Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

242/2009

Reglugerð um Sprotasjóð leik-, grunn- og framhaldsskóla.

1. gr. Hlutverk.

Menntamálaráðherra veitir árlega fé úr Sprotasjóði. Sjóðurinn er sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Ráðherra getur falið stofnun eða þar til bærum aðila að annast einstök verkefni við undirbúning styrkveitinga, svo sem auglýsingar, móttöku og skráningu umsókna og að veita upplýsingar og leiðbeiningar til umsækjenda.

2. gr. Stjórn.

Ráðherra skipar Sprotasjóði fimm manna ráðgefandi stjórn til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar tvo stjórnarmenn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Skal einn stjórnarmanna vera tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af Kennarasambandi Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

3. gr. Verkefni stjórnar.

Stjórn Sprotasjóðs gerir tillögu til ráðherra um hvernig skuli ráðstafa fjárveitingu hans til styrkþega, sbr. 6. gr. að teknu tilliti til kostnaðar skv. 3. mgr. Undirbúningi tillagna sjóðstjórnar skal haga í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stjórn Sprotasjóðs gerir tillögu um einstök áherslusvið sem skulu hafa forgang hverju sinni. Sjóðstjórn getur leitað álits sérfróðra aðila við yfirferð umsókna og undirbúning tillagna um úthlutun úr sjóðnum.

Kostnaður við umsýslu, mat á umsóknum og við störf stjórnar og rekstraraðila skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.

4. gr. Auglýsing styrkumsókna.

Menntamálaráðuneyti skal árlega auglýsa styrki til þróunarverkefna. Leikskólastjórar, skólastjórar eða skólameistarar fyrir hönd skóla, kennarahópa eða einstakra kennara geta sent inn umsókn. Aðrir aðilar en skólar geta sótt um þróunarverkefni í samstarfi við skóla. Í þeim tilfellum skal staðfesting á þátttöku skóla fylgja umsókn.

Auglýsingu skal birta a.m.k. í einu dagblaði sem gefið er út á landsvísu og á vef ráðuneytisins. Í auglýsingu skulu koma fram greinargóðar upplýsingar um tilgang og hlutverk sjóðsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, um eyðublöð fyrir umsóknir, hvar þau sé að finna, hvert eigi að senda umsóknir og hvenær þær skulu hafa borist ásamt upplýsingum um þá fjárhæð sem sjóðurinn hefur til úthlutunar.

5. gr. Umsóknir.

Umsóknir um styrki úr sjóðnum skulu berast ráðuneytinu eða þeim aðila sem falin hefur verið umsjón sjóðsins, sbr. 2. mgr. 1. gr., með rafrænum hætti. Í umsókn skal eftirtalið koma fram:

 1. upplýsingar um nafn viðkomandi skóla og skólastjóra/skólameistara, nafn verkefnisstjóra, annarra þátttakenda og samstarfsaðila ef einhverjir eru,
 2. upplýsingar um menntun og fræðilegan bakgrunn verkefnisstjóra og upplýsingar um fyrri verk á sviði þróunarstarfa,
 3. tilgangur þróunarstarfsins innan skólans,
 4. hnitmiðuð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu,
 5. tímaáætlun og lýsing á aðstöðu þátttakenda til að vinna verkefnið,
 6. hvernig staðið verði að stjórnun verkefnisins, miðlun og mati,
 7. upplýsingar um nýnæmi og gildi verkefnis og stöðu þekkingar á viðfangsefninu, þar á meðal, hvers er vænst að verkefnið muni bæta við þá þekkingu,
 8. verkáætlun, lýsing á aðferðafræði, áfangaskiptingu og helstu verkþáttum,
 9. greinargóðar upplýsingar um áætlaðan kostnað við verkefnið,
 10. upplýsingar um hvort sótt hafi verið um aðra styrki fyrir verkefnið eða það hlotið aðra styrki.

Styrkjum úr Sprotasjóði skal úthluta á grundvelli umsókna er berast innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í auglýsingu, sbr. 4. gr.

6. gr. Mat á umsóknum.

Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum:

 1. gildi og mikilvægi verkefnis með tilliti til hlutverks Sprotasjóðs,
 2. verkefni feli í sér þróunarstarf innan skóla, samstarf milli skóla eða skólastiga,
 3. verkefnið falli að þeim áherslum eða áherslusviðum er fram koma í auglýsingu,
 4. líkum á því að umsækjanda/umsækjendum takist að ná þeim markmiðum er verkefnið miðar að,
 5. starfsferli og faglegum eða fræðilegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda m.t.t. þeirra krafna sem verkefnið gerir til þeirra.

7. gr. Tilkynning um afgreiðslu umsóknar.

Sjóðstjórn tilkynnir umsækjendum um afgreiðslu umsókna þeirra og gengur frá skilmálum við hvern styrkþega.

Upplýsingar um styrkveitingar skulu birtar á vef menntamálaráðuneytis.

8. gr. Eftirlit með framkvæmd verkefna.

Styrkþegar skulu eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok verkefnis senda sjóðstjórn skilagrein þar sem gerð er grein fyrir hvernig styrkurinn var notaður og hvernig afraksturinn verði kynntur. Menntamálaráðuneyti birtir á vefsíðu sinni skilagreinar vegna einstakra verkefna.

Heimilt er að krefja styrkþega um endurgreiðslu styrks, að hluta eða öllu leyti, ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var eða skilagrein hefur ekki borist innan eðlilegra tímamarka.

Ef ekki hefur borist fullnægjandi skilagrein vegna fyrri verkefna er heimilt að hafna nýrri umsókn.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 15. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla, 34. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 53. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 27. febrúar 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Halldór Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.