Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 7. des. 2021

Reglugerð með breytingum síðast breytt 18. sept. 2021

255/2021

Reglugerð um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð.

1. gr. Markmið.

Markmið með stofnun Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs er að efla og þroska fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi með því að fjárfesta í sérhæfðum sjóðum á sviði nýsköpunar sem settir eru upp og starfræktir eru með sama hætti og sambærilegir sjóðir á alþjóðavísu. Með því mun sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi standa til boða aukið framboð af sérhæfðu fjármagni og þekkingu á rekstri og vexti sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á fyrstu stigum sem muni leiða til aukinnar þekkingar og reynslu í fjármögnun og vexti sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

2. gr. Skilgreiningar.

Rekstraraðili: lögaðili sem rekur einn eða fleiri sérhæfða sjóði með reglubundnum hætti.

Sérhæfður sjóður: sérhæfður sjóður samkvæmt 27. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki: fyrirtæki sem teljast lítil eða meðalstór fyrirtæki samkvæmt I. viðauka reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014, eru sprottin upp úr rannsóknar- eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja, byggjast á sérhæfðri þekkingu, nýrri eða endurbættri tækni eða öðru nýnæmi, ver umtalsverðum hluta af veltu sinni í viðurkennda rannsóknar- og þróunarstarfsemi og hefur hluti sína ekki skráða á skipulegan verðbréfamarkað eða markaðstorg fjármálagerninga á þeim tíma sem fyrsta fjárfesting viðkomandi viðurkennds sérhæfðs sjóðs er gerð. Þó er heimilt að fjárfesta í fyrirtækjum sem skráð eru á vaxtarmarkað lítilla- og meðalstórra fyrirtækja, eins og hann er skilgreindur er í 12. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB, að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðisins.

Stofnfé: allar skuldbindingar eða loforð sem fjárfestir er bundinn við, innan tímarammans og skilyrða sem mælt er fyrir um í reglum, stofnsamningi eða samstarfssamningi viðurkennda sérhæfða sjóðsins, um að kaupa hlut í þeim sjóði eða veita sjóðnum annars konar eiginfjárframlag sem nota skal til fjárfestinga.

Viðurkenndur rekstraraðili: sjálfstæður rekstraraðili með starfsemi og rekstur á Íslandi sem fengið hefur starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða eða verið skráður hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt 7. gr. laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og rekur að minnsta kosti einn viðurkenndan sérhæfðan sjóð.

Viðurkenndur sérhæfður sjóður: sérhæfður sjóður með starfsemi á Íslandi sem samkvæmt stofnsamningi sínum eða reglum er bundinn því að fjárfesta öllu heildarfjármagnsframlagi sínu og óinnheimtu stofnfé, sem fjárfestar hafa skráð sig fyrir, í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

3. gr. Starfsreglur.

Stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs skal setja sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Í starfsreglunum skal meðal annars fjallað um eftirfarandi:

 1. Hlutverk og starfsemi Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs,
 2. stjórnun og rekstur Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs, meðal annars um fjölda stjórnarfunda, hæfi, ábyrgð og hlutverk stjórnarmanna og umsýsluaðila,
 3. auglýsingar um umsóknir um þátttöku Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs,
 4. fylgigögn með umsókn um þátttöku Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs,
 5. til hvaða þátta stjórn skuli líta við mat á skilyrðum fyrir þátttöku Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs,
 6. málsmeðferð í tengslum við yfirferð umsókna um þátttöku Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs,
 7. samningagerð um þátttöku Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs,
 8. heimildir til að kaupa sérhæfða ráðgjöf eða þjónustu af þriðja aðila,
 9. eftirfylgni með fjárfestingum og söluákvæði.

4. gr. Umsóknir.

Stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs skal að jafnaði einu sinni á ári auglýsa opinberlega eftir umsóknum um þátttöku sjóðsins í viðurkenndum sérhæfðum sjóðum sem uppfylla skilyrði laga nr. 65/2020 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð, reglugerðar þessarar og starfsreglna samkvæmt 3. gr.

Berist engin umsókn innan tilskilinna tímamarka, umsóknir um þátttöku uppfylla ekki skilyrði laga nr. 65/2020 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð, reglugerðar þessarar eða starfsreglna samkvæmt 3. gr., eða fjárfestingargeta Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs hefur ekki verið nýtt að fullu er stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs heimilt að auglýsa aftur, og eins oft og þurfa þykir, eftir umsóknum um þátttöku sjóðsins í viðurkenndum sérhæfðum sjóðum.

Umsókn, ásamt fylgigögnum, skal afhent með þeim upplýsingum og á því formi og innan þeirra tímamarka sem stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs ákveður og tilgreinir í auglýsingu.

5. gr. Skilyrði fyrir þátttöku Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs.

Stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs er heimilt að taka þátt í viðurkenndum sérhæfðum sjóðum sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Stofnfé sjóðsins er að lágmarki 4 milljarðar kr. að undanskildu því stofnfé sem Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður skráir sig fyrir og sjóðurinn hafi fjármagnað að minnsta kosti 70% af heildar stofnfé, að undanskildu því stofnfé sem Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður skráir sig fyrir, á þeim tíma sem umsókn er send inn,
 2. rekstraraðili eða ábyrgðaraðili sjóðsins skulu vera eigendur hluta í sjóðnum, auk að lágmarki þriggja einkafjárfesta sem eru ótengdir, ekki í samstarfi og hver um sig hefur skráð sig fyrir stofnfé sem nemur að minnsta kosti 10% af heildar stofnfé sjóðsins,
 3. enginn einn fjárfestir hefur skráð sig fyrir stofnfé sem nemur meira en 50% af heildar stofnfé sjóðsins,
 4. að sjóðnum komi aðili sem hafi umtalsverða reynslu, þekkingu og árangur í alþjóðlegu umhverfi fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum,
 5. sjóðurinn hafi ekki á þeim tíma sem þátttaka Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs er samþykkt, fjárfest hærra hlutfalli en sem nemur 25% af heildar stofnfé sínu.
 6. stofnsamningur eða reglur sjóðsins mæli að minnsta kosti fyrir um að:

  1. sjóðnum beri að fjárfesta að minnsta kosti því sem nemur framlagi Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs af heildarfjármagnsframlagi sínu og óinnheimtu stofnfé, sem fjárfestar hafa skráð sig fyrir, í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum með starfsemi á Íslandi,
  2. sjóðnum sé að meginstefnu til ætlað að fjárfesta snemma í vaxtaferli sprota- og nýsköpunarfyrirtækja,
  3. fjárfestar hafi enga aðkomu að ákvörðunum um fjárfestingar sjóðsins, það gildir þó ekki um rekstraraðila viðkomandi sérhæfðs sjóðs, og
  4. sjóðurinn verði óvogaður,
 7. sjóðurinn er settur upp í samræmi við það sem tíðkast alþjóðlega um sambærilega sjóði hvað varðar meðal annars lagalega uppsetningu, líftíma, þar sem skýr og raunhæf útgönguáætlun liggur fyrir, hlutverk og þátttöku fjárfesta, ávöxtunarkröfu fjárfesta, kostnað og ábata almennra þátttakenda,
 8. sjóðurinn sé rekinn af viðurkenndum rekstraraðila eða viðkomandi viðurkenndum sérhæfðum sjóði, enda heimilar rekstrarlegt form viðurkennda sérhæfða sjóðsins innri stjórnun og stjórn sjóðsins hefur ekki tilnefnt annan rekstraraðila,
 9. rekstraraðili sjóðsins, sjóðurinn, stjórnendur hans og þeir fjárfestar sem hafa skráð sig fyrir stofnfé hafi nægilega reynslu af stofnun, rekstri og/eða aðkomu að viðurkenndum sérhæfðum sjóðum og sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum að mati stjórnar Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs sem og hafi nægilegan fjárhagslegan styrk og gott orðspor til að tryggja framgang sjóðsins og að markmiðum laga nr. 65/2020, um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð, og reglugerðar þessarar megi ná, að mati stjórnar Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs.

Stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs útfærir skilyrði samkvæmt 1. mgr. nánar í starfsreglum samkvæmt 3. gr. sem skulu staðfestar af ráðherra.

6. gr. Ákvörðun stjórnar um þátttöku í sjóði.

Stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs ákvarðar hvort umsókn viðurkennds sérhæfðs sjóðs og viðkomandi sjóður fullnægi skilyrðum samkvæmt lögum nr. 65/2020 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð, reglugerð þessari og starfsreglum samkvæmt 3. gr.

Að jafnaði skal stjórn taka ákvarðanir um þátttöku í viðurkenndum sérhæfðum sjóðum sem uppfylla skilyrði laga nr. 65/2020 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð og reglugerðar þessarar og starfsreglna samkvæmt 3. gr. einu sinni á ári og innan sex vikna frá því fullbúin umsókn barst, sbr. þó 2. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar.

Ákvörðun stjórnar skal tilkynnt umsækjendum skriflega innan átta vikna frá því fullbúin umsókn barst.

7. gr. Þátttaka Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs.

Þátttaka Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs í viðurkenndum sérhæfðum sjóðum á sér stað með áskrift að stofnfé viðkomandi viðurkennds sérhæfðs sjóðs.

Áskrift Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs að stofnfé viðurkennds sérhæfðs sjóðs skal bundin því skilyrði að þátttaka Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs uppfylli ríkisstyrkjareglur EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 og að gerður verði samningur við rekstraraðila viðkomandi sjóðs, sjóðinn sjálfan og eftir atvikum meðfjárfesta um áskrift Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs að stofnfé sjóðsins. Í samningnum skal meðal annars tryggt að skilyrði Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs fyrir áskrift að stofnfé hvað varðar fjárfestingarheimildir sjóðsins, sameiginleg markmið með áskriftinni, líftíma sjóðsins, kostnað fjárfesta, lágmarks ávöxtun, hlutverk og þátttöku fjárfesta, þær reglur sem gilda skulu um heimild annarra fjárfesta í sjóðnum til að kaupa hlut Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs á tilteknu tímabili á fyrir fram ákveðnu verði, og eftir atvikum að önnur skilyrði Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs fyrir áskrift að stofnfé, séu uppfyllt.

Áskrift Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs skal til viðbótar bundin fyrirvara um ásættanlega niðurstöðu áreiðanleikakönnunar eða lögfræðilegs álits á rekstraraðila sjóðsins, sjóðnum sjálfum og reglum hans, forsendum og viðskiptaáætlun, stjórnendum sjóðsins og rekstraraðila og öðrum þeim þáttum sem stjórn telur nauðsynlegt að ganga úr skugga um, svo sem hvort öllum skilyrðum sé fullnægt.

Stofnfé Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs í hverjum einstökum viðurkenndum sérhæfðum sjóði sem samþykkt hefur verið að taka þátt í skal ekki nema hærra hlutfalli en 30% af heildarfjármagnsframlagi og óinnheimtu stofnfé viðkomandi sjóðs og aldrei hærri fjárhæð en 2 milljörðum kr.

Fullnægi fleiri en ein umsókn viðurkennds sérhæfðs sjóðs þeim skilyrðum sem fram koma í lögum nr. 65/2020 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð, reglugerð þessari og starfsreglum samkvæmt 3. gr. skal sú fjárhæð sem Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður hefur heimild til að skrá sig fyrir á viðkomandi ári ganga hlutfallslega til áskriftar að stofnfé viðkomandi sjóða, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr.

8. gr. Óbundið fé.

Ávöxtun á eigin fé Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs og fjármagni sem enn er í vörslum Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs en hefur verið ánafnað ákveðnum viðurkenndum sérhæfðum sjóði skal við það miðuð að sjóðurinn verði sem hæfastur til að gegna hlutverki sínu. Þannig skal sjóðurinn einungis varsla óbundið fé sitt á innlánsreikningum í viðskiptabanka eða hjá Seðlabanka Íslands eða fjárfesta því í fram- og auðseljanlegum fjármálagerningum sem skráðir hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði og njóta ábyrgðar ríkissjóðs.

9. gr. Umsýsluaðili.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal hafa með höndum faglega umsýslu Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs á grundvelli samnings við ráðherra. Umsýsluaðili skal meðal annars sjá um samningagerð fyrir Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð við þá viðurkenndu sérhæfðu sjóði sem Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður hefur skráð sig fyrir stofnfé í.

Stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs skal hafa eftirlit með störfum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins að því er snertir umsýslu Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal skila stjórn Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs skýrslu um starfsemi sjóðsins ársfjórðungslega þar sem meðal annars skulu koma fram upplýsingar um fjárfestingar þeirra sjóða sem Kría - sprota‑ og nýsköpunarsjóður hefur tekið þátt í og árangur undirliggjandi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

Ráðuneytið skal hafa eftirlit með framkvæmd umsýsluaðila á fjármálum Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs og hefur eftirlit með framkvæmd samnings um umsýslu sjóðsins. Í því skyni getur ráðuneytið kallað eftir þeim upplýsingum sem það telur þörf á til að rækja það hlutverk.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 8. gr. laga nr. 65/2020 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð og öðlast hún þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.