Fara beint í efnið

Grunur um misnotkun

Eftirlit með lyfjaávísunum miðast fyrst og fremst við ávanabindandi lyf, þau sömu og birt eru í lista á vef Lyfjastofnunar, ásamt amfetamíni, karísópródóli, gabapentíni, pregabalíni, SEM mixtúru og búprenorfíni. Auk þessa fylgist embættið með ávísunum lyfja í vissum öðrum flokkum, s.s. þunglyndislyfjum, skjaldkirtilslyfjum, lyfjum við kynkirtlavanseytingu hjá karlmönnum (testósteróns) og einnig ávísunum á quetíapín.

Embætti landlæknis leggur áherslu á að þeir sem bera ábyrgð á lyfjaávísunum eru læknarnir sjálfir og þeim ber að tryggja, eins vel og mögulegt er, að notkun lyfjanna sé rétt.

Embætti landlæknis gerir athugasemdir þegar margir læknar ávísa sömu eða sambærilegum (ávanabindandi) lyfjum á sama einstakling á sama tíma þannig að heildarmagnið verður óhóflegt.

Athugasemdir eru gerðar við það þegar læknar ávísa til einstaklinga sem fá skammta langt umfram það sem er ráðlagt í Sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar eða þegar einstaklingar fá lyf sem frábendingar eru fyrir í Sérlyfjaskrá.

Einnig gerir embættið athugasemdir þegar einstaklingur með nýlega fíknisögu fær ávísað ávanabindandi lyfjum. Það ber að taka fram að í vissum tilfellum er hægt að ávísa ávanabindandi lyfjum á einstaklinga með fíknisögu, en það krefst mikillar eftirfylgni og utanumhalds af hálfu læknis.

Tilkynningarskylda og viðbragðsferlar

Embætti landlæknis berst talsvert af ábendingum um ofnotkun eða misferli með lyf. Ef slík ábending er metin trúverðug og lyfjagagnagrunnur embætti landlæknis gefur tilefni til, er viðkomandi lækni/læknum tilkynnt um málið.

Lögum samkvæmt ber landlækni að fylgjast sérstaklega með ávísunum lækna á ávana- og fíknilyf til eigin nota. Þetta er skoðað reglulega og gerðar athugasemdir þegar ástæða þykir til.

Þegar upplýsingar berast um innlagnir eða dauðsföll vegna lyfjaeitrana er lyfjasaga viðkomandi einstaklinga skoðuð.

Athugasemdir eru einnig gerðar í eftirfarandi tilvikum:

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis