Fara beint í efnið

Prentað þann 17. jan. 2022

Stofnreglugerð

151/2005

Reglugerð um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði.

Birta efnisyfirlit

Tilgangur og markmið.

1. gr.

Í þessari reglugerð er kveðið á um verkefni erfðanefndar landbúnaðarins og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði samkvæmt ákvæðum 16. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og 5. gr. laga um innflutning dýra nr. 54/1990.

Reglugerð þessi er sett með skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt ákvæðum samningsins skuldbinda þjóðir heimsins sig til að vernda og viðhalda erfðaauðlindum, bæði í villtum og ræktuðum tegundum. Litið er á líffræðilega fjölbreytni sem sameiginlega auðlind alls mannkyns. Jafnframt er lögð áhersla á umráðarétt þjóða yfir eigin erfðaauðlindum og þar með ábyrgð á verndun þeirra.

Gildissvið.

2. gr.

Reglugerðin tekur til varðveislu og nýtingar erfðaauðlinda sem eru eða gætu verið verðmætar í íslenskum landbúnaði eða geta haft menningarlegt gildi. Enn fremur eru settar verklagsreglur er erfðanefnd skal viðhafa við umsögn um innflutning skv. 5. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra.

Skilgreiningar.

3. gr.

Búfjárkyn: Ýmist er átt við sérstakan hóp búfjár með ákveðin og skilgreinanleg ytri einkenni, sem með sjónmati er hægt að greina frá öðrum skilgreindum hópum sömu tegundar, eða staðbundinn hóp sem hefur fengið viðurkenningu á sérstöðu sinni.

Erfðaauðlind í landbúnaði: Verðmæti sem felast í erfðaeiginleikum lífvera og þeirri fjölbreytni í ásýnd og eiginleikum sem þeir skapa. Hugtakið á við um lífverur sem eru ræktaðar og/eða nýttar í landbúnaði.

Sjálfbær nýting: Nýting sem fullnægir þörfum nútíðar án þess að spillt sé fyrir komandi kynslóðum.

Verkefni erfðanefndar.

4. gr.

Meginverkefni nefndarinnar er að vinna að varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði, nánar tiltekið:

að annast samráð innanlands um varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði,
að vera umsagnaraðili vegna innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum dýrategunda sem eru hér fyrir,
að hafa forgöngu um gerð áætlana um verndun og nýtingu íslenskra búfjárstofna,
að tryggja viðhald á plöntum sem fjölgað er kynlaust og notaðar eru í landbúnaði,
að fylgjast með stofnstærð og veita ráðgjöf um ræktun innlendra búfjárkynja,
að gera tillögur um aðgerðir og styrki til verndar og varðveislu búfjárkynja sem eru í útrýmingarhættu,
að stuðla að rannsóknum á erfðaauðlindum í landbúnaði,
að stuðla að kynningu og fræðslu til stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings um erfðaauðlindir í landbúnaði og gildi þeirra,
að veita ráðgjöf til hagsmunaaðila og stjórnvalda um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði,
að annast samskipti við erlenda aðila á starfssviði sínu í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið í samstarfi við tengiliði hjá alþjóðastofnunum,
að sinna öðrum verkum sem kunna að koma upp og eru á verksviði nefndarinnar.

Þar að auki getur nefndin gert tillögur til landbúnaðarráðherra að sértækum verkefnum sem falla að starfsviði hennar. Í starfi sínu skal nefndin hafa samninginn um líffræðilega fjölbreytni að leiðarljósi, svo og menningarlegt gildi erfðaauðlinda nánar tiltekið.

Starfsskipulag.

5. gr.

Vinna skal að stefnumótun til þriggja ára í senn og framkvæmdaáætlun fyrir næsta starfsár skal skila til ráðherra í desembermánuði. Nefndin skal skila ársskýrslu til ráðherra um starf sitt fyrir 15. mars ár hvert.

Innflutningur dýra, umsögn erfðanefndar og verndunarmat.

6. gr.

Umsögn erfðanefndar skv. 5. gr. laga nr. 54/1990 skal fela í sér verndunarmat þegar um er að ræða nýjar dýrategundir eða erlenda stofna tegunda sem hér eru fyrir. Verndunarmat skal taka mið af verndunaráætlun um viðkomandi búfjárkyn. Erfðanefnd getur krafið innflutningsbeiðanda um skýrslu þar sem lagt er mat á líffræðilegan ávinning af áformuðum innflutningi og gerð grein fyrir áhættu vegna áhrifa fyrirhugaðs innflutnings á varðveislu innlendra erfðaauðlinda. Skal slík skýrsla unnin af fagaðila og kostuð af innflutningsbeiðanda.

Gildistaka.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 19. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og 19. gr. laga um innflutning dýra nr. 54/1990 og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 25. janúar 2005.

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.