Prentað þann 22. des. 2024
148/2015
Reglugerð um breytingu á reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010.
1. gr.
Heiti reglugerðarinnar breytist og orðast svo:
Reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla.
2. gr.
- Á eftir 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar bætist við ný málsgrein, sem orðast svo:
Ráðuneytið skal að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga útbúa viðmið um gerð starfsreglna fyrir sveitarfélög sem reka sérskóla og sérúrræði við grunnskóla sem stofnað er til samkvæmt 42. gr. laga um grunnskóla. Í viðmiðunum skulu m.a. koma fram lágmarkskröfur um efni starfsreglna, þ.e. a) heiti sérskóla/sérúrræðis, b) markmið og hlutverk, c) stjórnun, d) starfsfólk, e) nemendur, f) námsumhverfi, g) rekstur og h) ráðgjöf og kennslufræðilega þjónustu. Birta skal viðmiðin opinberlega. - 3. mgr. 12. gr. orðast svo:
Sveitarstjórn setur starfsreglur fyrir sérskóla og sérúrræði innan grunnskóla byggðar á viðmiðum 2. mgr. þessarar greinar, þar sem m.a. er kveðið á um fyrirkomulag þjónustunnar, aðlögun aðalnámskrár grunnskóla að þörfum nemenda og ráðgjöf og stuðning við starfsfólk grunnskóla. Starfsreglurnar skulu áður teknar til umfjöllunar í skólaráði viðkomandi skóla og skólanefnd. Starfsreglur skulu birtar opinberlega.
3. gr.
20. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Áður en nemandi er innritaður í sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla skal meta stöðu hans í námi. Við slíkt mat skal tekið tillit til aðstæðna nemanda og heildarhagsmuna og þess gætt að hann eigi þess kost að tjá sig um þá niðurstöðu eftir því sem aðstæður leyfa. Foreldrum skulu kynntar niðurstöður úr slíku mati og gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum áður en til innritunar kemur. Allar athuganir skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra sem skulu hafa samráð við barn sitt að teknu tilliti til aldurs þess og þroska. Ávallt skal hafa að leiðarljósi það sem er talið barninu fyrir bestu.
Sveitarfélög sem reka sérskóla eða önnur sérúrræði innan grunnskóla sem stofnað er til samkvæmt 42. gr. laga um grunnskóla skulu setja reglur um innritun nemenda, svo og reglur um útskrift eða lok slíkrar aðstoðar þar sem gerð er grein fyrir aðkomu og mati fagaðila. Í reglunum skal kveðið á um málsmeðferð og skilyrði fyrir inntöku nemenda í viðkomandi sérskóla eða sérúrræði. Heimilt er að skipa ráð með fagaðilum sem geri tillögu til skólastjóra um innritun og/eða útskrift nemanda úr sérskóla eða sérúrræði.
Ráðherra staðfestir reglur sveitarfélaga um innritun og útskrift nemenda úr sérskóla eða sérúrræði sem stofnað er til samkvæmt 42. gr. laga um grunnskóla. Innritunarreglur skulu birtar opinberlega.
4. gr.
Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða, sem orðast svo:
Sveitarfélög skulu endurskoða núverandi reglur um innritun og útskrift skv. 20. gr. og senda ráðuneytinu til staðfestingar fyrir árslok 2015.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og öðlast þegar gildi.
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 22. janúar 2015.
Illugi Gunnarsson.
Ásta Magnúsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.