Sýklalyf og sýklalyfjaónæmi
Uppgötvun Alexanders Fleming á sýklalyfinu penicillíni árið 1928 er eitt mesta afrek læknavísindanna. Sýklalyf hafa komið í veg fyrir milljónir dauðsfalla og aðrar alvarlegar afleiðingar smitsjúkdóma. Við uppgötvun og framleiðslu fleiri gerða sýklalyfja á fyrri hluta tuttugustu aldar kviknaði von um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af hættulegustu sjúkdómum heims.
Ekki leið hins vegar langur tími frá því að notkun sýklalyfja hófst þar til stofnar baktería komu fram sem voru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Nú er svo komið að sumar tegundir baktería eru ónæmar fyrir nánast öllum gerðum sýklalyfja. Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum sem gerir meðferð ýmissa sýkinga erfiða og dýra.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) áætlar að yfir 35 þúsund Evrópubúar látist árlega vegna sýkinga af völdum sýklalyfjaónæmra baktería. Með auknum ferðalögum og viðskiptum heimshorna á milli opnast leiðir fyrir ónæmar bakteríur til að dreifa sér og því er sýklalyfjaónæmi alþjóðlegt vandamál.
Það sem hefur hvað mest áhrif á tilkomu og dreifingu sýklalyfjaónæmis er sýklalyfjanotkun. Röng og/eða óhófleg notkun sýklalyfja eykur hættu á að sýklalyfjaónæmar bakteríur komi fram og breiðist út. Skynsamleg notkun sýklalyfja er lykilatriði til þess að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Forsenda markvissra aðgerða gegn óskynsamlegri sýklalyfjanotkun er að hafa góðar og áreiðanlegar upplýsingar um notkun sýklalyfja og þróun ónæmis gegn þeim. Sóttvarnalæknir birtir árlega skýrslur um sýklalyfjanotkun og -næmi á Íslandi í samstarfi við Matvælastofnun, Landspítala og fleiri stofnanir.
Mikilvægt er að fræða almenning og fagfólk um sýklalyfjaónæmi og hvernig sporna megi gegn því. Árlega er því haldin vitundarvakning um sýklalyfjaónæmi til þess að vekja athygli á mikilvægi sýklalyfja og hvað hægt er að gera til að viðhalda virkni þeirra.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis