vegahönnun, tæknivinnu á sviði umferðaröryggis og slysagreiningu og ljúka námskeiði í samræmi við námskrá sem Vegagerðin hefur látið semja og staðfest hefur verið af ráðherra.
Samgöngustofa annast útgáfu hæfisskírteina til þeirra sem uppfylla skilyrði til að sinna starfi umferðaröryggisrýnis.
Umferðaröryggisrýnar skulu viðhalda þekkingu sinni með því að taka reglulega þátt í endurmenntunarnámskeiðum.
Á þeim tíma sem rýni fer fram má rýnir ekki taka þátt í hugmyndavinnu eða rekstri viðkomandi vegamannvirkis.
Frá og með 1. október 2013 skal umferðaröryggisrýni einungis framkvæmd af rýnum sem gengist hafa undir þjálfun, sbr. 1. mgr.
3. gr.
Í stað orðsins "eða" í III. lið í 8. gr. kemur: og.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett með vísan til 2. mgr. 46. gr. vegalaga nr. 80/2007 og öðlast þegar gildi.
Innanríkisráðuneytinu, 30. janúar 2014.
Hanna Birna Kristjándóttir.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
VERKLAGSREGLUR
Vegagerðarinnar um umferðaröryggisstjórnun (frá 25. október 2013).
5.5.01 Umferðaröryggismat (RSIA Road Safety Impact Assessment) hjá Vegagerðinni.
Markmið: Tryggja að áhrif nýrra eða mikið breyttra vega á umferðaröryggi séu metin áður en endanleg lega þeirra er ákveðin. Bæði er átt við umferðaröryggi hinna nýju eða breyttu vega og umferðaröryggi aðliggjandi vega.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmt af: | Vinnuhópi um umferðaröryggismat. Í þessum hópi sitja aðilar úr verkefnishópi um umferðaröryggismat. |
Hvenær: | Samkvæmt reglum um umferðaröryggismat. |
Tilvísanir: | Hönnunarreglur, lög og reglugerðir. |
Hjálpargögn: | Ýmis gögn s.s. tilskipun ESB um öryggisstjórnun vegamannvirkja, 2008/96/EB, dags 19. nóvember 2008 og gögn frá CEDR (Samtök evrópskra vegamálastjóra) um útfærslu á umferðaröryggismati í Evrópu. Leiðbeiningar um gerð umferðaröryggismats. |
Skrásetning: | Hjá hönnunardeild. |
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmd:
1. Umferðaröryggismat skal fara fram á fyrsta hönnunarstigi þ.e. frumdragastigi.
2. Verkefnisstjóri (hönnunarstjóri) skal senda formanni verkefnishóps um umferðaröryggismat hönnunargögn á rafrænu formi skv. eftirfarandi reglum:
2.1 Fyrir allar nýjar vegaframkvæmdir og meiriháttar viðhaldsverkefni á Evrópuvegum (TERN-vegum), sjá leiðbeiningar, og einnig öðrum stofn- og tengivegum, sem kosta 260 milljónir króna eða meira (vísitala áætlana 14.000 og fylgir verðlagi vísitölu áætlana) og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó að verkið sé unnið á nokkrum árum.
2.2 Fyrir verk sem fara í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Niðurstöður umferðaröryggismats skulu koma fram í sérstakri skýrslu, sjá síðar, sem er ein þeirra skýrslna sem liggja til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar.
2.3 Fyrir smærri verkefni sem talin eru hafa mikla þýðingu út frá umferðaröryggi að mati verkefnisstjóra (hönnunarstjóra).
3. Vinnuhópur um umferðaröryggismat skal meta frumdrög fyrir þau verk sem hér hafa verið skilgreind og senda skýrslu um athugasemdir hópsins til verkefnisstjóra (hönnunarstjóra) innan fjögurra vikna frá móttöku gagna, ef því verður við komið, annars eins fljótt og auðið er. Í skýrslunni á að koma fram samanburður valkosta með tilliti til umferðaröryggis. Skýrslan þarf að liggja fyrir áður en forhönnun viðkomandi mannvirkis hefst.
4. Verkefnisstjóri (hönnunarstjóri) skal meta niðurstöður vinnuhóps og kemur þeim á framfæri við hönnuð. Verkefnisstjóri gerir svæðisstjóra og formanni verkefnishóps um umferðaröryggismat skriflega grein fyrir því hvernig farið var með athugasemdir hópsins.
5. Vinnuhópurinn fer yfir svör frá verkefnisstjóra og skráir niðurstöður sínar.
6. Telji vinnuhópur sá, er að matinu stóð, að einhver þau atriði sem hann hefur lagt til og verkefnisstjóri ætlar ekki að taka tillit til séu verulega þýðingarmikil skal senda vegamálastjóra upplýsingar þar um. Vegamálastjóri sendir niðurstöður til vinnuhópsins sem og verkefnisstjóra.
Umferðaröryggismat vega (RSIA) – Leiðbeiningar.
Tilgangur: Tryggja að áhrif nýrra eða mikið breyttra vega á umferðaröryggi séu metin áður en endanleg lega þeirra er ákveðin. Nánar tiltekið felur umferðaröryggismat það í sér að áhrif mismunandi útfærslu nýs vegar, nýrra vegamóta eða umfangsmikilla endurbóta á vegi á umferðaröryggi eru metin. Matið nær einnig til aðliggjandi vega.
Hvenær fer umferðaröryggismat fram?
Umferðaröryggismat fer fram á fyrsta hönnunarstigi, þ.e. frumdragastigi, skv. eftirfarandi reglum:
2.1 Við undirbúning nýrra vegaframkvæmda og meiriháttar viðhaldsverkefna á Evrópuvegum (TERN-vegum), sjá neðar, og öðrum stofn- og tengivegum, sem kosta 260 m.kr. eða meira (vísitala áætlana 14.000) og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
2.2 Við undirbúning verka sem fara í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Niðurstöður umferðaröryggismats skulu koma fram í sérstakri skýrslu sem er ein þeirra skýrslna sem liggja til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.
2.3 Við undirbúning smærri verkefna sem talin eru hafa mikla þýðingu út frá umferðaröryggi að mati verkefnisstjóra (hönnunarstjóra).
TERN-vegir:
Hringvegur (nema Egilsstaðir-Breiðdalsvík).
Hafnarfjarðarvegur (nema Reykjanesbraut-Nesbraut).
Reykjanesbraut.
Nesbraut.
Sundagarðar.
Flugvallarvegur í Reykjavík.
Landeyjahafnarvegur.
Vestfjarðavegur frá Hringvegi að Djúpvegi í Reykhólasveit.
Djúpvegur að Hafnarvegi Ísafirði.
Hafnarvegur Ísafirði.
Seyðisfjarðarvegur.
Norðfjarðarvegur frá Hringvegi að Suðurfjarðavegi.
Suðurfjarðavegur.
Áhrif.
Áhrif umferðaröryggismats eru:
Að tryggja að áhrif útfærslu nýframkvæmdar eða mikilla breytinga á umferðarmannvirkjum á umferðaröryggi séu metin áður en endanleg lausn er ákveðin. Bæði er átt við umferðaröryggi hinna nýju eða breyttu vega og umferðaröryggi aðliggjandi vega.
Þættir umferðaröryggismats:
Skilgreining verkefnis.
Vegtegund, fjöldi bíla og samsetning umferðar.
Umhverfislegar takmarkanir og mismunandi aðstæður eftir árstíðum, veðurfar, vatnafar, grjóthrun, skriðuföll, snjóflóð og snjóalög.
Hugsanleg jarðskjálftavirkni.
Leiðaval, yfirlitsmyndir, gróf hæðarlega, landtengingar brúa og ræsa.
Tengsl við og áhrif á það vega- eða gatnakerfi sem fyrir er, t.d. útafkeyrslur og vegamót.
Fyrirkomulag bílastæða, þ.e. nægur fjöldi öruggra bílastæða.
Fjöldi og gerð vegamóta.
Hönnunarhraði og raunhraði á aðliggjandi vegum og götum.
Skoðun á stöðu umferðaröryggis og á því hvað gerist ef engu verður breytt.
Markmið varðandi umferðaröryggi.
Greining á áhrifum mismunandi valkosta á umferðaröryggi.
Samanburður valkosta, þ.m.t. kostnaðar-ábatagreining.
Framsetning mögulegra lausna.
Aðrir þættir sem hafa þarf í huga:
Hversu mikilli fækkun í fjölda slysa með meiðslum og fjölda slasaðra má búast við, við val hvers valkosts miðað við að ekkert verði gert?
Skoðun á áhrifum á umferðaröryggi mismunandi vegfarendahópa.
Verkefnishópur um umferðaröryggismat.
Verkefnishópurinn skal vera skipaður allt að 15 starfsmönnum Vegagerðarinnar. Hópurinn er skipaður sömu aðilum og verkefnishópur um umferðaröryggisrýni. Auk þess er gert ráð fyrir að fulltrúar stærri sveitarfélaga geti tekið sæti í vinnuhópi þegar það á við. Heimilt er að kalla til fulltrúa frá Verkfræðingafélagi Íslands og Tæknifræðingafélagi Íslands eða sambærilegum samtökum. Starfsmenn vinnuhóps skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru í 7. gr. reglugerðar um öryggisstjórnun vegamannvirkja nr. 866/2011. Formaður verkefnishóps ákveður skipan vinnuhóps í hvert sinn. Hann ákveður hvort ráða skuli ráðgjafa til aðstoðar við umferðaröryggismat. Almennt skal miðað við að þrír séu í vinnuhópi.
Skýrsla, vistun skjala.
Verkefnishópur um umferðaröryggismat býr til form skýrslu og skal nota það form fyrir öll verkefni um umferðaröryggismat. Allir sem vinna að umferðaröryggismati viðkomandi verks skulu undirrita skýrsluna. Öll gögn sem vinnuhópurinn hefur notað við matið skulu vistuð á hönnunardeild á tölvutæku formi.
Ágreiningsmál.
Telji vinnuhópur um umferðaröryggismat að einhver þau atriði sem hann hefur lagt til og verkefnisstjóri ætlar ekki að taka tillit til séu verulega þýðingarmikil, skal senda vegamálastjóra upplýsingar þar um.
Kostnaður við umferðaröryggismat.
Kostnaður við umferðaröryggismat telst til hönnunarkostnaðar viðkomandi verks.
5.2.01 Umferðaröryggisrýni hjá Vegagerðinni.
Markmið: Tryggja að ný umferðarmannvirki séu byggð eins örugg og hagkvæmt er.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmt af: | Vinnuhóp um umferðaröryggisrýni. |
Hvenær: | Samkvæmt reglum um umferðaröryggisrýni. |
Tilvísanir: | Hönnunarreglur, lög og reglugerðir. |
Skrásetning: | Hjá hönnunardeild. |
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmd:
-
Umferðaröryggisrýni skal fara fram á eftirtöldum stigum:
a) 1. stig Forhönnun.
b) 2. stig Verkhönnun.
c) 3. stig Eftir framkvæmd - fyrir opnun, fyrir stærri verk (þar sem framkvæmdakostnaður er hærri en 650 mkr., vísitala áætlana 14.000).
d) 4. stig Skömmu eftir að vegurinn hefur verið tekinn í notkun, í síðasta lagi innan árs.
-
Verkefnisstjóri skal senda formanni verkefnishóps um umferðaröryggisrýni hönnunargögn á rafrænu formi samkvæmt eftirfarandi reglum:
2.1 Fyrir allar framkvæmdir á Evrópuvegum (TERN-vegum), og einnig öðrum stofnvegum og tengivegum þar sem áætlaður framkvæmdakostnaður er hærri en 130 milljónir króna (vísitala áætlana 14.000 og fylgir verðlagi vísitölu áætlana) og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
2.2 Fyrir framkvæmdir við mannvirki svo sem gatnamót, áningastaði, keðjuplön, biðstöðvar og þar sem lagfæringar eru gerðar á vegum til að bæta umferðaröryggi.
- Vinnuhópur um umferðaröryggisrýni skal rýna innsend gögn og senda skýrslu til verkefnisstjóra innan tveggja vikna frá móttöku gagna.
- Verkefnisstjóri skal meta niðurstöður vinnuhóps og ákvarða um meðferð máls. Verkefnisstjóri gerir svæðisstjóra og formanni verkefnishóps um umferðaröryggisrýni skriflega grein fyrir því hvernig farið var með athugasemdir hópsins.
- Vinnuhópurinn fer yfir svör frá verkefnisstjóra og skráir niðurstöður sínar.
- Telji vinnuhópurinn að einhver þau atriði sem hann hefur lagt til eða gert athugasemdir um og verkefnisstjóri ætlar ekki að taka tillit til séu verulega þýðingarmikil skal senda vegamálastjóra upplýsingar þar um til ákvörðunar. Vegamálastjóri sendir niðurstöður til vinnuhópsins sem og verkefnisstjóra.
Umferðaröryggisrýni vega – gátlisti.
Helstu atriði sem skoðuð eru á hverju stigi.
Stig 1. FORHÖNNUN
Breytingar á atriðum sem skoðuð voru við umferðaröryggismat (RSIA).
Landfræðileg staðsetning (t.d. m.t.t. hættu á vatnsflóðum og snjóflóðum). Mismunandi aðstæður eftir árstíðum, veðurfar og hugsanleg jarðskjálftavirkni).
Vegtegund, fjöldi bíla og samsetning umferðar.
Forsendur vegna hjólreiðarmanna, gangandi vegfarenda og hestamanna.
Eru staðlar uppfylltir?
Hönnunarhraði og hraði á aðliggjandi vegum og götum, möguleikar á framúrakstri.
Planlega og hæðarlega, sjónleiðni – yfirlit.
Sjónlengdir.
Sýnileiki. Tryggja þarf að vegbúnaður og fleira hindri ekki vegsýn.
Kennisnið.
Afvötnun.
Staðsetning, tegund og útfærsla vegamóta og akbrauta. Ath. sérstaklega fjarlægð milli vegamóta.
Útskot.
Útfærsla á öryggisgátt fyrir neyðaraðila.
Fyrirkomulag aðstöðu fyrir almenningssamgöngur, þar sem það á við.
Áningar- og hvíldarstaðir, vigtunarplön og þjónustuplön.
Öryggissvæði og hliðarsvæði vega, þ.m.t. rásir og skurðir.
Lýsing, merkingar og skilti.
Aðstaða fyrir aðila er sinna viðhaldi, rekstri og neyðarþjónustu.
Forsendur er tengjast annars vegar byggingu mannvirkisins og hins vegar rekstri þess.
Áfangaskipting, vinnuumferð, bráðabirgðastýring umferðar.
Stig 2. VERKHÖNNUN (Útboðsgögn)
Breytingar frá stigi 1. Forhönnun.
Nákvæm plan- og hæðarlega.
Nákvæmt fyrirkomulag gatnamóta.
Blöndun og fléttun.
Þversnið.
Miðdeilir.
Endurskoðaðar sjónlengdir.
Skilti, merkingar, ljósastólpar og nákvæmar staðsetningar þessara hluta.
Umferðarljós.
Landmótun, afvötnun.
Brýr og ræsi.
Stöðugleiki fláa, bratti fláa.
Útfærsla skiltapúða.
Fastir hlutir við veg.
Öryggissvæði og hliðarsvæði vega.
Vegrið, öryggisgirðingar, sérstaklega skal athuga hvaða áhrif viðkomandi búnaður hefur á óvarða vegfarendur.
Göngustígar, hjólreiðastígar og aðgengi fatlaðra.
Aðstæður m.t.t. bifhjólamanna.
Hraðahindrandi aðgerðir.
Forsendur er tengjast annars vegar byggingu og hins vegar rekstri mannvirkisins, m.a. tímabundið skipulag og stjórnun umferðar, bráðabirgðamannvirki o.fl.
Merkingar á verktíma, áfangaskipti.
Fyrirkomulag bílastæða.
Stig 3. EFTIR FRAMKVÆMD - FYRIR OPNUN
Breytingar frá stigi 2. Verkhönnun.
Hvernig hefur yfirfærsla frá hönnun yfir í veruleika tekist?
Nákvæm plan- og hæðarlega.
Gatnamót.
Sýnileiki og staðsetning skilta.
Læsileiki skilta og merkinga.
Göngu-og hjólreiðastígar.
Lýsing.
Miðdeilir.
Staurar, vegrið og aðrar hindranir.
Öryggissvæði og hliðarsvæði vega.
Landmótun, afvötnun.
Brýr og ræsi.
Öryggi vegfarenda og sýnileiki við mismunandi aðstæður s.s. í myrkri og við slæm veðurskilyrði sem búast má við.
Ástand yfirborðs.
Stig 4. SKÖMMU EFTIR AÐ VEGURINN HEFUR VERIÐ TEKINN Í NOTKUN.
Skoðun umferðaröryggis í ljósi raunverulegrar hegðunar vegfarenda.
Umferðaröryggisrýni vega – leiðbeiningar.
Tilgangurinn með umferðaröryggisrýni er að tryggja að ný umferðarmannvirki séu byggð eins örugg og hagkvæmt er.
Nánar tiltekið eru meginmarkmiðin með umferðaröryggisrýni eftirfarandi:
- Að benda á þau atriði sem geta valdið hættu fyrir vegfarendur sem og aðra í nágrenni umferðarmannvirkisins.
- 2. Að tryggja að allar úrlausnir sem koma til greina séu athugaðar til hlítar.
Markmið.
Markmið með umferðaröryggisrýni eru:
- Að draga úr hættu á því að umferðarslys, sem rekja má til mannvirkisins, verði og að lágmarka alvarleika þeirra slysa sem verða.
- Að draga fram mikilvægi umferðaröryggis við hönnun mannvirkisins í þeim tilgangi að mæta þörfum allra vegfarenda og tryggja að mannvirkið sé einfalt í notkun. Þar sem þarfir einstakra vegfarendahópa fara ekki saman skal leitast við að ná málamiðlun.
- Að lágmarka þörf á endurbótum eftir að vegur hefur verið byggður og minnka þannig kostnað sem fellur til á endingartíma mannvirkisins.
- Að gera alla þá er koma að hönnun, byggingu og viðhaldi vega betur meðvitaða um mikilvægi þess að umferðaröryggi sé ætíð haft að leiðarljósi allt frá hönnun þar til mannvirkið er fullbúið og komið í notkun.
Hvenær fer umferðaröryggisrýni fram?
Umferðaröryggisrýni fer fram á mismunandi stigum hönnunar (þó ekki frumdragastigi, sbr. umferðaröryggismat) og eftir framkvæmd. Miðað við hönnunarferli Vegagerðarinnar skal rýna umferðarmannvirki, sem teljast til stofn- og tengivega, á eftirfarandi stigum.
1. stig. Forhönnun.
2. stig. Verkhönnun.
3. stig. Eftir framkvæmd - fyrir opnun, fyrir stærri verk.
4. stig. Skömmu eftir að vegurinn hefur verið tekinn í notkun.
Vinnuferli við umferðaröryggisrýni.
Þeir sem vinna í rýnihópnum mega ekki hafa komið að hönnun mannvirkisins. Vinnuhópur skoðar hönnunargögn, þar með taldar teikningar m.t.t. umferðaröryggis og styðst við ýmis gögn s.s. hönnunarreglur og reglugerðir. Gátlistar eru hafðir til hliðsjónar. Athugasemdum hópsins er komið skriflega til verkefnisstjóra (hönnunarstjóra) innan tveggja vikna frá því að hönnunargögn bárust vinnuhópnum. Verkefnisstjóri ákveður hvaða athugasemdir verða teknar til greina og kemur því á framfæri við hönnuði. Verkefnisstjóri gerir svæðisstjóra og formanni verkefnishóps skriflega grein fyrir því hvernig farið var með athugasemdir vinnuhópsins.
Verkefni sem send eru frá svæði til formanns verkefnishóps Vegagerðarinnar um umferðaröryggisrýni.
Hönnunargögn skal senda frá svæði til formanns verkefnishóps um umferðaröryggisrýni samkvæmt eftirfarandi reglum:
- hönnunargögn fyrir allar nýbyggingar á Evrópuvegum (TERN - vegum) og einnig stofn- og tengivegum þar sem framkvæmdakostnaður er hærri en130 milljónir króna (vísitala áætlana 14.000) og er þá átt við samfelldan kafla og skiptir ekki máli þó verkið sé unnið á nokkrum árum.
- hönnunargögn fyrir framkvæmdir við mannvirki svo sem gatnamót, áningastaði, keðjuplön, biðstöðvar og þar sem lagfæringar eru gerðar á vegum til að bæta umferðaröryggi.
Verkefnishópur um umferðaröryggisrýni.
Verkefnishópurinn skal vera skipaður allt að 15 starfsmönnum Vegagerðarinnar. Úr þessum verkefnishópi eru valdir starfsmenn í vinnuhópa til að rýna einstök verkefni. Gert er ráð fyrir að fulltrúar stærri sveitarfélaga geti tekið sæti í vinnuhópi þegar það á við. Einnig geta fulltrúar lögreglu tekið þátt í rýni verkhönnunar. Heimilt er að kalla til fulltrúa frá Verkfræðingafélagi Íslands og Tæknifræðingafélagi Íslands eða sambærilegum samtökum. Formaður verkefnishóps ákveður skipan
vinnuhóps í hvert sinn. Hann ákveður hvort ráða skuli ráðgjafa til aðstoðar við umferðaröryggisrýni. A.m.k. einn starfsmaður vinnuhópsins skal uppfylla kröfur sem gerðar eru í 7. gr. reglugerðar um öryggisstjórnun vegamannvirkja nr. 866/2011 Almennt skal miða við að þrír séu í vinnuhópi en í undantekningartilvikum, við minni og einfaldari verk, geti tveir starfsmenn sinnt rýninni. Í stærri og flóknari verkum skal a.m.k. einn starfsmaður vinnuhóps starfa utan Vegagerðarinnar.
Skýrsla, vistun skjala.
Verkefnishópur um umferðaröryggisrýni býr til form skýrslu og skal nota það form fyrir öll rýniverkefni. Í skýrslu vinnuhóps hverju sinni skal leitast við að hafa athugasemdir og ábendingar eins skýrar og hægt er og gæta sérstaklega að notkun orðanna: „Skal“, „ætti“ og „má“. Allir sem vinna að umferðaröryggisrýni viðkomandi verks skulu undirrita skýrsluna. Öll gögn sem vinnuhópurinn hefur notað við rýnina skulu vistuð á hönnunardeild á tölvutæku formi.
Ágreiningsmál.
Telji vinnuhópur um umferðaröryggisrýni að einhver þau atriði sem hann hefur lagt til og verkefnisstjóri framkvæmdarinnar ætlar ekki að taka tillit til séu verulega þýðingarmikil skal senda vegamálastjóra upplýsingar þar um.
Kostnaður við umferðaröryggisrýni.
Kostnaður við umferðaröryggisrýni telst til hönnunarkostnaðar viðkomandi verks.
5.3.01 Röðun og lagfæring vegarkafla þar sem slys eru mörg og slysatíðni er mikil.
Markmið: Finna þá staði/kafla þar sem umferðaröryggisaðgerðir skila mestum árangri og lagfæra þá í þeim tilgangi að fækka slysum.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmt af: | Umferðardeild, forstöðumanni framkvæmdadeildar, upplýsingatæknideild, áætlanadeild, hönnunardeild og svæðum. |
Hvenær: | Samkvæmt reglum þar um. |
Tilvísanir: | Slysagögn Vegagerðarinnar þ.m.t. slysakort og gagnagrunnur um slysastaði, umferðartölur, lögregluskýrslur, o.fl. |
Skrásetning: | Hjá forstöðumanni framkvæmdadeildar og umferðardeild. |
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Almennt: Röðun og lagfæring vegarkafla þar sem slys eru mörg og slysatíðni er mikil felst í því að yfirfara gögn um umferðarslys á vegum í þeim tilgangi að finna staði/kafla þar sem hvort tveggja gildir að slys eru mörg og slysatíðni er mikil og raða þeim síðan upp í þeim tilgangi að finna þá staði þar sem umferðaröryggisaðgerðir skila mestum árangri. Í því felst að greina þarf þau atriði sem geta átt þátt í slysum á viðkomandi stöðum og leggja í kjölfarið fram tillögur um aðgerðir til úrbóta. Lögð er mest áhersla á tiltölulega ódýrar aðgerðir sem þó geta skilað miklum árangri. Svæði Vegagerðarinnar sjá um framkvæmd þeirra aðgerða sem ákveðið hefur verið að ráðast í.
Framkvæmd:
- Umferðardeild fær upplýsingar um slys á þjóðvegum landsins frá Samgöngustofu og fullvinnur þær til nota fyrir Vegagerðina í samvinnu við upplýsingatæknideild og áætlanadeild. M.a. er reiknuð slysatíðni (fjöldi slysa pr. milljón ekinna km) fyrir alla stofn- og tengivegakafla og slysakort teiknuð. Jafnframt er vegum skipt í viðmiðunarhópa og slysatíðni reiknuð fyrir hvern viðmiðunarhóp fyrir nokkurra ára tímabil. Hverjum vegi er síðan skipt í 1 km langa kafla og fjöldi slysa fundinn og slysatíðni, þ.e. fjöldi slysa á milljón ekinna km, á kaflanum reiknuð. Landupplýsingakerfið ArcGIS er notað við þessa vinnu. Verstu kaflarnir eru síðan fundnir með því að setja ákveðin skilyrði um fjölda slysa og slysatíðni.
- Umferðardeild sér um að greina þau atriði sem geta átt þátt í slysum á þeimvegaköflum sem unnið hefur verið með eins og lýst er í lið 1. Reglulega skulu fulltrúar frá umferðardeild, svæðum og hönnunardeild, þegar það á við, fara í vettvangsferðir til að skoða aðstæður á þeim stöðum þar sem nánari greiningar er þörf. A.m.k. einn þeirra sérfræðinga sem koma að greiningunni skal hafa reynslu eða þjálfun sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um öryggisstjórnun vegamannvirkja nr. 866/2011.
- Umferðardeild gerir tillögur um aðgerðir til úrbóta á umferðaröryggi, með sérstöku tilliti til þess að fækka slysastöðum á vegakerfinu og er þar m.a. byggt á arðsemismati. Í því felst að sérstök áhersla er lögð á tiltölulega ódýrar aðgerðir sem þó geta skilað miklu í fækkun slysa. Sem dæmi má nefna bættar merkingar, minni háttar breytingar á vegamótum, lagfæringar á umhverfi vega, sem geta t.d. falist í því að fjarlægja grjót, fylla skurði meðfram vegi, lengja ræsi, lagfæra vegfláa eða setja upp vegrið.
- Umferðardeild heldur fundi með forstöðumanni framkvæmdadeildar og fulltrúum svæða fyrir 1. febrúar ár hvert, þar sem tillögur umferðardeildar eru ræddar sem og önnur verkefni sem svæði koma á framfæri. Í kjölfarið leggur umferðardeild fram endanlegar tillögur um verkefni. Tillögurnar taka mið af þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru skv. samþykktum um skiptingu viðhaldsfjár, sjá verklagsreglu 3.5.01.
- Forstöðumaður framkvæmdadeildar aflar kostnaðaráætlana frá svæðum um einstök verk og sendir fjárheimildir í kjölfarið.
- Svæði sjá um hönnun og framkvæmd verka og skila gögnum í framkvæmdaskýrslu til forstöðumanns framkvæmdadeildar eigi síðar en 15. janúar. Mikilvægt er að þau verk sem þarf að hanna fari í umferðaröryggisrýni, m.a. til að tryggja samræmi á landsvísu t.d. hvað varðar lengingu vegriða, lengingu ræsa og framhjáhlaup.
- Forstöðumaður framkvæmdadeildar leggur skýrslu um verk sem unnin hafa verið fyrir yfirstjórn/framkvæmdastjórn til kynningar. Umferðardeild útbýr skýrslu um verkefni sem unnin hafa verið og er skýrslan viðauki við árlega skýrslu samráðshóps um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar.
5.6.1 Umferðaröryggisúttektir hjá Vegagerðinni.
Markmið: Að finna staði þar sem hætta er á að slys geti orðið og gera áætlun um lagfæringar í kjölfarið. Markmið lagfæringanna er að koma í veg fyrir slys eða að draga úr afleiðingum þeirra slysa sem verða.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmt af: | Vinnuhópi um umferðaröryggisúttekt. |
Hvenær: | Samkvæmt reglum um umferðaröryggisúttekt vega. |
Tilvísanir: | Veghönnunarreglur, lög og reglugerðir. |
Hjálpargögn: | Ýmis gögn, s.s. tilskipun ESB um öryggisstjórnun vegamannvirkja, 2008/96/EB, dagsett 19. nóvember 2008 og gögn frá CEDR (Samtaka evrópskra vegamálastjóra) um reynslu af umferðaröryggisúttektum í Evrópu. Leiðbeiningar Vegagerðarinnar: Umferðaröryggisúttekt vega. Umferðartölur. |
Skrásetning: | Hjá umferðardeild. |
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Framkvæmd:
- Umferðaröryggisúttekt skal fara fram á stofnvegum utan hálendis með reglulegu millibili.
- Umferðardeild skal ákveða fyrir 1. maí ár hvert hvaða vegir verði skoðaðir það ár. Sama deild skal ákveða hverjir sitja í vinnuhópi (úttektarhópi) hverju sinni.
- Úttekt skal fara fram fyrir 1. nóvember ár hvert. Í kjölfarið skal vinnuhópur um umferðaröryggisúttekt skrifa skýrslu um niðurstöður úttektarinnar og senda til umferðardeildar til yfirferðar. Í skýrslunni skulu koma fram mögulegar aðgerðir til úrbóta á hverjum stað, rökstutt val á aðgerð og mat á kostnaði við framkvæmd hennar, sjá nánar í leiðbeiningarriti Vegagerðarinnar: Umferðaröryggisúttekt vega.
- Umferðardeild skal fara yfir skýrslu vinnuhópsins og senda hana síðan til viðkomandi svæðisstjóra til umsagnar. Umferðardeild skal sjá um að tiltölulega ódýrar aðgerðir sem unnt er er að ráðast í án verulegs undirbúnings komist inn á lista yfir nauðsynlegar lagfæringar á slysastöðum. Umferðardeild skal tryggja að listi yfir umfangsmeiri aðgerðir berist til þeirra sem bera ábyrgð á endurskoðun vegáætlunar.
Fylgiskjal með verklagsreglum.
Umferðaröryggisúttektir hjá Vegagerðinni.
- Umferðaröryggisúttekt felur það í sér að vegir í notkun eru skoðaðir reglulega, kerfisbundið, með tilliti til þess sem betur má fara varðandi umferðaröryggi. Gátlistar eru notaðir við að dæma útfærslur sem flestra öryggisþátta, eins og hvernig reglur og staðlar eru uppfylltir, og hvernig umhverfi vega, vegrið og þess háttar standast öryggiskröfur. Umferðaröryggisúttekt skal fara fram á stofnvegum utan hálendis með reglulegu millibili, tíðast á umferðarmiklum vegum.
- Umferðaröryggisúttekt fer fram í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slys eða að draga úr afleiðingum þeirra slysa semverða. Umferðaröryggisúttekt vega er ólík úttekt á slysastöðum að því leyti að lögð er áhersla á að laga staði sem taldir eru hættulegir, jafnvel þótt þar hafi enn ekki orðið slys.
- Verkefnishópur um umferðaröryggisúttekt vega. Verkefnishópurinn skal vera skipaður a.m.k. 12 starfsmönnum Vegagerðarinnar, þar af a.m.k. einum frá hverju svæði. Úr þessum verkefnishópi eru valdir starfsmenn í vinnuhópa (úttektarhópa) til að vinna að einstökum verkefnum. Heimilt er að kalla til fulltrúa frá Verkfræðingafélagi Íslands og Tæknifræðingafélagi Íslands eða sambærilegum samtökum. Starfsmenn vinnuhóps skulu hafa sérfræðikunnáttu í einhverju af eftirfarandi: veghönnun, öryggishönnun vega, slysarannsóknum og vegmerkingum. Umferðardeild fer með formennsku í verkefnishópi um umferðaröryggisúttekt vega. Formaður verkefnishóps um umferðaröryggisúttekt vega ákveður skipan vinnuhóps í hvert sinn og ákveður jafnframt hvort ráða skuli ráðgjafa til aðstoðar við umferðaröryggisúttekt. Almennt skal miðað við að a.m.k. þrír séu í vinnuhópi.
- Þeir vegir skulu skoðaðir fyrst þar sem umferðin er mest og skal hafa leiðbeiningarritið: Umferðaröryggisúttekt vega til hliðsjónar við úttekt.
- Nota skal vettvangsskráningarkerfi Vegagerðarinnar við úttektirnar, sjá nánar í leiðbeiningarritinu: Umferðaröryggisúttekt vega.
- Í kjölfar úttektar skal vinnuhópur skrifa skýrslu um niðurstöður úttektarinnar og senda til umferðardeildar til yfirferðar. Í skýrslunni skulu koma fram mögulegar aðgerðir til úrbóta á hverjum stað, rökstutt val á aðgerð og mat á kostnaði við framkvæmd hennar.
- Umferðardeild skal fara yfir skýrslu vinnuhóps, senda hana síðan til viðkomandi svæðisstjóra til umsagnar. Umsögn skal að jafnaði liggja fyrir innan 14 daga. Umferðardeild skal sjá um að tiltölulega ódýrar aðgerðir sem unnt er er að ráðast í án verulegs undirbúnings komist inn á lista yfir nauðsynlegar lagfæringar á slysastöðum.
- Umferðardeild skal tryggja að listi yfir umfangsmeiri aðgerðir berist til þeirra sem bera ábyrgð á endurskoðun vegáætlunar.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.