Fara beint í efnið

Prentað þann 22. jan. 2022

Stofnreglugerð

280/2008

Reglugerð um starfshætti bótanefndar.

I. KAFLI Bótanefndin.

1. gr.

Bótanefnd starfar á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Nefndin skal taka ákvörðun um greiðslu bóta á grundvelli laganna. Í nefndinni eiga sæti þrír menn sem dómsmálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar einn þeirra formann nefndarinnar. Einnig skulu skipaðir þrír varamenn fyrir aðalmennina.

Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála fer eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara.

2. gr.

Dóms- og kirkjumálaráðherra getur falið einhverju sýslumannsembætti landsins að veita nefndinni starfsaðstöðu og annast skrifstofuhald fyrir hana. Ráðherra getur einnig samþykkt að ráðið verði starfslið fyrir nefndina eftir því sem þurfa þykir og þar á meðal löglærður starfsmaður. Meðal verkefna hans er að undirbúa ársskýrslu nefndarinnar, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Formaður nefndarinnar ákveður, að höfðu samráði við sýslumann þess embættis sem veitir nefndinni starfsaðstöðu, tilhögun á störfum og vinnubrögðum nefndarinnar og ákveður fundardaga. Ef nefndarmaður er forfallaður skal varamaður taka sæti hans.

3. gr.

Nefndarmenn og aðrir sem að störfum nefndarinnar koma, skulu gæta þagmælsku og trúnaðar varðandi allt það er þeir fá vitneskju um vegna starfa sinna fyrir nefndina. Þagmælsku skal gætt þótt látið hafi verið af starfi.

4. gr.

Nefndinni er heimilt að krefja tjónþola um hvers konar upplýsingar sem hún telur þörf á við meðferð umsóknar hans, þar með talið afrit úr sjúkraskrá, enda hafi hann veitt til þess samþykki sitt. Einnig er heimilt að krefjast gagna og upplýsinga frá tjónvaldi og öðrum aðilum er kunna að þekkja til málavaxta, þannig að mál verði nægjanlega upplýst.

Ef um er að ræða líkamstjón getur nefndin óskað eftir að tilgreindur læknir rannsaki tjónþola.

Nefndin getur kvatt tjónþola eða umboðsmann hans á sinn fund. Aðili máls á ekki sjálfstæðan rétt á að koma fyrir nefndina.

Nefndin getur krafist þess að yfirheyrslur fari fram fyrir dómi.

II. KAFLI Undirbúningur máls.

5. gr.

Umsókn um bætur skal berast bótanefnd skriflega. Bótanefnd skal láta í té þar til gert umsóknareyðublað ásamt nauðsynlegum upplýsingum um starfshætti nefndarinnar og gildandi reglur.

Í umsókn skal koma fram nafn og kennitala tjónþola, um hvaða brot er að ræða og eftir því sem við verður komið, hvert tjón hefur orðið og sundurliðuð skaðabótakrafa. Einnig skulu fylgja umsókn önnur nauðsynleg gögn til stuðnings bótakröfu og rökstuðningur fyrir henni.

6. gr.

Heimilt er að tilkynna nefndinni um fyrirhugaða umsókn jafnskjótt og brot sem er grundvöllur umsóknar hefur verið kært til lögreglu og krafa gerð um bætur úr hendi þess sem tjóni olli. Slík tilkynning rýfur tveggja ára frestinn sem getið er í 2. mgr. 6. gr. laganna.

7. gr.

Nú fylgja ekki nauðsynleg gögn með umsókn og getur nefndin þá lagt fyrir umsækjanda að leggja fram þau gögn sem á vantar innan hæfilegs frests og viðbótargögn eftir því sem ástæða þykir. Verði umsækjandi ekki við þessu, leiðir það til frávísunar máls. Formanni nefndarinnar er heimilt að taka ákvörðun um slíka frávísun án sérstakrar umfjöllunar nefndarinnar.

8. gr.

Ef fyrir liggur að tiltekinn maður eða tilteknir menn hafa verið sekir fundnir um brot á almennum hegningarlögum sem leitt hefur til bótaskylds tjóns, skal bótanefnd kynna viðkomandi fram komnar bótakröfur og veita hæfilegan frest til athugasemda, hafi það ekki verið gert áður.

9. gr.

Allur kostnaður sem hlýst af meðferð og rannsókn máls fyrir bótanefnd greiðist úr ríkissjóði.

III. KAFLI Afgreiðsla máls.

10. gr.

Afl atkvæða á fundi nefndarinnar ræður úrslitum um niðurstöðu máls.

11. gr.

Ákvörðun bótanefndar skal vera skrifleg. Í henni skal getið hvaða gögn liggja til grundvallar niðurstöðu ásamt stuttum rökstuðningi. Allir nefndarmenn sem stóðu að ákvörðun rita nafn sitt undir hana. Afrit ákvörðunar skal senda umsækjanda eða umboðsmanni hans eins fljótt og kostur er. Kynna skal tjónvaldi eða umboðsmanni hans niðurstöðu máls.

12. gr.

Fresta má afgreiðslu umsóknar þar til rannsókn máls telst lokið hjá lögreglu, enda hafi ekki verið höfðað refsimál á grundvelli hennar, eða uns refsimáli gegn tjónvaldi er lokið með endanlegum dómi. Þetta gildir einnig ef tjónþoli hefur ákveðið að höfða einkamál gegn tjónvaldi. Ennfremur er heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar meðan staðreynt er hvort tjónþoli fái tjón sitt bætt eftir öðrum leiðum.

IV. KAFLI Um endurkröfur á hendur tjónvaldi.

13. gr.

Bótanefnd tekur ákvörðun um hvort endurkrefja skuli tjónvald um bætur sem hafa verið greiddar úr ríkissjóði og í hvaða mæli það skuli gert, sbr. 19. gr. laganna. Ákvörðun um endurkröfu skal tekin á fundi nefndarinnar eftir sömu reglum og ákvarðanir um bótagreiðslur.

Ákvörðun um endurkröfu skal tekin á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um tjónvald, hagi hans og fjárhag. Bótanefnd er heimilt að krefja tjónvald um hverjar þær upplýsingar sem skipt geta máli við ákvörðun.

14. gr.

Bótanefnd skal kynna tjónvaldi ákvæði 19. gr. laganna um endurkröfu og veita hæfilegan frest til athugasemda. Ef tjónvaldur eða umboðsmaður hans telur ríkar ástæður fyrir því að falla eigi frá endurkröfu á hendur honum, skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Nefndinni er þá heimilt að hafa til hliðsjónar hvort:

1) tjónvaldur er látinn og í búi hans eru óverulegar eignir,
2) bú tjónvalds hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta á síðustu tveimur árum,
3) tjónvaldur er að afplána refsidóm sem nemur 10 ára óskilorðsbundnu fangelsi hið minnsta og á óverulegar eignir,
4) tjónvaldur er yngri en 20 ára, á óverulegar eignir og hefur sýnt viðleitni til að bæta ráð sitt, eða hagir hans hafa breyst verulega frá því hann framdi brot sitt.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr.

Nefndin skal halda skrá yfir öll þau mál sem hún fær til meðferðar og færa í gerðabók, þar sem skráðar eru allar fyrirtökur og afgreiðslur nefndarinnar. Nefndin skal árlega taka saman skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

16. gr.

Bótanefnd skal árlega birta stutt ágrip helstu ákvarðana sinna á aðgengilegri vefsíðu.

17. gr.

Í ársskýrslu nefndarinnar og birtum ákvörðunum hennar má ekki vera til að dreifa persónueinkennum einstaklinga í málum sem hafa verið til meðferðar hjá nefndinni.

18. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 3. mgr. 13. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69 10. mars 1995, öðlast gildi 1. apríl 2008.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 14. mars 2008.

Björn Bjarnason.

Hjalti Zóphóníasson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.