Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Stofnreglugerð

121/2019

Reglugerð um flutningsjöfnunarstyrki.

1. gr. Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um afgreiðslu flutningsjöfnunarstyrkja á grundvelli laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, sbr. lög nr. 128/2012, nr. 132/2013 og nr. 125/2018.

Á grundvelli laganna eru veittir tvenns konar flutningsjöfnunarstyrkir að uppfylltum öðrum skilyrðum þeirra um styrksvæði og styrkveitingar og skal þeim haldið aðgreindum með skýrum hætti:

  1. Til einstaklinga eða lögaðila sem stunda framleiðslu á vöru sem fellur undir C-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni ÍSAT2008.
  2. Til einstaklinga eða lögaðila sem framleiða með ræktun ávexti, blóm eða grænmeti og fullvinna framleiðslu sína í söluhæfar umbúðir enda falli framleiðslan undir flokk 01.1, ræktun nytjajurta annarra en fjölærra, og/eða flokk 01.2, ræktun fjölærra nytjajurta, í A-bálki íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008.

Styrkir sem veittir eru skv. a-lið 2. mgr. falla undir reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttar aðstoð. Hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2014 sem birt var 30. október 2014 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, nr. 63, bls. 56.

Styrkir sem veittir eru skv. b-lið 2. mgr. falla utan gildissviðs EES-samningsins og teljast flutningsjöfnunarstyrkir vegna þeirra því ekki til ríkisaðstoðar samkvæmt EES-samningnum.

2. gr. Styrksvæði, skilyrði styrkveitingar og útreikningur styrkja.

Styrksvæði teljast þau svæði þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti. Byggðakort er kort af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur með ákvörðun nr. 170/14/COL samþykkt fyrir árin 2014-2020 þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki. Ákvörðunin var birt 10. júlí 2014 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, nr. 40, bls. 6. Byggðakortið er jafnframt aðgengilegt á vefsvæði Byggðastofnunar.

Styrksvæðin eru tvö: Sveitarfélögin Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Norðurþing, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Tjörneshreppur og Vopnafjarðarhreppur, eins og þau eru skilgreind 1. janúar 2012, tilheyra svæði 2. Önnur sveitarfélög landsins tilheyra svæði 1, svo fremi að þau uppfylli skilyrði 1. mgr.

Um skilyrði og framkvæmd styrkveitinga er vísað til II. og III. kafla laga nr. 160/2011, með síðari breytingum.

3. gr. Umsóknir um flutningsjöfnunarstyrki.

Umsóknum um flutningsjöfnunarstyrki skal skila til Byggðastofnunar fyrir 31. mars ár hvert vegna næsta almanaksárs á undan. Er þar annars vegar um að ræða umsóknir á grundvelli a-liðar og hins vegar b-liðar 2. mgr. 1. gr. og skal þeim haldið aðgreindum. Umsóknum um flutningsjöfnunarstyrki skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda.
  2. Tegund starfsemi og framleiðslu.
  3. Heildarkostnaður styrkhæfra flutninga.
  4. Afrit af reikningum vegna flutninga á vöru þar sem fram koma upplýsingar um hver óskar eftir flutningi, kostnað vegna flutninga, frá hvaða svæði og til hvaða svæðis er flutt, heiti kaupanda, flutningsvegalengd, heiti vöru, magn, þyngd og rúmmál hennar. Hafi framleiðandi flutt vöru sína sjálfur skal hann skila kostnaðaryfirliti þar sem fram koma sömu upplýsingar og taldar eru upp í 1. málslið.
  5. Afrit af móttökukvittun vegna flutnings á vöru þar sem fram kemur staðfesting kaupanda á því að hann hafi móttekið vöru.
  6. Upplýsingar um það hvort aðili fái eða hafi fengið aðra styrki frá opinberum aðilum á næstliðnum þremur almanaksárum, að styrkári meðtöldu, og þá fjárhæð þeirra styrkja. Opinberir styrkir eru, óháð formi, hvers kyns styrkir, hvort sem þeir eru í formi fjármuna, aðstöðu eða annarrar fyrirgreiðslu, sem ríkið eða sveitarfélög veita fyrirtækjum og/eða einstaklingum sem stunda atvinnustarfsemi.
  7. Staðfesting á að styrkþegi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi.
  8. Staðfesting á að styrkþegi hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum frá dagsetningu umsóknar.
  9. Yfirlýsing um að styrkur til styrkþega fari ekki yfir þá fjárhæð sem getið er um í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2011.

4. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 10. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, og öðlast þegar gildi. Fellur þá jafnframt úr gildi reglugerð um flutningsjöfnunarstyrki, nr. 67/2012, með síðari breytingum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 29. janúar 2019.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.