Prentað þann 24. nóv. 2024
250/2012
Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, nr. 945/2009.
1. gr.
6. gr. orðast svo:
Upphaf greiðslna.
Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur fengið fyrirfram greitt meðlag eða önnur framfærsluframlög samkvæmt úrskurðinum frá Tryggingastofnun ríkisins.
Meðlag skal greiða fyrirfram fyrsta dag hvers mánaðar. Upphaf greiðslna skal miðast við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að umsókn og nauðsynleg gögn hafa borist Tryggingastofnun skv. 5. gr. þessarar reglugerðar.
Óheimilt er að greiða meðlag ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi eru í hjúskap, óvígðri sambúð eða skráð með sama lögheimili.
Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er Tryggingastofnun heimilt að hefja greiðslur frá þeirri dagsetningu sem kveðið er á um í meðlagsákvörðun í tengslum við slit á hjúskap eða óvígðri sambúð, enda þótt meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi séu skráðir með sama lögheimili á þeim tíma, sbr. þó 7. gr.
Ávallt er skilyrði að barn sé búsett á heimili meðlagsmóttakanda við upphaf greiðslna.
2. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og tekur til þeirra einstaklinga sem sækja um fyrirframgreiðslu meðlags hjá Tryggingastofnun ríkisins frá og með 1. janúar 2012. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1225/2011 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga.
Velferðarráðuneytinu, 27. febrúar 2012.
Guðbjartur Hannesson.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.