Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

172/2010

Reglugerð um sjóflutninga á hrásykri, fljótandi fitu og olíum.

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um sjóflutninga á hrásykri, fljótandi fitu og olíum sem ætlaðar eru til manneldis að lokinni frekari meðhöndlun.

II. KAFLI Um sjóflutning á hrásykri.

2. gr.

Aðeins er heimilt að flytja hrásykur, sem nota á sem matvæli, í ílátum, gámum eða tönkum sem ekki eru eingöngu ætluð fyrir matvæli að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Ílát, gáma og tanka skal hreinsa vandlega áður en þau eru notuð undir hrásykurfarm.
  2. Síðasti farmur má ekki hafa verið vökvi.

3. gr.

Matvælafyrirtæki sem ber ábyrgð á flutningi hrásykursins skal skrá nákvæma lýsingu á síðasta farmi sem fluttur var í ílátunum, gámunum eða tönkunum. Einnig skal skrá hvernig staðið var að hreinsun þeirra og hversu árangursrík hreinsunin var.

Skjöl þessa efnis skulu fylgja farminum til sykurhreinsunarstöðvar og skal afriti af þeim haldið eftir þar. Á skjölunum skal eftirfarandi merking einnig koma fram, á einu eða fleiri tungumálum EES ríkjanna: Þessa vöru þarf að hreinsa áður en hún er notuð til manneldis.

Ef beiðni um slíkt kemur fram ber þeim aðila sem er ábyrgur fyrir flutningi og/eða hreinsun hrásykursins að afhenda opinberum eftirlitsaðila ofangreind skjöl.

4. gr.

Hrásykur, sem fluttur er með framangreindum hætti, skal gangast undir fullnægjandi hreinsun áður en hann er notaður til manneldis.

Matvælafyrirtæki sem ber ábyrgð á flutningi og hreinsun hrásykursins skal líta á hreinsun íláta, gáma og tanka sem þýðingarmikinn þátt í öryggi og gæðum sykursins.

III. kafli Um sjóflutning á fljótandi fitum og olíum.

5. gr.

Að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum eru sjóflutningar, á fljótandi fitum og olíum sem meðhöndla á frekar og eru ætlaðar eða líklegt er að verði notaðar til manneldis, leyfilegir í tönkum sem ekki eru einvörðungu ætlaðir til flutninga á matvælum:

  1. ef fitan eða olían er flutt í tanki úr ryðfríu stáli eða tanki sem er klæddur að innan með epoxýresíni eða efni, sem er tæknilega sambærilegt, skal sá farmur sem síðast var fluttur vera matvæli eða farmur úr listanum í meðfylgjandi viðauka;
  2. ef fitan eða olían er flutt í tanki úr öðrum efnum en þeim sem um getur í a-lið skal sá farmur, sem fluttur var í tönkunum þrjú næstu skipti á undan, vera matvæli eða farmur úr listanum í meðfylgjandi viðauka.

6. gr.

Að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum eru sjóflutningar, á fljótandi fitum og olíum sem ekki á að meðhöndla frekar og eru ætlaðar eða er líklegt að verði notaðar til manneldis, leyfilegir í tönkum sem ekki eru einvörðungu ætlaðir til flutninga á matvælum:

  1. að tankurinn sé úr ryðfríu stáli eða klæddur að innan með epoxýresíni eða efni sem er tæknilega sambærilegt;
  2. að sá farmur, sem fluttur var í tönkunum þrjú næstu skipti á undan, hafi verið matvæli.

7. gr.

Skipstjóri sem flytur fljótandi fitur og olíur sem eru ætlaðar eða líklegt er að verði notaðar til manneldis, skal hafa undir höndum skjalfestar upplýsingar um þann farm sem var fluttur í viðkomandi tönkum þrjú næstu skipti á undan og skilvirkni þeirra hreinsunaraðgerða sem fóru fram milli þessara farmflutninga.

8. gr.

Hafi farmi verið umskipað skal skipstjóri á móttökuskipinu hafa undir höndum, til viðbótar við upplýsingarnar í 7. gr., nákvæmar skjalfestar upplýsingar þess efnis að flutningur á fljótandi fitum og olíum hafi verið í samræmi við ákvæði í 5. og 6. gr. hér að framan meðan á fyrri flutningi stóð.

9. gr.

Skipstjóra skipsins ber að láta opinberum eftirlitsaðila í té skjalfestu upplýsingarnar sem lýst er í 7. og 8. gr. hér að framan sé þeirra óskað.

IV. KAFLI Eftirlit með framkvæmd laganna, viðurlög og gildistaka.

10. gr.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995.

11. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga um matvæli nr. 95/1993. Reglugerðin er auk þess sett með hliðsjón af tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar nr. 96/3/EB, nr. 98/28/EB og nr. 2004/4/EB. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 13. febrúar 2010.

Jón Bjarnason.

Baldur P. Erlingsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.