Fara beint í efnið

Launþegi, réttindi og lífeyrir

Laun

Laun umfram taxta kjarasamninga eru samningsatriði á milli atvinnurekanda og starfsmanns. Þau skal greiða út samkvæmt fyrirkomulagi sem ákveðið er í kjara- eða ráðningarsamningi.

Kjara- og ráðningarsamningar

Upplýsingar um laun og kjarasamning, sem unnið er eftir, eiga að koma fram í ráðningarsamningi.

Í kjarasamningum eru tilgreind lágmarkslaun fyrir tiltekið starf með tilliti til lífaldurs og/eða starfsaldurs. Starfsmaður getur samið við atvinnurekanda um betri kjör en þau lágmarkskjör sem kjarasamningur kveður á um.

Breytingar á kauptöxtum verða samkvæmt kjarasamningum og þegar nýir samningar taka gildi.

Þeir sem eiga inni vangoldin laun eða aðrar kröfur vegna gjaldþrots atvinnurekanda, geta átt rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa.
Um ábyrgðasjóð launa á vef Vinnumálastofnunar
Gjaldþrot atvinnurekanda á vinnuréttarvef ASÍ   

Skylt er að greiða skatta og gjöld af launum sínum. Atvinnurekanda ber að halda þessum greiðslum eftir og skila þeim til skattayfirvalda og viðkomandi sjóða.
Um skatta af launum og tengt efni á Ísland.is

Launauppbætur

Kjarasamningar kveða almennt á um að atvinnurekendur greiði starfsfólki sínu launauppbætur einu sinni á ári (eingreiðslur).

Orlofsuppbót á að greiða starfsfólki í tengslum við orlofstöku.

Desemberuppbót (persónuuppbót) á að greiða starfsfólki í desembermánuði.

Launauppbætur eru misháar eftir samningum og munur getur einnig verið á reglum um útborgunardag og fleira. Starfsmaður þarf að hafa unnið í tilskilinn tíma á árinu til að eiga rétt á þessum greiðslum og upphæð þeirra er í hlutfalli við þann tíma.

Launaseðill

Launaseðil á að gefa út við hverja launaútborgun. Hann er kvittun fyrir greiðslu launa og launatengdra gjalda.

Launaseðillinn á að sýna sundurliðun unninna vinnutíma og skiptingu launa í launaliði og frádrætti.

Launaliðir á launaseðli eru allar launagreiðslur: dagvinnulaun og laun fyrir vinnu utan dagvinnutíma, vaktaálag, orlofslaun, launauppbætur og fleira.

Frádráttarliðir á launaseðli eru staðgreiðsla skatta og önnur opinber gjöld, lífeyrissjóðsgjöld, iðgjald til stéttarfélags og fleira eftir atvikum.

Upplýsingar um frítökurétt, sem skapast vegna skerðingar á lágmarkshvíld, eiga að koma fram á launaseðli.

Frádráttur af launum

Staðgreiðsla

Við hverja útborgun þarf að staðgreiða skatta og opinber gjöld. Þessi greiðsla er ákveðið hlutfall af launum sem atvinnurekanda er skylt að halda eftir af kaupi og skila til skattayfirvalda og viðeigandi sjóða.

Við útreikning á staðgreiðslu er tekið tillit til persónuafsláttar sem starfsmaður á rétt á og kemur fram á skattkorti.
Skattkort á vef RSK
Staðgreiðsla á vef RSK

Er staðgreiðslu af launum þínum skilað eins og vera ber?
Yfirlit er að finna á þjónustusíðu RSK. Nota þarf veflykil RSK eða rafræn skilríki.

Lífeyrisgreiðslur

Lágmarksframlag launamanns í lífeyrissjóð er 4% af heildarlaunum og upphæð frádráttar á að koma fram á launaseðli.

Atvinnurekandi á að greiða lífeyrisframlag til þess lífeyrissjóðs em starfsmaður á aðild að ásamt eigin mótframlagi. Hið sama gildir ef starfsmaður safnar viðbótarlífeyrissparnaði sem á þá að greiða í þann sjóð eða á þann reikning sem starfsmaður kýs, ásamt mótframlagi atvinnurekanda, kveði samningar á um það.

Félagsgjöld

Atvinnurekanda ber að draga iðgjald til stéttarfélags af launum starfsmanns og greiða til viðeigandi stéttarfélags. Gjaldið er misjafnt eftir félögum en algengt hlutfall er 0,7 til 1%.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir