Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

129/2010

Reglugerð um gildistöku ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar nr. 2004/478/EB um samþykkt almennrar áætlunar um krísustjórnun á sviði matvæla og fóðurs.

1. gr. Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. og II. kafla, I. viðauka og XII. kafla, II. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. og II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2007, frá 27. október 2007, öðlast eftirfarandi EB-gerð gildi hér á landi:

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2004/478/EB um samþykkt almennrar áætlunar um krísustjórnun á sviði matvæla og fóðurs.

2. gr. Fylgiskjal.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar skv. 1. gr. er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa.

3. gr. Sérákvæði.

Eftirfarandi breyting eða aðlögun verður á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2004/478/EB:

Þegar framkvæmdastjórnin telur að upp séu komnar aðstæður af því tagi sem um getur í 1. mgr. 56. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002 og þær aðstæður varða EFTA-ríki beinlínis, og sett er á fót krísuteymi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 56. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002, skal samræmandi eða samræmendur krísustjórnar, sem EFTA-ríkið sem aðstæðurnar varða beint tilnefnir, og samræmandi krísustjórnunar, sem Eftirlitsstofnun EFTA tilnefnir, taka þátt í starfi krísuteymis.

4. gr. Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna matvæla í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna fóðurs í samræmi við lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

5. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum og 7. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerðin öðlast gildi 1. mars 2010.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. febrúar 2010.

Jón Bjarnason.

Baldur P. Erlingsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.