Fara beint í efnið

Prentað þann 1. des. 2021

Stofnreglugerð

154/2013

Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna óska um borgarafundi samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

1. gr. Réttur til undirskriftar.

Aðeins þeir sem hafa kosningarrétt í viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 eiga rétt á að óska borgarafundar um málefni sveitarfélagsins með undirskrift sinni. Miðað skal við þá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 2. gr. laganna á þeim degi sem söfnun undirskrifta lýkur.

2. gr. Tilkynning og ábyrgðaraðilar.

Tilkynna skal sveitarstjórn ef fyrirhuguð er undirskriftasöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað er borgarafundar og um ábyrgðarmann/-menn hennar. Ábyrgðaraðili undirskriftasöfnunar skal vera einstaklingur, einn eða fleiri. Upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang ábyrgðaraðila skulu koma fram í tilkynningu. Með ábyrgðaraðila er átt við þann aðila sem stendur fyrir undirskriftasöfnun.

Sveitarstjórn skal birta tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun á þann hátt sem hún birtir tilkynningar sínar svo sem á heimasíðu sinni, öðrum vefmiðlum og/eða í héraðsfjölmiðlum. Í tilkynningunni skal gera grein fyrir tilefni undirskriftasöfnunarinnar, tilgreina ábyrgðaraðila og nánar um framkvæmd hennar. Jafnframt skal sveitarstjórn tilkynna Þjóðskrá Íslands um fyrirhugaða undirskriftasöfnun.

3. gr. Söfnun undirskrifta.

Sé undirskriftum safnað á pappír rita íbúar nafn sitt, dagsetningu undirskriftar, kennitölu og lögheimili. Á hverju blaði skal gert ráð fyrir sama fjölda undirskrifta.

Sé undirskriftum safnað rafrænt skal jafnframt gefinn kostur á að safna undirskriftum á pappír. Til þess að skrá nafn sitt á undirskriftalista með rafrænum hætti skal hin rafræna framkvæmd vera þannig úr garði gerð að íbúi geti staðfest kennitölu sína og þar með nafn, lögheimili og dagsetningu.

Í báðum tilvikum skal tilgreina með skýrum hætti upplýsingar um tilefni undirskriftasöfnunar og hverjir standi að henni.

Hver einstaklingur getur einungis skráð nafn sitt einu sinni á undirskriftalista hverrar undirskriftasöfnunar.

4. gr. Hlutverk ábyrgðaraðila.

Þegar undirskriftasöfnun er lokið skal ábyrgðaraðili afhenda Þjóðskrá Íslands undirskriftalistana sem staðfestir hvort þeir sem ljáð hafa málefni undirskrift sína uppfylli ákvæði 1. gr. um rétt til þátttöku og fjölda gildra undirskrifta.

Ábyrgðaraðili skal sjá um að yfirfæra pappírslista yfir á rafrænt form og afhenda Þjóðskrá Íslands ásamt frumriti listanna.

Þjóðskrá Íslands afhendir ábyrgðaraðila niðurstöður undirskriftasöfnunarinnar og undirskriftalista á pdf-formi, rafrænt undirritað.

5. gr. Afhending undirskrifta.

Framkvæmdastjóri sveitarfélags eða oddviti tekur við undirskriftum frá ábyrgðaraðila, ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands, staðfestir móttöku þeirra og að tilskildu hlutfalli íbúa skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hafi verið náð.

Borgarafund skal halda innan tveggja vikna frá afhendingu undirskriftalista nema sátt verði um annað milli sveitarstjórnar og ábyrgðaraðila.

6. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 29. janúar 2013.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.