Embætti landlæknis hefur eftirlit með lyfjaávísunum og stuðlar að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna. Lyfjagagnagrunnur embættisins er mikilvægasta verkfærið sem notað er við þetta eftirlit.
Fylgst er með notkun einstakra lyfja á landsvísu og í samanburði við önnur lönd. Áhersla er lögð á eftirlit með ávanabindandi lyfjum. Auk þess hefur embættið til skoðunar tilvik þar sem skorið er úr um hvort læknar hafi ávísað ógætilega af tilteknum lyfjum.
Þá hefur embættið mælt með notkun lyfjagæðavísa á hjúkrunarheimilum. Þeir lúta að öryggi, hagkvæmni og heildarlyfjanotkun íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum og eru hluti af innra eftirliti heimilanna. Embætti landlæknis hefur kallað inn og birt á vefsetri sínu tölulegar upplýsingar frá hjúkrunarheimilum um fjóra lyfjagæðavísa.
Eftirlitshlutverk embættis landlæknis
Þegar ástæða þykir til að ætla að einstaklingur hafi fengið ávísað miklu af ávana- og fíknilyfjum frá einum eða fleiri læknum.
Þegar ástæða er til að ætla að læknir hafi ávísað ávana- og fíknilyfjum óeðlilega á sjálfan sig.
Þegar ástæða er til að ætla að einstaklingur hafi fengið ávísað meira af ávana- og fíknilyfjum en eðlilegt getur talist á tilteknu tímabili.
Þegar grunur leikur á að læknar hafi ávísað á skjön við ákvæði reglugerða og laga.
Þegar læknar ávísa á skjön við leiðbeiningar eða þegar magn og samsetningar lyfja innan tiltekins tíma er mögulega hættuleg heilsu sjúklings.
Þegar læknir ávísar lyfjum sem hann hefur ekki leyfi til að ávísa samkvæmt sérlyfjaskrá eða reglugerðum.
Komi einhver verulega athugaverð atriði upp við slíka vöktun er viðkomandi lækni skriflega gerð grein fyrir athugasemdum og óskað skýringa.
Hér eru dæmi til skýringar um mismunandi tilvik:
Fyrir kemur að lyfseðilsblokkum er stolið. Lyfseðlarnir hafa ákveðin númer, sem eru gefin upp af þeim sem tilkynnir stuldinn. Úr lyfjagagnagrunni er hægt að fylgjast með hvort hinir stolnu lyfseðlar komi fram útfylltir. Þetta eftirlit hefur hingað til verið í samstarfi Lyfjastofnunar og embættis landlæknis og verður svo væntanlega áfram.
Embætti landlæknis berast af og til vísbendingar um að sjúklingur fái útskrifuð ávanabindandi lyf hjá mörgum læknum. Slíkt atferli er kallað læknaráp og gefur sterklega til kynna að lyf séu misnotuð.
Eftirlit með einstökum læknum sem skrifa út mikið af ávana- og fíknilyfjum án þess að geta útskýrt læknisfræðilega þýðingu.
Hér er fylgst með lyfjaávísunum eins læknis miðað við starfsfélaga í sömu sérgrein með það að markmiði að fræða lækna og bæta ávísanavenjur þeirra. Svona kortlagning á sér eingöngu stað með samþykki viðkomandi læknis og honum til upplýsinga. Persónuauðkenni sjúklinga koma á engan hátt fram.
Þetta hefur verið gert í nágrannalöndum með góðum árangri og í fullri samvinnu við lækna. Á þennan hátt getur læknir t.d. gert sér ljóst að hann skrifi mun meira en starfsfélagar hans út af ákveðnu lyfi og áttað sig á því sjálfur hvort um meðvitaða ákvörðun sé að ræða eða hvort aðrir þættir hafi þar áhrif.
Embætti landlæknis gefur út klínískar leiðbeiningar og ýmsar aðrar faglegar ábendingar varðandi lyfjagjöf. Lyfjagagnagrunnurinn er gagnlegur til þess að meta áhrif þessara leiðbeininga og aðgerða á lyfjaútskriftir. Úr lyfagagnagrunninum má á fljótan og öruggan hátt fylgjast með hvaða áhrif aðgerðir sem þessar hafa.
Í lögum um landlækni og lýðheilsu er mælt svo fyrir að landlæknir skuli fylgjast með þróun lyfjanotkunar. Embætti landlæknis tekur þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi þar sem tölfræði um fagleg málefni er borin saman milli landa, til dæmis í NOMESCO (Nordic Medico Statistical Committee).
Af og til berast beiðnir um keyrslur úr lyfjagagnagrunni til vísindarannsókna. Sé um hreinar vísindaathuganir að ræða er að sjálfsögðu sótt um leyfi fyrir hverju verkefni fyrir sig, t.d. ef ástæða þykir til að tengja upplýsingarnar við persónutengdar upplýsingar úr öðrum gagnagrunnum. Vísindarannsóknir af þessum toga nýtast embættinu á ýmsan hátt í að fylgjast með lyfjanotkun yfir tíma og sjá hvernig lyfjanotkun á Íslandi er samanborið við önnur lönd.
Sýklalyf, sem hafa stuðlað að lækningu og bættri heilsu manna, hafa jafnframt stuðlað að auknu sýklalyfjaónæmi. Sýklalyfjaónæmi vinnur gegn lækningamætti lyfjanna og getur verið ógnun við heilsu manna, valdið auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild. Ógnin sem steðjar að mönnum felst í auknum veikindum, ótímabærum dauðsföllum vegna smitsjúkdóma, skertum lífsgæðum og auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustuna.