Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 7. maí 2014

39/2009

Reglugerð um Kolvetnisrannsóknasjóð.

1. gr. Stjórnskipan.

Kolvetnisrannsóknasjóður er mennta- og rannsóknasjóður í tengslum við kolvetnisstarfsemi á Íslandi og er hann í vörslu iðnaðarráðherra. Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa hvers rannsóknar- og vinnsluleyfis fyrir sig auk fulltrúa ríkisins sem iðnaðarráðherra skipar. Orkustofnun annast daglega umsýslu Kolvetnisrannsóknasjóðs. Dagleg umsýsla skilgreinist sem upplýsingagjöf, móttaka styrkumsókna, mat og úrvinnsla styrkumsókna og eftirlit með verkefnum.

2. gr. Hlutverk Kolvetnisrannsóknasjóðs.

Hlutverk sjóðsins er að stuðla að því að efla rannsóknir og vísindalega þekkingu á kolvetnisauðlindum á landgrunni Íslands og á skilyrðum til myndunar þeirra, ásamt rannsóknum á tækni sem beita má við þær aðstæður er þar ríkja.

Þetta skal gert meðal annars með því:

  1. að veita styrki til rannsóknarverkefna og sérhæfðra námsáfanga með aðild og/eða atbeina íslenskra mennta- og rannsóknastofnana,
  2. að veita einstaklingum styrki til náms í greinum sem tengjast rannsóknum og vinnslu kolvetnis,
  3. að veita styrki til sérstakra verkefna á sviði kolvetnis, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi,
  4. að veita styrki til rannsókna á sýnum og mæligögnum sem safnað er í tengslum við kolvetnisleit, og
  5. að veita styrki til að efla alþjóðasamvinnu um verkefni á landgrunni Íslands.

3. gr. Hlutverk stjórnar Kolvetnisrannsóknasjóðs.

Stjórn Kolvetnisrannsóknasjóðs úthlutar styrkjum úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sjóðsins eins og það er skilgreint í reglugerð þessari. Fulltrúi ríkisins hefur neitunarvald séu fyrirhugaðar ákvarðanir stjórnarinnar ekki í samræmi við hlutverk og markmið sjóðsins eins og þau eru skilgreind í reglugerð þessari og í verklagsreglum settum á grundvelli hennar sbr. 2. mgr. hér að neðan.

Stjórnin skal setja sér verklagsreglur er kveða á um hvernig hagað skuli meðferð styrkumsókna úr sjóðnum.

Í reglugerð þessari skal m.a. koma fram hvaða almennu viðmið stjórnin hefur þegar tekin er ákvörðun um tillögugerð að styrkveitingum úr sjóðnum. Að auki skulu tilgreind önnur skilyrði er stjórnin telur þörf á.

Verklagsreglur stjórnarinnar vegna úthlutana skulu staðfestar af ráðherra og birtar opinberlega.

4. gr. Tekjur og gjöld.

Tekjur Kolvetnisrannsóknasjóðs eru:

  1. stofnframlög nýrra leyfishafa sem skulu nema 2,5 milljónum íslenskra króna á hvert leyfi,
  2. árleg framlög leyfishafa sem skulu nema 5 milljónum íslenskra króna á hvert leyfi, og
  3. vextir af fé sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við aðila, sem hafa leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um umsjón og trygga vörslu fjár sjóðsins. Fé sjóðsins skal ávallt vera tryggilega sérgreint.

Allur kostnaður við rekstur Kolvetnisrannsóknasjóðs greiðist af tekjum sjóðsins.

5. gr. Gerð fjárhagsáætlana og ársreikninga.

Stjórn sjóðsins skal á ári hverju semja tekju- og greiðsluáætlun í samræmi við hlutverk sjóðsins og ætlaðar tekjur. Skal áætlun þessi send ráðherra og Orkustofnun.

Stjórn sjóðsins skal gera eða láta útbúa ársreikning fyrir sjóðinn eigi síðar en 1. mars ár hvert fyrir næstliðið ár og leggja hann fyrir stjórnina til staðfestingar.

6. gr. Eftirlit.

Stjórn sjóðsins og Orkustofnun hafa eftirlit með þeim verkefnum sem sjóðurinn veitir fé til. Nánar skal kveðið á um það í verklagsreglum.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 10. gr. laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, tekur þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.