Fara beint í efnið

Prentað þann 13. des. 2024

Stofnreglugerð

100/2009

Reglugerð um skipulag og störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og viðbragðsaðila almannavarna.

1. gr. Verkefni stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar.

Stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar ræðir og tekur ákvarðanir um innra skipulag og samstarf viðbragðsaðila í samræmi við markmið stöðvarinnar sem og rekstur hennar skv. rekstraráætlun sem samþykkt er af ríkislögreglustjóra. Stjórnin beitir sér fyrir ráðstöfunum til að tryggja snuðrulausa framkvæmd viðbragðsáætlana. Samhæfing eða framkvæmd aðgerða er ekki á verksviði stjórnar. Stjórnin gerir tillögu til ríkislögreglustjóra um umsjónarmann samhæfingar- og stjórnstöðvarinnar.

Stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar gefur út gæðahandbók um innra starf stöðvarinnar. Skulu viðbragðsaðilar sbr. 5. gr. gera tillögur til stjórnar um efni handbókarinnar þar sem m.a. er fjallað um:

  1. Orðskýringar og skilgreiningar.
  2. Umsjón og aðgangsstýringu að starfsrými viðbragðsaðila í samhæfingar- og stjórnstöð.
  3. Reglur um ábyrgð, kröfur, þjálfun, aðgang og boðun viðbragðsaðila.
  4. Leiðbeiningar um feril aðgerða allt frá upphafsaðgerðum, skipulagt ferli aðgerða, aðgerðalok, vaktaskipti, stöðufundi, stöðuskýrslur, yfirfærslu á stjórnunarábyrgð og verkefnum, hvernig með skuli fara ef fleiri en ein aðgerð stendur yfir á sama tíma og um samskipti við fjölmiðla.
  5. Viðmiðanir og leiðbeiningar um móttöku og mat tilkynninga, virkjun samhæfingar- og stjórnstöðvarinnar, gerð gátlista um:

    1. Stjórnun.
    2. Áætlun.
    3. Bjargir.
    4. Framkvæmd.
    5. Gátlista starfsstöðva.
    6. Að loknu útkalli.

2. gr. Stjórnarfundir.

Fundir stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir og ávallt eftir stærri aðgerðir. Formaður stjórnar boðar til funda með þriggja daga fyrirvara. Í fundarboði skal gerð grein fyrir dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef umsjónarmaður samhæfingar- og stjórnstöðvar ber fram slíka ósk og hefur umsjónarmaðurinn þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send ríkislögreglustjóra.

3. gr. Umsjónarmaður.

Ríkislögreglustjóri ræður umsjónarmann samhæfingar- og stjórnstöðvar að fenginni tillögu stjórnar stjórnstöðvarinnar.

4. gr. Fjármál.

Kostnaður af starfsemi samhæfingar- og stjórnstöðvar greiðist úr ríkissjóði, af fjárframlögum sem ætluð eru til starfseminnar á sérstökum viðfangsefnalið í bókhaldi embættis ríkislögreglustjóra.

Reikningshald samhæfingar- og stjórnstöðvarinnar skal vera hluti af reikningshaldi embættis ríkislögreglustjóra en aðgreint frá öðrum rekstri á sérstökum viðfangsefnalið í bókhaldi þess embættis.

Stjórn stöðvarinnar er eingöngu heimilt að ráðstafa fjárframlögum sem ætluð eru til rekstursins skv. samþykktri rekstraráætlun og er óheimilt að gangast undir fjárskuldbindingar umfram þau framlög sem ætluð eru til rekstursins án samþykkis ríkislögreglustjóra. Stjórnin ber ábyrgð gagnvart ríkislögreglustjóra á ráðstöfun fjármuna bókhaldi og rekstri stöðvarinnar.

5. gr. Viðbragðsaðilar almannavarna.

Eftirtaldir aðilar teljast til viðbragðsaðila almannavarna:

  1. Lögreglan
  2. Landhelgisgæsla Íslands
  3. Heilbrigðisstarfsmenn
  4. Slökkvilið
  5. Neyðarlínan
  6. Rauði kross Íslands
  7. Flugstoðir
  8. Slysavarnafélagið Landsbjörg

Auk þessara teljast til viðbragðsaðila almannavarna allir þeir sem hlutverki hafa að gegna samkvæmt viðbragðsáætlun hverju sinni.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er skv. heimild í 1. mgr. 34. gr. laga um almannavarnir nr. 82 12. júní 2008 öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 30. janúar 2009.

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.