Prentað þann 22. des. 2024
204/2004
Reglugerð um samræmdar kröfur og aðferðir að því er varðar örugga lestun og losun búlkaskipa.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Skilgreiningar.
- 4. gr. Kröfur er varða nothæfi búlkaskipa.
- 5. gr. Kröfur er varða nothæfi búlkastöðva.
- 6. gr. Starfsleyfi til bráðabirgða.
- 7. gr. Ábyrgðarstörf skipstjóra og fulltrúa búlkastöðva.
- 8. gr. Fyrirkomulag samvinnu milli búlkaskipa og búlkastöðva.
- 9. gr. Hlutverk Siglingastofnunar.
- 10. gr. Viðgerðir á skemmdum sem verða við lestun eða losun.
- 11. gr. Sannprófun og skýrslugjöf.
- 12. gr. Viðurlög.
- 13. gr. Lagastoð og gildistaka.
- I. Viðauki
- II. Viðauki
- III. Viðauki
- IV. Viðauki
- V. Viðauki
- VI. Viðauki
1. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að auka öryggi búlkaskipa, sem hafa viðkomu í íslenskum höfnum þeirra erinda að lesta eða losa búlkafarm í föstu formi, með því að draga úr óhóflegu álagi og áþreifanlegum skemmdum á burðarvirki skipa sem á sér stað meðan á lestun eða losun stendur en það má gera með:
- samhæfðum nothæfiskröfum fyrir þessi skip og búlkastöðvar, og
- samhæfðum málsmeðferðarreglum fyrir samvinnu og samskipti milli þessara skipa og búlkastöðva.
2. gr. Gildissvið.
Þessi reglugerð gildir um öll búlkaskip, sem hafa viðkomu á búlkastöðvum til þess að lesta eða losa búlkafarm í föstu formi, án tillits til þess undir hvaða fána þær sigla.
Með fyrirvara um ákvæði reglu VI/7 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 skal þessi reglugerð ekki gilda um búnað sem eingöngu er notaður í sérstökum tilvikum til að skipa búlkafarmi í föstu formi út í eða upp úr búlkaskipum og hún gildir ekki í þeim tilvikum þegar lestun eða losun er eingöngu framkvæmd með búnaði búlkaskipsins sem um ræðir.
3. gr. Skilgreiningar.
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- alþjóðasamþykktir: samþykktir, samkvæmt nýjustu útgáfu þeirra, sbr. skilgreiningu í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um hafnarríkiseftirlit með sjóflutningum nr. 589/2003 og 1. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 95/21/EB um hafnarríkiseftirlit;
- SOLAS-samþykktin frá 1974: alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 ásamt tilheyrandi bókunum og breytingum samkvæmt nýjustu útgáfu hennar;
- BLU-reglur: reglur um starfsvenjur vegna öryggis við lestun og losun búlkaskipa, sem fram koma í viðauka við þingsályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.862(20) frá 27. nóvember 1997 samkvæmt nýjustu útgáfu þeirra;
- búlkaskip: merkir hér hið sama og í reglu IX/1.6 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 og í túlkun 6. ályktunar SOLAS-ráðstefnunnar sem haldin var 1997, þ.e.:
- skip með einföldu þilfari, vængtönkum og húftönkum í lestarrými og aðallega ætlað til flutninga á föstum búlkafarmi, eða
- málmgrýtisskip, þ.e. hafskip með einu þilfari, tveimur langskipsþiljum og tvöföldum botni undir öllu farmsvæðinu og eingöngu ætlað til flutnings á málmgrýtisfarmi í miðlestum, eða
- fjölnotaskip sem er skilgreint í reglu II-2/3.27 í SOLAS-samþykktinni frá 1974; - fastur búlkafarmur: búlkafarmur í föstu formi eins og hann er skilgreindur í reglu XII/1.4 í SOLAS-samþykktinni frá 1974, að frátöldu korni;
- korn: merkir hér hið sama og í reglu VI/8.2 í SOLAS-samþykktinni frá 1974;
- búlkastöð: hvers konar aðstaða, hvort sem hún er föst, fljótandi eða hreyfanleg, sem notuð er til að lesta eða losa búlkaskip með föstum búlkafarmi;
- rekstraraðili búlkastöðvar: eigandi búlkastöðvar eða hvers konar stofnun eða einstaklingur sem eigandinn hefur falið ábyrgð á lestun eða losun tiltekins búlkaskips;
- fulltrúi búlkastöðvar: hver sá einstaklingur sem eigandinn hefur tilnefnt og ber meginábyrgð á og hefur vald til að stjórna undirbúningi, framkvæmd og verklokum lestunar eða losunar tiltekins búlkaskips sem framkvæmd er á vegum búlkastöðvarinnar;
- skipstjóri: einstaklingur sem hefur með höndum stjórn búlkaskips eða yfirmaður á skipinu sem skipstjóri hefur tilnefnt vegna lestunar eða losunar skipsins;
- viðurkennd stofnun: stofnun sem viðurkennd er í samræmi við 4. gr. tilskipunar ráðsins 94/57/EB;
- upplýsingar um farm: upplýsingar um farm sem krafist er í reglu VI/2 í SOLAS-samþykktinni frá 1974;
- lestunar- eða losunaráætlun: áætlun sem um getur í reglu VI/7.3 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 en framsetning hennar skal vera eins og kemur fram í 2. viðbæti við BLU-reglurnar;
- sameiginlegur öryggisgátlisti skips og hafnar: gátlisti sem um getur í 4. þætti BLU-reglnanna en framsetning hans skal vera eins og kemur fram í 3. viðbæti við BLU-reglurnar;
- yfirlýsing um eðlismassa fasts búlkafarms: upplýsingar um eðlismassa farms sem gefa skal upp í samræmi við reglu XII/10 í SOLAS-samþykktinni frá 1974.
4. gr. Kröfur er varða nothæfi búlkaskipa.
Siglingastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að búlkaskip séu, að mati rekstraraðila búlkastöðva, nothæf til lestunar eða losunar á föstum búlkafarmi með því að ganga úr skugga um að þau uppfylli ákvæði I. viðauka með þessari reglugerð.
5. gr. Kröfur er varða nothæfi búlkastöðva.
Siglingastofnun skal fullvissa sig um að rekstraraðilar búlkastöðva tryggi eftirfarandi að því er varðar búlkastöðvar sem þeir bera ábyrgð á samkvæmt þessari reglugerð:
- búlkastöðvarnar uppfylli ákvæði II. viðauka með reglugerð þessari;
- fulltrúi búlkastöðvar (einn eða fleiri) hafi verið skipaður;
- upplýsingabækur hafi verið samdar, þar sem fram koma kröfur búlkastöðvarinnar og stjórnvalda og upplýsingar um höfnina og búlkastöðina sem skráðar eru í lið 1.2 í 1. viðbæti við BLU-reglurnar, en þessar upplýsingabækur skulu vera aðgengilegar skipstjórum búlkaskipa, sem fara um búlkastöðina til þess að lesta eða losa búlkafarm í föstu formi, og
- gæðastjórnunarkerfi hafi verið þróað, komið á og viðhaldið. Slíkt gæðastjórnunarkerfi skal vottað af faggiltri vottunarstofu í samræmi við ISO 9001:2000-staðlana eða jafngildan staðal sem uppfylli a.m.k. alla þætti ISO 9001:2000, og gerð skal úttekt á því í samræmi við viðmiðunarreglur ISO 10011:1991 eða jafngildan staðal sem uppfylli alla þætti ISO 10011:1991. Fara skal að ákvæðum tilskipunar 98/34/EB.
Aðlögunarfrestur til að koma á fót gæðastjórnunarkerfinu er veittur til 5. febrúar 2005 og í eitt ár til viðbótar til að afla vottunar fyrir kerfið.
6. gr. Starfsleyfi til bráðabirgða.
Þrátt fyrir kröfur 4. tölul. 5. gr. getur Siglingastofnun gefið út bráðabirgðaleyfi til nýstofnaðra búlkastöðva sem skal gilda í 12 mánuði hið mesta. Hins vegar skal sýnt fram á það, af hálfu búlkastöðvarinnar, að til sé áætlun um að hrinda í framkvæmd gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ISO 9001:2000-staðalinn eða jafngildan staðal eins og fram kemur í 4. tölul. 5. gr.
7. gr. Ábyrgðarstörf skipstjóra og fulltrúa búlkastöðva.
Siglingastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eftirfarandi meginreglur um ábyrgðarstörf skipstjóra og fulltrúa búlkastöðva séu virtar og að þeim sé beitt:
-
Ábyrgð skipstjóra:
- skipstjórinn ber ætíð ábyrgð á öruggri lestun og losun búlkaskips sem er undir hans stjórn;
- með góðum fyrirvara fyrir áætlaðan komutíma skipsins til búlkastöðvarinnar skal skipstjóri veita búlkastöðinni þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í III. viðauka með reglugerð þessari;
- áður en lestun á föstum búlkafarmi hefst skal skipstjóri tryggja að hann hafi fengið þær upplýsingar um farminn sem krafist er samkvæmt reglugerð VI/2 í SOLAS-samþykktinni frá 1974 og, sé þess krafist, yfirlýsingu um eðlismassa fasts búlkafarms. Þessar upplýsingar skulu koma fram á eyðublaði um farmupplýsingar eins og mælt er fyrir um í 5. viðbæti við BLU-reglurnar;
- áður en lestun eða losun hefst og meðan á henni stendur skal skipstjóri rækja þær skyldur sem taldar eru upp í IV. viðauka með reglugerð þessari;
-
Ábyrgð fulltrúa búlkastöðvar:
- jafnskjótt og tilkynning berst frá skipinu um áætlaðan komutíma þess skal fulltrúi búlkastöðvarinnar láta skipstjóranum í té upplýsingarnar sem um getur í V. viðauka með reglugerð þessari;
- fulltrúi búlkastöðvarinnar skal fullvissa sig um að skipstjórinn hafi fengið upplýsingarnar á farmupplýsingaeyðublaðinu eins fljótt og unnt er;
- fulltrúi búlkastöðvarinnar skal tilkynna Siglingastofnun án tafar um augljósan vanbúnað um borð í búlkaskipi sem hætta gæti stafað af við lestun eða losun fasts búlkafarms;
- áður en lestun eða losun hefst og meðan á henni stendur skal fulltrúi búlkastöðvarinnar rækja þær skyldur sem taldar eru upp í VI. viðauka með reglugerð þessari.
8. gr. Fyrirkomulag samvinnu milli búlkaskipa og búlkastöðva.
Tryggja skal að eftirfarandi fyrirkomulag sé viðhaft í tengslum við lestun eða losun búlkaskipa með föstum búlkafarmi:
- Áður en lestun eða losun fasts búlkafarms hefst skal skipstjórinn komast að samkomulagi við fulltrúa búlkastöðvarinnar um lestunar- eða losunaráætlun í samræmi við reglu VI/7.3 í SOLAS-samþykktinni frá 1974. Lestunar- eða losunaráætlunin skal vera í þeirri mynd sem mælt er fyrir um í 2. viðbæti við BLU-reglurnar, hún skal innihalda IMO-númer búlkaskipsins og skipstjórinn og fulltrúi búlkastöðvarinnar skulu staðfesta með undirskrift að þeir séu samþykkir áætluninni.
Sérhver breyting á áætluninni, sem að mati annars hvors aðilans kann að hafa áhrif á öryggi skips eða áhafnar, skal gerð, viðurkennd og samþykkt af báðum aðilum, sem endurskoðuð áætlun.
Samþykkta lestunar- eða losunaráætlunin, ásamt síðari breytingum, skal vera í vörslu skips og búlkastöðvar um sex mánaða skeið til þess að sannprófun af hálfu Siglingastofnunar geti farið fram reynist það nauðsynlegt. - Áður en lestun eða losun hefst skal ljúka við sameiginlegan öryggisgátlista skips og hafnar og skulu skipstjórinn og fulltrúi búlkastöðvarinnar undirrita hann í sameiningu í samræmi við viðmiðunarreglur 4. viðbætis við BLU-reglurnar.
- Milli skips og búlkastöðvar skal komið á skilvirkum boðskiptum og þeim stöðugt viðhaldið þannig að unnt sé að bregðast við ef farið er fram á upplýsingar um lestunar- eða losunarferlið og tryggja að tafarlaust sé farið að fyrirmælum frá skipstjóra eða fulltrúa búlkastöðvarinnar um að fresta lestun eða losun.
- Skipstjórinn og fulltrúi búlkastöðvarinnar skulu annast lestunar- eða losunaraðgerðirnar í samræmi við samþykkta áætlun. Fulltrúi búlkastöðvarinnar skal bera ábyrgð á lestun eða losun fasta búlkafarmsins að því er varðar röð lesta, það magn og þann hraða lestunar eða losunar sem fram kemur í áætluninni. Hann skal ekki víkja frá samþykktri lestunar- eða losunaráætlun, nema í samráði við skipstjórann og með skriflegu samþykki hans.
- Að lokinni lestun eða losun skulu skipstjóri og fulltrúi búlkastöðvarinnar staðfesta skriflega að lestunin eða losunin hafi farið fram samkvæmt lestunar- eða losunaráætluninni, að meðtöldum samþykktum breytingum sem kunna að hafa orðið á henni. Þegar um losun er að ræða skal slíkri staðfestingu fylgja skjal þess efnis að lestir hafi verið tæmdar og þær þrifnar í samræmi við kröfur skipstjóra og enn fremur skal fylgja skrá yfir skemmdir, sem kunna að hafa orðið á skipinu, og viðgerðir sem framkvæmdar hafa verið.
9. gr. Hlutverk Siglingastofnunar.
Með fyrirvara um réttindi og skyldur skipstjóra sem kveðið er á um í reglu VI/7.7 í SOLAS-samþykktinni frá 1974, skal Siglingastofnun tryggja að komið sé í veg fyrir eða stöðvuð lestun eða losun fasts búlkafarms hvenær sem fyrir liggja greinilegar vísbendingar í þá veru að skipi eða áhöfn kunni að stafa hætta af slíku.
Nú er Siglingastofnun tilkynnt að komið hafi til ágreinings milli skipstjóra og fulltrúa búlkastöðvar um framkvæmd starfsreglnanna sem kveðið er á um í 8. gr. og skal þá Siglingastofnun grípa inn í, eftir því sem þurfa þykir, af öryggisástæðum og/eða af ástæðum er varða umhverfi sjávar.
10. gr. Viðgerðir á skemmdum sem verða við lestun eða losun.
Ef skemmdir verða á burðarvirki eða búnaði skipsins við lestun eða losun skal fulltrúi búlkastöðvarinnar tilkynna það skipstjóranum og fer þá fram viðgerð ef þörf er á.
Séu skemmdirnar þess eðlis að þær gætu dregið úr styrkleika burðarvirkis bolsins eða vatnsheldni þess eða skaðað aðaltæknikerfi skipsins skal fulltrúi búlkastöðvarinnar og/eða skipstjórinn tilkynna það Siglingastofnun eða viðurkenndri stofnun sem starfar í umboði hennar. Siglingastofnun skal, að teknu tilliti til álits viðurkenndrar stofnunar, komi slíkt álit fram, og með tilliti til álits skipstjóra, taka ákvörðun um það hvort hægt sé að fresta viðgerðum. Ef tafarlausar viðgerðir eru taldar nauðsynlegar skal þeim lokið, svo viðunandi sé að mati skipstjóra og Siglingastofnunar, áður en skipið lætur úr höfn.
Þegar taka skal ákvörðunina sem um getur í 2. mgr. getur Siglingastofnun fengið viðurkennda stofnun til að skoða skemmdirnar og gefa álit á því hvort þörf sé á viðgerðum eða hvort þeim megi fresta.
Þessi grein gildir með fyrirvara um ákvæði reglugerðar um hafnarríkiseftirlit, nr. 589/2003.
11. gr. Sannprófun og skýrslugjöf.
Siglingastofnun skal sannprófa reglulega að búlkastöðvar standist kröfurnar í 5. gr. (1. tölul.), 7. gr. (2. tölul.) og 8. gr. Fyrirvaralaus skoðun, meðan á lestun eða losun stendur, skal vera þáttur í sannprófuninni.
Að auki skal Siglingastofnun sannprófa að búlkastöðvar standist kröfurnar í 4. tölul. 5. gr. í lok tímabilsins, sem þar er kveðið á um og, að því er varðar nýstofnaðar búlkastöðvar, í lok tímabilsins sem kveðið er á um í 6. gr.
Siglingastofnun Íslands skal láta Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í té niðurstöður slíkrar sannprófunar á þriggja ára fresti. Í skýrslunni skal koma fram mat á skilvirkni samhæfðu málsmeðferðarinnar við samvinnu og samskipti milli búlkaskipa og búlkastöðva sem kveðið er á um í þessari reglugerð. Skýrslan skal send í síðasta lagi 30. apríl næsta árs eftir lok þriggja almanaksára sem hún fjallar um.
12. gr. Viðurlög.
Með mál sem kunna að rísa út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála og varða brot á viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, með síðari breytingum, og siglingalaga nr. 34/1985, með síðari breytingum.
13. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003, með síðari breytingum og 243. gr. siglingalaga nr. 34/1985, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Höfð var hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/96/EB frá 4. desember 2001 um samræmdar kröfur og aðferðir að því er varðar örugga lestun og losun búlkaskipa, sem birtist í EES-viðbæti 6/2003, bls. 147 og ákvörðun EES-nefndar nr. 56/2002, sem birtist í EES-viðbæti 44/2002, bls. 12.
Samgönguráðuneytinu, 23. febrúar 2004.
Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.