Fara beint í efnið

Prentað þann 17. jan. 2022

Stofnreglugerð

290/2012

Reglugerð um gjald fyrir efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga samkvæmt lögum nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Aðili sem fengið hefur leyfi til að taka eða nýta efni af eða úr hafsbotni utan netlaga, samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, skal greiða endurgjald fyrir það efni sem tekið er á grundvelli nýtingar- eða efnistökuleyfis hans.

2. gr.

Gjald samkvæmt 1. gr. skal vera í formi efnistökugjalds sem miðast við það efni sem tekið er samkvæmt nýtingar- eða efnistökuleyfi. Efnið skal mælt á kostnað leyfishafa með aðferðum sem Orkustofnun viðurkennir hverju sinni, miðað við rúmmetra af efni á eða úr hafsbotni.

Skilyrði nýtingar- eða efnistökuleyfis er að greitt sé efnistökugjald eins og það er ákvarðað á hverjum tíma í gjaldskrá sbr. 3. gr. og skal slíkt tilgreint í nýtingar- eða efnistökuleyfi.

3. gr.

Í gjaldskrá sem ráðherra setur, að fenginni tillögu Orkustofnunar, skal nánar mæla fyrir um gjald fyrir efnistöku af eða úr hafsbotni, meðal annars út frá því um hvers konar efnistöku er að ræða.

4. gr.

Tekjum af efnistökugjaldi samkvæmt reglugerð þessari skal að jafnaði varið til hafsbotns- og landgrunnsrannsókna samkvæmt nánari ákvörðun Orkustofnunar.

5. gr.

Orkustofnun annast innheimtu efnistökugjalds samkvæmt reglugerð þessari. Efnistökugjald skal innheimt einu sinni á ári fyrir liðið ár.

Gjalddagi efnistökugjalds samkvæmt 1. og 2. gr. er útgáfudagur reiknings og eindagi 30 dögum síðar. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga séu gjöldin ekki greidd á eindaga.

6. gr.

Um leyfisgjöld fyrir efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga fer samkvæmt ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Iðnaðarráðuneytinu, 7. mars 2012.

Oddný G. Harðardóttir.

Ingvi Már Pálsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.