Fara beint í efnið

Prentað þann 19. jan. 2022

Stofnreglugerð

34/2009

Reglugerð um efni og hluti úr sellulósafilmu sem er ætlað að snerta matvæli.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um sellulósafilmur sem einnig geta verið efnisþáttur í samsettum vörum, og er ætlað að snerta matvæli eða geta gert það vegna notkunar þeirra. Reglugerð þessi gildir ekki um gervigarnir úr sellulósa.

2. gr. Sellulósafilmur.

Sellulósafilmur sem vísað er til í 1. gr. skulu tilheyra einni af eftirtöldum tegundum:

  1. óhúðuð sellulósafilma;
  2. húðuð sellulósafilma, þar sem húðun er fengin úr sellulósa;
  3. húðuð sellulósafilma með húðun úr plasti.

3. gr. Skilgreiningar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

  1. Efni og hlutir eru hvers konar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni, sem slíkir hlutir eru samsettir úr.
  2. Flæði er þegar efni geta borist úr efnum og hlutum í matvæli.
  3. Heildarflæði er samanlagt flæði allra efna sem geta borist úr efninu eða hlutnum í matvæli.
  4. Sellulósafilma er þynna úr efni sem fengin er úr hreinsuðum sellulósa úr viði eða baðmull. Til þess að fullnægja tæknilegum kröfum má bæta viðeigandi efnum annað hvort í efnismassann eða á yfirborðið. Heimilt er að húða sellulósafilmu á annarri eða báðum hliðum.

4. gr. Framleiðsla.

Við framleiðslu á sellulósafilmum, sem vísað er til í a) og b) lið 2. gr., er einungis heimilt að nota efni eða efnaflokka sem talin eru upp í viðauka 1 og þá aðeins með þeim skilyrðum sem þar eru sett.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota önnur efni en þau sem talin eru upp í viðauka 1 séu þau notuð sem litar- eða límefni, að því tilskildu að ekki sé hægt að greina að efni þessi flæði í matvæli.

Við framleiðslu á sellulósafilmum, sem vísað er til í c) lið 2. gr., er einungis heimilt að nota þau efni og efnisflokka sem eru á lista A í viðauka 1 fyrir húðun og þá aðeins með þeim skilyrðum sem þar eru sett.

Við plasthúðun á sellulósafilmum er einungis heimilt að nota efni og efnisflokka sem koma fram í viðauka 2 til 4 við reglugerð nr. 111/2003, um efni og hluti úr plasti sem ætlað er að snerta matvæli með síðari breytingum. Þessi efni skulu aðeins notuð í samræmi við þau skilyrði sem þar eru sett.

Þá skulu efni og hlutir gerðir úr sellulósafilmu og sem vísað er til í c) lið 2. gr. uppfylla 3., 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 111/2003, um efni og hluti úr plasti sem ætlað er að snerta matvæli, með síðari breytingum.

5. gr. Áprentað yfirborð.

Áprentað yfirborð sellulósafilma má ekki komast í snertingu við matvæli.

6. gr. Skriflegar yfirlýsingar.

Efnum og hlutum úr sellulósafilmum sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli skal á öðrum markaðsstigum en smásölu fylgja skrifleg yfirlýsing í samræmi við 16. gr., 1 tl. í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1935/2004 sem innleidd var og birt sem fylgiskjal með reglugerð nr. 398/2008 um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli. Undanskilin þessu ákvæði eru efni og hlutir úr sellulósafilmu sem augljóslega eru ætluð undir matvæli.

Séu sérstök notkunarskilyrði tilgreind skal merkja efni eða hluti úr sellulósafilmum í samræmi við það.

7. gr. Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt nema annað sé ákvarðað skv. lögum eða sérreglum.

8. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið sem opinber mál.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 14. og 18. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995 og til innleiðingar á tilskipun 2007/42/EB sem vísað er til í XII. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2008 frá 1. febrúar 2008.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 921/2004 um efni og hluti úr sellulósafilmu sem er ætlað að snerta matvæli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 7. janúar 2009.

F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.