Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

211/2012

Reglugerð um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 199/2009 um bráðabirgðaráðstafanir, sem víkja frá reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2160/2003, að því er varðar beina afhendingu á litlu magni af nýju kjöti af hópum holdakjúklinga og kalkúna.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla, I. viðauka skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2010 frá 11. nóvember 2010 öðlast eftirfarandi EB-gerð gildi hér á landi:

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 199/2009, um bráðabirgðaráðstafanir, sem víkja frá reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2160/2003, að því er varðar beina afhendingu á litlu magni af nýju kjöti af hópum holdakjúklinga og kalkúna.

2. gr.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 199/2009 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 5 frá 27. janúar 2011, bls. 284.

3. gr.

Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2160/2003 og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 199/2009 skulu sláturafurðir alifugla sem boðnar eru til sölu, vera af sláturfuglum þar sem staðfest hefur verið með sýnatöku á eldistímanum að ekki hafi greinst salmonella í fuglunum. Finnist salmonella í sýnum sem tekin eru við slátrun, skal innkalla afurðirnar, þeim fargað eða þær hitameðhöndlaðar, þannig að kjarnhiti nái 72°C, áður en afurðunum er dreift, samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar. Greinist salmonella í eldishópi getur Matvælastofnun heimilað slátrun hópsins og markaðssetningu á afurðum hans. Skilyrði fyrir því að Matvælastofnun veiti slíka heimild eru að tvö viðbótarsýni framleiðanda og sýni stofnunarinnar, sem tekið skal a.m.k. fimm til sjö dögum fyrir slátrun, séu öll neikvæð. Ekki er heimilt að markaðssetja þessar afurðir nema fyrir liggi niðurstöður úr sýnatöku við slátrun. Slátrun eldishópa og markaðssetning afurða þeirra skal framkvæmd í samræmi við fyrirmæli stofnunarinnar.

4. gr.

Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við lög nr. 93/1995 um matvæli.

5. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt XI. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, 10. gr. laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum og 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

7. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 22. febrúar 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Indriði B. Ármannsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.