Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

200/2007

Reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að gera ráðstafanir til að stuðla að því að öryggi og heilsa starfsmanna um borð í skipum verði bætt.

Í þessu skyni eru í reglugerð þessari settar fram almennar meginreglur um forvarnir gegn áhættu við störf, verndun öryggis og heilsu, útilokun þeirra þátta er bjóða hættu heim eða valda slysum, upplýsingar, samráð, eðlilega þátttöku starfsmanna og fulltrúa þeirra, svo og almennar viðmiðanir við framkvæmd téðra meginreglna.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla vinnu sem fer fram um borð í skipum.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda þó ekki þegar um sérstakar aðstæður er að ræða, sem tengdar eru tiltekinni starfsemi hins opinbera, svo sem á varðskipum, eða tiltekinni starfsemi á sviði almannavarna.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Starfsmaður er hver sá sem ráðinn er í vinnu á skip af vinnuveitanda, þar með taldir nemar og lærlingar.

Vinnuveitandi er hver sá aðili sem hefur starfsmenn í vinnu á skipi.

Öryggis- og heilbrigðisfulltrúi starfsmanna er hver sá einstaklingur sem kosinn er, valinn eða tilnefndur í samræmi við landslög og/eða venjur til að vera fulltrúi starfsmanna þegar upp koma vandamál í tengslum við öryggi og heilsu þeirra við vinnu.

Forvarnir eru allar aðgerðir eða ráðstafanir sem hafa verið eða verða gerðar í tengslum við alla þætti í starfsemi skipsins, er miða að því að fyrirbyggja eða draga úr áhættu við störf.

II. KAFLI Skyldur vinnuveitanda.

4. gr. Almenn ákvæði.

Vinnuveitanda er skylt að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna við allar aðstæður í vinnu.

Þótt vinnuveitandi fái til liðs við sig hæfa utanaðkomandi þjónustuaðila eða einstaklinga, skv. 3. mgr. 6. gr., leysir það hann ekki undan ábyrgð skv. 1. mgr.

Skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu skulu ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitandans.

Vinnuveitandi skal þó undanþeginn ábyrgð skv. 1. mgr., enda sé orsaka atvika að leita í óvenjulegum og ófyrirsjáanlegum kringumstæðum sem vinnuveitandi fær ekki stjórnað, eða í atburðum er til undantekninga teljast og hafi ekki verið gerlegt að forðast afleiðingarnar þótt ýtrasta aðgát hafi verið sýnd.

5. gr. Almennar skyldur vinnuveitanda.

Ábyrgð vinnuveitanda felst í því að hann skal gera nauðsynlegar ráðstafanir er lúta að öryggi og heilsuvernd starfsmanna, þar með taldar forvarnir gegn áhættu í starfi, fræðsla og þjálfun, svo og að séð sé fyrir nauðsynlegri skipulagningu og viðbúnaði.

Vinnuveitandi skal vera vakandi fyrir því að laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa að markmiði að bæta ríkjandi aðstæður.

Vinnuveitandi skal koma í framkvæmd ráðstöfunum þeim sem um getur í 2. málslið 1. mgr. er byggjast á þeim almennu meginreglum um forvarnir sem hér fara á eftir:

  1. að forðast áhættu;
  2. að framkvæma hættumat á þeim hættum sem ekki er hægt að forðast;
  3. að sporna gegn því að áhætta geti skapast;
  4. að laga vinnuferlið að einstaklingnum, einkum þegar vinnustaður er hannaður og þegar valin eru tæki og vinnu- og framleiðsluaðferðir; skal þetta einkum gert í því augnamiði að draga úr einhæfni við færibandavinnu eða vinnu sem líkist henni svo koma megi í veg fyrir heilsuspillandi áhrif sem slíkt kann að hafa á starfsmenn;
  5. að aðlagast tækniframförum;
  6. að skipta á því sem er hættulegt og því sem er ekki hættulegt eða er síður hættulegt;
  7. að móta heildstæða stefnu um forvarnir sem tekur til tækni, skipulagningar vinnunnar, vinnuskilyrða, félagslegra tengsla og þátta er tengjast vinnuumhverfi;
  8. að ráðstafanir til verndar starfsmönnum almennt hafi forgang fram yfir ráðstafanir til að vernda einstaka menn;
  9. að starfsmenn fái viðeigandi tilsögn.

Að teknu tilliti til annarra ákvæða reglugerðar þessarar og með hliðsjón af því hvers eðlis starfsemi skipsins er, skal vinnuveitandi:

  1. meta þá áhættu sem tekin er hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna, meðal annars með vali á tækjum, efnum eða efnablöndum sem notaðar eru, sem og innréttingar á vinnustað.

    Eftir að áhættan hefur verið metin og á þann hátt sem nauðsynlegt er, skulu forvarnir, vinnu- og framleiðsluaðferðir sem vinnuveitandi beitir:
    - tryggja starfsmönnum betri vernd með tilliti til öryggis og heilsu,
    - vera felldar inn í alla starfsemi skipsins og á öllum þrepum;
  2. þegar starfsmanni eru falin tiltekin verkefni, taka tillit til færni hans að því er varðar heilsu og öryggi;
  3. tryggja að þegar gerðar eru áætlanir um nýja tækni eða hún innleidd sé haft samráð við starfsmenn og/eða fulltrúa þeirra, hvað varðar afleiðingar sem val á tækjum, vinnuskilyrði og vinnuumhverfi hafa fyrir öryggi og heilsu starfsmanna;
  4. að taka viðeigandi skref í þá átt að tryggja að einungis þeir starfsmenn sem hlotið hafa nægilega tilsögn hafi aðgang að svæðum þar sem alvarleg og sérstök hætta er á ferðum.

Kostnaður af ráðstöfunum er tengjast öryggi, hollustuháttum og heilbrigði um borð í skipum má ekki undir neinum kringumstæðum leggjast á starfsmenn.

6. gr. Þjónusta á sviði verndar og forvarna.

Að teknu tilliti til skyldna vinnuveitanda skv. 4. og 5. gr., skal vinnuveitandi tilnefna einn eða fleiri starfsmenn til að vinna að vernd og forvörnum gegn áhættu í starfi innan skipsins.

Þeir starfsmenn sem tilnefndir eru skulu í engu gjalda vinnu sinnar að vernd og forvörnum gegn áhættu í starfi. Starfsmönnum, sem tilnefndir eru, skal ætlaður nægilegur tími til að sinna skyldum þeim er reglugerð þessi leggur þeim á herðar.

Ef ekki er unnt að gera slíkar ráðstafanir til verndar eða forvarna, vegna þess að hæft starfsfólk er ekki að finna á skipinu skal vinnuveitandi fá til liðs við sig hæfa utanaðkomandi þjónustuaðila eða einstaklinga.

Þegar vinnuveitandi fær slíka þjónustuaðila eða einstaklinga til liðs við sig skal hann upplýsa þá um þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna og skulu þeir hafa aðgang að upplýsingum þeim sem um getur í 2. mgr. 9. gr.

Undir öllum kringumstæðum skulu:

  1. þeir starfsmenn sem tilnefndir eru hafa nauðsynlega færni og aðstöðu,
  2. þeir utanaðkomandi þjónustuaðilar eða einstaklingar, sem leitað er ráða hjá, hafa nauðsynlega hæfni og einstaklingsbundin og fagleg ráð, og
  3. starfsmenn sem eru tilnefndir og utanaðkomandi þjónustuaðilar eða ráðgjafar vera nægilega margir til að fást við skipulagningu verndar- og forvarnarráðstafana, með hliðsjón af stærð skipsins og/eða þeirri áhættu sem starfsmenn búa við, sem og því hvernig hún dreifist á skipinu.

Einn eða fleiri starfsmenn, eða þjónustuaðilar á skipinu eða utan skipsins, skulu bera ábyrgð á vernd og forvörnum gegn þeirri áhættu varðandi öryggi og heilsu sem grein þessi fjallar um.

Starfsmenn og þjónustuaðilar skulu vinna saman þegar þörf krefur.

7. gr. Skyndihjálp, slökkvistarf og brottflutningur starfsmanna, bráð hætta.

Vinnuveitandi skal:

  1. gera nauðsynlegar ráðstafanir til skyndihjálpar, slökkvistarfs og brottflutnings starfsmanna, eins og hæfir eðli starfseminnar og stærð skipsins og að teknu tilliti til annarra á staðnum,
  2. koma á sambandi við utanaðkomandi þjónustuaðila, einkum að því er varðar skyndihjálp, læknishjálp í neyð, björgun og slökkvistarf.

Samkvæmt 1. mgr. skal vinnuveitandi í sambandi við skyndihjálp, slökkvistarf og brottflutning starfsmanna meðal annars tilnefna þá starfsmenn sem koma skulu slíkum ráðstöfunum í framkvæmd. Fjöldi slíkra starfsmanna, þjálfun þeirra og búnaður sem þeir hafa yfir að ráða skal vera eins og hæfir stærð skipsins og/eða sérstakrar hættu sem tengist því.

Vinnuveitandi skal:

  1. upplýsa alla starfsmenn sem eru í eða kunna að lenda í bráðri hættu, svo skjótt sem auðið er, um hver áhættan er og til hvaða aðgerða hefur verið eða á að grípa í verndarskyni;
  2. grípa til aðgerða og gefa fyrirmæli svo að starfsmenn geti samstundis lagt frá sér vinnu og/eða forðað sér af vinnustað á annan öruggari stað ef um bráða og óhjákvæmilega hættu er að ræða;
  3. eigi æskja þess að starfsmenn hefji vinnu á ný á meðan bráð hætta er fyrir hendi, nema í undantekningartilvikum og af rækilega rökstuddum ástæðum.

Starfsmenn skulu í engu gjalda þess hafi þeir yfirgefið vinnuaðstöðu sína vegna bráðrar og óhjákvæmilegrar hættu.

Vinnuveitanda ber að tryggja að starfsmenn geti, ef öryggi þeirra og/eða annarra er stefnt í bráða hættu og ekki er hægt að ná sambandi við næstráðandi yfirmann sem er ábyrgur, gripið sjálfir til viðeigandi aðgerða til að komast hjá afleiðingum hættunnar, í ljósi vitneskju sinnar og tæknilegra ráða sem tiltæk eru.

Aðgerðir þeirra mega ekki bitna á þeim, nema þeir hafi sýnt kæruleysi eða vanrækslu.

8. gr. Ýmsar skyldur vinnuveitenda.

Vinnuveitandi skal:

  1. hafa undir höndum hættumat varðandi öryggi og hollustu á vinnustað, að meðtalinni þeirri áhættu sem sérstökum hópum starfsmanna er búin;
  2. ákveða hvaða verndarráðstafanir skal gera og, ef nauðsyn krefur, hvaða hlífðarbúnað ber að nota;
  3. halda skrá yfir vinnuslys sem valda því að starfsmaður er frá vinnu lengur en þrjá vinnudaga;
  4. taka saman skýrslur um vinnuslys sem starfsmenn hans verða fyrir, til handa rannsóknarnefnd sjóslysa.

9. gr. Upplýsingar til starfsmanna.

Vinnuveitandi skal gera þær ráðstafanir til að starfsmenn og/eða fulltrúar þeirra fái allar nauðsynlegar upplýsingar um:

  1. áhættu sem öryggi og heilsu er búin og verndar- og forvarnarráðstafanir og aðgerðir er snerta bæði skipið almennt og hverja gerð vinnuaðstöðu og/eða starfs;
  2. ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt 2. mgr. 7. gr.

Vinnuveitandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til að starfsmenn sem sérstaklega er ætlað að sinna verndun öryggis og heilsu eða öryggis- og heilbrigðisfulltrúar starfsmanna hafi, eftir því sem unnt er aðgang að:

  1. hættumati því og verndarráðstöfunum sem um getur í a- og b-liðum 1. mgr. 8. gr.;
  2. skránni og skýrslunum sem um er rætt í c- og d-liðum 1. mgr. 8. gr.;
  3. upplýsingum þeim er í ljós koma við verndar- og forvarnarráðstafanir og upplýsingum frá eftirlitsstofnunum og aðilum sem bera ábyrgð á málefnum er varða öryggi og hollustuvernd.

10. gr. Samráð við starfsmenn og þátttaka þeirra.

Vinnuveitendur skulu hafa samráð við starfsmenn og/eða fulltrúa þeirra og heimila þeim að taka þátt í umræðum um öll mál er tengjast öryggi og hollustu um borð í skipum.

Þetta felur í sér:

  1. að haft er samráð við starfsmenn,
  2. að starfsmenn eða fulltrúar þeirra hafi tillögurétt,
  3. eðlilega þátttöku í samræmi við landslög og/eða venjur.

Starfsmönnum þeim sem bera sérstaka ábyrgð á öryggi og hollustuvernd, eða öryggis- og heilbrigðisfulltrúum starfsmanna, skal tryggð eðlileg þátttaka í samræmi við landslög og/eða venjur, eða að vinnuveitandi hafi samráð fyrirfram og tímanlega við þá, í sambandi við:

  1. allar ráðstafanir sem geta haft umtalsverð áhrif á öryggi og hollustu,
  2. tilnefningu þeirra starfsmanna sem um getur í 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr., svo og starf það sem um getur í 1. mgr. 6. gr.;
  3. upplýsingarnar sem um getur í 8. gr. og 9. gr.;
  4. ráðningu hæfra þjónustuaðila eða einstaklinga utan skipsins, eins og um getur í 3. mgr. 6. gr., eftir því sem við á;
  5. skipulagningu og fyrirkomulag þjálfunar þeirrar sem um getur í 11. gr.

Öryggis- og heilbrigðisfulltrúar starfsmanna skulu hafa rétt til að æskja þess að vinnuveitandi geri viðeigandi ráðstafanir og til að leggja fyrir hann tillögur þar að lútandi, til að draga úr hættu sem starfsmönnum er búin og/eða komast fyrir orsakir hennar.

Starfsmenn þeir sem um getur í 2. mgr. og fulltrúar starfsmanna sem um getur í 2. og 3. mgr. skulu í engu gjalda þeirra starfa sinna sem um getur í 2. og 3. mgr.

Vinnuveitendum er skylt að heimila öryggis- og heilbrigðisfulltrúum starfsmanna að taka þann tíma frá vinnu sem með þarf án þess að laun skerðist og gera þeim kleift að beita rétti sínum og inna þær skyldur af hendi sem kveðið er á um í tilskipun þessari.

Starfsmenn og/eða fulltrúar þeirra eiga rétt á að skjóta málum til Siglingastofnunar Íslands, telji þeir að ráðstafanir þær sem gerðar hafa verið og úrræði þau sem vinnuveitandi notast við tryggi ekki öryggi og hollustu á vinnustað svo viðunandi sé.

Fulltrúum starfsmanna ber að fá tækifæri til að leggja athugasemdir sínar fyrir fulltrúa Siglingastofnunar Íslands þegar hann kemur til að sinna eftirliti með skipinu.

11. gr. Þjálfun starfsmanna.

Vinnuveitandi skal tryggja að hver starfsmaður fái nægilega þjálfun að því er varðar öryggi og hollustu, meðal annars með upplýsingum og tilsögn sem sniðin er að vinnuaðstöðu hans og starfi:

  1. um leið og hann er ráðinn til starfa,
  2. ef hann er fluttur á annan stað eða í annað starf,
  3. ef nýr búnaður er tekinn í notkun eða búnaði breytt,
  4. ef ný tækni er innleidd.

Þjálfunina skal:

  1. laga að nýjum eða breyttum áhættuþáttum, og
  2. endurtaka reglulega ef þörf er á.

Öryggis- og heilbrigðisfulltrúar starfsmanna eiga rétt á viðeigandi þjálfun.

Kostnaður við þjálfunina sem um getur í 1. og 2. mgr. má ekki leggjast á starfsmenn eða fulltrúa þeirra.

Þjálfunin sem um getur í 1. mgr. verður að fara fram á vinnutíma.

Þjálfunin sem um getur í 2. mgr. skal fara fram á vinnutíma.

III. KAFLI Skyldur starfsmanna.

12. gr.

Sérhver starfsmaður er ábyrgur fyrir því að gæta eigin öryggis og heilsu eftir því sem hann hefur tök á, svo og annarra einstaklinga sem aðgerðir hans eða aðgerðaleysi á vinnustað snertir, í samræmi við þjálfun hans og fyrirmæli þau er vinnuveitandi hefur gefið honum.

Í þessu skyni ber starfsmönnum einkum í samræmi við þjálfun sína og fyrirmæli þau er vinnuveitandi hefur gefið, að gæta þess að:

  1. nota vélar, tæki, verkfæri, hættuleg efni, flutningatæki og annan búnað á réttan hátt;
  2. nota persónuhlífar sem þeim er séð fyrir á réttan hátt og skila þeim á sinn stað eftir notkun;
  3. taka ekki úr sambandi, né heldur breyta eða fjarlægja að geðþótta uppsettan öryggisbúnað, svo sem við vélar, tæki, verkfæri, búnað og byggingar, og að nota öryggisbúnaðinn rétt;
  4. upplýsa vinnuveitanda og/eða þá starfsmenn sem hafa sérstöku hlutverki að gegna við vernd öryggis og heilsu án tafar um allar aðstæður við vinnu þar sem ljóst má telja að öryggi og heilsu sé bráð hætta búin og um alla ágalla á fyrirkomulagi sem ætlað er til verndar;
  5. hafa samstarf við vinnuveitanda og/eða þá starfsmenn sem hafa sérstöku hlutverki að gegna við vernd öryggis og heilsu, svo lengi sem þörf kann að vera til að hægt sé að sinna þeim verkum eða verða við þeim kröfum sem Siglingastofnun Íslands hefur sett til verndunar öryggis og heilsu starfsmanna á vinnustöðum;
  6. hafa samstarf við vinnuveitanda og/eða þá starfsmenn sem hafa sérstöku hlutverki að gegna við vernd öryggis og heilsu, svo lengi sem þörf kann að vera á til að vinnuveitandi geti tryggt öruggt vinnuumhverfi og vinnuskilyrði og svo að öryggi og heilsu sé engin hætta búin á athafnasvæði þeirra.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

13. gr. Heilbrigðiseftirlit.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 2. mgr. 29. gr. Tryggja ber að litið sé eftir heilsu starfsmanna í samræmi við áhættuna sem starf þeirra felur í sér gagnvart öryggi þeirra og heilsu.

Ráðstafanir þær sem um getur í 1. mgr. skulu vera á þá leið að sérhverjum starfsmanni sé heimilt að gangast undir heilsuverndareftirlit með reglulegu millibili ef hann kýs það.

14. gr. Áhættuhópar.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 2. mgr. 29. gr. Vernda ber áhættuhópa sem eru sérlega viðkvæmir fyrir þeim hættum sem steðja einkum að þeim.

15. gr. Notkun tækja.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 29. gr.

16. gr. Persónuhlífar.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglna nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 29. gr.

17. gr. Öryggi og hollusta þegar byrðar eru handleiknar.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 29. gr.

18. gr. Skjávinna.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglna nr. 498/1994, um skjávinnu, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 29. gr.

19. gr. Krabbameinsvaldandi efni.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglna nr. 98/2002, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 29. gr.

20. gr. Líffræðilegir skaðvaldar.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglna nr. 764/2001, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 7. tölul. 2. mgr. 29. gr.

21. gr. Öryggis- og heilbrigðismerki.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglna nr. 707/1995, um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 9. tölul. 2. mgr. 29. gr.

22. gr. Þungaðar konur.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 931/2000, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 10. tölul. 2. mgr. 29. gr.

23. gr. Jarðefnanám.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu gilda ákvæði reglna nr. 553/1996, um öryggisráðstafanir við jarðefnanám með borunum, sbr. 11. tölul. 2. mgr. 27. gr. og reglna nr. 552/1996, um öryggisráðstafanir við jarðefnanám, eins og þeim var breytt með reglum nr. 349/2003, sbr. 12. tölul. 2. mgr. 29. gr., gilda um vinnu um borð í skipum.

24. gr. Heilsuskaðandi efni.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 553/2004, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 286/2006, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 14. tölul. 2. mgr. 29. gr.

25. gr. Titringur.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 922/2006, um varnir gegn álagi vegna vélræns titrings á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 16. tölul. 2. mgr. 29. gr.

26. gr. Hávaði.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 921/2006, um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 17. tölul. 2. mgr. 29. gr.

27. gr. Afleysingastörf og önnur tímabundin störf.

Auk þeirra reglna sem settar eru fram í þessari reglugerð skulu ákvæði reglugerðar nr. 433/1997, um ráðstafanir til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingarstarfi eða tímabundnu starfi, gilda um vinnu um borð í skipum, sbr. 3. mgr. 29. gr.

28. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 29. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.

29. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 1. gr., 4. mgr. 3. gr., 4. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, öðlast þegar gildi og frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 786/1998, um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum, með síðari breytingum.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 89/391/EBE frá 12. júní 1989, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, og eftirtöldum sértilskipunum í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE, sem vísað er til í XVIII. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum hefur verið breytt með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar:

  1. tilskipun ráðsins 89/654/EBE frá 30. nóvember 1989, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu á vinnustöðum (fyrsta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  2. tilskipun ráðsins 89/655/EBE frá 30. nóvember 1989, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota tæki á vinnustöðum (önnur sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 95/63/EB frá 5. desember 1995, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/96 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/45/EB frá 27. júní 2001, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2002;
  3. tilskipun ráðsins 89/656/EBE frá 30. nóvember 1989, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota persónuhlífar á vinnustöðum (þriðja sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  4. tilskipun ráðsins 90/269/EBE frá 29. maí 1990, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar og hætta er á að starfsmenn verði fyrir bakmeiðslum (fjórða sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  5. tilskipun ráðsins 90/270/EBE frá 29. maí 1990, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu við skjávinnu (fimmta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  6. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/37/EB, frá 29. apríl 2004, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af krabbameinsvöldum á vinnustað (sjötta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), eins og henni var breytt með tilskipunum ráðsins nr. 97/42/EB frá 27. júní 1997, 1999/38/EB frá 29. apríl 1999 og 90/394/EBE, frá 28. júní 1990, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2005;
  7. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/54/EB frá 18. september 2000, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna líffræðilegra áhrifavalda á vinnustöðum (sjöunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2001;
  8. tilskipun ráðsins 92/58/EBE frá 24. júní 1992, um lágmarkskröfur um uppsetningu öryggis- og heilbrigðismerkja á vinnustöðum (níunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  9. tilskipun ráðsins 92/85/EBE frá 19. október 1992, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti (tíunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  10. tilskipun ráðsins 92/91/EBE frá 3. nóvember 1992, um lágmarkskröfur um umbætur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu starfsmanna í jarðefnanámi með borunum (ellefta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE).
  11. tilskipun ráðsins 92/104/EBE frá 3. desember 1992, um lágmarkskröfur um umbætur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu starfsmanna í jarðefnanámi á yfirborði jarðar eða neðanjarðar (tólfta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE);
  12. tilskipun ráðsins 98/24/EB frá 7. apríl 1998, um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna efnafræðilegra áhrifavalda á vinnustað (fjórtánda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/1999;
  13. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/44/EB frá 25. júní 2002, um lágmarkskröfur um heilbrigði og öryggi að því er varðar áhættu starfsmanna vegna váhrifa eðlisfræðilegra áhrifavalda (titrings) (sextánda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2003;
  14. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/10/EB frá 6. febrúar 2003, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu að því er varðar váhrif sem starfsmenn verða fyrir af völdum eðlisfræðilegra áhrifavalda (hávaða) (sautjánda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2003.

Einnig er með reglugerðinni innleidd tilskipun ráðsins 91/383/EBE frá 25. júní 1991, til viðbótar ráðstöfunum til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingarstarfi eða tímabundnu starfi, sbr. 16. tölul. XVIII. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Samgönguráðuneytinu, 28. febrúar 2007.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.