Að vinna
Það er stórt skref að byrja í nýrri vinnu, hvort sem það er í fyrsta skipti eða á nýjum stað. Mörg hefjum við okkar starfsferil í unglingavinnu sveitarfélaga, en þar stíga unglingar sem lokið hafa 8. bekk grunnskóla gjarnan sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Með hækkandi aldri og aukinni menntun fjölgar svo starfsmöguleikunum enn frekar og þá er í mörg horn að líta.
Flýtileiðir
Að hefja störf á nýjum stað
Þegar við erum ráðin til starfa á nýjum vinnustað eigum við rétt á að fá skriflegan ráðningarsamning um kaup og kjör innan tveggja mánaða frá fyrsta starfsdegi. Ráðningarsamningurinn á að innihalda upplýsingar um aðila samnings, þ.e. nöfn og kennitölur starfsmanns og vinnuveitanda, vinnustað og heimilisfang, starfstitil, lýsingu á starfi, fyrsta starfsdag, tímabil ráðningar (tímabundið eða ótímabundið), orlofsrétt, uppsagnarfrest, laun, lengd vinnudagsins, lífeyrissjóð og gildandi kjarasamning. Það er gott að muna að á Íslandi má ekki semja um lakari kjör en þau sem koma fram í kjarasamningi stéttarfélags og þeirra samtaka atvinnurekanda sem við á hverju sinni.
Þó ekki sé skylda að velja sér stéttarfélag, er þó mælt með aðild að stéttarfélagi þar sem þau fara með umboð til að semja við ólík samtök atvinnurekenda um kaup og kjör félaga. Þeir kjarasamningar sem stéttarfélagið gerir gilda þá sjálfkrafa um þig og þinn vinnuveitanda. Það stéttarfélag sem þú tilheyrir getur ráðist af starfinu eða réttindum tengdum menntun.
Til viðbótar við val á stéttarfélagi þarftu líka að velja lífeyrissjóð og hvort þú greiðir viðbótarlífeyrissparnað. Launagreiðandi greiðir mótframlag bæði í lífeyrissjóð og vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Greiðsla í lífeyrissjóð er dregin af launum og nemur að minnsta kosti 4% af laununum.
Laun og launaseðlar
Í kjarasamningum koma fram lágmarkslaun og launataxtar fyrir tiltekið starf með tilliti til lífaldurs og/eða starfsaldurs. Með ráðningarsamningi getur þú samið við vinnuveitanda um betri kjör en þau sem fram koma í kjarasamningi.
Þegar laun eru greidd átt þú að fá launaseðil, eins konar kvittun fyrir greiðslu launa og gjalda sem þeim tengjast. Launaseðillinn á að sýna allar launagreiðslur, staðgreiðslu skatta, önnur opinber gjöld, lífeyrissjóðsgjöld, iðgjald stéttarfélags og fleira ef við á, t.d. félagsgjald starfsmannafélags eða annað sem dregið er af launum.
Skatturinn og skattframtalið
Árið sem börn verða 16 ára byrja þau að borga skatt eins og fullorðnir og í kjölfarið skila þau sínu fyrsta skattframtali. Staðgreiðsla skatta er dregin af launum launþega og ber vinnuveitandi ábyrgð á að greiðslan skili sér til hins opinbera. Það gerir það að verkum að núorðið eru upplýsingar um tekjur og skattgreiðslur að langmestu leyti komnar inn í skattframtal þegar það er opnað og í mörgum tilfellum þarf aðeins að fara yfir hvort þessar upplýsingar séu réttar áður en framtalinu er skilað.
Réttindi þín í starfi
Á Íslandi eru margvísleg réttindi bundin í lög eða reglugerðir. Aðbúnaður og öryggi á vinnustaðnum, vinnutími, orlofsréttur (sumarfrí eða vetrarfrí), vernd mæðra og þungaðra kvenna, reglur vegna eineltis, áreitni og ofbeldis á vinnustað, persónuvernd, jafnrétti og ákvæði vegna uppsagnar eru þar á meðal. Kjarasamningar hafa einnig ákvæði um veikindarétt, vinnuframlag og ákvæði vegna ráðningar og uppsagnar.
Uppsögn
Sé þér sagt upp af vinnuveitanda tekur sú uppsögn gildi næstu mánaðamót. Það sama á í flestum tilvikum við ef þú segir upp störfum hjá vinnuveitanda. Hversu langur uppsagnarfrestur þinn er ræðst af þeim kjarasamningi sem ráðning þín fellur undir. Á uppsagnarfresti á þú rétt á fullum launum og hlunnindum sem fylgja starfinu og vinnuveitandi á sömuleiðis rétt á fullu vinnuframlagi frá þér á uppsagnartímanum, þ.e. ef þú hefur ekki störf á nýjum stað á þessu tímabili. Yfirleitt er það þó samkomulagsatriði milli þín og vinnuveitanda hvenær þú lætur af störfum, en ráðlegt er að leita ráðgjafar hjá stéttarfélagi og huga að atvinnuleit.
Ef þú hefur ekki fundið nýtt starf þegar uppsagnarfrestur er liðinn gætir þú átt rétt á atvinnuleysisbótum og mikilvægt er að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar í síðasta lagi þann dag sem þú verður atvinnulaus, þ.e. þegar uppsagnarfresti lýkur. Þú getur sótt um allt að mánuði áður en þú verður atvinnulaus. Hafir þú sagt upp störfum getur verið að þú verðir að bíða í tvo mánuði áður en þú getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Engu að síður er mikilvægt að umsókn um atvinnuleysisbætur berist sem fyrst.
Ný vinna
Þegar þú byrjar svo í nýrri vinnu þarf að sjálfsögðu að láta Vinnumálastofnun vita ef þú hefur verið á atvinnuleysisbótum, skrifa undir ráðningarsamning, koma öllum upplýsingum um stéttarfélag, lífeyrissjóð, viðbótarlífeyrissparnað til nýs launagreiðanda og svo takast á við þær áskoranir sem fylgja nýju starfi, kynnast nýju samstarfsfólki og vinna að nýjum verkefnum.
En hvað svo?
Svona líður svo starfsævin, sum okkar dvelja lengi á einum vinnustað á meðan önnur flakka aðeins um og eru kannski örlítið ævintýragjarnari. En þegar við nálgumst efri árin förum við að íhuga starfslokin, hvort sem þau eru við hinn hefðbundna 67 ára aldur, fyrr eða seinna. Þegar að því kemur er gott að vera vel undirbúin því að mörgu er að hyggja. Það er þá sem gott er að huga að lífeyrismálunum, fjármálunum og húsnæðismálunum, réttindum og svo að sjálfsögðu hvernig á að verja þessum dýrmæta tíma.